miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Að Juggla



Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að ég sé latur einstaklingur. Mér finnst nefnilega svo rosalega gott að liggja í leti og horfa á sjónvarpið eða hanga í tölvunni. Einnig finnst mér mjög gaman að sofa út og ég er þeim einstöku kostum gæddur að geta vanist öllum lifnaðarháttum. Þar af leiðandi er ég ekki þekktur fyrir mikla framtaksemi.
En lífið í dag er bara nokkuð flókið fyrirbæri og til þess að lifa af þarf maður að vera með ansi mörg járn í eldinum. Þegar ég var að hugsa um þetta áðan þá datt mér í hug maður að juggla með bolta, nema að hver bolti táknar ákveðin þátt í lífinu.

Boltarnir gætu til dæmis verið:


- Vinna
- Menntun
- Gæðatími fjölskyldunnar
- Vinir
- Útlit heimilis
- Fjárhagur
- Eigið útlit


Ef ég væri þessi maður að juggla þá myndi ég segja að þetta gengi ágætlega. Boltarnir sem helst væru að detta þessa stundina eru menntun og útlit heimilis. En þarna úti eru fólk sem virðist geta jugglað alla þessa bolta og enn fleiri. Til að mynda gæti ég trúað að Magnús Scheving sé mikill jugglari. Hann er geðsjúklega duglegur í vinnu, á perfect heimili, er alltaf fullkominn í útliti og virðist vera í nokkuð hamingjusömu hjónabandi. Ef ég ber mig saman við þennan mann þá er ég algjör letingi. En hvaða boltar ætli séu að detta niður hjá Magga? Ætli börnin hans hati hann fyrir að vera svona mikið í vinnunni? Eða er hann með sjúklega minnimáttarkennd út af því að hann er ekki hámenntaður? Eða er hann bara fullkominn jugglari?

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Ótrulegur þattur og otruleg frett



Ég horfði á hinn frábæra þátt Planet Earth sem sýndur var í sjónvarpinu í gær. Það er langt síðan ég hef orðið jafn spenntur fyrir framan sjónvarpið og þegar að hópur af konungsmörgæsum voru að reyna að flýja undan kolbrjáluðum rostungum. Ég var farinn að öskra á sjónvarpið "hlauptu hlunkurinn þinn" og þó að það hafi verið hægt að hlæja að hlaupalagi mörgæsana þá var ekki jafn fyndið þegar að rostungarnir rifu stykki úr hálsinum á þeim með flugbeittum kjaftinum. Einnig var ansi magnað að sjá hvítháf (stærsta tegundin af hákörlum) gleypa litla seli nánast í einum munnbita. Ekki gaman að mæta einum slíkum í dimmu sundi. (trommusláttur)

Í dag las ég svo frétt um Bjarna Ármannsson forstjóra Glitnis sem átti ágætis dag í vinnunni. Hann græddi nefnilega heilar 380 milljónir. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Er það virkilega eðlilegt að einn maður geti grætt meiri pening á einum degi en flest okkar vinna sér inn yfir ævina? Það skal nú ekki vera tekið af honum Bjarna að hann er sennilega drengur góður og sniðugur bisnessmaður. Hann er að sjálfsögðu ekki sá eini sem hefur átt svona góða vinnudaga, en það er nú ekki langt síðan að svipuð frétt kom í blöðunum um forstjóra KB banka. Það er allavega hægt að lesa þessa frétt hér fyrir neðan.

Hvert stefnir þú fagra veröld? En ég á allavega sætustu kærustu í heimi. Hún er meira en 380 milljón króna virði.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Lífið er gott og Hr. Garðar Guðjónsson er 30 ára.



