sunnudagur, ágúst 14, 2005

Nýjustu fréttir

Staðan í dag er nokkuð stöðug. Við náðum seinni sterasprautunni í gær, sem er mikill áfangi. Í dag vonum við að allt verði með kyrrum kjörum allavega til 5, því þá hefur sprautan náð að virka eins og hún á að gera. Við erum svo græn í þessu öllu saman að við erum alltaf að spyrja um sömu hlutina aftur og aftur. Í gær fengum við smá leiðréttingu á miskilningi, sem er að til eru dæmi um að konur hafi misst legvatnið og samt náð að liggja í nokkra daga og jafnvel vikur. Við héldum að þar sem að legvatnið væri farið þá gæti litlan okkar ekki verið þarna inni lengur en 2 -3 daga. En þar sem að legvatnið er stöðugt að endurnýjast þá er það víst allt í góðu. Það er alltaf best að halda henni inn í maganum á mömmu sinni því þar líður henni best. Klukkan 5 í dag verður svo Vala tekin af lyfjunum sem hægja á fæðingarferlinu því hún má víst aðeins vera á þeim í 48 tíma. Þannig að eftir 5 í dag þá þurfum við að sjá hvað gerist, vonandi gerist ekki neitt og litla stelpan verður bara áfram í góðum gír þar sem henni líður best. Hver dagur skiptir rosalega miklu máli í svona aðstæðum. Það er heilmikill munur á barni sem komið er 25 vikur og 5 daga eins og við og barni sem komið er til dæmis 27 vikur. En það þýðir ekkert annað en að hugsa bara nokkra klukkutíma fram í tímann og vona bara það besta. Við fengum að fara upp á vökudeild í gær sem er svona gjörgæsla fyrir nýfædd börn. Þar sáum við kassann hennar og helling af tækjum og tólum sem bíða komu hennar. Það hefur verið ótrúleg hjálp í henni Grétu , vinkonu hennar Völu, sem því miður lenti í svipuðum málum fyrir 6 vikum. Strákurinn hennar hann Friðrik liggur einmitt í kassa rétt hjá okkar. Hún hefur frætt okkur um allt sem mun gerast eða gæti gerst. Og við erum búin að sjá helling af myndum af hennar fæðingu sem hefur hjálpað mikið við allan andlegan undirbúning. Okkur Völu líður ágætlega og erum komin yfir mesta sjokkið í bili. Vala sýnir ótrúlegan styrk í þessu öllu saman og það er frekar hún sem er að hugga mig en öfugt. Öll skilaboð og hringingar sem við höfum fengið hafa skipt okkur miklu máli og við metum það mikils að svona margir séu að hugsa til okkar. Við látum vita um leið og e-ð gerist og vonum að allir haldi áfram að hugsa til okkar með baráttukveðjum.

Takk fyrir allt saman.

kveðja,

Vala, Óli og litla stelpan með stóra hjartað.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Æ gangi ykkur óskaplega vel og vonandi fer allt vel. Sem betur fer er tæknin orðin mikil og þekkingin.
Orkukveðjur til ykkar allra frá Svíþjóð, Lalli og Helga Dröfn

2:37 e.h.  
Blogger Erla said...

Vona að þetta gangi allt vonum framar Óli minn - gangi ykkur og litlu dútlunni vel. Kv. Erla María

9:47 f.h.  
Blogger Óli said...

Takk fyrir þetta öll sömul.

10:45 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home