þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Numero uno

Magla er nú með meiri massagenin. Í kvöld náði hún þeim ótrúlega áfanga að vera færð á gjörgæsludeild 2, af gjörgæslu 3. Hún er sem sagt á stöðugri og öruggri leið heim. Búin að bæta á sig og orðin tvö smjörlíkisstykki eða 1000 gr. Ég er búinn að henda inn helling af myndum af henni hér til hliðar. Ég ætla núna að fara að skella mér upp á spítala og halda upp á áfangann með henni.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég vona að dóttir mín....


Verði jafn svakalega fótógenísk og cool eins og ég. Hún er náttúrulega rauðhærð stelpa sem gerir henni auðveldar fyrir, margar gullfallegar rauðhærðar konur til. Ekki það sama að segja um okkur rauðhærðu mennina, fáir sem hafa náð hæstu hæðum í rauða kúlinu. Ég, Josh Homme og auðvitað gaurinn í CSI:Miami. En annars er allt gott að frétta af vígstöðunum. Hún er í góðum fíling svona síðast þegar að ég frétti. Fer og kíki betur á hana í kvöld, þegar ég er búinn að skúra og sýna íbúðina. Á maður að vera að standa í fasteignaviðskiptum á stundum sem þessum? Ég veit ekki hvort að það sé sniðugt. En sjáum hvað gerist. Er bókstaflega að drukkna í vinnu þessa dagana. Vantar þið vinnu? Plís komdu þá að vinna hjá mér, áður en ég missi vitið. Vantar svo fólk að það hálfa væri nóg, neyðarfundur í fyrramálið í höfuðstöðvum ÍTR til að fara yfir ástandið. Svakalegt. En sem betur fer hef ég fólk í kringum mig sem fær mig til að brosa, sama hvað er að gerast. Eins og í gær þegar ég var farþegi í bíl með alkunnum ökusnillingi sem forðast u-beygjur, stæðalagnir og sætisbök eins og heitan eldinn. Þessi snillingur var að beygja til vinstri á hringbraut og þurfti sem sagt að keyra þvert yfir gagnstæða umferð. Við sátum í bílnum í dágóða stund og umferðin á móti var ennþá hjá kringlunni þegar ég spurði af hverju ferðu ekki yfir? Æi ég vill ekki fara, þeir gætu keyrt á mig. En það er svo langt þangað til að þeir koma, sagði ég þá og bætti við, þeir hægja líka bara á sér ef þeir eru að koma of nálægt. Og þá kom gullmolinn: En þeir mega ekki bremsa á þessari götu!

Óli og Macushla.

sunnudagur, ágúst 28, 2005



Eins og sést hér að ofan fékk ég litluna í fangið í fyrsta sinn í dag. Hún sat hjá mér í örstutt korter en það leið eins og 1 sek. Hún var alveg svakalega góð með nýju RAUÐU augnhárin sín. Yebb thats right baby. Fólk áttar sig kannski á hvað hún er lítil greyið, ég er eins og tröll með hana í fanginu. Sjáið svo á neðri myndinni hvað hún er orðin mannaleg og með sérstaklega glæsilega beinabyggingu, alveg eins og pabbi sinn. Hætt á sýklalyfjum, borðar eins og hestur, hvílir sig á sípabbinu einu sinni á dag og tekur aðeins nokkrum sinnum dýfur í hjartslætti og öndun yfir sólarhringinn. Það er reyndar alveg sjúklega erfitt að vera rólegur þegar hún tekur þessar dýfur. Venjulega er hjartslátturinn í 140-160 en svo dettur hann stundum niður í 30 - 50 í nokkrar sekúndur. Reglan er sú að ef starfsfólkið æsir sig ekki þá eigum við foreldrarnir ekki að æsa okkur. En það er bara ekki svo auðvelt að sitja og bora í nefið á sér á meðan barnið mitt er að missa úr nokkur hjartslög. Hjúkkurnar segja alltaf við mig, klíptu bara aðeins í hana - hún er að gleyma að anda! Bara eins og það sé eðlilegast í heimi, eins og hún sé að gleyma að segja takk fyrir mig. (klíp klíp) A a a ekki gleyma að anda elskan, það eru eðlilegir borðsiðir. Anyways þá gengur sem sagt allt nokkuð vel. Hún er búin að þyngjast heil ósköp. Orðin 980 grömm, var 913 fyrir nokkrum dögum. En annað sem er svolítið erfitt er að ég fæ svo mikið samviskubit yfir að vera ekki alltaf á staðnum. Auðvitað er ekki hægt að vera stöðugt til staðar, en ég held að það sé bara eðlislægt í manninum að vaka yfir nýburanum sínum. Það er ekki eðlilegt að fara heim og sofa og borða þar, á meðan nýburinn sefur í kassa á spítalanum. Þetta er bara e-ð sem maður þarf að venjast. Lífið heldur áfram og maður hefur sína ábyrgð annars staðar líka. Það er kannski ekkert hollt heldur að sitja og stara á barnið í hitakassa allan daginn og loka á allt annað. Annað sem er erfitt að venjast er að vera orðinn pabbi. Ég er bara ekki að ná þessu. Ég held að ég sakni svolítið undirbúningstímans sem átti að vera fram í nóvember. Ég hringi alltaf reglulega upp á vöku og spyr hvernig gangi. Ég nota alltaf dimmu, - ábyrgðar-, föðurlegu röddina mína og segi " já góðan daginn, þetta er pabbi hennar Matthildar hérna, hvernig gengur". Og í hvert sinn líður mér eins og ég sé að gera símaat og sé að þykjast vera einhver annar. Skelltu á skelltu á segir lítil rödd í hausnum. En þetta venst eins og allt annað. Ég þarf bara aðeins meiri quality tíma með henni eins og á myndinni þarna fyrir ofan.

kærlig hilsen fra Magla

Óli

Til hamingju með daginn skott.


