föstudagur, nóvember 30, 2007

Leikskóli vs. frístunaheimili


 

Nú er ég búinn að vera að vinna á leikskóla í 6 vikur í vettvangsnáminu. Ég var alveg búinn að gleyma hvað það er gaman að vinna á leikskóla. Það er líka gaman að vinna á frístundaheimili en það er öðruvísi. Ég ákvað að bera þetta saman.

Leikskóli

  • Er í eigin húsnæði og oftast margra ára starfssaga.
  • Stefnan hefur verið mótuð og fólk veit í flestum tilvikum hvað ætlast er til af því.
  • Margar 100% stöður sem þýðir að ábyrgðin fellur á marga.
  • Auðvelt að vekja áhuga starfsfólks á starfinu.
  • Maður kynnist börnunum betur þar sem þau eru með heilsdagsvistun og færri börn eru talin á hvern starfsmann (8 börn á starfsmann, held ég).
  • Virðing borin fyrir starfinu og almennt talað um sem fyrsta skólastigið.
  • Allt dót endist vel, jafnvel í áratugi. Ástæða: eigið húsnæði.
  • Reynir oft mikið á starfsfólk að vera skapandi í starfi, draga úr áreiti eins og hávaða og að taka á agavandamálum.
  • Mannekla algengt vandamál og maður finnur mjög mikið fyrir því í vinnu á leikskóla. Heill dagur þar sem vantar starfsfólk getur dregið úr manni allan kraft.
  • Oftast mjög góður starfsandi og gaman á kaffistofunni.
  • Það er bara gaman að vinna á leikskóla. Allir sem eru komnir yfir 15 ára ættu að prófa að vinna í nokkra mánuði á leikskóla. Maður er fljótur að gleyma hvað það er gaman að leika sér. Hressandi, nærir andann og er ein besta æfing í mannlegum samskiptum sem hægt er að fá.
  • Vinna á leikskóla veitir manni alveg einstaka tilfinningu sem erfitt er að útskýra. Utankomandi fólk einblínir of mikið á ókostina í starfinu, þeir hætta að skipta máli ef það er gaman í vinnunni.
  • Ókostir eru léleg laun og lítið svigrúm til að skreppa frá og annað slíkt.

Frístundaheimili

  • Meira frelsi, allavega fyrir þá sem eru í 100% stöðu. Undirbúningur (engin börn) frá 9 – 13 og almennt starfsfólk kemur klukkan 13:30.
  • Ekki í eigin húsnæði (í flestum tilvikum). Erfiðara að þróa starfið og vinna skipulagt starf með börnunum. Helsti galli á starfi frístundaheimila.
  • Fáir 100% starfsmenn og hinir mesta lagi 50%.
  • Mjög mikil mannekla og starfsmannavelta.
  • Auðveldara en í leikskóla að díla við manneklu en allt faglegt starf líður mikið fyrir það.
  • Erfiðara að skapa góðan móral og vekja áhuga á starfinu þegar fólk hefur svona stuttan tíma saman.
  • En fólk er mjög jákvætt og tilbúið að leggja mikið á sig til að gera starfið gott.
  • Gaman að vinna hjá ÍTR. Almennt er gott að vinna hjá borginni og allt sem heitir réttur starfsmanna er 100% í lagi.
  • Engin fagstétt kominn (tómstundafræði Khí eða pædegá frá dk) og lítill hluti starfsfólks fagmenntaður.
  • Höfum ekki frelsi til að nota húsnæði að vild. Skerðir starfið mjög mikið og er í raun aðalhindrun þess að starfið þróist áfram.
  • Á móti kemur að lítil reynsla er komin á frístundaheimilin, því er gaman að taka þátt í að móta starfið og skapa grundvöll fyrir framtíðarstarfsemi. Mikill hugur í fólki.
  • Má segja að frístundaheimilin séu í svipaðri baráttu og leikskólar voru í fyrir mörgum árum. Allir vilja losna við "geymslu eða gæslu" stimpilinn.
  • Frelsi í starfsaðferðum er mikið og í höndum umsjónarmanna. Gaman að prófa nýja hluti og nýjar hugmyndir.
  • Persónulega mikil reynsla fyrir mig að vera í svona yfirmannastarfi. Það mætti segja að þetta starf sé sambærilegt og svona millistig á milli deildarstjóra og leikskólastjóra í leikskóla. Umsjónarmenn eru á gólfinu en sjá um allt sem viðkemur starfseminni. Fjármál, ráðningar starfsmanna, fundi, upplýsingar til foreldra, dagskrá o.s.frv.
  • Ágæt laun miðað við uppeldisgeirann.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Nýjar myndir

Nú eru komnar inn fullt af nýjum myndum á myndasíðuna. T.d. eftirfarandi myndir:









þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Verkaskipting á íslenskum heimilum og heimskupör

Nú er verkefna – og próftörn í fullum gangi í skólanum. Maður seilast áfram í þessu og reynir að hugsa of langt fram í tímann. Bara eitt próf í einu. Ég verð að viðurkenna að stundum staldra ég við og trúi varla að þetta ætli að hafast hjá mér. En svo virðist nú bara ætla að vera. Annað sem ég hélt að myndi aldrei klárast er baðherbergið hjá okkur. En kraftaverkin þau gerast enn. Ef allt gengur eftir gætum við tannburstað okkur í baðvaskinum fyrir helgi. Það verður ágætis tilbreyting að geta horft inn á bað og sjá ekki sementklessur eða holur inn í veggnum. Þetta er auðvitað búið að taka okkur eitt og hálft ár. Kiddi er að hjálpa okkur á síðustu metrunum og honum fannst ekkert óeðlilegt að þetta hafi tekið svona langan tíma. Hann sagði að í sinni vinnu sem smiður væri normið að fjögurra fermetra baðhergi tæki 2 – 3 ár. Við erum undir því. Þetta er auðvitað nákvæmisvinna, það þarf að leggja flísar. Þessu er ekkert bara hent upp á einu ári. Það kallast fljótfærni og óvönduð vinnubrögð.

