föstudagur, mars 30, 2007

Minnihlutahópar



Spurning: Hvernig líst þér á Eurovision lag Íslands í ár?

Svar: Ömurlegt, ég fíla ekki rauðhærða.

Svona svaraði ung stúlka spurningu dagsins í blaðinu í dag.
Komm on píbbol, er allt í lagi að segja svona?

Ef við gefum okkur að rauðhærðir séu minnihlutahópur og hvað skilgreinir minnilhlutahóp?
Hópur fólks sem hefur ákveðið líkamlegt eða andlegt einkenni sem er í minnihluta í viðkomandi samfélagi. En hvaða aðrir hópar eru minnihlutahópar á Íslandi? Svertingjar, fólk frá asíulöndum, fólk frá austur evrópu, hommar og lesbíur, þroskaheftir og fatlaðir, konur? og eigum við ekki að segja rauðhærðir.

Hvernig hefði það þótt ef að einhver myndi svara "Ég fíla ekki svertingja eða ég fíla ekki homma" í svona spurningu í blaði.
Gæti það verið að rauðhærðir séu eini minnihlutahópurinn sem er í lagi að móðga?
Þegar ég googlaði rauðhærðir þá fékk ég upp spurningu af vísindavefnum um rauðhærða og hjátrú. Ég er í SJOKKI eftir að hafa lesið þetta. Ég mana alla til að copy/paste þetta netfang og lesa.

www.visindavefur.is/svar.asp?id=6098

Ég þarf að bara að fara að leggja mig.

fimmtudagur, mars 29, 2007

30 000 gestir!



Ég vill þakka öllum fyrir komuna. Sá sem verður númer 30 000 fær ástarljóð samið af mér.

Reykingabann



Nú verð ég að vera sammála eigendum Ölstofunar um að setja spurningu við reykingabannið sem á að taka gildi eftir tvo mánuði. Að sögn þeirra eru 90% af fastakúnnum staðarins reykingafólk og því ofboðslegur tekjumissir ef þetta fólk hættir að mæta. Af hverju væri ekki hægt að setja upp reykskýli eða reykherbergi eins og þeir bentu á?

Ég skil svo sem vel að þeir sem reykja ekki verða þreyttir á því að sitja á stöðum og anda að sér reyk allt kvöldið. En að útiloka reykingamanninn alveg finnst mér of langt gengið.

Ég er nú einn af þeim sem finnst gott að fá sér eina með bjórnum og því er ég kannski eilítið hlutbundinn í þessu máli. En það breytir því ekki að þegar ég reykti ekki með bjórnum þá truflaði reykurinn mig ekkert á skemmtistöðum. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp við sígarettureyk.

Við fórum ósjaldan í langferðir út á land á fjölskyldubílnum þar sem að allir gluggar voru lokaðir og fullorðna fólkið keðjureykti. Svo var tekið stutt stopp og loftað út þegar eitt barnið var orðið óvenjulega gult í framan.

Kannski er það einmitt þess vegna sem að ég er ónæmur fyrir sígarettureyk. En væri ekki hægt að fara hinn gullna milliveg í þessu máli og finna lausn sem hentar báðum aðilum.

Ef það verður ekki gert þá get ég varla ímyndað mér hvernig ástandið verður. Starf dyravarða flækist tífalt, endalaust streymi verður inn og út af stöðum þar sem að reykingafólkið "skreppur út í eina". Það verður alltaf örtröð í dyrunum á öllum skemmtistöðum. Svo verður náttúrulega bara algjört helvíti að þurfa að skreppa út í snjóinn á veturna til að fá sér að reykja með bjórnum.

Ég hef líka aldrei skilið þegar fólk sem ekki reykir segist hata að þurfa að þvo úr sér reykingalyktina eftir djamm. En færi maður samt ekki sturtu eftir djamm, hvort sem að það sé reykingalykt af manni eða ekki. Það er nú bara einu sinni þannig að þegar maður er í litlu rými með mikið af fólki þá finnst manni alveg nauðsynlegt að fara í sturtu á eftir.

En það verður gaman að sjá hvernig þetta fer. Kannski hætta bara allir að reykja og forræðishyggjan hefur sigur?

En djöfull var þetta svekkjandi í gær. Ég held að ef ég ætti að nefna vonbrigði lífs míns þá væru það landslið Íslands í handbolta og fótbolta. Þeir ná alltaf að rífa mann með sér en kasta manni svo aftur í dýpið. Kannski verðum við bara að bíða eftir að Kolbeinn Sigþórsson springi almennilega út. Eða bara sætta sig við að Ísland er smáþjóð sem aldrei á eftir að ná árángri á alþjóðavísu.
Uppgjöf?

mánudagur, mars 26, 2007

Einn af þessum dögum



Í dag var ég veikur heima frá vinnu og lá í móki mest allan daginn. Því miður fyrir sjálfan mig þá lá ég á netinu og skoðað myndbönd sem sína mannfólk í sinni verstu mynd. Endilega kíkið á video dálkinn á þessari síðu. Ég vara fólk við, áhorf getur leitt til alvarlegs tímaskorts og minnkandi trú á mannskeppnunni.

http://www.nothingtoxic.com

Valgerður hefur aftur á móti fundið hamingjuna á mun betri stað eða hér:

http://wwww.tv-links.com

Greys anatomy er í stöðugri spilun í hinni tölvunni.

