Skóli lífsins
Dagurinn í dag var mjög lærdómríkur hvað varðar börn og þeirra þankagang. Í gær var ég nefnilega ekki í vinnunni vegna fundarsetu. Þá kom það upp að einn drengurinn ákvað að komast í snert við náttúruna og frummanninn í sjálfum sér. Hann stóð út á skólalóð og létti af sér einni vænni rófu bara fyrir framan alla. Honum var náttúrulega mjög strítt af þessu athæfi og var alveg miður sín. En í dag gerði hann og vinur hans það nákvæmlega sama, reyndar á skólatíma, og voru sendir heim í kjölfarið. Ég veit ekki hver eða hvort þetta hafi verið þrifið upp, þannig að ef þið eruð að labba á skólalóðinni hjá Austó þá look out....Kannski er það vorið sem dregur fram slíka hegðun en mér fannst þetta samt alveg lúmskt fyndið. Það sem var minna fyndið var að í lok dagsins í dag datt ein stelpan úr kastalanum, frekar hátt fall það. Ég var ekki á svæðinu þegar þetta gerðist en kom að þegar búið var að hringja á sjúkrabíl. Ég fór og róaði hana niður og þurrkaði allt blóðið úr andlitinu á henni. Máli var að hún var alveg frekar róleg, nema þegar maður minntist á löppina á henni sem henni var víst mjög illt í. Það kom upp e-r besservisser í mér og ég áleit að þetta gæti ekki verið mjög alvarlegt þar sem hún væri svona róleg. Á tímabili var ég næstum því búinn að afpanta sjúkrabílinn. En síðan komu þessir fagmenn sem sjúkraliðarnir eru og eftir miklar og nákvæmar athuganir ályktuðu þeir að hún væri annaðhvort lærbrotin eða farin úr mjaðmarlið! Þannig að lærdómurinn er: hugsa sig tvisvar um þegar kemur að meiðslum barna. Better be safe than sorry! En nú tekur víst við lærdóms, vinnu- og tiltektarhelgin mikla. Verð víst að afpanta Allt í drasli þar sem fasteignasalinn kemur eftir helgi að meta íbúðina. Síðan er það bara greiðslumat og svo keyrt af stað í þetta prósess sem íbúðarleit er. Mikið, strembið og magnþrungið!