En í náminu hef ég nú lokið einum kúrs af 7. Sá kúrs var próflaus og áttum við að skila ritgerð sem gildir 100 %. Ég og Jóhanna frá Neskaupstað gerðum saman rannsókn á verkaskiptingu foreldra inn á íslenskum heimilum. Við sendum út spurningalista til allra foreldra í leikskóla einum í borginni og unnum svo út frá því. Áhugi minn á viðfangsefninu kviknaði fyrst og fremst inn á mínu eigin heimili. Málið er það að ég fæ aldrei að velja föt á Matthildi. Ég geri það oft, en áður en ég veit af er búið að setja hana í ný föt. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki mikið sense fyrir litatónum og hvað fer saman og hvað ekki. En mig langaði svo að vita hvort að þetta væri svoleiðis annars staðar. Niðurstöðurnar voru þær að konur sáu nánast alveg um að velja föt á börnin, þvo þvott og að elda mat og þær eyddu meiri tíma á heimilinu. Feðurnir sem sagt unnu meira en mæðurnar. Það eina sem feðurnir gerðu meira af en mæður var að sjá um fjármál heimilisins. Þó að konur sæu í meirihluta um heimilið þá var merkilegt hvað foreldrar skiptu mikið með sér verkum. Það var í flestum tilvikum stærsta svarhlutfallið.

Hjá okkur Valgerði ástandið nokkuð óvenjulegt. Ég sé nú um flest sem tengist þrifum, þvotti, uppvaski, viðhaldi á húsinu, slá blettinn, þvo bílinn, kaupa í matinn, elda matinn, skúra gólfin, matseld, ryksuga, þurrka af, búa um rúmið, þurrka af, gera við bílinn og svo auðvitað þess á milli er maður að setja flísar á baðið.

Í gær áttum við Valgerður eitt svona golden moment sem bara við lendum í. Málið er að eldavélin okkar er eiginlega alveg glötuð. Hún er eldgömul og hún virkar bara upp á vissu marki. En okkur bauðst að fá aðra eldavél sem var mjög vel með farin og í miklu betra standi en skranið okkar. Pabbi kom á sendiferðabíl til að hjálpa okkur með þetta og við byrjuðum á því að fara með gömlu vélina á haugana. Við vorum ekkert að tvínóna við þetta og grýttum henni ofan í gám þar sem hún brotnaði í spað. Eftir það fórum við út í Sandgerði að ná í gripinn. Ég tók nú eftir því þegar ég leit á nýju vélina að hún var töluvert stærri en sú gamla. En ég vildi nú ekkert vera að hugsa út í það og við drifum okkur með hana heim. Svo þegar við komum heim þá að sjálfsögðu passaði þessi eldavél ekki inn í innréttinguna. Þannig að núna stendur hún á miðju gólfi og við borðum 1944 eða upphitaðar pylsur í örbylgju. Maður bara spyr. Hvar er fyrirhyggjan?


 

föstudagur, nóvember 23, 2007

Kallapössun, Klovn og undirskriftarlistar

Ahhh ég elska nýja Word svo mikið. Nú er ég að prófa í fyrsta sinn að blogga í gegnum Word. Þannig getur maður nýtt sér alla möguleikana sem Word býður upp á (ritvinnslan í Blogger.com býður ekki upp á marga möguleika) og skellt þessu svo bara á netið. Í tilefni þess ætla ég að nýta mér þessa möguleika til hins ýtrasta.

Áðan í fréttum var frétt sem fékk mig til að sjá ljósið. Reyndar sá ég ljósið fyrir hönd eigenda kringlunnar og smáralindar og jafnvel líka þeirra sem eiga spöngina eða suðurver. Ljósið var í formi fréttar um verslunarmiðstöð á Spáni sem er með spes herbergi fyrir eiginmenn og kærasta sem ekki nenna að versla J Þetta herbergi inniheldur hlussu sófasett og stór sjónvarpstæki sem sýna íþróttir allan daginn. Ég skora hér með á fyrrnefnda eigendur að opna svona herbergi og minnka hlutfall hjónaskilnaða á Íslandi um nokkur prósentustig. Sérstaklega svona rétt fyrir jólin.

Ég verð nú aðeins að draga í land eftir danahatursfærsluna. (elska Word) frá því í gær. Það er auðvitað margt gott sem kemur frá dönum. Gnúsi er örugglega frábær C Annað danskt sem er frábært eru þættir sem nýbyrjað er að sýna á Rúv. Þeir heita Klovn og eru sýndir á fimmtudögum. Aðalpersónan er algjör vitleysingur sem er hálfgert barn í mannslíkama. Á ákveðin hátt má alveg líkja þessum þætti við King of queens eða Everybody loves Raymond. Svona hópur af gaurum sem klúðra alltaf öllu og konurnar skamma þá. Munurinn felst þó án efa í efnistökum. Til dæmis í þættinum í kvöld þá hittust þeir heima hjá einum í bjórþambi. Umræðan leiddi þá að eiturlyfjum og þeim datt í hug að prófa að kaupa sér heróín og sprauta sig allir. Allt fór á versta veg þegar að einn féll í yfirlið og eiginkonan á heimilinu kom heim snemma. Ég sé Raymond ekki alveg fyrir mér í þessari aðstöðu.

Í gangi er undirskriftarlisti á netinu til að hvetja yfirvöld í USA að láta Mark David Chapman ekki lausan úr fangelsi á næsta ári. Fyrir þá sem ekki kannast við nafnið þá er þetta maðurinn sem skaut John Lennon til bana þann 8. desember árið 1980. Ég vil hvetja alla til að skrá sig hér

Fyrir þá sem elska John Lennon þá er ekkert betra en að hækka vel í tölvunni, standa upp úr stólnum, grípa næstu manneskju og halda þéttingsfast um hana. Svo er bara að loka augunum og hlustan á mestu ballöðu níunda áratugarins (athugið að lagið gæti verið smá tíma að hlaða sér inn. Og athugið að þetta kemur John Lennon ekkert við).

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Fordómar og fótbolti

Það kom í ljós í kvöld að England verður ekki með á EM 2008. Mér finnst það ömurleg tíðindi, þessi stórmót eru ekki eins þegar það vantar englendingana. Svona svipað eins og box án Mike Tyson. Þetta er bara ekki það sama.
Þar að auki finnst mér enska landsliðið vera svona eins og hitt íslenska landsliðið. Við höfum alist upp með ensku knattspyrnunni og það eiga flestir sín uppahálds lið þar í landi. Við vitum að Ísland á aldrei eftir að komast á stórmót í knattspyrnu og þess vegna er rökrétt að halda með Englandi. Hverjum ættum við svo sem að halda með, dönum? Right.

Ég skal bara segja ykkur það að danir líta svo niður á íslendinga að það hálfa væri nóg. Það er eitt eftirminnilegt atvik sem gerðist þegar ég bjó í danaveldi. Þá var ég í vinnunni og hafði gerst svo kræfur að setja Björk í spilarann. Einn tanaður teknótjúttari vatt sér upp að mér og spurði hvað ég væri að hlusta á. Ég tjáði honum það og að sjálfsögðu vissi hann ekki hver Björk var. Þeir danir sem ég vann með þekktu varla til Bill Clinton en þeir vissu samt alltaf um skóbúð sem seldi buffalo skó til að dansa við Braveheart Theme (techno remix) með Dj Sakin & friends.