Allt að gerast þessa dagana. Gleymdi alveg að blogga í gær að ég hélt á litlu dömunni minni í fyrsta sinn í gær. Svo gerðist sá magnaði atburður í dag að Vala fékk hana í fangið í fyrsta sinn. Þær sátu saman í lazy boynum í heilan hálftíma, eins og þið sjáið hér að ofan. Henni fannst þetta sko ekki óþægilegt skal ég segja ykkur. Ég fæ svo að gera slíkt hið sama á morgun. Þá verður manni vippað úr að ofan og fær hún að liggja á brjóstkassanum mínum í dágóða stund. Það er búið að ganga rosa vel með allt og má ekki gleyma að hún á vikuafmæli í dag. Til hamingju Magla spagla. Hún er komin á fullt fæði, eða 13 ml af gullmjólkinni úr gullkonunni með stóra fæðubúrið. Það er búið að taka úr henni slönguna sem lá inn um naflastrenginn og búið að taka hana af sýklalyfjunum. Sem þýðir reyndar mikið panic hjá da parents. Öll sýklahætta eykst milljónfalt. En ég syng bara hástöfum Fix you með Coldplay sem er svo viðeigandi. Hann hefur örugglega verið að hugsa um Möglu hann Chris þegar hann samdi lagið.

ammæliskveðja

Óli

föstudagur, ágúst 26, 2005

Minnst allra

Það er ekki hægt að segja annað en að nú sé andleg og líkamleg þreyta að farin að gera vart við sig. Maður veit varla hvaða dagur er og síðastliðin vika hefur liðið bæði ótrúlega hratt og um leið fáránlega hægt. Klukkan virðist ganga á tvöföldum hraða og maður hefur aldrei nægan tíma til að sinna litlu prinsessunni. En samt finnst mér eins og hún sé mánaðargömul. Skrýtið. Þetta er búið að vera alveg major rússíbanaferð þessi vika. Geðveikt stress í sambandi við vinnuna, biðlistar, blaðaskrif og almenn óánægja. En það kemst voðalega fátt annað að en hún Matthildur mín þessa dagana. Svo byrjar skólinn í næstu viku, en ég er þegar búinn að segja mig úr einu fagi. Einhversstaðar verður maður nú að kötta niður. Ekki köttar maður á Möglu og vinnann skaffar matinn, þannig að það er no go. En sú litla er að standa sig eins og sannur champ. Það er búið að auka matarskammtinn frá 3 ml upp í 8 ml á einum degi. Jibbíií. Mörgum þykir það sennilega lítið magn, en í mínum augum er þetta einn af mörgum sigrum síðustu daga. Hún hvíldi sig aftur á sípabbinu og tók enga dýfu. Frábært mál. Vala áttaði sig dáldið merkilegum hlut áðan. Hún Magla okkar er líklegast minnsti íslendingurinn sem er á lífi þessa stundina. Húrra fyrir Möglu, strax farin að láta að sér kveða. Starfsfólkið upp á vöku eru allar búnar að vera frábærar en stundum er svo erfitt að horfa á þegar þær eru e-ð að laga hana. Þær geta nú sumar verið ansi harðhentar. Svo er sípabbið alveg það versta. Ímyndið ykkur að troða tveimur ryksugum upp í nefið á ykkur og láta svo reira þetta við hausinn á ykkur. Maður sér alveg greinilega að henni finnst þetta ekki þægilegt. En þetta verður víst að ganga sinn vanagang. Hún verður svo hörð af sér þegar hún kemur af spítalanum að hún þolir hvað sem er. Jæja best að ná aftur vitinu með langþráðum nætursvefni. Á morgun á hún svo afmæli og er vikugömul. Vala ætlar að baka köku og ég spila afmælissöngin. Að sjálfsögðu verður hún ekki viðstödd greyið þar sem við megum ekki koma með köku á spítalann og hún má ekki koma heim.

Kveðja og fyrir hönd Möglu.

Óli

Cípabb og hægðarlos


Hef lítið getað komist í bloggið þessa dagana sökum anna. Hef reyndar gert lítið annað en að vinna, fara í sturtu og svo upp á spítala. Gleymi hlutum eins og að sofa og borða, en það er allt í lagi vegna þess að ég er pro-ana by choice. Allt gott að frétta af Matthildi, reyndar allt betra en gott. Hún er farin af öndunarvélinni og er búin að vera stöðug í öllum mælingum. Hún er búin að vera með svona Cí pabb sem er öndurnaraðstoð, frá því á mánudag. Í gær fékk hún að hvíla sig á cípabbinu í 30 mín. og kom mjög vel út úr því. Andaði alveg sjálf allan tímann og tók bara einu sinni smá dýfu á mælunum. Hún kom vel út úr segulómskoðun í gær, þar sem hjarta og heili virtust, við fyrstu sýn, líta nokkuð vel út. Hún er farin að borða meira og meira af brjóstamjólkinni hennar Völu, sem hún getur reyndar drukkið fram að fermingaraldri með áframhaldandi framleiðslugetu. Magla er líka farin að kúka heilan helling ( ok nú get ég pakkað í töskurnar og kvatt þetta blogg. Farinn að skrifa um hægðir barnsins míns!). Fröken Parton er komin heim af spítalanum og hefur það bara gott. Það er svolítið öðruvísi að vera ekki með Völu upp á spítala. Það felst e-ð öryggi í því. Við byrjuðum á barnalandssíðu fyrir Möglu en vorum að gera þetta upp á spítala með rugluna klukkan 2 um nótt. Við ákváðum því að læsa síðunni tímabundið og endurskoða það sem fór þangað inn. Hún opnar von bráðar. Ég vil þakka öllum fyrir kveðjurnar og kommentin. Magla biður að heilsa og skilar kveðju.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Mæðgurnar saman í fyrsta sinn frá fæðingu.


