Dagurinn í dag - ho ho ho!
Dagurinn í dag byrjaði á því að við Matthildur vöknuðum saman og leyfðum mömmu og Nóa að sofa lengur. Ég þurfti að læra þannig að við fórum saman upp í sófa, undir sæng og ég setti Toy story í tækið.
Ég hef svo mikið verið að velta því fyrir mér varðandi Toy story 2. Þegar Vidda er rænt og hann hittir hin kúrekaleikföngin, af hverju fannst Vidda skrýtið að þau vissu nafnið hans. Vissi sem sagt Viddi ekki að það væru til fleiri leikföng eins og hann? Mér finnst það slá skökku við miðað við fyrstu myndina, þegar Viddi er að útskýra fyrir Bósa að hann sé leikfang, en ekki The Bósi ljósár. Mér finnst þetta allavega frekar skrýtið allt saman og er ég einn um það að finnast ógeðslega sorglegt atriðið þegar Dísa (kúrekastelpan) er að segja frá því hvernig fyrrum eigandi hennar hætti að leika sér með hana og gaf hana frá sér. Kannski er ég bara búinn að horfa einum of oft á þetta.
En þegar þau mæðgin fóru á fætur var tími til kominn að skella sér í húsdýragarðinn, eins og myndin gefur til kynna. Það tekur ekki undir klukkutíma að koma sér út úr húsi með allt sem fylgir. Í húsdýragarðinum fórum við að skoða svínin og beljurnar í einu húsinu, Matthildi finnst það ekki leiðinlegt. En ég kom þá auga á að rassinn á einni beljunni var í meira lagi furðulegur. Hann var í öðrum lit á stóru svæði og það voru blóðpollar á gólfinu fyrir neðan. Sveitamaðurinn sem ég er, sá strax að þarna var e-ð óvenjulegt á ferð og gekk út til að ná í starfsmann. Mér fannst líklegt að hún væri með kynsjúkdóm. En vinur minn fékk allavega einu sinni kynsjúkdóm þar sem blæddi úr rassinum á honum.
Ég fann engan starfsmann en lítil stelpa sem var þarna sagði okkur að hún væri þunguð og ættu að fara að kasta, eða gjóta, eða hvað það nú heitir. Ég setti mynd af rassinum inn á myndasíðuna ef e-r er áhugasamur. (undir myndir 3.nóv).
Í framhaldi af þessari frábæru sýn þá varð mér hugsað tilbaka um tvö atvik þar sem ég hef orðið vitni af svaðalega dúbíus þjónustu með mat.
1: Einu sinni vorum við Valgerður í Kringlunni og ætluðum að fá okkur að borða á Stjörnutorgi. Við gengum um og skoðuðum úrvalið hjá öllum þessum fjölmörgu veitingastöðum sem eru þar. Á endanum vildum við prufa nýjan ítalskan veitingastað sem kallast Sbarro. Okkur leist ágætlega á úrvalið og valið stóð á milli lasagne eða spagetti bolognese. Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru réttirnir á þessum stað tilbúnir á bakvið gler fyrir framan alla í afgreiðsluborðinu. Við vorum e-ð að velta því fyrir okkur hvort að þetta væri nú ekki nógu og heitt allt saman. Við spurðum því afgreiðslumanninn hvort að svo væri. Hann varð íbyggin á svip og horfði spyrjandi á réttina. Svo skellti hann bara hendinni beint ofan á lasagne réttinn og sagði "já já þetta er fínt".
2: Annað sinn var ég staddur í Nóatúni að kaupa mér kjúkling og franskar. Ég var glorsoltinn eftir skúringar og fyrir þá sem ekki hafa keypt sér franskar í Nóatúni um kvöldmatarleytið þá getur biðin oft verið löng. Ég var búinn að fá kjúklinginn og beið þolinmóður eftir frönskunum mínum. Þegar loksins kom að mér þá bað ég afgreiðslumanninn að krydda þær vel. Hann hóf handa við að koma þessu í poka og skellti smá krydda ofan í pokann. En þegar hann var búinn að krydda þá spurði ég hann hvort að hann hefði kryddað þær vel. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur stakk hendinni ofan í pokann og smakkaði bara á þeim. Svo kinkaði hann kolli og sagði "já, nokkuð gott" og rétti mér pokann.
Ho ho ho we say hey hey hey, þetta getur varla klikkað. En Diddú hefði alveg mátt detta út í tjörnina.
3 Comments:
Hehe, þú kaupir þér bara of oft skyndibita :=) En kýr bera, merar kasta... ;)
sko....ólafur við skulum koma tvennu á hreint....skjóta skökku við og maturinn á sbarro's er VIÐBJÓÐUR!....kannski ég bæti við að leikföng eru miklar tilfinningaverur og það er ógeðslega sorglegt þegar hún emilía hættir að leika sér með dísu....og nei ég á engin börn sjálf...bara ykkar....
Íris: Þar hittir þú naglann á höfuðið. Skyndibiti no more. Beljan bar..nú man ég.
Tinna: Skjóta...auðvitað. Þú átt nú svolítið mikið í börnunum okkar. Allavega vill Matta frekar tala við þig alla virka daga og tvisvar á sunnudögum.
Skrifa ummæli
<< Home