Já lífið er gott þegar maður á góða að. Það er gott að eiga góða konu og góð börn. Það er líka gott að eiga góða vini. Ég vil óska stórvini mínum honum Garðari til hamingju með afmælið sem haldið var hátíðlegt í gær. Við Garðar höfum sopið marga fjöruna saman. Verið í hljómsveitum, gefið út ljóðabækur og starfað við naktar úthringingar á einmanna hótelherbergjum. Það var margt um manninn í veislunni og vel af veitingum veitt eins og þeirra Söru og Garðars er siður.
En við Valgerður fórum snemma heim til að leysa barnapíurnar af hólmi, ég var með hugmyndir um að skella mér áfram í bæinn þegar Vala væri búinn að skutla Nínu og Skúla heim en forget it. Skítakuldi úti og ógeð.
Ekki versnaði ástandið í dag þegar jólasveinninn kom snemma í ár með stóran pakka undir hendinni. Nánar tiltekið uppþvottavél. Þvílíkur munur og munaður. Takk kærlega fyrir Jólasveinn.
Ég ætla að enda þetta á ljóði til Garðars:

Garðar, Garðar, búinn að lifa í 30 ár.
Við höfum þekkst í 22 af þeim.
Einu sinni varstu með miklu meira hár
og á Ibiza næstum búinn að kveðja þennan heim.

Til allra lukku átti vörðurinn klippur,
hann bjargaði lífi þínu sá helvítis gikkur,
Það er honum að þakka að þú hittir ekki guð
og gast klárað háskólann á rétt undir áratug.
Vei vei vei vei vei vei vei vei!!!

Þetta var nú bara létt grín, ég elska þig Garðar minn!

föstudagur, febrúar 23, 2007

My Job Does Not Pay Enough!



Nú er ég hættur. Farinn að vinna í fiski.

Bless

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Hvernig gat ég gleymt.

Þegar ég gerði listann yfir plötu/elskuhugana mína um daginn þá gleymdi ég tveimur sem ekki mátti gleyma. Það eru:

Leonard Cohen - Songs of Leonard Cohen og Songs of love and hate (varúð hlustist með box af prozac við höndina)

Neil Young - After the gold rush


Í dag þegar ég fór í Kringluna eftir enn einn annasama daginn í vinnunni þá stoppaði ég í bókabúð. Ég kíkti í e-ð músíktímarit með Robert Plant framan á og fyrirsögnin las Life after Led Zeppelin (Fyrir þá sem vilja tjékka á þessu). En allavega inn í þessu blaði var bara heilsíðu prómósjónviðtal við íslensku glys- og leðurrokkarana í Sign. Þar kom meðal annars fram að hún væri ein af þrem stærstu hljómsveitum á Íslandi og að þeir ætluðu alla leið í meikinu. Good luck with that.

En erum við orðin svona mikil stórþjóð að þetta þyki ekki fréttnæmt. Íslensk tónlist í útlöndum, come on! Ég man þá daga þegar það voru stórfréttir að Jet black joe komust á topp 20 yfir heitustu böndin á Filipseyjum. Líka stórfrétt þegar að Eyjólfur Kristjánsson og Bergþór Pálsson tóku upp myndband á strikinu í Köben við lag á plötunni Tveir. Hún var geðveik.

Á morgun er öskudagur og þar af leiðandi hefur val á búningi legið yfir mér í allan dag. Maður verður víst að taka þátt í þessu með börnunum. En valið stendur á milli þess að fara sem júdókappi (sem ég hef gert síðustu 4 árin) eða sem kona.
Mátaði einn kjól af Völu og hárkollu yfir kvöldmatnum, fór mér bara nokkuð vel og var bara frekar þægilegt. Is that too much information?

Að lokum vil ég forða öllum frá því að kaupa sér Zalicious eftirréttarpizzu í Hagkaup á 299 kr. tilboðsverði. Ég ætlaði að vera svo góður að kaupa fínan eftirrétt með dragshowinu en það virðist vera sem að bláber á pizzubotni sé slæm hugmynd.

En allavega! Til hamingju með fertugsafmælið kæri Hr. Kurt Cobain.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Bossinn