Það er nú svipur með þeim.

Hennar hátign Magla!



Efri myndin er svona eins hún er venjulega þessi elska. Í ljósum og með sólgleraugun góðu. Myndin fyrir neðan var tekin af henni þegar hún losnaði í smá stund úr öndunaraðstoðinni og fékk konunglegt bað. Þetta var í raun í fyrsta sinn sem við sáum almennilega framan í prinsessuna. Stuttu seinna fékk hún að koma aðeins úr hitakassanum og fór á vigtina. Hún er núna 913 g. Smá megrun í gangi, stendur yfir í nokkra daga ; ) Síðan fékk Vala að halda á henni í fyrsta sinn! Mjög misty moment, eitt af mörgum.

Magla (rauðhærða??) gyðjan mín

Magla er sko algjör töffari. Búin að vera í cribbinu í 2 sólarhringa og bara búið að taka hana úr öndunarvélinni og setja hana í svona öndunarstuðning. Hún lætur bara fara vel um sig í ljósum allan daginn, tottandi snuð sem er stærra en hausinn á henni og með hvít Don Johnson sólgleraugu. Hún lætur vel heyra í sér eftir að öndunarvélin var tekin og það kemst engin upp með neitt múður í kringum hana. Vala og töfrahendurnar hennar sjá um að halda prinsessunni rólegri og mamma má sko ekki fara frá í eina sek og þá verður allt brjálað. Þannig að allt lítur svona nokkuð vel út verður maður að segja, eins og er allavega. Þegar Vala kemur heim af hospital þá búum við til svona barnasíðu fyrir Möglu og setjum þar fullt af myndum og myndböndum inn. Mamma (mín) kom að kíkja á hana í dag í fyrsta sinn og Magla opnaði aðeins augun fyrir hana. Frekar misty moment þar á ferð. Annað misty moment var að lesa allar þessar kveðjur á commentunum hér að neðan. Jeeessuuuuss takk takk og takk, nema þessi útlensku prumpu spam kveðjur. Að lokum vil ég enda þetta á spurningu til Guðs. "Góði Guð, ég vil byrja á því að þakka fyrir hvað allt gengur vel, EN viltu segja mér af hverju dóttir mín er dökkhærð, ekki rauðhærð eins og við vorum búnir að semja um"??? Ekki alveg nógu og sáttur við þetta. En kannski reddast þetta eftir smá tíma. Kannski er þetta dökka svikahár svona fósturhár sem dettur bara af.

kveðja

Magla, Vala og Óli.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Matthildur Agla Ólafsdóttir (Valgerðardóttir)

OOOGGG það gerðist í gær. Hún kom í heimin þessi litla skvísa. Rétt náði flugeldasýningunni og var ekki lengi að poppa út. Við fórum í skoðun klukkan hálf 7 í gær, ég var á leiðinni í partý og Vala í rólegheitin. Þá bara, best að kíkja aðeins á þetta, nú heyrðu þú ert bara komin með 4 í útvíkkun og barnið er að koma. Okey dokey, okkur var skellt upp á fæðingardeild, þegar við komum þangað var komið 7 í útvíkkun. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, passaði að ég væri með nóg af batteríum í myndavélina, hélt í hendina á Völu og þökk sé Bibbu og Tinnu gat ég Dj-að almennilega tónlist. En tónlistin spilaði stóran þátt í fæðingunni. En litla drottningin kom í heiminn klukkan 21:58. Vala var búin að rembast í svona einn og hálfan klukkutíma þegar litlu froskalappirnar létu sjá sig. Hún var rifin af okkur med det samme og skellt í hitakassa og beint upp á Vökudeild. Þá tók við u.þ.b. súrasta móment sem ég hef á ævi minni upplifað. Í fyrsta lagi var Vala í þónokkuð góðum málum líkamlega eftir þessa fæðingu. Hún gat alveg labbað aðeins fram á gang og líka setið upprétt í rúminu. Við sem sagt sátum þarna bæði á fæðingarstofunni, algjörlega fucked up í hausnum eftir þessa reynslu. Flugeldar að springa fyrir utan og við að bíða eftir að fá að sjá barnið okkar. Við fengum svo ristað brauð að borða. Við bara sátum og horfðum á hvort annað að borða ristað brauð á menningarnótt með rugluna á fæðingardeildinni með ekkert barn í höndunum. Hello. Síðan eftir klukkutíma af súrheitum og óbærilegri bið, fengum við að fara upp á vökudeild og sjá minnstu dúllu í heimi, öll samakrumpuð í hitakassa og tengd við öndunarvél og risa mónitor. Það lítur sem sagt allt nokkuð vel út, allavega til að byrja með! Það getur margt breyst á skömmum tíma og það er nánast alveg öruggt að litla greyinu muni e-ð hraka. En það ótrúlega við þetta allt saman er að hún var 1045 g og 36 cm. Hún hefur bætt á sig alveg rosalega miklu á einni viku. Þessi vika hefur alveg bjargað öllu. En við hringdum strax í Kalla prest sem beið í viðbragðsstöðu. Hann kom í kringum 1 og þá stóðum við eins og tveir áttavilltir rónar og skírðum dúlluna okkar Matthildi Öglu Ólafsdóttir. Þúsund þakkir til Kalla fyrir að bregðast svona rosalega skjótt við. Við fengum hjúkkurnar til að taka þátt í hópsöng og Gréta vinkona Völu var ljósmyndarinn. Ég þarf aðeins að fá að finna út úr þessum myndum áður en ég hendi þeim á netið, en þær koma von bráðar. En ég ætla bara að skjóta inn í að ég hef ekki verið að svara mikið símanum eða sms, það er bara búið að vera crazy að gera og gefst ekki mikill tími til að spjalla. Einnig megum við ekkert vera með síma þarna uppi á vökudeild. En til að summa upp þá líður móður og barni svona þokkalega og við vonum bara það besta. Þessir tveir fyrstu sólarhringar eru mjög mikilvægir. Við Vala höfum ekki getað staðist mátið og sátum í allt kvöld við kassann hennar og héldum í höndina á henni. Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Maður situr þarna og getur ekki einu sinni tekið hana upp og huggað hana. Hún er föst í öllum þessum snúrum og rörum. Maður sér hana gráta en heyrir ekkert í henni þar sem að öndunarvélin liggur á milli raddbandanna. Ég veit það samt að það róar hana ef ég og Vala tölum aðeins við hana og leggjum lófan aðeins á pínkulitla líkaman hennar. Hún þekkir raddirnar og veit að hún er öruggari með okkur nálægt. En það eru strangar reglur á þessari vökudeild. Mikil sýkingarhætta og allir verða að skrúbba sig vel áður en þeir koma inn. Það eru svona brúsar með sótthreinsandi spritti út um allt á deildinni. Einnig megum við ekki fá nema tvo gesti á dag og bara einn inn í einu. Við erum að hugsa um að leyfa henni aðeins að spjara sig áður en við förum e-ð að sýna hana, en í staðinn skal ég reyna að henda inn e-m myndum hið snarasta. Ég vona að allir séu til í að halda áfram að biðja fyrir henni, þar sem að núna tekur við önnur barátta. Ef allt gengur að óskum þá verður hún þarna greyið fram að fyrrum áætluðum fæðingardegi. Sem sagt næstu þrjá mánuði (vonandi) mun ég flytja lögheimili mitt á Barnaspítala Hringsins 3. hæð, vökudeild. Stæði 2 á gjörgæslu 3. By the way Incubatorinn okkar (hitakassinn a.k.a. prinsessukastalinn a.k.a. Magla´s crib) var gjöf frá Bónus. Þannig að elsku John and Johannes, þið eigið minn stuðning í þessu dómsmáli og ég skal lofa að reyna alltaf að versla við ykkur. Anyways, best að fara að sofa og búa sig undir átökin á morgun. Vonum að morgundagurinn verði jafn góður og sá fyrsti. Þúsund þakkir fyrir öll skeytin.

