Kæruleysi
Í gær gerði ég mig sekan um svakalegt kæruleysi sem foreldri. Málið er að við Matthildur fórum í sund í Seltjarnarneslauginni eftir leikskólann en sú laug er að mínu mati einstaklega vel hönnuð til að vera með lítil börn og er almennt betri í alla staði en þessi kúka vesturbæjarlaug. Málið er að Matthildur er mjög kræf í öllum aðgerðum og það er ekki margt sem hræðir hana. Við vorum að skemmta okkur vel í barnalauginni þar sem Matthildur fór nokkur hundruð ferðir í litlu rennibrautinni en flest börn á hennar aldri létu foreldra sína halda í hendina á sér á leiðinni niður. Ekki Matta, hún bara steypti sér af stað og hló eins og lítið djöflabarn þegar hún kom niður. Fyrir þá sem hafa ekki komið í þessa sundlaug þá er rennibraut við hliðina á barnalauginni sem er svona þokkalega stór. Matthildur vildi ólm fara í hana þar sem að ég hafði farið einu sinni áður með henni í þá rennibraut og þá er ekki aftur snúið. Ég ákvað því að fara með henni eina ferð og við fórum því saman upp stigann og skelltum okkur niður. Auðvitað var það ekki nóg en ég var ekki alveg að nenna að fara aftur.
Og skömmustulegur skrifa ég áfram. Ég sem sagt ákvað að leyfa Matthildi (tveggja ára og 10 mánaða) að fara sjálfri í rennibrautina á meðan ég beið í setlauginni þar sem fólk kemur út úr rennibrautinni og fylgdist með. Eftir að ég sá hversu vel hún réð við að fara upp stigann þá fannst mér þetta allt í lagi. Ég mat það sem svo að það voru fáir aðrir að renna sér og Matthildur skreið frekar upp stigann en að labba hann. Og svo var ég auðvitað í nokkra skrefa fjarlægð allan tímann með augun á henni. Þegar hún var búin að renna sér frekar oft þá ákvað ég að þetta væri komið gott og við fórum upp úr. Þegar við komum svo heim, hittum við Völu og Kötu á gangi með börnin á Hagamelnum. Ég var svo stoltur af Matthildi að ég sagði þeim strax hvað hún hefði verið dugleg að renna sér sjálf...Og svipirnir á þeim sagði allt sem segja þarf. Mér leið eins og litlum strák sem kom heim með dauða rottu til að gefa kettinum sínum að borða og hélt að hann væri að gera geðveikt góðverk. Ég áttaði mig þá fyrst hversu fáránlegt þetta var hjá mér.
Ég vil samt segja, mér til varnar að ástæðan fyrir því að ég gerði þetta var mest megnis út af stolti í garð Möttu. Það voru allavega tvö börn á svipuðum aldri sem fóru í rennibrautina MEÐ foreldrum sínum og þau fóru að hágráta þegar þau komu niður í algjöru paniki. En ég sat og horfði á Möttu fara hverja ferðina á fætur annarri og ég hugsaði "djöfulsins töffari er þetta barn...og hún er stelpan mín".
Ekkert kæruleysi í gangi hér!
5 Comments:
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Hehehe, það hafa margar mömmurnar gefið þér hornauga í sundlauginni;) Vala sendir ykkur aldrei aftur ein í sund!
Já þegar þú segir það þá var það sennilega svo...ég hélt reyndar að ég væri bara svona helvíti aðlaðandi. En við förum framvegis í fylgd með fullorðnum í sund ; )
Hva!!! Mér finnst ekkert athugavert við þetta hjá þér Óli minn - ég hef að vísu ekki komið í þessa laug og þekki því ekki aðstæður. En minn hefur lengi vel fengið að fara einn hér í Mosó ef ég bíð niðri til að taka á móti :-)
Við erum bara svona kúl á því hehehe. kv.María
Það hlýtur bara að vera ; )
Skrifa ummæli
<< Home