Landsbyggðarflutningar okkar Valgerðar féllu ekki vel í kramið á flestum. Greinilegt að við erum á leiðinni niður á aintitcool.com. Kannski að við endurskoðum bara dæmið í heild sinni.

Við fjölskyldan ákváðum að halda upp á magakveisuna mína með því að bjóða upp á Dominos í kvöldmatinn. Við prufuðum að fá okkur þunnbotna pizzu, sem er nýjung þar á bæ. Smakkaðist ágætlega. En ég veit ekki hvort að það sé bara ég, (þar sem ég hef borðað svona 500.354 dominos pizzur um ævina) en mér líður alveg einstaklega illa eftir að ég borða slíkar lummur. Mér líður alltaf eins og fita sé að þrýsta sér út úr öllum svitaholum í andlitinu á mér og ég er með eilíft eftirbragð af þessu bragði sem er af öllum pizzunum. Það er eins og sósan eða deigið sé svo bragðmikið að það er alltaf sama bragðið, sama hvernig pizzu maður pantar sér.
Svo smakkaði ég líka Coke Zero um daginn. Ógeð.

Þegar maður er veikur heima og leiðist, þá fer maður oft að hugsa alls konar vitleysu. Ég fór að hugsa alls konar vitleysu í dag og ætla að láta eina vitleysuna flakka sama hversu mikil vitleysa þetta er.
Ég fór að hugsa um hvernig fólk lifir lífinu á mismunandi hátt. Ég ímynda mér stundum að sumir lifi lífinu sínu til fulls. Eigi mjög mikið af vinum, sem eru alltaf að gera skemmtilega hluti. Er í góðu sambandi við fjölskylduna sína og eru sovna almennt að nýta tímann vel.
Ég hef aftur á móti alla mína tíð verið svo barnalegur að innst inni er stimplað inn í mig, að lífið byrji ekki almennilega fyrr en eitt eða fleira af eftirfarandi atriðum hefur náðst:

A. Að klára háskólanám
B. Að verða rosalega ríkur.
C. Að verða rosalega frægur.

Ekki get ég útskýrt af hverju ég hugsa svona (ég segi kannski ekki að ég hugsi svona en þetta er alveg nelgt í mig), þetta er náttúrulega alveg fáránlegt.
Ég held að ég þurfi bara að feisa staðreyndir. Ég klára vonandi bráðlega háskólanám. En hitt...forget it.
Of kæru- og metnaðarlaus til að verða ríkur og með of stórt höfuð til að verða frægur.

sunnudagur, mars 25, 2007

Að flytjast búferlum



Ég fór á djammið í gær, í fyrsta sinn í langan tíma. Byrjaði í pulsupartý (í orðsins fyllstu) hjá Hauki Classen. Eftir ánægjulega drykkjustund, hlustandi á 90´s rapp var ákveðið að fara í bæinn. Við ákváðum að skella okkur á Oliver af öllum stöðum. Það var svo sem ágætt að tjútta þar, tónlistin var nokkuð góð, nema að Dj-inn spilaði sömu lögin aftur og aftur. Þetta voru alveg góð lög, en óþarfi að hlusta á sama lagið 5 sinnum á tveimur klukkutímum. Ég er nú alveg dottinn úr æfingu og því tók ég röltið heim rétt rúmlega 3.

Við Valgerður höfum verið að velta fyrir okkur næstu skrefum í fasteignaviðskiptum. Nú er auðvitað nýtt barn á leiðinni, þannig að við þurfum að bæta við okkur herbergi í nánustu framtíð.

Miðað við verðin sem eru í gangi í Rvk þá gæti það verið best fyrir okkur að fara aðeins út fyrir bæjarmörkin. Eins og þetta lítur út gætum við skipt á okkar íbúð (í kjallara) á einbýlishúsi með því að bæta lítillega við okkur í greiðslubyrði. Þegar ég leit á Re/max blaðið áðan þá veit ég ekki hvert ég ætlaði. Íbúðaverð í Reykjavík er alveg út af kortinu. Nýjar íbúðir á Laugaveginum (beint á móti 17) eru að fara á klikkuðu verði. Tveggja herbergja, 70 m2 á 27,9 milljónir. Er þetta lið þroskheft?

Þeir staðir sem við höfum verið að kíkja á eru helst sveitarfélögin í kringum RVK. Þetta eru Akranes, Hveragerði, Selfoss, Keflavík (Vala flytur ein þangað), Breiðholt og Akureyri (aftur Vala ein). Þar sem að hálf fjölskyldan mín er flutt á Selfoss höfum við verið að renna hýru auga á íbúðir þar. Hægt er að fá fínustu einbýlishús á 22 - 25 millur á Selfossi. Reyndar á öllum þessum stöðum. Í blaðinu áðan var helvíti fínt hús upp á Skaga, byggt 1928, 125 m2 með 30 m2 bílskúr og 6 herbergjum á 22,9 millur. Svo á þetta allt sennilega bara eftir að hækka með árunum.

