fimmtudagur, mars 29, 2007

Reykingabann



Nú verð ég að vera sammála eigendum Ölstofunar um að setja spurningu við reykingabannið sem á að taka gildi eftir tvo mánuði. Að sögn þeirra eru 90% af fastakúnnum staðarins reykingafólk og því ofboðslegur tekjumissir ef þetta fólk hættir að mæta. Af hverju væri ekki hægt að setja upp reykskýli eða reykherbergi eins og þeir bentu á?

Ég skil svo sem vel að þeir sem reykja ekki verða þreyttir á því að sitja á stöðum og anda að sér reyk allt kvöldið. En að útiloka reykingamanninn alveg finnst mér of langt gengið.

Ég er nú einn af þeim sem finnst gott að fá sér eina með bjórnum og því er ég kannski eilítið hlutbundinn í þessu máli. En það breytir því ekki að þegar ég reykti ekki með bjórnum þá truflaði reykurinn mig ekkert á skemmtistöðum. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp við sígarettureyk.

Við fórum ósjaldan í langferðir út á land á fjölskyldubílnum þar sem að allir gluggar voru lokaðir og fullorðna fólkið keðjureykti. Svo var tekið stutt stopp og loftað út þegar eitt barnið var orðið óvenjulega gult í framan.

Kannski er það einmitt þess vegna sem að ég er ónæmur fyrir sígarettureyk. En væri ekki hægt að fara hinn gullna milliveg í þessu máli og finna lausn sem hentar báðum aðilum.

Ef það verður ekki gert þá get ég varla ímyndað mér hvernig ástandið verður. Starf dyravarða flækist tífalt, endalaust streymi verður inn og út af stöðum þar sem að reykingafólkið "skreppur út í eina". Það verður alltaf örtröð í dyrunum á öllum skemmtistöðum. Svo verður náttúrulega bara algjört helvíti að þurfa að skreppa út í snjóinn á veturna til að fá sér að reykja með bjórnum.

Ég hef líka aldrei skilið þegar fólk sem ekki reykir segist hata að þurfa að þvo úr sér reykingalyktina eftir djamm. En færi maður samt ekki sturtu eftir djamm, hvort sem að það sé reykingalykt af manni eða ekki. Það er nú bara einu sinni þannig að þegar maður er í litlu rými með mikið af fólki þá finnst manni alveg nauðsynlegt að fara í sturtu á eftir.

En það verður gaman að sjá hvernig þetta fer. Kannski hætta bara allir að reykja og forræðishyggjan hefur sigur?

En djöfull var þetta svekkjandi í gær. Ég held að ef ég ætti að nefna vonbrigði lífs míns þá væru það landslið Íslands í handbolta og fótbolta. Þeir ná alltaf að rífa mann með sér en kasta manni svo aftur í dýpið. Kannski verðum við bara að bíða eftir að Kolbeinn Sigþórsson springi almennilega út. Eða bara sætta sig við að Ísland er smáþjóð sem aldrei á eftir að ná árángri á alþjóðavísu.
Uppgjöf?

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hæbb.....ég er ein af þessum reyklausu sem er ekki alin upp við reykingar og ég hlakka mikið til að fara að djamma án þess að anga af sígarettureyk ...... Ég prófaði það í Dublin og það var æði - að vísu var mjög flott aðstaða fyrir þá sem reyktu, stór bjórgarður sem var yfirbyggður að hluta og það var meira að segja bar, svo að þar var ekki hægt að kvarta- eitthvað fyrir alla.
En hvað er annars að frétta af hittingnum ??? Kv.María

12:41 e.h.  
Blogger Óli said...

Bjórgarður, hljómar mjög vel. förum að hittast. Kaffihús í hádeginu á komandi vikum?

10:10 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home