Alveg síðan ég varð að ungum manni (eigum við ekki að segja að það hafi gerst 1992) hef ég oftast gengið ábyrgðarstöðum út á vinnumarkaðinum. Ég var yfirmaður pikkalóa á Hótel Íslandi, vaktstjóri og aðstoðarverlsunarstjóri á Dominos og núna umsjónarmaður á frístundaheimili. Mínar pælingar í sambandi við yfirmannsstöðu eru frekar afslappaðar að ég held. Ég HAFÐI (skulum við segja) ákveðna hugmynd um hvernig yfirmaður ég vildi vera. Ég man hvað ég hló inn í mér þegar að Ölvir minn gamli Dominos yfirmaður, sagði eftir að ég gerðist vaktstjóri, að nú myndi allt breytast. Ekki væri lengur í boði að djamma með þessu liði ( eins og hann orðaði það). Ég vildi alltaf trúa því að það væri hægt að vera einn af staffinu, þó maður væri yfirmaður. En er það hægt?
Ég er farinn að halda ekki. Það kom yfir mig uppljómun um daginn þegar ég fór að hugsa um yfirmenn út frá mér en ekki út frá starfsfólkinu mínu. Þegar ég hugsa til baka um mína yfirmenn, þá hefur ALLTAF verið ákveðin gjá á milli mín og þeirra. Það hangir yfir manni í öllum samskiptum við yfirmenn að hann er yfirmaðurinn og þú ert undirmaður hans. Þess vegna geta samskiptin aldrei orðið eðlileg. Um leið hlýtur það því að vera þannig í minni vinnu með mínu starfsfólki. Þó að ég finni það kannski ekki þá er sennilega alltaf svona space á milli mín og þeirra. Þess vegna er kannski ekki sniðugt að fara yfir þessa gjá sem er á milli mín og þeirra. Hún er þar líklega út af góðri ástæðu. Ástæðan fyrir því að ég vildi trúa því öfuga er að ég vinn á frekar afslöppuðum vinnnustað, ég meina þetta er ekki banki eða stórfyrirtæki þar sem er öskrað á árangur eða ég rekinn. Þetta er frístundaheimili og það á að vera afslappað. En samt sem áður er líklega alltaf gott að hafa e-ð space á milli yfirmanns og undirmanns. Því að ef maður reynir of mikið að blenda inn, er maður þá ekki bara orðinn David Brent í The Office?

Að lokum vil ég óska öllum konum nær og fjær til hamingju með konudaginn. Sérstaklega konunum mínum tveimur.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Ást og plötur!

Síðustu mánuði hef ég tekið æ meira eftir því að sjónvarpsstöðin popptíví er að sýna myndbönd (athugið myndbönd - fleira en eitt) með hljómsveitinni Snooze. Fyrir þá sem ekki vita þá eru aðalnúmerin í bandinu þau Brynjar Már á FM og Kristín Ýr fyrrverandi söngkona í Igore. Ég verð bara að spyrja. Hver í andskotanum leggur pening í svona rusl? Ég myndi alveg skilja ef þessu væri bara í útvarpað. Þau gætu nú auðveldlega tekið þetta upp í bílskúrnum heima hjá sér og hann spilað í þættinum sínum. En að þau hafi búið til myndbönd við þennan viðbjóð og einhver hlýtur að hafa borgað fyrir þau. Guð minn góður. Heyrði sá maður ekki lagið Alla leið og textann "Ég á þennan mæk og ég ætla að leika mér við hann".

En úr viðbjóði í gersemar. Eins og mér finnst áðurnefnd tónlist mikill sori þá finnst mér góð tónlist skipta masse máli. Stundum dett ég á plötur sem næstum því bara elska. Það snertir því alltaf einhverja taug í mér þegar fólk segir að því finnist þessi plata eða þetta lag af einni af minni elskuhugaplötum gott. Fyrir mér er það eins og að heyra frá ókunnugum manni að konan mín kyssi vel! Ætli það sé ekki mjög persónulegt hvernig fólk upplifir tónlist? Er hægt að eiga í ástarsambandi við tónlist og vera afbrýðissamur ef annað fólk sýnir ekki ástinni manns þá virðingu sem hún á skilið. T.d. fólk sem segir bara að því finnist tónlistin góð en hefur í raun aldrei lagt inn tímann og lagt við hlustir til að skilja ástina manns til fulls.


Hér er listinn yfir elskuhuga mína í gegnum tíðina í nokkurn veginn réttri tímaröð:

Pearl Jam - Ten og Vs.