En við erum nú ekki að spá í þessu næstum því strax. Ég held að það sé ráðlegast að við klárum námið fyrst og sjáum svo til. Miðað við hvernig námið gengur hjá mér þá ætti ég að klára þegar Matthildur fermist.

laugardagur, mars 24, 2007

Parenthood.


Like Father like daughter


Eins og sumir hafa kannski tekið eftir þá er ég búinn að breyta síðunni eilítið. Ég sameinaði þessa ofgnótt af myndaalbúmum í eitt, að hætti bibbunar ; ), mjög sniðugt verð ég að segja. Ég tók líka aðeins til í linkunum, bætti við nýjum og tók út þá sem aldrei blogga (sorry guys).

En hvað um það. Ég var að horfa um daginn á Family Jewls, sem er raunveruleikaþáttur um Gene Simmons, konu hans Shannon Tweed og börn þeirra tvö. Greinilegt er að þessi þáttur á að fylgja eftir vinsældum The Osbourne´s. Gene Simmons kallinn, er nett bilaður og á ég erfitt með að ímynda mér að hann hafi sængað hjá 7000 konum (eins og hann segir sjálfur frá)

Það vaknaði hjá mér ákveðin pæling eftir að hafa horft á F.J. um daginn. Mér finnst nefnilega samnefnari með þessum tveimur þáttum hvað fjölskyldan virðist vera samheldin og börnin þeirra sjálfstæð og svona almennt nokkuð heilbrigð. Svona fyrirfram myndi maður ætla að slíkt hollywood -, rokkara-, celebuppeldi væri engum manni hollt.

Það fyrsta sem maður hugsar um slíkt uppeldi er dóp, tíðir skilnaðir, alkahólismi og lítil tenging við raunveruleikann. En gæti verið að það sé bara fordómar og afbrýðissemi í mér að hugsa svoleiðis. Auðvitað er ekki hægt að neita því að sum þessara barna eru nett klikk. Ég myndi seint biðja Sharon Osbourne um að passa Matthildi.
En Það sem ég er frekar að meina er hvað þessir krakkar eru ófeimnir við að taka á skarið og eru með góða félagslega hæfileika.

Hérna kemur þá pælingin. Getur verið að börn óábyrgra og óheflaðra foreldra, sem eru þó óhræddir við að sýna ástúð og tilfinningar í garð barna sinn, séu betur í stakk búinn félagslega?

Ég þarf ekki nema að horfa í kringum mig á persónur úr mínu lífi til að sjá þetta. Nú er ég reyndar helst að tala um stráka sem eiga í slíku sambandi við feður sína og svo stelpur sem eiga í slíku sambandi við móður sína. Einnig á þetta við þá sem eru í litlu sambandi við feður sína (strákar) eða mæður (stelpur). Þeir strákar sem ég þekki sem falla undir þessa skilgreiningu eru allir miklir "go getter-ar". Eru ekki mikið að stoppa og spá í hlutina heldur kýla bara á þetta og framkvæma. Svo eru hinir sem hafa átt stjórnsama feður. Þeir eru oftar en ekki kurteisir og almennt vel upp aldir en eiga erfitt með að taka skrefið út í lífið. Þeir eru líka oftar en ekki eilítið inn í sér og ósjálfstæðir.

Alveg eins og í þáttunum sem ég talaði um áðan, þá held ég að foreldrar barna sem falla undir fyrrnefndu skilgreininguna líti á börnin sín frekar sem jafninga og vini. Oftast eru vinir barnanna þeirra líka vinir foreldrana, þannig geti foreldrið jafnvel mætt í partý og verið sem einn af hópnum.

Ég átta mig á því núna þegar ég er að skrifa þetta að kannski hefði verið gáfulegra að pælingin hefði verið:
Gæti verið að börn stjórnsamra foreldra eigi erfiðara fyrir vikið að fóta sig félagslega?

Ég vona allavega að ég geti veitt dóttir minni og bróður/systur hennar uppeldi þar sem að þau/þær líta á mig sem jafningja. Ég held að aðalatriðið sé að foreldrar megi ekki gleyma því að lifa lífinu sjálf.

