laugardagur, ágúst 13, 2005

Breytt plön

Það er komin upp smá erfið staða því að litla stelpan okkar Völu virðist vera að drífa sig að koma í heiminn. Vala missti legvatnið í gær og við þurftum að bruna upp á spítala án þess að vita í raun hvað væri að gerast. Maður þorði ekki alveg að hugsa svo langt og við vonuðum að þetta væri bara false alarm. En þegar við komum upp á spítala kom í ljós hversu alvarlegt þetta var og sú litla var ákveðin í að láta sjá sig. Vala var sett á lyf til að draga úr samdráttarverkjum og sem draga úr öllu fæðingarferlinu. Við fengum yfir okkur flóð af upplýsingum sem var erfitt að meðtaka á þessari stundu og allur síðasti sólarhringur er í raun búin að líða eins og í öðrum heimi. Á þessum orðum er smá stund á milli stríða og ég ákvað að skreppa aðeins heim. Vala er búin að standa sig eins og hetja í þessum ömurlegu aðstæðum og eina sem maður getur gert er að vera til staðar og styðja við bakið á henni. Staðan nákvæmlega núna er sú að við fengum sterasprautu í gær sem hjálpar litlu lungunum að þroskast. Þetta eru tvær sprautur sem er mjög mikilvægt að stelpan fái, en seinni sprautuna fáum við ekki fyrr en kl. 5 í dag. Við verðum að reyna að geyma hana þarna inni að minnsta kosti þangað til þá. Við vonum að hún geti beðið aðeins, vegna þess að í svona tilvikum skiptir hver klukkutími máli fyrir þroska barnsins. Það er skrýtin tilfinning þegar öll plön breytast á einu augnabliki og ekkert verður eins. Sem betur fer erum við Vala bæði raunsæ og áttum okkur á hvað er mögulega að fara að gerast hérna. Það er nánast öruggt að stelpan okkar komi í heiminn á næstu tveimur sólarhringum. Allir eru í viðbragstöðu upp á spítala, maður þakkar bara guði fyrir allt þetta frábæra starfsfólk og við vitum að við erum í góðum höndum. Maður er í raun fyrst núna að átta sig á þessu öllu saman eftir þetta gríðarlega sjokk. Nú þýðir ekkert annað en að horfa á þetta björtum augum og vona að við fáum að heilsa upp á hana þegar hún kemur í heiminn, þó það væri ekki nema smá stund. Ég tel mig ekki vera trúaðan mann en ég vona að allir biðji kallinn þarna uppi að hjálpa henni í gegnum þetta. Ég læt vita þegar meira kemur í ljós.

kveðja,

Óli, Vala og litla stelpan.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hún ætlar aldeilis að vera snemma í því sú litla. Vonum hið besta.

Innilegustu hjartans kveðjur, Kristinn, Guðrún og Teddi.

1:26 e.h.  
Blogger Ásta said...

Elsku Óli, ég vona að allt gangi vel. Ég mun hugsa til ykkar og vona það besta!
Baráttukveðjur, Ásta og Jákup

3:20 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hugsa til ykkar og bið fyrir litla englinum ykkar. Gangi ykkur sem allra allra best. Kossar og knús María

12:07 f.h.  
Blogger Óli said...

Takk kærlega fyrir þessar kveðjur, góða fólk. Það er ómetanlegt að eiga svona marga góða að.

11:31 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home