Maus - Allar kenningar heimsins og ögn meira...
Nirvana - In Utero
David Bowie - Hunky Dory
The Smiths - The queen is dead
Elliott Smith - Xo og Either or






Radiohead - Ok computer
Björk - Debut
Jeff Buckley - Grace
U2 - Achtung Baby





Tom Waits - Closing time
Red hot Chili peppers - Californication
Bob Dylan - Blood on the tracks
Turin Breaks - The optimist LP










Coldplay - X og Y
Sufjan Stevens - Come on feel the illinoise
Ryan Adams - Heartbreaker





Anthony and the johnsons - I am a bird now


Eftir þessi skrif þá hlustaði ég á lagið No surprises af Ok computer og heyrði textabrot sem lýsir vel hvernig mér líður í dag

"A heart that´s full up like a landfill, a job that slowly kills you"

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Tekinn

Ég stal þessu af blogginu hennar Völu. Ég mana einhvern að prófa að gera þetta á næstu leið sinni til útlanda:

If you're in a train, bus or plane & theres annoying passenger next to you
just simply:

1. put your laptop computer on your knees
2. turn it on
3. make sure the person next to you see the monitor
4. shut your eyes & turn your head up to the ceiling
5. click this link: http://www.joemonster.org/i/aa/countdown.swf

Ok ég verð að bæta þessu við. WTF. Who are these people? Nema auðvitað Helena...ahhhh nú skil ég af hverju ég var valin til að leika í auglýsingarherferð á heimsvísu. Er greinilega með þennan supermodel þokka yfir mér og greinlega líka gamall háskólaprófessor frá 1789 þokka!

http://www.myheritage.com

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Nokkrar myndir úr lífi mínu það sem af er árinu 2007

Við vorum sem sagt loksins að redda okkur snúru til að koma myndunum úr myndavélinni í tölvuna. Þess vegna langar mig til að setja nokkrar myndir hérna inn, en það eru miklu fleiri myndir inn á heimasíðunni hennar Matthildar ef þið viljið skoða.
...en hérna koma myndirnar



Matthildur að skoða fagurt andlit föðurs síns (sem hún sér í hvert sinn sem hún horfir í spegil)



Matthildur og Bibban um jólin



Flippaða fjölskyldan #1



Flippaða fjölskyldan #2



Flippaða fjölskyldan #3



Matthildur og bræður hans pabba



Matthildur dugleg að lesa



...og sér e-ð sjúklega fyndið



Matthildur að prófa klósettið í fyrsta sinn og alveg að fíla það frekar vel

mánudagur, febrúar 12, 2007

Finale



Því lauk í gær. Við horfum á síðasti þáttinn í Sex and the City. Ég veit að ég er svolítið seinn, svona þremur árum of seinn að vera að skæla yfir þessum endalokum. Ég var svo sem löngu búinn að frétta það að hún Carrie myndi enda með Johnny Big dick en það hlýjaði mér um hjartarætur að sjá það með eigin augum. Its the end of an era eins og Carrie sagði.
Ef maður ætti nú aðeins að gera upp þessa þætti þá væri það einhvern veginn svona:

skemmtilegasta persónan:



Anthony. Hinn mjög svo kjaftfori og hýri brúðkaupsplanari leikinn af Mario Cantone. Besta senann hans var í þáttunum þegar Charlotte var að undirbúa giftinguna sína og Kyle Maclékítwinpeaks. Þegar afgreiðslukonan var að sýna henni og Anthony brúðkaupskjóla og Charlotte var efins.
Anthony: "HATES IT, NEXT!"

Leiðinlegasta persónan:





Ég gat ekki gert upp á milli Standford og Aiden. En ætli það sé ekki Aiden. Svo sjúklega icky maður með allt á hreinu.

Svalasta persónan:





Það eru líka tveir. Samantha og Big. Samantha...það þarf ekkert að útskýra það. Big aftur á móti, það er bara þannig að sama hversu slæmur hann var þá fýlaði ég hann alltaf. Fínn gaur, þekki hann.

Aumkunarverðasta persónan:



Jack. What a puts. Mér langaði nú bara að hrista þennan gaur til lífsins. Var alltaf með svona stresshrukku framan í sér af eigin sjálfsvorkun.

Persónan sem ég samsvaraði mér mest með:



Miranda. Bæði rauðhærð og svona andskoti jarðbundin og skynsöm. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að hún væri systir mín.

Sorglegasta atriðið:

Auðvitað var síðasta senan öll sjúklega sorgleg. En mér fannst atriðið í þeirri senu þegar Miranda var að baða mömmu hans Steve e-ð alvega svakalega grátlegt.