En þessi ágæti vinnufélagi fannst tónlistin ofboðslega framandi og hann vissi ekki alveg hvort hann ætti að dansa eða setja meiri strípur í hárið á sér. Hann ákvað bara vera rosa fyndinn og spurði "is it icelandic music? Is it like seals clapping".
Ok nú átta ég mig á því að hér var um tilraun til húmors að ræða en samt sem áður sýndi þetta mér að þegar þessi maður hugsaði um Ísland þá var selur það fyrsta sem honum datt í hug. Svona eins og við íslendingar værum alltaf að fá okkur sundsprett í sjónum með vinum okkar selunum.

En auðvitað skal ég viðurkenna að ég er alveg jafn fordómafullur í garð annarra þjóða eins og t.d. Grænlands. Þegar ég hugsa Grænland þá fæ ég upp mynd í huganum af manni með byssu og ísbirni sitjandi saman við borð að drekka landa. En aftur á móti myndi ég aldrei ætlast til að þeir héldu með okkur á stórmóti í knattspyrnu.

En hvað gera englendingar nú? Þjálfarinn verður rekinn, það er bókað mál. Líklega verður hann ekki bara rekinn heldur útskúfaður úr ensku þjóðarlífi. En ég held að svarið sé Beckham. Þeir ráða Beckham sem þjálfara. Hann hefur reynslu, leiðtogahæfileika og getur reddað geðveikum design landsliðstreyjum frá Armani á allt liðið. Hann gæti fengið Tom Cruise til að vera aðstoðarþjálfara og vísindakirkjan myndi svo blessa allt saman. Þetta er borðliggjandi dæmi. Posh kemur þeim öllum í form á no time með búlemíukúrnum og svo væri auðvitað alltaf gaman á blaðamannafundum vegna þess að hann er með svo asnalega rödd.
Áfram Grænland.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Grafarvogur ég verð gráhærður

Við fjölskyldan erum nú alvarlega byrjuð að pæla í flutningum. Við tókum massívan skoðunarrúnt um grafarvoginn í dag. Við mættum kl 5 í veghús með Matthildi ferska af leikskólanum. Við skoðuðum tvær íbúðir í veghúsi sem báðar voru alveg ágætar og þriðja íbúðin var svo í borgarhverfinu. Þetta tókum við allt klukkutíma: 17:10 veghús, 17:30 borgarhverfi og 18:00 veghús. Sem sagt þeytingur á milli hverfa á rauða drekanum. Við vorum búin að skoða þessar íbúðir á netinu og vorum bara nokkuð spennt. En hér vandast málið. Þegar myndir af íbúðum til sölu eru settar á netið þá eru þær oft teknar af svona pro-ljósmyndurum. Sem þýðir að íbúðirnar líta í raun miklu betur út á myndum en þær gera í raunveruleikanum. Oft er notaður svona teygju-effect sem lætur íbúðina líta út fyrir að vera rosalega stóra.

Í öllum þessum tilvikum var þetta málið. Íbúðirnar voru bæði minni og miklu sjoppulegri en við áttum von á. Ég hef skoðað nokkrar íbúðir í fjölbýlishúsum í grafarvogi og ég fæ það alltaf á tilfinninguna að þessi hús séu ekkert allt of vönduð. Ef ég myndi banka í vegginn og segja "er ekki gott í ´essu" þá væri svarið líklegast nei. Að auki fannst mér nágrenni veghús ekki vera mjög spennandi. Við hliðin á er Esso stöð og á tveimur hliðum eru hraðbrautir. Það er kannski ástæðan fyrir lágu verði. Hmmm.
Borgarhverfið leist okkur mun betur á, en það er samt sama dæmið með þá íbúð. Alls konar blettir í steypunni og flekkir á hættulegum stöðum. Samt á tveimur hæðum og tvennar svalir. Not bad.

Eftir allt þetta erfiði fengum við okkur Megapizzu í verðlaun. Nema að það voru ekki mikil verðlaun að standa í biðröð í 45 mín og fá svo vitlausa pizzu í þokkabót.
Eru til meiri vonbrigði en það?
Að keyra heim til sín með ÍSkalt kók og heita pizzu, setjast niður við borðið glorsoltinn og opna kassann...tvær sjávarréttarpizzur. Og eins og það hafi ekki verið nóg að standa í þessari röð heldur þarf maður að horfa upp á fólk sem treður sér fremst. Þetta eru alltaf sömu týpurnar. Svona vel greiddir gæjar með spurningahrukku á enninu. "Uuhh er þetta röðin, eru þið öll búin að borg´eða?" svo standa þeir lúmskir og reyna að blenda inn í röðina. Svo finna þeir móment þar sem enginn er að fylgjast með og skjóta sér fremst. "Ah er komið að mér, já ég var með 2 pizzur....ha eru 10 mínútur í þær, en ég er búinn að bíða geðveikt lengi".

Þegar ég var búinn að borga áðan og var að bíða þá horfði ég á einn gera nákvæmlega þetta. Svo þegar hann endaði við að hneykslast yfir biðinni við afreiðslufólkið, þá sneri hann sér að mér og andvarpaði framan í mig. Um leið horfði hann á mig svona eins og ég og hann værum félagar sem þyrftum ekki orð til að eiga samskipti. Bara andvarp og góðlegt augnaráð. Nema að andvarpið var svo nálægt að hann andaði framan í mig. Sem mér finnst ógeðslegt by the way. Ég vil ekkert að e-r ókunnugur maður sé að anda framan í mig. Ef ég vildi það þá myndi ég sennilega bjóða honum í bíó fyrst. En ég er bara ekki þannig. Allt er þó gott sem endar vel og við fengum inneign vegna mistaka. Góður endir.

mánudagur, nóvember 19, 2007

Að taka lán í erlendri mynt

Á síðustu vikum höfum við verið að spá og spekúlera varðandi húsnæðiskaup. Þetta er sennilega ekki besti tíminn til að vera að hugsa um það. En það verður að viðurkennast að Hagamelurinn er farinn að þrengja verulega að okkur. Það er líka staðreynd að íbúðaverð í úthverfunum býður upp á ýmsa möguleika fyrir okkur í stöðunni. Við vorum eiginlega búin að blása þetta allt saman af þegar að okkur var bent á möguleikann á að taka lán í erlendri mynt. Ég er búinn að sitja sveittur og lesa mér til um þetta. En lán í erlendri mynt hefur bæði sína kosti og galla. Ég er ekki alveg að skilja sumt af þessu en ég ætla að reyna að koma þessu í orð.