föstudagur, mars 23, 2007

Ammæli



Ég lenti óvart í afmælisveislu í dag. Sundhöll Reykjavíkur er nefnilega 70 ára um þessar mundir. Ég rambaði inn í höllina til að synda mína daglegu 500 metra af blönduðu bringu- og skriðsundi. Daginn áður hafði ég lent í skondnu atviki, þar sem að handklæðinu mínu var stolið. Ég geymi alltaf lyklana mína í handklæðinu og því stóð ég ráðgáta rennvotur og berrassaður eftir sundsprett og sturtu.
Ég fékk vörðinn til að lána mér handklæði og opna fyrir mig skápinn. Þegar hann opnaði skápinn þá varð hann frekar skeptískur á svipinn og fór að spyrja mig út í smáatriði málsins. Svona eins og ég hafi svindlað mér inn í sundið og væri að ljúga því að lyklinum hefði verið stolið. Hann sagði "þær í afgreiðslunni segja að lykillinn hafi verið þarna allan tímann?" og horfði svo á mig með aðra augnabrúnina teygða upp í ljósakrónu.
Hvað á maður svo að segja við svona, "já ok ég viðurkenni það. ég fæ brjálað rush út úr því að svindla mér inn í sundlaugar og ljúga því svo að lyklinum hafi verið stolið. Á sérstökum dögum þá stelst ég til að stökkva á stóra brettinu þegar það er lokað. En það er nú bara á stórhátíðardögum".
Svo þegar ég gekk út og skilaði handklæðinu þá stóðu þau í afgreiðslunni í hnapp. Sundlaugarvörðurinn skeptíski laumaði svo lúmskur að samstarfsmönnum sínum "Þetta er hann!"

En allavega í dag var afmæli og því frítt inn í sund. Ég var því ekki með sérstakar áhyggjur af því týna lyklinum. Mér til mikillar ánægju gat ég fagnað tvöfalt á þessum mikla gleðidegi. Ég steig nefnilega á vigtina, og í fyrsta sinn síðan að sundátakið mikla byrjaði, var ég undir 95 kg. Nánar tiltekið 94 kg. En ég var búinn að borða lítið og hreyfa mig mikið daginn áður. Eins og ég borða um helgar þá verð ég líklega kominn upp í 97 eftir helgi : (

Þegar ég gekk út úr lauginni í þetta sinn þá stoppaði ein afgreiðslukonan mig og sagði "Fáðu þér nú að borða Óli minn". Það var nefnilega kökuborð fyrir gesti og gangandi. Ég vildi nú ekki vera að skemma nýja formið mitt með því að troða í mig köku og þakkaði því pent fyrir mig. Konan gaf sig ekki og bað mig endilega að fá mér. Ég ákvað að vera kurteis og fékk mér það sem leit út eins og vínarbrauð. Ég greip stykkið, stakk því í munninn og gekk út í bíl. Ég sá eftir þessu um leið því að bakkelsið bragðaðist eins og volgt sætabrauð fyllt með sykruðu sæði.

Það er gaman að heyra að sundabraut sé að fara af stað. Í viðtali við Björn Inga sem er í forsvari fyrir Faxaflóahafnir. Það var gaman að heyra hvað stjórn þessa fyrirtækis er tilbúin að bretta upp ermar og gera e-ð í málinu. Það er skondin staðreynd að Faxaflóahafnir á meirihluta í Spöl sem að rekur hvalfjarðargöngin. Það var líka skondið að sjá hvernig Björn Ingi náði að snúa sér út úr því þegar hann var spurður hvort að rukkað yrði fyrir að keyra í gegnum sundabraut! Við megum því búast við því að þurfa að borga fyrir að komast snöggt og örugglega upp á Kjalarnes.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Indland Empire

Svona lýsir kristrún í Fréttablaðinu nýjustu mynd David Lynch, Indland Empire.

"Aðalpersónan er ung leikkona sem hefur tekið að sér hlutverk í kvikmynd, sem á virðist hvíla einhverskonar bölvun. Myndin er endurgerð á eldra listaverki og brátt sogast leikkonan unga inn í atburðarás sem hún hefur enga stjórn á. Hún rennur til að mynda saman við sögu kvenna sem verið er að smygla frá Austur-Evrópu og sögu fjölskyldu með kanínuhöfuð".

Þessi mynd verður örugglega forvitnileg eins og flestar myndir kappans. Ég hef samt oft velt því fyrir mér með þessar myndir, hvort að David Lynch hafi nokkra hugmynd um hvað þær fjalla. Gæti þetta verið eitt stórt hoax hjá kallinum. Til að mynda fannst mér Lost Highway rosalega flott mynd (sennilega vegna þess að Patricia Arquette sýndi á sér brjóstin) en ég botnaði ekki baun í henni. Sérstaklega atriðið þegar að Bill Pullman breyttist í Baltazar Getty.
Mullholland Drive fannst mér algjör steypa. Ég náði að fylgja henni eftir fram að hléi (það voru einmitt líka brjóst fyrir hlé í þeirri mynd) en eftir hlé þá var það bara bye bye birdie.
Lynch er sér þó fáa líka þegar kemur að því að skapa rafmagnað andrúmsloft í bíómyndum. Svona sem erfitt er að skilgreina og maður situr spenntur og horfir á atburðarrásina en veit samt ekki alveg af hverju maður er með gæsahúð.
Varðandi aðrar bíómyndir þá eru allir að tala um myndina 300. Ég verð víst að reyna að skella mér á hana.

