Pabbahelgi
Ég var að enda við að horfa á besta hálfleik sem ég hef séð í fótbolta í langan tíma. Barcelona - Real Madrid. Fjögur mörk, rautt spjald, víti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég bíð spenntur eftir að seinni hálfleikurinn byrjar.
En þessi helgi hefur verið hin rólegasta, eins og flestar síðustu helgar hafa verið. Matthildur virðist loksins vera farin að sofa eins og eðlilegt barn. Þ.e.a.s. hún sofnar rétt eftir kvöldmat og vaknar svo fyrir 9 á morgnanna. Hingað til hefur hún sofið til 11, eins og foreldrarnir.
Í morgun vöknuðum við Matta fyrir 9 og ég þurfti að líma upp á mér augnlokin til að halda mér vakandi. Við skelltum okkur saman í hressandi morgunbað, þar sem ég las blaðið sem hún reyndi eftir bestu getu að rennbleyta. Við ákváðum að leyfa þunguðu konununni að sofa út og hvíla lúin bein. Svo fórum við út í Melaskóla til að leyfa Möttu að leika sér aðeins. Það var frekar sérstakt að vera þar klukkan 10 á laugardagsmorgni. Mér leið svolítið eins og helgarpabba.
En Matthildur er kominn á mikið spjallskeið og maður þarf að hafa sig allan við til að skilja hana. Ég er búinn að vera að reyna að leysa dulkóðann og þetta er afraksturinn:
Nei = Svar við öllum spurningum, nema þegar hún er svöng, þá kinkar hún kolli..
Bobba = Hoppa, drekka, stubbarnir og pabbi.
Mamma = Vala, allt fólk á myndum, flestar konur og ég.
Nanína = Kanína, öll dýr og flestir nýjir hlutir.
En núna ætla ég að halda áfram að horfa á leikinn og ég kveð með einu flottasta myndbandi sem gert hefur verið.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home