P.s. svona for the record þá er ég að skrifa þetta með bjór í hendinni og stóran vindil í kjaftinum í wife beater bol með Die Hard á blasti! I am still a man.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Stubbarnir



Ég sit hér með Mathilda og horfi á Stubbana. Það er bara eitt sem ég get ekki skilið. Þetta er frekar vinsælt barnaefni og er líklega selt mikið af DVD af þessum þáttum hér á landi. Þeir sem hafa eignast barn/börn hafa sennilega lent í því eins og ég, að neyðast til að horfa á Stubbana ítrekað. Þetta er svo sem alveg fínt barnaefni en inn á milli í þáttunum er skotið inn svona myndaskeiðum af breskum leikskólabörnum. Og hér kemur spurningin. Var virkilega ekki hægt að leggja aðeins meiri metnað í að talsetja þennan hluta þáttana?
Þeir sem íslenska þennan hluta eru svo gersamlega sneyddir allri innlifun að ég ímynda mér alltaf að það sé maður með byssu við hausinn á þeim þegar þau eru að lesa. Dæmi um senu af þessu tagi er eftirfarandi:

(hugsið bara um 12 ára stelpu sem er að lesa upp úr ljóðspori ásamt því að vera dauðvona þegar þið lesið þetta)

"Halló!, halló!, þetta er hún Guðrún, hún er búin að týna steppskónum sínum. Getið þið hjálpað henni að finna steppskóna sína. Steppskór, steppskór, steppskór,steppskór, steppskór, steppskór, steppskór" (hún segir þetta án gríns svona oft!).

Það sem gerir þetta líka helmingi verra er að horfa á þetta grautþunnur og ósofinn. En ég fór í þrítugsafmæli til Tuma nýbúa sem var helv fínt. Endaði svo á bar 11 hoppandi glaður með buxurnar á hælunum.

Masa masa, good times.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Can you believe it!



Anne Nichole Smith
R.I.P.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Draumaraðningar



Fyrir nokkru síðan byrjuðum við Valgerður að endurvekja kynni okkar á Sex and the city. Við kláruðum fyrstu fimm seríurnar á nokkrum dögum en því miður þá hafði Valgerður aldrei keypt síðustu seríuna. Því hafa liðið nokkrar vikur þar sem ekkert S and the C hefur sést á skjánum. Á föstudaginn var ég staddur í staffapartý heima hjá Sessu og rak ég þar augun í 6. og síðustu seríuna, liggjandi fyrir framan mig bíðandi eftir því að ég tæki hana. Ég ákvað að róa mig niður og stela henni ekki, heldur bað um að fá hana lánaða.
Í gær var komið að því. Við ætluðum að byrja að horfa á seríuna þegar að Valgerður kæmi heim af kvennasamkomu heima hjá Grétu. Ég var orðin vel þreyttur og klukkan var orðin frekar margt. Mig grunaði að hún yrði lengi því að eins og máltækið segir "þar sem konur koma saman er lítið hugsað en mikið talað".
Það var raunin í þetta skiptið. Valgerður kom heim rúmlega eitt og ég nánast sofnaður upp í rúmi með hulstrið í höndunum. En þegar ástin mín eina sá að ég var ekki steinsofnaður ákvað hún að gera atlögu að spjalli. Svona fór það:

Klukkan 01:34
V: "Óli, ertu sofnaður?"
Ó: "hmmm"
V: "Ekki? Mig dreymdi nefnilega svo furðulega í nótt. Ég var með Ted Danson einhversstaðar og hann var að pissa út um allt. Hann pissaði bara á sig fyrir framan mig! Hvað helduru að þetta þýði?"
Ó: "hmmm"
V: "Ertu að spá aðeins í þetta? Ok...það var, þú veist piss út um allt"
Ó: "Eigum við að fara að sofa ástin mín"
V: "jú, ekkert mál. Amma mín var nefnilega alltaf að ráða í drauma og ég lærði svolítið af henni. Ég man samt ekki hvað piss á að þýða. Hvað heldur þú? Óli..sofnaður?"

Klukkan 01:53
V: "Svo dreymdi mig að Zaid úr Lost væri að reyna bjarga mér frá brjáluðum morðingja! Ég var geðveikt að reyna að fela mig áður en hann kæmi inn í íbúðina."
Ó: "Valgerður. PLÍS!".