Eins og ég skil þetta er meiri áhætta við að taka erlent lán en áhættuni fylgir stundum gróði. Áhættan felst í því að lánið tengist stöðu á gengisvísitölu. Þannig að ef gengisvísitala hækkar þá hækka erlend gengi og þar með höfuðstóll lánsins og greiðslubyrði þess. Svo er öfugt farið ef gengisvísitala lækkar. Það virðist vera algjört lykilatriði hvenær lánið er tekið. Þ.e. hvar gengisvísitalan stendur þegar lánið er tekið. Ef lánið er tekið þegar gengisvísitala er há, t.d. um 130, eru allar líkur á því að vísitalan fari í niðursveiflu og lánið lækki.



Að meðaltali virðist gengisvísitalan vera í kringum 120, en árið 2001 fór hún alveg upp í 150 og árið 2005 niður í rúmlega 100. Þegar litið er yfir 10 ára tímabil gengisvísitölunnar má draga þá ályktun að ef tekið er lán í erlendri mynt má búast við því að lánið hækki og lækki á víxl. Þar af leiðandi má búast við því að stundum verði greiðslubyrðin hærri og stundum lægri.

Ef tekið er dæmi um lán í dollurum þá getum við ímyndað okkur sem svo að viðkomandi taki lán á genginu 100 (bara svona til að hafa þetta auðvelt í reikningi ; ). Lánið er upp á 20 milljónir ísl kr sem gerir 200 þús USD og er tekið til 40 ára. Afborganir ættu því að vera (20 * 5500 kr - gróflega reiknað) = 110 þús á mánuði. Segjum sem svo að skelli á worst case scenerio (alltaf gott að reikna með því) og gengið skjótist upp í 150 á tveimur árum. Þá er lánið allt í einu komið upp í 30 milljónir og greiðslubyrði komin í 165 þús. En þetta er auðvitað hið klassíska worst case scenerio.

En ef við tökum bara kosti og galla við þessi lán. By the way það má setja setninguna "eins og ég skil þetta" fyrir framan allt í þessari færslu. Ég er ekki alveg með þetta á hreinu ; )

KOSTIR

* Á heildina litið eru vextir lægri og yfir lengri tíma má áætla að þetta sé betri kostur en verðtryggð lán í íslenskum krónum.

* Lánin eru óverðtryggð, sem þýðir að verðbólga hefur ekki áhrif á höfuðstól.

* Maður borgar niður 50/50 - vexti og höfuðstól. Það er einmitt það sem að Ingólfur er alltaf að tala um. Borga niður höfðustólinn! (peningagúrúinn sem er með sparnaðarnámskeiðin og skrifaði bókina um fjármál heimilana).

* Hjá Frjálsa Fjárfestingabankanum getur maður fengið 65% lán án þess að fara í greiðslumat.

* Þar sem að höfuðstólinn greiðist hraðar niður segja sumir að maður borgi þessi lán 2 - 3 sinnum tilbaka á meðan maður borgar íslensku lánin 5 - 6 sinnum tilbaka!

* Ekkert uppgreiðslugjald er á þessum lánum, en...(sjá í göllum)

GALLAR

* Gengisvísitala hefur verið sveiflukennd síðustu ár.

* Greiðslubyrði gæti hækkað en allt saman virðist þetta núllast út yfir lengri tíma litið.

* Maður þarf að hafa fjárhagslegt bolmagn til að takast á við sveiflur á lánstímanum.

* Vextir gætu breyst á lánstímanum, en þetta er e-ð sem ég náði ekki alveg að skilja. Libor vextir og e-ð.

* En...framhald frá því áðan...ef maður vill borga upp lánið þá þarf maður að gera það á kaupgengi gjaldmiðilsins sem er alltaf hærri en sölugengi. Kemur það ekki bara í staðinn fyrir uppgreiðslugjald????


Fyrir þá sem ekki nenna að spá í íbúðakaupum og myntkörfulánum þá mæli ég með því að fara á myndina American Gangster. Af hverju eru sannsögulegar rise and fall dópbarónamyndir alltaf góðar?

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Afsakið, ert þú að passa þessa stóla.
Ertu ekki vinkona hans Óla.
Hann var að klára Kennó síðasta vor.
Óli eða Svenni, ég man ekki hvor.
Var í þessu partýi áðan,
ég veit um stelpu sem að dáð´ann.

Ég þarf að segja við þig nokkur orð,
komdu og sestu hérna með mér við þetta borð.
Ertu ekki mega gott í gangi?
mér finnst svona eins og pínu mig langi til,
að þekkja þig aðeins betur.
Hvað varst þú að læra í vetur?

En ég get allavega sagt þér að ég var að vinna á vellinum,
hitti einu sinni kana undir fellinu.
Var svo alveg að spá að fara í háskólann,
ekki langt síðan ég kláraði kvöldskólann.
En nú er þú á góðri leið með að klára þessa sálfræði.
Sorry en ég er víst kominn með smá málæði.

Og djöfull er sammála þér með þennan Bigga í maus.
Hvar varstu svo þegar Hekla gaus.
Ég var með stelpu sem hét Linda,
það er langt síðan hún fór inn á Tinda.
Hún gat aldrei neitt í stærðfræði 103,
en mikið var andadráttur hennar hlýr.

...Hluti af laginu Tímarnir okkar með Sprengjuhöllinni, sem fær mig alltaf til að brosa.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Ég og hinir pabbarnir.



í dag fór ég í verslunarleiðangur með Matthildi. Smá gæðatími gefur gull í mund. Ég þurfti að fara í Smáralind fyrir Völu og svo að versla í matinn í Bónus. Við keyrðum upp í Smáralind beint frá leikskólanum og spjölluðum mikið á leiðinni. Á þessum tíma er hún vanalega orðin þreytt og svöng eftir langan dag. Við rúlluðum rólega áfram í síðdegistraffíkinni og enduðum að lokum á áfangastað. Að fara með Möttu á þessum tíma dags í verslunarleiðangur er ekki góð hugmynd. En ég er verðandi leikskólakennari og fagmanneskja í uppeldi barna(with a hint of sarcasm).