kær kveðja,

Matthildur Agla, Vala og Óli.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Það er svo sem lítið að skrifa um þessa stundina. Ástandið er óbreytt en verkir eru að aukast stöðugt. Í nótt vaknaði hún reglulega við stöðuga verki á meðan ég svaf værum blundi í lazy boyinum. Mikil hjálp í mér! Það tekur svo sannarlega á að liggja svona og finna stöðugt til. Ég er alltaf að reyna að finna e-ð til að létta henni lífið og dreifa huganum aðeins. Trivialið er farið að verða þreytt og maður getur bara horft á svo og svo margar bíómyndir. Ég er að spá í hringja í Birgittu Haukdal og biðja hana að koma í heimsókn. Ég veit að Vala myndi meta það mikils þar sem að hún er hennar mesti aðdáandi. Eða Heitar lummur, en það er kannski borin von þar sem að þau eru svo hot þessa stundina. E-ð svoleiðis myndi lifa lengi í minninu. Fm 957 all stars komu um daginn óumbeðin, en þá var hún sofandi og gat því miður ekki tekið á móti þeim. Damn. Jæja best að fara að koma sér af stað upp í kringlu að versla í matinn, þar sem að spítalamaturinn er ekki alveg að skila sér upp í munn og oní maga.

kveðja

Vala, Óli og Premie.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Sturta

Nú hafa samdrættirnir verið að aukast og aukast hjá Völu síðustu daga. Ég var hjá henni í nótt í lazyboy við hliðina á rúminu. Hún vaknaði á svona hálftíma fresti með stingandi verki. Þetta er allt svo skrýtið því að hjúkkurnar eru búnar að vera að segja að þetta séu ekki samdrættir. Bara " nei nei þetta eru ekki samdrættir elskan, þetta er e-ð allt annað. Ekkert vera að skrifa hjá þér tímasetningarnar og hversu oft þeir koma, algjör óþarfi elskan". Síðan kom læknir að kíkja á hana í morgun og hann sagði strax að þetta væru samdrættir og setti hann á ógeðslegt samdráttarlyf sem heitir Bríkalín eða e-ð svoleiðis. Sem er með rosalegar aukaverkanir. Hraður púls og skjálfti. Þannig að hann hafði töluverðar áhyggjur af þessu, ég held að maður taki nú meira mark á honum. Hann kíkti líka á hana í gær og þá leit allt þokkalega út. Leghálsinn var þá búin að lokast og hún fékk leyfi til að standa aðeins upp. Hún fékk að fara í sína fyrstu sturtu síðan hún var lögð inn, í gær. Það var mjög jákvætt og gleðin leyndi sér ekki. Í sambandi við heimsóknir, þá fer það alveg eftir dagsforminu hvernig það er. Þar sem hún er hætt á pensilíni þá er alltaf mikil sýkingarhætta. Það er eiginlega búið að taka fyrir heimsóknir í bili. Við sjáum bara til hvernig verður næstu daga. Enn og aftur erum við þakklát fyrir hvern dag sem líður og vonum bara að þeir verið fleiri.

kær kveðja.