Rafael Benitez stjóri Liverpool kom með helvíti góða hugmynd um daginn. Hún er sú að stóru liðin (ég veit samt ekki hvort að það sé verið að meina öll líð í úrvalsdeild, bara þau stærstu eða bara öll líð á Englandi.) gætu sent varaliðin sín að keppa í neðri deildunum á Englandi. Það eru nú helvíti margar deildir þar í landi, ætli þær séu ekki svona 8 með utandeildunum jafnvel fleiri. Þetta fyrirkomulag þekkist á Spáni til að mynda. Þar er algengt að Real Madrid B eða Barcelona B hafa barist um titlana í neðri deildunum en þau mega þó ekki vera í sömu deild og aðalliðin. Þess vegna myndu þessi lið ekki flytjast upp í efstu deild ef þau ynnu aðra deild. Þessi hugmynd gæti gert það að verkum að leikmenn sem ná ekki að brjótast inn í aðalliðið, sérstaklega hjá stærri klúbbunum, fengu að spreyta sig í alvöru deildum. Þetta myndi koma sér vel fyrir ungu kynslóðina og framtíð enska landsliðsins. Sem ég styð að sjálfsögðu.
Ég legg til að þessu verði komið á sem fyrst.
Áfram United og púllarar geta nú sagt e-ð af viti, svona af og til.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Til hamingju Ísland.

Eftir langa og hatramma deilu okkar Kristins um lögleiðingu vændis á hef ég ákveðið að koma á heimaslóðir og blogga aðeins um þetta mál.

Ég sá umræðu um málið í Ísland í dag, á milli Sigurðar Kára og Ögmundar Jónassonar. Mér leist vel á hugmyndir vinstri grænna um að leyfa sölu vændis en ekki kaup. Refsa þannig kaupandanum en ekki seljanda. Sigurði Kára virtist ekki þykja það góð hugmynd og fannst fínt að leyfa vændið alveg, eins og samþykkt var í gær. Hann sá ekki að það væri markaður! fyrir vændi hér á landi og þess vegna hélt hann það yrði ekki vandamál að fólk frá útlöndum kæmi hingað til lands að vinna við vændi.

Ég veit ekki mikið um pólitík en ég hef alltaf vitað að ég væri ekki sjálfstæðismaður. Sú skoðun mín var bara frekari fest í skorðum með þessum orðum. Þvílíkt bull. Hvað veit hann um hvort að það sé markaður fyrir því eða ekki. Eru ekki blöðin uppfull af frásögum um að vændi sé stundað á hótelum borgarinnar og þar að auki er væntanlega flest vændi á Íslandi stundað svart og sykurlaust fyrir luktum dyrum. Hvernig getur hann þá gert sér e-a hugmynd um eftirspurnina?

Einnig hefur Ísland verið sérstaklega markaðsett sem staður fyrir graða kalla eða kellingar að koma og djamma, einmitt frá útlöndum. Dirty weekend og fleira í þeim dúr. Verður þetta ekki bara miklu meira aðlaðandi ef djammpakkinn er orðinn fullkominn. Bláa lónið, stórbrotin náttúra, góður matur, fallegt kvenfólk, besta næturlíf í heimi og svo klárar maður kvöldið á einu af betri hóruhúsum borgarinnar. Ég er viss um að auglýsingin sé í prentun í þessum skrifuðu orðum.

Ég hef líka rekið mig á það sem ég tel vera ákveðna röksemdarvillu í þessari umræðu. Í umræðunni um lögleiðingu vændis telja þeir sem eru fylgjandi, að með því að lögleiða vændi sé verið að færa vændið upp á hið örugga yfirborð. Þar sem að auðveldara er fyrir vændiskonur og menn að leita sér hjálpar og þeirra réttarstaða verður meiri.

Ég held að mansal eigi alveg eins eftir að þrífast hvort að vændi sé löglegt eður ei. Ef það er verið að þvinga stelpu til ókunnugs lands til að stunda vændi og jafnvel hótað henni öllu illu, þá tel ég afar ólíklegt að hún þori að fara til löggunar og biðja um hjálp.

Alveg eins og það hefur sýnt sig í málum handrukkara þá er fólk sem lendir í þeim skíthrætt við að leita til löggunar, þar sem að löggan getur bara gert takmarkaða hluti. Lögin hafa jú líka sínar takmarkanir.
Þess vegna efast ég um að löggan geti verndað allar þær konur sem gætu lent í þessari stöðu. En auðvitað hjálpar það þeim sem stunda vændi að geta leitað réttar síns ef brotið er á þeim. Þess vegna held ég að "sænska leiðin" eins og hún var kölluð, þ.e.a.s. salan leyfð en kaupin ólögleg verði til bóta.

Þetta blessaða bjórmál ætlar að verða sagan endalausa. Reyndar finnst mér skondið að sjálfstæðismenn leiki fórnarlömb í þessu máli og kenni vinstri grænum um að stoppa þetta frumvarp. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið viðloðandi stjórnarsamstarf í 16 ár. Tekur þetta virkilega svona langan tíma fyrir þá. Mér heyrðist nú á Ögmundi að v.g. hafi aðeins viljað fá meiri tíma og því verði þetta tekið til umræðu í haust.