Inn í Smáralind fórum við stuttar vegalengdir í einu. Fyrst í leiktækin fyrir framan ríkið, biðum þar í 1 mínútu og gekk svo hröðum skrefum í bankann þar sem hún lék sér við leikborðið. Frá distraction til distraction, þeim má aldrei leiðast, þá er maður búinn að tapa. En síðan hófst erfiðið. Nú þurfti ég að vekja áhuga hennar á símum (vodafone) annars vega og búsáhöldum hins vegar (söstrene gröne). Ég hefði alveg eins getað sleppt vodafone, en hún reif niður e-ð sýningareintak og hljóp svo út úr búðinni eins og fætur toguðu. Öskrandi eftir ganginum þannig að fólk horfði á mig og hugsaði e-ð vafasamt. Systurnar grænu gekk betur en ég þurfti að kaupa flennistóran málningastriga fyrir Völu. Matta hljóp á undan mér eftir þröngum göngunum í búðinni þannig að ég þurfti nánast að ryðja fólki úr vegi eða að minnsta kosti dangla í það með striganum. Á meðan ég beið á kassanum eftir að borga var hún að troða sér á bakvið uppstillingu í glugganum. Ég gat ekki annað en staðið á öndinni og vonað það besta. Þegar þessu var loksins lokið verðlaunaði ég hana með því að kaupa eina ferð í leiktækinu fyrir framan ríkið. En nokkrum sekúndum eftir að ég sleppti peningnum og ýtti á START þá sagði hún "Búin" og fór úr.
Svo komumst við út í bíl en hvað gerist þá. Striginn passaði auðvitað ekki inn í bílinn. Vei. Nú voru góð ráð dýr, annaðhvort tek ég Möttu úr stólnum og fer aftur inn eða ég KEM þessum striga inn í bílinn. Á endanum tókst mér að troða striganum aftan í bílinn þannig að hann bognaði allur og beyglaðist. Valgerður dæmdi hann ónýtan við heimkomu, en það var ekkert annað í stöðunni. I was not going back in there.



Eins og þetta ævintýri hafi ekki verið nóg. Aldrei. Nú tók við verslunarferð í Bónus í Smáratorgi - búðin þar sem útlendingarnir versla. Þegar við komum þangað inn var Matta orðin verulega svöng og pirruð. Ég varð að kaupa hana með e-u en fyrst þurfti ég að fara í grænmetiskælinn. Nú er mjög erfitt að útskýra fyrir tveggja ára barni um hugtakið peningar og viðskipti. "Má fá papriku" "Nei ástin mín við þurfum að borga fyrir hana fyrst" "Papriku!" "Við verðum að borga" Göngum nokkur skref áfram. "Tómat", "við verðum líka að borga fyrir hann", "Tómat" and so on and so on.

Ég tók líka eftir því í Bónus að pabbar eru alveg sérþjóðflokkur út af fyrir sig. Maður gat alveg spottað meðlimi í flokknum út um alla búð. Menn sem eru með þriggja daga skeggrót og með bauga undir augum sökum yfirvinnu og svefnleysis. Flestir erum við með úfið hár (þeir heppnu) eða hverfandi hárvöxt sem er samt úfinn. Margir eru að reyna að þrauka búðarferðina af án þess að missa stjórn á sér og hlaupa út. Börnin suða um fleiri hluti en buddan leyfir og "nei" er orðið prógrammað svar við öllu. "Bíl", "Nei", "Ís", "Nei", nammi..playmo..tölvuleiki..nei..nei..nei. En þetta er auðvitað bara ýkjur.
Þegar við komum svo heim settum við þau systkynin í bað saman í fyrsta sinn. Eins og sést á myndunum þá fór vel á með þeim. Ég er farinn að sofa.

Hópastarf

Núna stendur vettvangsnámið hjá mér sem hæst og nóg að gera. Þetta eru auðvitað töluverð viðbrigði fyrir mig að fara að vinna aftur á leikskóla. Ég vann síðast árið 2004 á Hagaborg, þeim frábæra leikskóla. Svo er auvitað skrýtið að koma inn sem nemi og vera svona hálfpartinn á the bottom of the food chain...eins og þeir segja, eftir að hafa starfað sem yfirmaður síðustu ár.
En það sem er erfiðast af þessu öllu er án efa HÓPASTARF. Fyrir þá sem ekki hafa unnið á leikskóla er hópastarf bara það sem orðið segir að vinna í hóp. Vaninn er að það séu í kringum 7 eða 8 börn í hóp og unnið er með sama barnahópinn yfir veturinn.

Ég var bara búinn að gleyma hvað þetta var erfitt. Þegar ég vann á Hagaborg man ég hvað mér kveið alltaf fyrir hópastarfinu, vegna þess að ég er svo hugmyndasnauður og geldur þegar það kemur að föndri og myndlist. Ég tók upp á því að fara bara út með krakkana á Hagaborg. "Jæja krakkar hvað eigum við að gera....göngutúr??" Alltaf það sama. Og svo þegar ég reyndi að gera e-ð föndur með þeim þá var það svo ljótt! Ég er ekki að meina það sem börnin gerðu, heldur hvernig þetta leit út upp á vegg. Ég held að þetta sé e-ð svona guy thing. Ég man að aðrir karlmenn á Hagaborg töluðu um að lenda í sömu erfiðleikum. Let´s face it, konur eru bara betri í svona skreytingum og svoleiðis - ekki nema þú heitir Bergþór Pálsson. Stelpurnar gerðu alltaf svona flotta ramma í kringum verkin og merktu myndirnar geðveikt flott. Ég er náttúrulega hálf litblindur og skrifa eins og ég sé alltaf staddur í jarðskjálfta. Þar af leiðandi eru börnin sem lenda í mínum hóp geðveikt óheppin. Alltaf verið að senda þau í greiningu vegna þess að myndirnar þeirra eru svo skrýtnar. "Hvað er að vinur, ertu að reyna að segja okkur e-ð með þessari mynd?". Nei nei við skulum ekki fara yfir strikið.
En sem sagt í þessu vettvangsnámi á ég að sjá um hópastarfið í mínum hóp og í raun stjórna hópastarfi á deildinni í nokkrar vikur. Who are we kidding?
Augnablikið þar sem ég sit á móti börnunum og allir eru að bíða eftir að ég segi hvað eigi að gera næst, er svo slæmt og hryllilegt að ég get ekki lýst því. Ég ætti þessa stundina að vera að skipuleggja e-ð fyrir morgundaginn. En...í staðinn þá bloggvæli ég um málið.

mánudagur, nóvember 12, 2007

lána Berglind msn

Mig langar að þakka Snædísi fyrir að leiðrétta ákveðin misskiling sem kom fram í síðustu færslu. Sem sagt ef maður hefur tekið lán á lágum vöxtum þá má maður taka það með sér yfir á næstu eign. Hitt hefði nú verið ansi hart. Allir fastir og ekkert að gerast.
Það hefur nú ýmislegt breyst á síðustu dögum í viðhorfi okkar Valgerðar og við erum nú farin að hugsa þetta allt upp á nýtt. Við ætlum að fara okkur hægt að skoða vel í kringum okkur. En íbúðaverð er samt svo hátt að manni svimar við að hugsa um þessar tölur. 28 milljónir, 32 milljónir, 40 milljónir. Ef e-r hefði sagt mér fyrir þremur árum að ég myndi alvarlega íhuga að kaupa íbúð fyrir svona upphæðir, þá hefði ég ekki trúað því. Spurningin í þessu máli er hvort á maður að taka stórt skref - meiri áhætta, miklu skemmtilegra og mögulega meiri gróði eða minna skref - öruggara og minni áhætta. Ég held að forsætisráðherra hafi svarað þessu fyrir mig í dag þegar hann bað fólk að halda að sér höndum í fasteignaviðskiptum.