Við verðum bara að byrja á seríunni í kvöld. Eða kannski að við ráðum í fleiri drauma og reynum að komast að því hvað pissið þýðir.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Hið agæta IKEA



Við fjölskyldan fórum í leiðangur í IKEA fyrr í kvöld. Ég segi leiðangur því það skreppur! enginn í IKEA. Meðan við gengum um þetta ferlíki af búð gat ég ekki annað en hugsað um hversu frábær þessi hugmynd er. Byrjar allt á því að maður gengur inn um risaglerhurðina og nær sér í litlu krúttlegu innkaupakörfuna (sem tekur ekkert pláss (að sjálf sögðu) og maður þarf að setja saman sjálfur (að sjálf sögðu - aftur)). Við vorum öll svo þreytt og svöng að við byrjuðum á því að fara að borða á café Ikea. Hversu mikil snilld er sá staður. Manni líður eins og maður sé í mötuneyti í framhaldsskóla í USA og maður er aðalstjarnan í fótboltaliðinu. Nær sér í sinn eigin bakka, glas og disk. Svo eru það þessir klassísku réttir, kjötbollur, lax og kjúklinganaggar með frönskum. Allt svo nett og ódýrt að maður vill helst panta sér allt. Svo er náttúrulega helsti kostur allra veitingastaða til staðar þarna, frí áfylling á gosi. Allt er þetta svo frábært og vel framsett að maður pantar sér allt of mikið og borgar meira en þörf er á. Svo þegar búið er að kýla bumbuna byrjar maraþongangurinn. Við vorum svo vel södd og róleg að við stróluðum bara um búðina og kipptum með hlut og hlut á kílómetersfresti. Eftir um klukkutíma gang vorum við komin að kössunum og viti menn, reikningurinn var rétt undir 10 þúsund. Sem sagt þessi frábæra viðskiptahugmynd gerir það að verkum að
A. Fólk getur borðar mjög ódýrt.
B. Fólk gerir sér oftast sérstaka ferð til að fara í Ikea vegna þess að það tekur alltaf svo langan tíma að ganga í gegnum búðina.
C. Vegna þess að fólk er ekkert að drífa sig þá fer það að spá í hvað þeim vantar.
D. Út um alla búð er ódýrir og sniðugir hlutir öskrandi á mann "taktu mig, þú þarft á mér að halda", þessi hlutir eru t.d. klósettburstar, viskastykki, ljósaperur og batterí. Eitthvað sem vantar alltaf.
E. Þegar fólk hefur gengið þessa vegalengd á þessum tíma hefur það a.m.k. sett 10 hluti í kerrupokann og reikningurinn ætti því að hljóma upp á 5 - 10 þúsund. Snilld. Þetta bara getur ekki klikkað.

Ég veit ekki með ykkur hin en ég er ennþá í smá losti eftir að hafa horft á evróvisíón á laugardaginn. Nú vona ég að ég móðgi ekki Örn og fjölskyldu en síðasta lagið það kvöldið var sungið af Hafsteini frænda þeirra. Hann var með lagið Þú tryllir mig sem fékk atkvæði frá öllum hommum og lesbíum á Íslandi og komst þar með áfram. Það var bara e-ð pínulítið kjánalegt við þetta lag eða helst þá textann. Setninginn "ég sé um kampavín, þú um jarðarber" hefur setið föst í hausnum á mér síðan þá. En ég vona eiginlega bara að þetta lag fari til Finnlands og vinni hug og hjörtu allra með setningunni "i will buy the champagne, you the strawberrys".

En hver fær sér kampavín og jarðarber? Er það ekki bara fólk sem vill rafskaut í eistun?

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Nei, hæ!

Ég og barnið sitjum hér heima og horfum á frekar súrt barnaefni í sjónvarpinu. Hreyfimynd um leirfígúrur sem æla litaboltum á hausinn á hvort öðru. Matthildi finnst þetta mjög skemmtilegt og ég sit hérna sem stuðningur fyrir hana. Ég reyni að útskýra fyrir henni söguþráðinn þegar hún spyr mig út í hann. Reyndar getur hún aðeins notað orðin "hæ" og "nei" þegar hún spyr. Dæmi M:"Hæ". Ég:"Já þessi ældi á hinn því að þeir eru vinir". M: "Nei". Ég: "jú, víst". M: "Hæ".