Til hamingju með daginn, kæru vinir.

sunnudagur, mars 18, 2007

Róleg helgi

Helgin hefur verið nokkuð róleg. Við hjónaleysurnar tókum meðal annars íbúðina í gegn en lágum að mestu og hugguðum okkur. Við skelltum okkur út í snjóinn með Möttu og bjuggum til snjókarl eins og myndirnar hér að neðan sýna.



Matthildur var alveg að fíla snjóinn



Pabbinn var duglegur að hjálpa til



Matta lét fara vel um sig í húsbóndastólnum



Sumir eru með tómataofnæmi og borða með öllu andlitinu



Matta hefði alveg verið til í að fara meira út



Matthildur notaði helgina til að æfa sig fyrir hlutverk stóru systur

Adios.

laugardagur, mars 17, 2007

Endurholgun



Fyrir nokkrum árum lýsti faðir minn fyrir mér ákveðinni pælingu varðandi trú. Ég man nú ekki hvaða trú þessi pæling fellur undir eða hvort hún geri það yfir höfuð. En miðað við þá litlu þekkingu sem ég hef í trúarbragðafræðum þá held ég að þetta falli undir búddatrú. En pælingin er sem sagt sú að inngangur í himnaríki eða að ná Nirvana í þessu tilviki, sé áunnin á mörgum æviskeiðum. Hver og ein mannsekja hafi ákveðna hluti eða galla sem hún þarf að vinna að. Ef það tekst ekki í fyrsta sinn þarf hún að koma aftur (væntanlega sem e-r annar)og halda áfram. Þegar manneskjan hefur svo náð þeim þroska sem til þarf þá öðlist hún nirvana eða einhverskonar æðri vitund. Eigum við ekki bara að kalla það himnaríki.

Ég get nú ekki sagt að ég trúi kannski á himnaríki sem slíkt, en mér finnst þetta svolítið merkileg pæling.

Mér finnst þetta góð leið til að horfa á sína innri veikleika eða galla. Ef maður hefur á annað borð áhuga á því að reyna að bæta sig sem manneskja. Ekki það að ég telji mögulegt að það sé til uppskrift að fullkominni manneskju. Frekar held ég að þetta sé ágætis byrjun fyrir hvern þann sem vill verða að betri manni.

Ef við ættum að gefa okkur að ég hafi komið aftur í þessu lífi eftir að hafa mistekist að takast á við gallana mína í fyrra lífi. Þá getum við ímyndað okkur að í fyrra lífi hafi ég verið offitusjúklingur með áunna sykursýki og skemmdar tennur, sennilega að afplána lífstíðardóm fyrir að drepa mann í afbrýðisemiskasti eða eftir að hafa tapað í einhverju af eftirfarandi: tölvuleik, körfubolta, borðspili eða rökræðum. Sennilega hef ég talað algjörlega óskiljanlega tungu þar sem ég tala óskýrara en allt í þessu lífi. En sem betur fer mun ég koma aftur í næsta lífi,
(þ.e.a.s. ef ég næ ekki nirvana bara beint þegar ég drepst) sem Gísli Marteinn.

Ég er ekkert að skilja í þessu kommenti sem ég fékk hér fyrir neðan í sambandi við e-n bloggþjóf. What the f#$%. Er hægt að leggjast lægra en að copy/paste-a bloggfærslur frá öðrum og birta þær sem sínar eigin. Takk fyrir að láta vita ókunnuga Kristín.

miðvikudagur, mars 14, 2007

Komm on Eiki...



Ég fékk símtal í dag þar sem staðfest var að Eiríki Hauksyni yrði tímabundið vikið úr starfi sem heiðursforseti Landssambands Rauðhærðra. Málið er á viðkvæmu stigi sem stendur og því erfitt að tjá sig mikið um það. Eftir samtal við lögfræðinga L.R., þar sem að okkur var bent á 4. grein í lögum sambandsins sem fjallar um trúnaðarbrest, hef ég ákveðið að segja aðeins stuttlega mitt álit á málinu. Ég held að flestir geri sér grein fyrir ástæðum brottrekstursins, en þegar rauðhærðir lita á sér hárið þá eru nánast alltaf háar fjársektir sem fylgja því. En að gera það fyrir framan alþjóð og meira til er ófyrirgefanlegt.
Ég leit við í höfuðstöðvunum eftir vinnu og þar ríkti mikil reiði. Fólk var sárt. Mikið er talað um hvað skal gera næst, óljós orðrómur er að Ómar fari í aðra mótmælagöngu niður laugaveginn. Einnig höfum við ráðfært okkur við Alþjóðasamtökin. Þeir bentu okkur á að þegar söngvari Simply Red litaði á sér hárið í e-u myndbandi, þegar bandið var á hátindinum, þá fóru samtökin skilvirkt í það að rústa ferlinum hans. Það hefur tekist ágætlega.
Ég hringdi líka í Rvini mína, Garðar var gráti næst og Kiddi var mjög órólegur og talaði um að við gætum alveg eins farið að lögleiða vændi.