Ég heyrði mjög áhugaverða sögu í gær um nafnið Berglind. Ég hafði alltaf haldið að nafnið væri eldgamalt, svona eins og Bergþóra. En mér var sagt að saga nafnsins sé sú að Charles Lindbergh flugmaðurinn ógurlegi hafi flogið hingað til lands í byrjun síðustu aldar. Koma hans til landsins þótti svo mikið mál að kona ein sem þá var með barni ákvað að skíra í höfuðið á Lindbergh. Konan var alveg viss um að hún gengi með dreng. Síðan liðu vikur og síðan liðu mánuðir og barnið kom í heiminn sem stúlkubarn. Konan dó ekki ráðalaus og skírði hana Berglind í höfuðið á Lindbergh. Get it. Berg - lind öfugt.

Og að lokum MSN. Er ég einn af fáum sem finnst Msn ekki skemmtilegur samskiptamáti. Ok mér finnst alveg ágætt að spjalla á msn en frekar vil ég hringja og tala við viðkomandi. Mér finnst maður vera svo fastur á Msn þegar maður er á annað borð að gera e-ð í tölvunni. Maður er í miðju samtali og svo kemur smá pása sem maður vill nýta sér til að koma e-u í verk. Þá poppar upp næsta setning. Búmm. Halda áfram að spjalla. Mér finnst þetta vera svipað og að vera í símanum og borða á sama tíma. Erfitt.
Auðvitað er Msn frábært til að skiptast á smá upplýsingum eða fyrir stutt spjall. En ég er bara ekki þessi Msn týpa. Meiri svona S&M týpa, eins og Guðmundur í Byrginu. Hann notar samt MMS...min lille ven.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Hvað er að gerast á fasteignamarkaði?

Það er ekki annað hægt en að furða sig á stöðunni á fasteignamarkaði hér á landi. Eins og flestir vita hefur íbúðaverð farið stighækkandi á síðustu árum og um leið virðist ekkert hægjast á uppbyggingu. Þetta á allavega við um höfuðborgarsvæðið þar sem ný hverfi spretta upp eins og gorkúlur.
Staðan breyttist auðvitað töluvert þegar bankarnir komu inn á lánamarkaðinn á sínum tíma og fóru að bjóða 100 % lán með betri vöxtum. Þá var orðið auðvelt að kaupa, sem seljendum þótti mjög gaman. Flestir gerðu bæði og sumir gerðu líka annað sem kennt er við hið skemmtilega hugtak "endurfjármögnun".

En núna er útlitið annað. Í nýjustu fréttum segir að Kaupþing hafi hækkað vexti á íbúðalánum upp í tæp 6 % og það sem meira er þá mega þeir sem eru með gömlu lánin frá þeim (rúm 4 %) ekki flytja þau með sér eða leyfa öðrum að taka þau yfir, án þess að lánið taki á sig þessa auka vexti. Það gerir að ef fólk vill e-ð hreyfa við gömlu lánunum þá breytast þau í 6 % lán eða þá að fólk getur borgað þau upp með 2 % uppgreiðslugjaldi. Sem dæmi þá kostar 400 þús að borga upp 20 milljón króna.

Að mínu mati setur þetta nýjasta útspil Kaupþings fasteignamarkaðinn í sjálfheldu. Svo efast ég ekki um að hinir bankarnir komi í kjölfarið.
En af hverju sjálfheldu?
Í fyrsta lagi munu þeir sem eru að kaupa hika við að kaupa íbúð eða taka yfir lán með svo háum vöxtum. Svo ekki sé talað um hvað það er dýrt fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn.
Í öðru lagi eru þeir sem eru að selja fastir með þessi lán sem enginn vill taka yfir. Að auki vilja þeir sjálfir ekki taka þessi lán með sér eða borga þau upp með tilheyrandi kostnaði.

Annað sem mér sýnist hafa breyst upp á síðkastið er hertara greiðslumat. Um árið gat maður farið í greiðslumat á netinu og breytt ýmsum forsendum að eigin vild. En í dag hafa a.m.k. bankarnir sett afar stífar forsendur inn í greiðslumatið sem þýðir bara það að fólk á erfiðara með að fá lán.

Þannig að staðan er sem sagt sú. Íbúðaverð heldur áfram að hækka og þeir sem eiga íbúðir halda áfram að "græða". Fyrir gróðann er hægt að skipta á gömlu íbúðinni fyrir aðra nýja og betri. En til þess að gera það þarf bankinn að samþykkja að viðkomandi sé borgunarmaður fyrir henni. Þar kemur greiðslumatið góða til sögunnar og ekki eru allir sem fljúga þar í gegn. Þannig að fyrir marga er þessi "gróði" ekki beint áþreifanlegur. Svo hafa vextirnir hækkað, eins og kom fram hér áðan, sem gerir þetta allt miklu dýrara og erfiðara. Bankarnir hafa sem sagt dregið til sín viðskiptavini í massavís með gömlu lánunum en ákveða svo upp á eigin spýtur að hækka vaxtaprósentunni. Samningsbrot?
Þar með er fólk fast í viðskiptum við þá og fast í núverandi eign. Skemmtilegt.