Þegar ég fór á djammið á föstudaginn þá fórum við á Barinn. Ég sem gamall 22 maður verð að bara að gefa skít í þennan stað. Mér fannst þetta alveg glatað. Við vorum uppi allan tímann og það var alltaf kveikt ljósið! Ömurleg tónlist og hálf tómur staður. Einkunnagjöf 2,5 af 10.

Daginn eftir í þynnkunni náði ég að sleikja ástina mína nægilega mikið upp til að keyra mig upp í Hafnarfjörð til að prófa Taco Bell. Þvílíkt drasl. 800 kall fyrir e-ð örþunnt drasl sem var ekkert svo gott á bragðið. Ég sem var búinn að bíða spenntur í mörg ár eftir að prófa Taco Bell. Skítapleis. Einkunnargjöf 1,5 af 10 mögulegum.
Ég held mig við heimatilbúið taco næst. Langbest.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Minnimattarkennd



Það er merkilegt hvað ég umbreytist þegar ölið er við hönd og rennur niður eins og vín. Allt stress, allar áhyggjur og almenn minnimáttarkennd virðast hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég spjalla og faðma fólk sem ég kinka í mesta lagi kolli til dags daglega. Ég eyði peningum eins og það sé engin morgundagur og dansa eins og afrísk bumbusláttarkona. Svo þegar kemur að því að fara heim þá stend ég úti eins og hálfviti og reyni að hitta með lyklinum í skrána í 20 mínutur. Þegar ég kemst inn þá er eins og maður sé blindur innbrotsþjófur að fikra sig í gegnum íbúðina, íbúð sem ég eyði öllum frítima mínum í og samt rata ég varla inn í eldhús? Þegar ég vakna næsta dag eftir fastasvefn, ennþá í annarlegu ástandi, er ég staddur á einhverskonar millistigi. Ekki beint fullur en samt ekki heill í hausnum. Það er einmitt í því ástandi sem ég fer að velta fyrir sér ýmsu um lífið. Það er eins og ég sé með þynnkugleraugu á mér til að skoða heiminn í öðru ljósi. Ég horfi yfir til nágrannans sem á alla fínu bílana og finn ekki fyrir öfund eða minnimáttarkennd eins og venjulega. Ég labba út í búð og hlæ upphátt alla leiðina að hugsa um allt sem gerðist kvöldið áður, ekkert að spá í hvort að einhver sé að horfa á mig. Mér líður þá eins og ég sé búinn að losa mig við þungan bakpoka af komplexum sem ég geng með dags daglega.
Þá er spurningin, er eðlilegt að þurfa að drekka til að losna við svona komplexa? Eða kallast það alkahólismi? Er kannski bara skynsamlegt að fara stundum á blindafyllerí til að sjá hlutina í réttu ljósi. Vegna þess að minnimáttarkennd og öfund eru nánast alltaf óþarfa tilfinningar, er það ekki? Eða er minnimáttarkennd það sem gerir mann að því sem maður er?

P.s. ég var að komast að því að Thomas Graversen knattspyrnumaður hjá Celtic náði sér í Kiru Eggers. Bastard!

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Bahhh Buinn a þvi

Var að koma úr vikulegum körfubolta sem er alveg að gera út af við mig. Ég hef aðeins mætt fjórum sinnum og er ennþá að finna blóðbragð í munninum eftir fimm mínútur í vellinum. En þetta er þess virði. Átakið er ekki að ganga sem skildi. Takmarkið var að vera 90 kg 1. febrúar, sem er í dag! Í dag er ég samt sem áður heil 97 kg. Small steps, small steps my friend. Ætli það verði ekki bara 1. febrúar 2008. Hummm segjum það bara.
En barnið er ennþá veikt af Rs-vírus og hefur verið heimavið alla vikuna. Á morgun er það komið að mér að vera með hana heima. Þó aðeins fyrir hádegi, eftir hádegi er það vinna og svo djamm um kvöldið. Ég vona að ég sjái sem flesta pá djammet.
Later og áfram Pólland!