Vala, Óli og Premie.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Hárþvottur...ummmm

Vala fann þónokkra samdrætti í gær og ég þurfti að fara snemma úr vinnunni í gær vegna þess að hún var farin að finna til slappleika að auki. Þegar ég kom var hún frekar slöpp og kvartaði yfir hausverk. Það var smá hitaaukning þegar hún var mæld sem er mjög slæmt, vegna þess að ef hún fær hita þá verður fæðingin sett af stað. Þar sem engin sýklalyf eru lengur í boðinu er engin áhætta tekin. Hún var í monitornum í gær nokkrum sinnum, en hann mælir hjartslátt, samdrætti og hreyfingar. Það leit allt nokkuð vel út en það er kannski ekki mikið að marka samdráttamælingar þar sem að konur eru ekki settar í svona monitor fyrr en á 28. viku. Samdrættirnir héldu áfram fram eftir kvöldi en allt var með kyrrum kjörum þegar ég fór í nótt klukkan eitt. Ég vaknaði síðan við símann í nótt klukkan hálf fimm. Ekki besta leiðin til að vakna en þá sagði hún mér að ákveðið hefði verið að færa hana upp á fæðingardeild vegna stöðugra samdrátta. Hún sagði mér að þetta væri bara varúðarráðstöfun og ég átti að halda áfram að sofa. Hún hringdi svo aftur nokkrum tímum síðar og þá var búið að færa hana aftur niður. Gott gott. Núna eru kramparnir eiginlega hættir en smá verkir ennþá. Ég er á leiðinni upp á spítala núna á eftir og skila þá þessum frábæru kveðjum í commentunum hérna fyrir neðan. Og einnig allar gjafirnar og lánið á tölvunni. Takk fyrir það öllsömul. Það jákvæða við gærdaginn var að Vala fékk fyrsta alvöru hárþvottinn sinn frá því að hún var lögð inn. Þeir sem þekkja Völu vita hvað það hefur svo sannarlega verið breyting til batnaðar fyrir hana ; ) Hún fékk reyndar gervihárþvott fyrir nokkrum dögum þar sem er notuð svona hetta sem er hituð í örbylgjuofni. Og sett síðan á hausinn og nuddað. Ekkert vatn og allt frekar strange. Gott fyrir útileguna eins og Ingibjörg sagði. Sérstaklega þá sem eiga útileguörbylgjuofna. En það komu svo miklir gleði- og nautnarstraumar frá Völu við þennan hárþvott að ég held að öll fæðingardeildin hafi getað sleppt deyfilyfunum þennan klukkutímann. Allir nutu góðs af og nýfæddubörnin hættu að gráta. Bliss. Við vonum bara að þetta í nótt hafi verið false alarm. Takk fyrir allar kveðjurnar og öll hugskeytin eru að virka. Believe me.

kveðja,

Vala, Óli og Premie.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Veruleikatuskan

Dagurinn í gær var án efa svolítið mikil veruleikatuska í andlitið. Ég veit ekki hvort að maður hafi verið búinn að fyllast e-i barnalegri afneitun eða bjartsýni. Allavega fengum við að vita það í gær, og ekki frá læknunum heldur frá þriðja aðila sem mér fannst ekki alveg nógu og spennandi, að þetta hefði gengið vonum framar en þeir voru ekkert að búast við því að þetta myndi haldast lengur en nokkra daga upp í 2 vikur. Ég var svo búinn að sjá fyrir mér að Vala gæti mögulega legið þarna í mánuð til 6 vikur. En það er víst ólíklegt. Læknarnir töluðu svo við Völu í morgun og voru að athuga stöðuna á kollinum í sambandi við hvort að hún gæti staðið aðeins upp og farið í sturtu og svoleiðis. En þá kom í ljós að kollurinn er hreyfanlegur sem þýðir að ferlið er komið það langt af stað að hún má ekkert hreyfa sig. Hún verður svo tekin af penslilíninu í dag vegna þess að það truflar víst e-ð þegar þeir eru að rannsaka ástand Premie. Þar af leiðandi eykst öll sýkingarhætta og ef sýking kæmi upp þá verður hún sett af stað. En hún verður svo sett aftur á pensilín í fæðingunni sjálfri. Vala verður svo sett á blóðþynningarlyf í dag vegna þess að það er svo mikil hætta á blóðtappa ef hún liggur svona. Óléttan er líka extra álag á líkamann þannig að þeir vilja taka þetta skref. Þetta er búið að vera svo mikið rollercosterride að það hálfa væri nóg. Maður sveiflast allan tilfinningaskalann mörgum sinnum á dag. Maður getur verið rosalega bjartsýnn eina stundina og svo heyrir maður e-ð og þá er það misty eyes næsta klukkutímann. Við Vala náðum að tala vel saman í gær um allt sem gæti gerst á næstunni, sem var mjög fínt þar sem við höfum eiginlega ekkert náð að gera það. Ég held að það sé erfiðast af öllu að reyna að sætta sig við þessa stöðu og að ýta í burtu reiðinni. Það eina sem við getum gert er að vera bjartsýn og taka einn dag í einu. Ég meina hver veit, kannski fer allt vel. Það þýðir ekkert að sökkva í e-ð þunglyndi og einblína á það svarta sem er framundan. Núna er Vala líka ein á stofu sem þýðir að öll aðstaða er mun þægilegri fyrir okkur. Ég gat til dæmis verið hjá henni í gær til miðnættis, sem var ótrúlega gott. Og það er margt gott í stöðunni. Við erum komin á 26 vikur!! Spaðann á loft. Þetta er stelpa, sem á víst að vera betra, við náðum báðum sterasprautunum og barnið er í höfðustöðu. Annað sem er rosalegur plús en læknarnir eru ekkert að hafa hátt um, er að hún er rauðhærð. Í gegnum aldirnar hefur það verið þekkt staðreynd að rauðhærðir eru mun líklegri til að lifa af og þeir eru komnir mun lengri á þróunarstiganum en hinir. Þannig að hún ætti nú að spjara sig drottningin. Nú ætla ég að kíkja til hennar fram að hádegi og mæta svo í vinnuna. Enn og aftur viljum við þakka öllum fyrir stuðningin í gegnum þetta og við höldum áfram að vona það besta.

kæra kveðja,

Vala, Óli og Red Premie queen.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Til Premie.