Að lokum er einn punktur sem ég er viss um að mjög margir hafa hugsað út í. Hvað gerist svo þegar dregur úr eftirspurn eftir nýjum hverfum og byggingum? Það hlýtur að gerast á endanum. Og þegar það gerist má allavega gera að því skóna að iðnaðarmenn finni mikið fyrir því. Svo auðvitað fasteignasalar, en hverjum er ekki sama um þá? Djók. Ég heyrði einu sinni um e-n frægan hagfræðing sem kom hingað til lands til að halda fyrirlestur. Hann kom í viðtal í fréttum þar sem hann var spurður út í íslenskt efnahagslíf. Hann sagði þá að það sem hann tók strax eftir þegar hann flaug yfir borgina voru allir byggingarkranarnir. Sem hann sagði vera allt of marga fyrir svona lítið land!
Lógíkin segir að íbúðaverð lækki þegar framboð verður of mikið. En flestir eru sennilega búnir að vera að spá að það gerist í mörg ár. Samt gerist bara hið öfuga og þetta hækkar bara og hækkar. Og hvernig útskýrir maður það?

Að læra

Ég veit ekki hvernig er með annað fólk sem situr á skólabekk, ætli það sé jafn bilað og ég þegar kemur að lærdómi?
Ég hef tekið meira og meira eftir því núna upp á síðkastið að ég er illa sýktur af frestunarsýkinni. Það kemur sér afar illa þar sem að ég er að upplifa eina mestu lærdómstörn sem sögur fara af. Ég er í sjö fögum og í þessu vettvangsnámi (...nú veit ég að fólk eins og Ásta, Haukur og Örn hugsa glottandi "you have no idea!"), en svo er ég í vinnunni og með litlu sætu börnin tvö.

En allavega, þessi frestunarsýki lýsir sér þannig að ég er alltaf að skipuleggja. Alltaf að plana fram í tímann hvaða verkefni ég á að gera næst og hvenær ég ætla að vinna þau. Svo þegar kemur að þeim dögum þar sem ég á að vera að vinna verkefnin, þá skoða ég frekar planið og hugsa " já þetta verkefni er eftir mánuð en ég ætti að vera að vinna hitt verkefnið núna, ok þetta reddast". Og svo geri ég ekkert.

Þegar líður svo að því að ég er að falla á tíma og VERÐ að byrja. Þá geri ég allt tilbúið fyrir lærdómssession en FYRST tek ég til í allri íbúðinni. Svona til að skapa rétta andrúmsloftið. Að lokum geri ég flest verkefnin deginum áður ég á að skila þeim og tek einn "all nighter", eins og sumir kannast við. Af þessu leiðir að í hausnum á mér situr eftir afar lítil þekking. Um daginn þegar ég var að velta þessu fyrir mér þá helltist yfir mig mikill ótti. Ég er að klára háskólanám í e-u sem ég kann sama sem ekkert í!

Það sem ég hef líka verið að hugsa mikið er, hvað er ég eiginlega að gera í þessu námi? Ætli margir hugsi það líka þegar þeir eru að nálgast endalokin? Svona stuttu áður en þú ferð að titla þig eftir því námi sem þú ert í. Suma daga langar mig að skella mér í tölvunarfræði eða viðskiptafræði. Bara svona nám sem gefur þér vel launaða vinnu og vinnustaði þar sem umræðan á kaffistofunni snýst um e-ð annað en dömubindi eða helvítis aumingja eiginmenn sem aldrei gera neitt rétt(smá ýkt).

En auðvitað klára maður þetta nám. Persónulega er háskólanám eitt af þessum markmiðum sem ég sætti mig ekki við að sleppa. Mér fannst ákveðnum áfanga náð í kvöld þegar ég skráði mig í lokaverkefnið fyrir næstu önn. Maður er farinn að sjá fyrir endann á þessu. Nú þarf ég á lækningu að halda. (frestunarsýkin...þú veist).

Annað skemmtilegt sem gerðist í kvöld var að nýja tölvan mín er orðin functional með öllum nýjustu og nauðsynlegu forritum. Dell inspiron 1720 heitir gripurinn and i love her. 17" skjár og alles. Vista stýrikerfið er bara nokkuð flott og mér finnst mjög gott að vinna með það. Þó verð ég að segja að ég hef tekið eftir nokkrum hugmyndum sem þeir hafa blákalt stolið frá öðrum aðilum. T.d. er flokkunarkerfið á myndum alveg eins og í makkanum og tabbed browser er líka nýtt en það hefur held ég alltaf verið í operu. Eins finnst mér sumir fítusar vera alveg glataðir. Það er e-ð sem heitir Windows media center sem er algjört drasl. Pælingin er sú að allt media tengt sé á einum stað og þetta er allt mjög flott, En það virkar bara ekki neitt. Það er bara hægt að skoða myndir, tónlist eða bíómyndir sem eru inn í my documents. Það er ekki hægt að browsa út fyrir það. Eins spilar þetta ekki myndir ef það skilur ekki formattið. Svo er e-ð brennsluforrit innbyggt sem virkar ekkert. Aljört drasl. Ég nota frekar e-ð sem heitir Roxio creator home en það fylgdi með. Virkar mjög vel. And i love her.

Að lokum vil ég taka ofan fyrir umsjónarmanni Torrent.is sem kom í Kastljósið í kvöld og skeit upp á bak. Góð rök sem hann kom með...hmmm nei.

laugardagur, nóvember 03, 2007

Dagurinn í dag - ho ho ho!



Dagurinn í dag byrjaði á því að við Matthildur vöknuðum saman og leyfðum mömmu og Nóa að sofa lengur. Ég þurfti að læra þannig að við fórum saman upp í sófa, undir sæng og ég setti Toy story í tækið.
Ég hef svo mikið verið að velta því fyrir mér varðandi Toy story 2. Þegar Vidda er rænt og hann hittir hin kúrekaleikföngin, af hverju fannst Vidda skrýtið að þau vissu nafnið hans. Vissi sem sagt Viddi ekki að það væru til fleiri leikföng eins og hann? Mér finnst það slá skökku við miðað við fyrstu myndina, þegar Viddi er að útskýra fyrir Bósa að hann sé leikfang, en ekki The Bósi ljósár. Mér finnst þetta allavega frekar skrýtið allt saman og er ég einn um það að finnast ógeðslega sorglegt atriðið þegar Dísa (kúrekastelpan) er að segja frá því hvernig fyrrum eigandi hennar hætti að leika sér með hana og gaf hana frá sér. Kannski er ég bara búinn að horfa einum of oft á þetta.