En þetta á eftir að koma betur í ljós, en ef Eiríkur vinnur ekki í Helsinki þá getið þið ímyndað ykkur hverjir stæðu á bakvið það.

mánudagur, mars 12, 2007

The times they have a changed...

Ég fékk vægt sjokk í dag þegar ég var að skoða gamlar myndir frá því að Matta fæddist. Síðan eru liðin tæp tvö ár. Hér eru þrjár myndir til að sýna hvernig líkamlegt ástand mitt hefur breyst til hins verra á þessum tíma.

Fyrsta myndin er frá því í ágúst 2005



Önnur myndin er frá því í maí 2006



Og síðasta myndin er frá því í dag



Nú verður e-ð að fara að gerast. Ég er búinn að vera nokkuð duglegur að synda upp á síðkastið, en það er greinilega ekki nóg. Fyrir nokkrum mánuðum var í rokkandi í kringum 100 kg. En núna rokka ég frá 95 - 98 kg. Betur má ef duga skal og allt það. Ég held að ég hafi verið um 85 kg þegar að Matta fæddist, þannig að við erum að tala um 10 kg sem þurfa að fara. Hvað á maður að gera. Heróín? Það virðist virka fyrir suma. Sid Vicius var nú helvíti grannur. En svo dó hann, þannig að ég prófa kannski bara að minnka átið eftir kvöldmat, minnka sykur og hreyfa mig meira.
Það er minna sem ég get gert í því að hárið virðist hverfa með hverjum deginum sem líður. Svo ekki sé minnst á það að ég fann fyrsta gráa hárið um daginn.
Man i´m getting old.

Við fórum í 12 vikna sónar í dag og allt er í góðum málum. Hér er mynd af krílinu.



Ég hef það alveg á tilfinningunni að þetta sé strákur. Það var nokkuð magnað að fara í sónarinn, vegna þess að þá áttaði maður sig almennilega á þessu. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég ekki beint tilbúinn að tengjast barninu fyrr en þessi sónar væri búinn. Þá veit maður að þetta er á góðri leið. Svo þegar ég horfði á sjónvarpsskjáinn og sá það hreyfa sig í allar áttir, þá kviknaði á einhverju. Ég er að verða tveggja barna faðir!

En ég er sko ekki sá eini á heimilinu sem elskar að troða í sig.



Hérna er Matthildur að gæða sér á bollu á bolludaginn og eins og sést þá er hún ekki beint að hata það.
Ef allt gengur að óskum þá erfa bæði börnin gullfallegt vaxtarlag móður sinnar. Og ef við byggjum í fullkomnum heimi þá myndu þau erfa skopskyn og vitsmuni föður síns.

Ef ég væri lögga...

...þá myndi ég "óvart" skjóta þennan mann í hnéskelina. Ég held að flestum væri sama, þar sem að þessi kona er 101 árs gömul. Ég er viss um að flestir séu að bíða eftir tækifæri til að vera einir með honum, hvort sem það séu löggur eða bófar.

You make your own bed...

laugardagur, mars 10, 2007

Pabbahelgi

Ég var að enda við að horfa á besta hálfleik sem ég hef séð í fótbolta í langan tíma. Barcelona - Real Madrid. Fjögur mörk, rautt spjald, víti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég bíð spenntur eftir að seinni hálfleikurinn byrjar.

En þessi helgi hefur verið hin rólegasta, eins og flestar síðustu helgar hafa verið. Matthildur virðist loksins vera farin að sofa eins og eðlilegt barn. Þ.e.a.s. hún sofnar rétt eftir kvöldmat og vaknar svo fyrir 9 á morgnanna. Hingað til hefur hún sofið til 11, eins og foreldrarnir.
Í morgun vöknuðum við Matta fyrir 9 og ég þurfti að líma upp á mér augnlokin til að halda mér vakandi. Við skelltum okkur saman í hressandi morgunbað, þar sem ég las blaðið sem hún reyndi eftir bestu getu að rennbleyta. Við ákváðum að leyfa þunguðu konununni að sofa út og hvíla lúin bein. Svo fórum við út í Melaskóla til að leyfa Möttu að leika sér aðeins. Það var frekar sérstakt að vera þar klukkan 10 á laugardagsmorgni. Mér leið svolítið eins og helgarpabba.
En Matthildur er kominn á mikið spjallskeið og maður þarf að hafa sig allan við til að skilja hana. Ég er búinn að vera að reyna að leysa dulkóðann og þetta er afraksturinn:

Nei = Svar við öllum spurningum, nema þegar hún er svöng, þá kinkar hún kolli..
Bobba = Hoppa, drekka, stubbarnir og pabbi.
Mamma = Vala, allt fólk á myndum, flestar konur og ég.
Nanína = Kanína, öll dýr og flestir nýjir hlutir.