Loforð Guðs.
Ég hef aldrei lofað að brautin sé bein, og gullskrýddir vegir alla leið heim. Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar, á göngunni til himinsins helgu borgar. En lofað ég get þér aðstoð og styrk, og alltaf þér ljós þó leiðin sé myrk. Mundu svo barn mitt að lofað ég hef, að leiða þig sjálfur hvert einasta skref.

Þetta fengum við sent frá Grétu. Takk fyrir hjálpina.

kveðja

Vala, Óli og Premie.

Smá næturuppfærsla

Í dag fórum við á nýja deild, eða meðgöngudeildina. Sem er svona almenn deild fyrir konur sem eru að fara að eiga. Það er óhætt að segja að þessi dagur hafi farið aðeins fyrir brjóstið á okkur Völu og þeir hafa svo sannarlega verið betri. Byrjaði á því að tala við þennan lækni í morgun sem var ekki alveg nógu hressandi leið til að vakna. Síðan fórum við niður á þessa deild, þar sem við erum í herbergi með annarri stelpu og einu sjónvarpi út í horni. Það er svo sem allt í lagi, stelpan er mjög fín og gaman að spjalla við hana. Það er bara stórkostlegur munur að mínu mati á því að fara af Hótel Hilton á þriðju hæðinni niður á Hostel Café/bar/Elliærir nasistar sérstaklega velkomnir á annarri hæðinni. Hjúkkurnar þarna niðri létu mann strax vita who is boss og það er ekkert elsku mamma hjá þeim. Bara heimsóknartími frá 14 - 20 og talað um feðurna í þriðju persónu, þó að þeir standi 2 metra í burtu. En ég fékk nú að koma snemma á morgun og fæ að vera hjá henni fram eftir degi. En við sem sagt fórum niður á þessa deild og ég var síðan rekin út í mat á milli 12 og 14, hvíldartími sjáið til. Ég kom síðan aftur til að fara í sónarinn. Við rúlluðum okkur þangað og ekki tók þá mikil gleði við. Gleðikonurnar í sónarnum voru ekki gleðilegri en svo að mig langaði að kyrkja þær með myndavélinni sem ég mátti ekki nota inn í sónarherberginu. Hvað er svona þurrkuntulegt fólk að gera í svona vinnu. Ég og Vala vorum eins og tvö viðkvæm strá í vindinum að reyna að átta okkur á þessum sónar. Allskonar hugsanir voru að þjóta í gegnum hugann, eins og hvort að þetta væri í síðasta sinn sem maður sæi hana hreyfa sig. Maður rétt náði að kyngja grátnum til að spyrja "uu getið þið mælt þyngdina eða..?" Gleðikona númer 1 " Já, ég er að því" með svona hvaðertuaðspyrjamighelduruaðégvitiekkihvaðégeraðgera svip. Síðan voru þær tvær e-ð að ræða um stærð barnsins og töluðu e-ð um að hún væri minni en einhver kvarði. Þá minnir mig að Vala hafi spurt hvort að það væri e-ð slæmt. Þá lá við að gleðikona númer 2 hafi byrjað að flissa og sagði " nei, það skiptir engu" eða e-ð álíka hjartnæmt. En það sem kom út úr þessum blessaða sónar var að litla greyið er ekki nema 774 gr að stærð, sem eru svona rétt rúmlega 3 merkur og allt legvatnið er farið. Ég vill nú alls ekki vera að trasha fólkið á spítalanum , en þetta er búið að vera mjög skrýtin og tilfinningaríkur tími og ég býst við að maður verði sérstaklega viðkvæmur á stundum sem þessum. Flestir eru búnir að vera frábærir. Þegar ég fór frá Völu í kvöld var hún búin að vera að fá aðeins samdrætti. Þeir komu á hálftíma fresti á svona 3 klukkustunda tímabili. Þannig að ég á ekkert alltof auðvelt með að fara e-ð að sofa hérna heima. Er með símann stilltan á hæsta og með jogginggallann tilbúinn við rúmstokkinn ef maður þarf að taka skokkið yfir á spítala í nótt. Please dear God ekki láta það gerast. Við töluðum einmitt við mömmu konunar sem er í herbergi með okkur og hún sagðist hafa lent í því nákvæmlega sama fyrir 25 árum. Þá missti hún legvatnið, en náði svo að liggja svo í 6 vikur upp á spítala þangað til að hún átti 2 mánuðum fyrir tímann. Og það barn var einmitt konan/stelpan sem liggur við hlið oss (kona! hún er nú bara 25). Skemmtilegt og upplífgandi ekki satt. Ég vona bara að hún Vala nái að klemma saman á sér lappirnar í allavega smá tíma í viðbót. Það er búið að vera rosalega gott að tala við hann Kalla, sem er svona fjölskyldupresturinn hennar Völu í gegnum pabba hennar. Hann hjálpaði þeim mikið í snjóflóðinu og er styrkur að fá að tala við hann. Við ákváðum að hafa samband við hann um leið og þetta gerðist. Við ætlum að skíra um leið og hún kemur sú litla. Okkur finnst það best, sama hvað gerist. Sem betur fer vorum við mjög tímanlega í því að velja nafn á litlu. Við fundum nafn sem okkur fannst passa svo vel við og það liggur svo í augum uppi að skíra hana því nafni. Ekki alveg skírnin sem við vorum að hugsa fyrir nokkrum vikum, en það er allt í lagi. Jæja ég held að ég ætti að fara að sofa og hætta þessu blaðri. Ég vona bara að síminn hringi ekkert í nótt.

kveðja,

Vala, Óli og Stúlkan okkar hún Yasmin Olsen.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Nýjustu fréttir