En þegar þau mæðgin fóru á fætur var tími til kominn að skella sér í húsdýragarðinn, eins og myndin gefur til kynna. Það tekur ekki undir klukkutíma að koma sér út úr húsi með allt sem fylgir. Í húsdýragarðinum fórum við að skoða svínin og beljurnar í einu húsinu, Matthildi finnst það ekki leiðinlegt. En ég kom þá auga á að rassinn á einni beljunni var í meira lagi furðulegur. Hann var í öðrum lit á stóru svæði og það voru blóðpollar á gólfinu fyrir neðan. Sveitamaðurinn sem ég er, sá strax að þarna var e-ð óvenjulegt á ferð og gekk út til að ná í starfsmann. Mér fannst líklegt að hún væri með kynsjúkdóm. En vinur minn fékk allavega einu sinni kynsjúkdóm þar sem blæddi úr rassinum á honum.
Ég fann engan starfsmann en lítil stelpa sem var þarna sagði okkur að hún væri þunguð og ættu að fara að kasta, eða gjóta, eða hvað það nú heitir. Ég setti mynd af rassinum inn á myndasíðuna ef e-r er áhugasamur. (undir myndir 3.nóv).

Í framhaldi af þessari frábæru sýn þá varð mér hugsað tilbaka um tvö atvik þar sem ég hef orðið vitni af svaðalega dúbíus þjónustu með mat.

1: Einu sinni vorum við Valgerður í Kringlunni og ætluðum að fá okkur að borða á Stjörnutorgi. Við gengum um og skoðuðum úrvalið hjá öllum þessum fjölmörgu veitingastöðum sem eru þar. Á endanum vildum við prufa nýjan ítalskan veitingastað sem kallast Sbarro. Okkur leist ágætlega á úrvalið og valið stóð á milli lasagne eða spagetti bolognese. Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru réttirnir á þessum stað tilbúnir á bakvið gler fyrir framan alla í afgreiðsluborðinu. Við vorum e-ð að velta því fyrir okkur hvort að þetta væri nú ekki nógu og heitt allt saman. Við spurðum því afgreiðslumanninn hvort að svo væri. Hann varð íbyggin á svip og horfði spyrjandi á réttina. Svo skellti hann bara hendinni beint ofan á lasagne réttinn og sagði "já já þetta er fínt".

2: Annað sinn var ég staddur í Nóatúni að kaupa mér kjúkling og franskar. Ég var glorsoltinn eftir skúringar og fyrir þá sem ekki hafa keypt sér franskar í Nóatúni um kvöldmatarleytið þá getur biðin oft verið löng. Ég var búinn að fá kjúklinginn og beið þolinmóður eftir frönskunum mínum. Þegar loksins kom að mér þá bað ég afgreiðslumanninn að krydda þær vel. Hann hóf handa við að koma þessu í poka og skellti smá krydda ofan í pokann. En þegar hann var búinn að krydda þá spurði ég hann hvort að hann hefði kryddað þær vel. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur stakk hendinni ofan í pokann og smakkaði bara á þeim. Svo kinkaði hann kolli og sagði "já, nokkuð gott" og rétti mér pokann.



Ho ho ho we say hey hey hey, þetta getur varla klikkað. En Diddú hefði alveg mátt detta út í tjörnina.

föstudagur, nóvember 02, 2007

Ég sá fyrir mér...

...svalir, kannski garð, stóra geymslu og vistarverur ofanjarðar. Ég sá fyrir mér herbergi fyrir bæði börnin og útsýni. Ég sá fyrir mér barnvænt hverfi sem við gætum búið í næstu árin. Ég sá þetta allt fyrir mér og meira. En það verður sennilega ekki þar sem að íslenskar lánastofnanir gera ráð fyrir að sambýlisfólk með tvö börn eyði laununum sínum á eftirfarandi hátt. Fyrir utan afborganir af íbúðarlánunum sjálfum by the way:

* 122 600 kr í framfærslu.
* 32 187 kr í bifreiðarkostnað.
* 55 000 kr í kostnað vegna húsnæðis(ekki afborganir, hússjóður og þess háttar!).

Sem sagt um 200 000 kr í kostnað og framfærslu fyrir utan öll lán. Hmmm er þetta ekki svolítið ýktar tölur. En ætli maður verði ekki að vera sáttur við það sem maður hefur. Það verður án efa þröngt á þingi ef við búum hér áfram, en við verðum bara að láta það ganga upp. Kann ekki e-r góð ráð til að leika á kerfið í greiðslumati?

Ég verð að viðurkenna að...



....ég átti mína fyrstu gæðastund með syni mínum í kvöld. Ég veit ég veit...hann er rúmlega mánaðargamall og þetta er sú fyrsta! En málið er, og ég vona að Nói fyrirgefi mér þessi skrif, að hann er svo rólegur að það heyrist ekkert í honum. Hann sefur mjög mikið, svo er hann vakandi og starir þögull á okkur hin og svo drekkur hann brjóstamjólk. Kannski var Matthildur líka svona (fyrir utan að hún var á pela) en ég var allavega alltaf á nálum í kringum hana. Ætli maður sé bara allt öðruvísi með annað barn heldur en fyrsta barn?
(Takið eftir hvað hárið á honum er rautt á þessari mynd)

En í kvöld þá fór Valgerður upp í skóla að vinna verkefni og ég var settur in charge of bebes. Matthildur er orðinn væn og hlýðin stúlka sem gerir allt sem pabbi segir og elskar að hafa lítinn bróður á heimilinu (sense it!) Við skulum bara segja að Matta sé kominn á aldurskeið sem ég ætla að skammstaf T.T. (þið megið ráða í það sem þið viljið - Matthildur ég elska þig!).

Kvöldið fór þannig fram að annaðhvort hélt ég á Nóa og horfði á Matthildi reyna stage dive af stofuborðinu, vegna þess að "ekki gera" þýðir víst "já meira, haltu svona áfram - þó ég sé að öskra þá vil ég að þú gerir þetta". Eða þá að ég lagðist með Matthildi og hlustaði á Nóa, sem aldrei þessu vant, umlaði til mín í rúminu sínu um að ég tæki hann upp.

Á endanum gerði ég það sem allir góðir uppalendur gera, og sérstaklega þeir sem stefna að háskólagráðu í þeim geira. Ég slökkti öll ljós í stofunni og kveikti á Toy story 2. Virkar alltaf. Stuttu síðar var Matthildur sofnuð og við tók gæðastundin okkar Nóa. Næstu þrjá tímana gerði ég ekkert rétt. Ég gat ekki látið hann ropa, hann vildi ekki sofa og þegar ég reyndi að hita pela þá var hann ýmist of heitur eða kaldur. Nói grét á mig og öskraði en loksins þegar ég náði að gefa honum að borða og láta hann ropa, þá lá hann í fanginu á mér og starði á mig með þessum stóru augum og sagði "pabbi þú ert bestur" (Nei ok hann sagði það reyndar ekki). Hann sofnaði vært og ég gat andað léttar.


"Hér er Matthildur í kólumbískri stemmningu"