Nýjustu fréttir
Fórum af lyfjunum sem stöðva fæðingarferlið klukkan 5 í gær. Allt er enn með kyrrum kjörum, en Vala hefur aðeins verið að finna fyrir verkjum í dag. Við erum öll búin að hafa það nokkuð gott upp á spítala og sú litla virðist vera að spjara sig þokkalega í öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið. Það er alveg ómetanlegt að hafa ljósmæðurnar og hjúkkurnar til að peppa okkur upp. Þær eru flestar með áralanga reynslu og hafa séð ýmislegt. Það er stundum eins og þær reyni að byggja mann upp áður en maður hittir læknana. Þeir virðast alltaf færa manni fréttirnar á köldum diski með engu meðlæti. Það er líka allt í lagi, við höfum gott af því að heyra líkurnar og möguleikana eins og þeir eru. Við vorum einmitt að tala við lækni rétt áðan, sem setti þetta upp fyrir okkur þannig að við erum bæði með smá hnút í maganum. Það mikilvægasta af öllu er að sú litla geti beðið aðeins lengur. Það er svo rosalega margt sem getur farið úrskeiðis ef hún myndi koma núna. Líkurnar eru ekki hliðhollar okkur, svona til að vera alveg hreinskilinn. Í dag förum við svo í sónar þar sem við fáum að sjá hvernig henni gengur í sambandi við þyngd, legvatn og fleira. Eftir það verðum við flutt niður á meðgöngudeild, þá fæ ég líklega ekki að gista lengur, en það verður bara að hafa sinn gang. Greyið Vala er búin að þurfa að liggja kyrr í rúminu síðan á föstudag og það er ekki auðvelt, allavega eins og bakið á henni er búið að vera. Ég reyni að gera mitt besta í nuddinu og aulahúmornum. Ég vona að það sé að hafa einhver áhrif. Við dundum okkur í endalausri gáfnabaráttu í Trivial pursuit. Ég ætla ekkert að vera að skafa af því, en ég er svo langt yfir að það þýðir ekki einu sinni að tala um það ; ) Ég er alveg ótrúlega heppinn að vera að vinna hjá svona frábæru fólki. Það hefur hjálpað okkur mikið, ásamt öllum hinum sem hafa stutt við bakið á okkur í þessari þolraun. Gréta er algjör þungavigtarmanneskja og við tökum hana til fyrirmyndar. Endalaus jákvæðni og almennt gott viðhorf. Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist. Enn og aftur viljum við þakka öllum sem hugsa til okkar og eru að biðja fyrir litlunni. Við látum vita um leið og e-ð gerist.
kær kveðja,
Vala, Óli og lillius maximus.
4 Comments:
Gott að heyra að allt sé með kyrrum kjörum eins og er því að eins og þú segir þá skiptir hver dagur máli. Enn og aftur segi ég gangi ykkur vel. Ég held áfram að biðja fyrir litlu hetjunni ykkar. Kveðja María
Elsku dúllurnar mínar ég hugsa til ykkar og sendi ykkur góða strauma hér að neðan. Vildi að ég gæti verið hjá ykkur, kossar og knús
Katrín down under
vertu inni lengur dúlla, vertu inni lengur dúlla, vertu inni lengur dúlla, vertu inni lengur dúlla,vertu inni lengur dúlla.
æ rípít.ást og friður frá Falcon frænkunni/Catmaster
Takk fyrir þetta fríðu frænkur. Og María þú hafðir rétt fyrir þér. Mannstu þegar þú kíktir á sónarmyndina. Þú sást strax að þetta væri stelpa!!
Skrifa ummæli
<< Home