Fórum af lyfjunum sem stöðva fæðingarferlið klukkan 5 í gær. Allt er enn með kyrrum kjörum, en Vala hefur aðeins verið að finna fyrir verkjum í dag. Við erum öll búin að hafa það nokkuð gott upp á spítala og sú litla virðist vera að spjara sig þokkalega í öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið. Það er alveg ómetanlegt að hafa ljósmæðurnar og hjúkkurnar til að peppa okkur upp. Þær eru flestar með áralanga reynslu og hafa séð ýmislegt. Það er stundum eins og þær reyni að byggja mann upp áður en maður hittir læknana. Þeir virðast alltaf færa manni fréttirnar á köldum diski með engu meðlæti. Það er líka allt í lagi, við höfum gott af því að heyra líkurnar og möguleikana eins og þeir eru. Við vorum einmitt að tala við lækni rétt áðan, sem setti þetta upp fyrir okkur þannig að við erum bæði með smá hnút í maganum. Það mikilvægasta af öllu er að sú litla geti beðið aðeins lengur. Það er svo rosalega margt sem getur farið úrskeiðis ef hún myndi koma núna. Líkurnar eru ekki hliðhollar okkur, svona til að vera alveg hreinskilinn. Í dag förum við svo í sónar þar sem við fáum að sjá hvernig henni gengur í sambandi við þyngd, legvatn og fleira. Eftir það verðum við flutt niður á meðgöngudeild, þá fæ ég líklega ekki að gista lengur, en það verður bara að hafa sinn gang. Greyið Vala er búin að þurfa að liggja kyrr í rúminu síðan á föstudag og það er ekki auðvelt, allavega eins og bakið á henni er búið að vera. Ég reyni að gera mitt besta í nuddinu og aulahúmornum. Ég vona að það sé að hafa einhver áhrif. Við dundum okkur í endalausri gáfnabaráttu í Trivial pursuit. Ég ætla ekkert að vera að skafa af því, en ég er svo langt yfir að það þýðir ekki einu sinni að tala um það ; ) Ég er alveg ótrúlega heppinn að vera að vinna hjá svona frábæru fólki. Það hefur hjálpað okkur mikið, ásamt öllum hinum sem hafa stutt við bakið á okkur í þessari þolraun. Gréta er algjör þungavigtarmanneskja og við tökum hana til fyrirmyndar. Endalaus jákvæðni og almennt gott viðhorf. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist. Enn og aftur viljum við þakka öllum sem hugsa til okkar og eru að biðja fyrir litlunni. Við látum vita um leið og e-ð gerist.

kær kveðja,

Vala, Óli og lillius maximus.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Nýjustu fréttir

Staðan í dag er nokkuð stöðug. Við náðum seinni sterasprautunni í gær, sem er mikill áfangi. Í dag vonum við að allt verði með kyrrum kjörum allavega til 5, því þá hefur sprautan náð að virka eins og hún á að gera. Við erum svo græn í þessu öllu saman að við erum alltaf að spyrja um sömu hlutina aftur og aftur. Í gær fengum við smá leiðréttingu á miskilningi, sem er að til eru dæmi um að konur hafi misst legvatnið og samt náð að liggja í nokkra daga og jafnvel vikur. Við héldum að þar sem að legvatnið væri farið þá gæti litlan okkar ekki verið þarna inni lengur en 2 -3 daga. En þar sem að legvatnið er stöðugt að endurnýjast þá er það víst allt í góðu. Það er alltaf best að halda henni inn í maganum á mömmu sinni því þar líður henni best. Klukkan 5 í dag verður svo Vala tekin af lyfjunum sem hægja á fæðingarferlinu því hún má víst aðeins vera á þeim í 48 tíma. Þannig að eftir 5 í dag þá þurfum við að sjá hvað gerist, vonandi gerist ekki neitt og litla stelpan verður bara áfram í góðum gír þar sem henni líður best. Hver dagur skiptir rosalega miklu máli í svona aðstæðum. Það er heilmikill munur á barni sem komið er 25 vikur og 5 daga eins og við og barni sem komið er til dæmis 27 vikur. En það þýðir ekkert annað en að hugsa bara nokkra klukkutíma fram í tímann og vona bara það besta. Við fengum að fara upp á vökudeild í gær sem er svona gjörgæsla fyrir nýfædd börn. Þar sáum við kassann hennar og helling af tækjum og tólum sem bíða komu hennar. Það hefur verið ótrúleg hjálp í henni Grétu , vinkonu hennar Völu, sem því miður lenti í svipuðum málum fyrir 6 vikum. Strákurinn hennar hann Friðrik liggur einmitt í kassa rétt hjá okkar. Hún hefur frætt okkur um allt sem mun gerast eða gæti gerst. Og við erum búin að sjá helling af myndum af hennar fæðingu sem hefur hjálpað mikið við allan andlegan undirbúning. Okkur Völu líður ágætlega og erum komin yfir mesta sjokkið í bili. Vala sýnir ótrúlegan styrk í þessu öllu saman og það er frekar hún sem er að hugga mig en öfugt. Öll skilaboð og hringingar sem við höfum fengið hafa skipt okkur miklu máli og við metum það mikils að svona margir séu að hugsa til okkar. Við látum vita um leið og e-ð gerist og vonum að allir haldi áfram að hugsa til okkar með baráttukveðjum.