En núna ætla ég að halda áfram að horfa á leikinn og ég kveð með einu flottasta myndbandi sem gert hefur verið.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Nýr erfingi í konungsdæmið



Þær miklu gleðifréttir berast nú um landið að Ólafur og Valgerður séu enn á ný að fara að fjölga sér. Ég vill hér með staðfesta þessar fréttir og óska sjálfum okkur til hamingju með þungunina. Hér að ofan er mynd sem að ég teiknaði þegar ég ímyndaði mér hvernig hið nýja barn ætti eftir að líta út. Hér að neðan er aftur á móti mynd þegar Valgerður fór í sónar í dag.



...Eða reyndar ekki. Ég gleymdi myndavélinni þannig að þessar konur verða að duga. En sem sagt new bebe on da way í september.

sunnudagur, mars 04, 2007

West Ham og Man U.



Aumingja West Ham. Það virðist vera búið að ákveða að þetta lið á að falla í vor. Mér hefur alltaf þótt smá vænt um þetta lið og þótt það spila mjög skemmtilegan fótbolta. Eftir að íslendingarnir keyptu meirihluta í félaginu þá hefur maður enn ríkari ástæðu til að halda með þeim. En ekkert virðist ganga upp. Það hlýtur að vera mjög sárt að vera harður West Ham aðdáandi. Vegna þess að í gegnum tíðina hefur West Ham alið af sér nokkra af bestu fótboltamönnum Englands en alltaf hafa þeir þurft að selja þá vegna bágrar fjárhagsstöðu. Ef maður horfir á enska landsliðið þá er stór hluti af því liði aldir upp hjá West Ham. T.d. Rio Ferdinand, Frank Lampard, Joe Cole og Jermaine Defoe.
Þessi leikur áðan á móti Tottenham var hræðilegur. Að komast yfir 2 - 0, þeir jafna svo 2 - 2, West Ham kemst svo yfir 3 - 2 á 85. mínútu en tapa svo 3 - 4 þegar mínúta var kominn fram yfir viðbótartíma. Bara ógeðslegt og maður finnur bara til með aðdáendum West Ham.
En það er ákveðnir hlutir sem ég sé sameiginlegt með West Ham og Napoli á gullaldarárum þess. Þetta eru bæði lítil lið með dyggan aðdáendahóp. Napoli hafði aldrei gert neitt af viti fyrr en Diego nokkur Maradona kom til liðsins. Það tók reyndar nokkur ár fyrir hann að komast í sitt besta form og að venjast ítalska boltanum.
Hjá West Ham er líka argentínumaður sem heitir Carlos Tevez. Aldrei nokkur tímann bjóst ég við að slíkur leikmaður myndi fara til liðs á stærð við West Ham. Hann hefur verið lengi í gang en virðist nú vera eini maðurinn með lífsmarki í annars mjög lífvana liði West Ham. Hann sýndi það í leiknum í dag að með tímanum gæti þessi maður leitt liðið upp í hæstu hæðir.
Eða þá að hann spilaði í nokkur ár með West Ham og svo myndi bara Man Utd kaupa hann og hann myndi leiða þá í hæstu hæðir.
Gærdagurinn var æðislegur. Liverpool 0 - 1 Man Utd. Mér finnst svo fyndið að hlusta á þessa Liverpool elskandi lýsendur á Skjásport. "United stálu sigrinum, bara heppni, Liverpool vann á tölfræðinni". He he he. Þetta er mjög einfalt. Liverpool átti fullt af færum sem þeir NÝTTU ekki. Það var tekin augljós vítaspyrna af United og þeir nýttu færin sín. Til þess að ná árangri þurfa lið að nýta færin sín.

föstudagur, mars 02, 2007

Ameríku húmor vs. England húmor



Jay Leno er í sjónvarpinu. Hann er ágætur, en samt er hann eiginlega bara dónalegur perri. Hann gerði t.d. mjög ósmekklegt grín af Camillu P. Bowles og líka af börnunum hennar Britney Spears.
Ég skil ekki af hverju íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna ekki meira af breskum spjallþáttum. Er það ekki vitað mál að bretar eru upp til hópa mun fyndnara fólk en bandaríkjamenn. Ég held að bretar séu bara fæddir kaldhæðnir. Ég man þegar ég var að horfa á Parkinson á einhverri frábærri íslenskri sjónvarpsstöð um daginn og gestir hans voru meðal annars Elton John og Bill Nighy. Þessir menn, ásamt Parkinson sjálfum, kunnu að segja frá á svo skemmtilegan hátt. Þeim tekst á ótrúlegan hátt að fanga athygli áhorfenda þannig að allir eru með eyrun spennt á sætisbrúninni þegar þeir skjóta hnitmiðuðum bröndurum inn í sögurnar og allir liggja kylliflatir á eftir.

Stundum finnst mér bandarískur húmor eingöngu snúast um hvað fólk er heimskt eða um stjórnmál. Núna var að Leno að taka á móti 12 ára gerpi sem veit allt um ryksugur! Who gives a shit!

Ég vildi að þetta Leno/Letterman æði myndi hætta og Jonathan Ross og Parkinson væru á dagskrá á hverju kvöldi.
Ég myndi líka alveg sætta mig við ef Conan O´brian væri á hverju kvöldi. Hann er írskur og líka uppaháldsrauðhærði maðurinn minn.