Takk fyrir allt saman.

kveðja,

Vala, Óli og litla stelpan með stóra hjartað.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Breytt plön

Það er komin upp smá erfið staða því að litla stelpan okkar Völu virðist vera að drífa sig að koma í heiminn. Vala missti legvatnið í gær og við þurftum að bruna upp á spítala án þess að vita í raun hvað væri að gerast. Maður þorði ekki alveg að hugsa svo langt og við vonuðum að þetta væri bara false alarm. En þegar við komum upp á spítala kom í ljós hversu alvarlegt þetta var og sú litla var ákveðin í að láta sjá sig. Vala var sett á lyf til að draga úr samdráttarverkjum og sem draga úr öllu fæðingarferlinu. Við fengum yfir okkur flóð af upplýsingum sem var erfitt að meðtaka á þessari stundu og allur síðasti sólarhringur er í raun búin að líða eins og í öðrum heimi. Á þessum orðum er smá stund á milli stríða og ég ákvað að skreppa aðeins heim. Vala er búin að standa sig eins og hetja í þessum ömurlegu aðstæðum og eina sem maður getur gert er að vera til staðar og styðja við bakið á henni. Staðan nákvæmlega núna er sú að við fengum sterasprautu í gær sem hjálpar litlu lungunum að þroskast. Þetta eru tvær sprautur sem er mjög mikilvægt að stelpan fái, en seinni sprautuna fáum við ekki fyrr en kl. 5 í dag. Við verðum að reyna að geyma hana þarna inni að minnsta kosti þangað til þá. Við vonum að hún geti beðið aðeins, vegna þess að í svona tilvikum skiptir hver klukkutími máli fyrir þroska barnsins. Það er skrýtin tilfinning þegar öll plön breytast á einu augnabliki og ekkert verður eins. Sem betur fer erum við Vala bæði raunsæ og áttum okkur á hvað er mögulega að fara að gerast hérna. Það er nánast öruggt að stelpan okkar komi í heiminn á næstu tveimur sólarhringum. Allir eru í viðbragstöðu upp á spítala, maður þakkar bara guði fyrir allt þetta frábæra starfsfólk og við vitum að við erum í góðum höndum. Maður er í raun fyrst núna að átta sig á þessu öllu saman eftir þetta gríðarlega sjokk. Nú þýðir ekkert annað en að horfa á þetta björtum augum og vona að við fáum að heilsa upp á hana þegar hún kemur í heiminn, þó það væri ekki nema smá stund. Ég tel mig ekki vera trúaðan mann en ég vona að allir biðji kallinn þarna uppi að hjálpa henni í gegnum þetta. Ég læt vita þegar meira kemur í ljós.

kveðja,

Óli, Vala og litla stelpan.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Tralli baby

Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég skrifa hammered á bloggið. Þið verðið bara að afsaka stafsetningarvillurnar ef þær eru til staðar. Sit hér í eigin partýi að reyna að stjórna tónlistinni og ákvað að blogga í leiðinni. Allir á leiðinni á Nasa á Paul Oscar að hylla minn hinsta dans! Býst við að eftir að allan diskóvibjóðinn neyðist maður til að skella sér á 22 á indie kvöld. Var að hitta Þröst og Theresu í fyrsta sinn í háa herrans tíð. Sem var algjör snilld, gaman að hitta gamla rónann. Nú eru aðeins nokkrir klukkutímar í að Örn komi og gleðin taki völdin. Best að fara að sinna partýinu mínu og hætta þessari vitleysu.

Itte Rasshai.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Og hvað á barnið að heita.....

Hef gert lítið annað en að horfa á snilldarmyndir upp á síðkastið. Hver önnur ræman að renna í gegnum undirmeðvitund Daddy-0, sem er by the way nýja nicknameið mitt. Fyrst var það náttúrulega Ray, síðan hin svakalega Million dollar baby. Shit það var svakaleg mynd og ekki frá því að kleenex hafi verið við höndina í það skiptið. Í gær fór ég svo og létti á sálartetrinu og sá The Wedding Crashers. Fyrsta sinn í langan tíma sem ég hef hlegið nánast non stop alla myndina. Ég gæti samt trúað því að þessi hópur af leikurum, Ben Stiller, Owen og Luke Wilson, Will Ferrell og fleiri gætu farið að slippa aðeins í næstu myndum. Gæti alveg mögulega farið að verða þreytt formúla. En vonum bara ekki. Þessa stundina er ég svo að horfa á Life and death of Peter Sellers, frábær so far. Leiðinlegt að djammið á morgun skuli hafa dottið upp fyrir en maður reynir bara að bæta það upp með óhóflegri alkóhól neyslu í kvöld og kannski á morgun!! Ég verð nú að viðurkenna að það er ekki hlaupið að því að nefna þetta barn okkar. Við erum búin að hlaupa fram og tilbaka með þetta og loksins þegar við erum búin að settlast á eitt nafn þá......heyrir maður "ég er aðeins farin að efast!" Ég held ég tjékki mig út úr þessum málum þangað til að loðni kemur í heiminn og maður fær að líta á gripinn. Var að smakka himnaríki með mintubragði áðan. Ben og Jerrys Mint Chocolet cookie. Ertu að grínast, 500 kall í bónus og maður fitnar bara um 3 kíló á hverri skeið. Fínn díll.

Itte Rasshai.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Silence is golden

Vaknaði definitely e-ð öfugsnúinn í dag. Er með Pirri pirri kjúkling hangandi yfir mér eins og djöfull í dulargervi. Næ bara ekki að hrista hann af mér. Reyni bara að tóra og syng "Silence is golden, but my eyes still see". Sem virðist vera samskiptamátinn við flesta í kringum mig þessa dagana. Sofnaði í gær yfir Ray, ekki vegna þess að það er leiðinleg mynd. Þvert í móti. Algjör sálartrekkir og táraflóð í kjölfarið. Ég ber nýtilkomna virðingu fyrir Jamie Foxx sem leikara. Hann átti þetta skilið. Djöfull leiðist mér þessa dagana. En tedrykkjumaðurinn er að koma eftir nákvæmlega eina viku og mun án efa bæta úr leiðindunum. Það er magnað að hugsa til þess að sama hvað gerist í lífinu þá mun ég alltaf eiga besta vin. E-n sem alltaf er hægt að treysta á og skilur mig betur en ég skil mig sjálfan. Vegna þess að enginn á að láta manni líða eins og e-ð second best, ekki satt. Ég hlakka til að fara í vinnuna á morgun, hversu sorglegt er mitt líf? Ok ekki svara.

Itte Rasshai.