laugardagur, mars 29, 2008

Ég heiti Óli og ég ætla að segja ykkur frá...

Í gær fór ég á Dale Carnegie námskeið í vinnunni sem kallaðist Tjáðu þig. Námskeiðið var þriggja klst langt og miðaði að því að leiðbeina fólki þegar kemur að því að halda ræður eða kynningar. Fyrir mann eins og mig sem þjáist af lamandi ótta við að halda ræður, var þetta vægast sagt gagnlegt. Ekki skemmdi fyrir að sú sem hélt námskeiðið var rosalega drífandi í að leiðbeina og náði hún athygli minni frá fyrstu mínútu. Það var svo margt áhugavert sem kom fram, eins og t.d. niðurstöður könnunar sem gerð var á meðal framkvæmdarstjóra í USA sem voru beðnir að flokka 200 fyrirlestra eftir því hvort að þeir voru leiðinlegir, svæfandi, bara svona la la eða áhrifaríkir. Það er skemmst frá því að segja að þeir töldu 84% fyrirlestra vera leiðinlega eða svæfandi, og aðeins 3% áhrifaríka!!
Á námskeiðinu var einnig farið í ýmsa punkta sem gott er að hafa í huga þegar talað er fyrir framan fólk. T.d. að byrja aldrei á að afsaka sig og að bestu fyrirlesara æfi sig 12x með því að flytja fyrirlesturinn 12x áður en hann er fluttur fyrir framan fólk. Segir manni kannski að fólk fæðist ekki endilega góðir ræðumenn, heldur að þetta komi með æfingunni.
Síðasti klukkutíminn fór svo í æfingar. Það er alveg merkilegt hvað tilhugsunin um að tala fyrir framan fólk, þó að það sé ekki nema nokkrar hræður, getur stressað mann upp. Dæmigerð einkenni hjá mér er ör hjartsláttur, þurrkur í munni og að höfuðið tæmist algjörlega þegar byrja á að tala.
Æfingarnar voru þannig að okkur var skipt í 6 manna hópa og hver átti að tala í 90 sek. Það hljómar stutt en trúið mér það er ekki auðvelt. Sérstaklega þegar við fengum 4 mínútur til að hugsa um fyrirmyndir okkar í lífinu og áttum að tala um þá fyrirmynd í 90 sekúndur. Ég fór nú bara þessa klassísku leið og valdi mömmu sem mína fyrirmynd.
Nú er ég alvarlega að hugsa um að fara á fullt námskeið hjá þeim í Dale Carnegie. Námskeið sem tekur alveg tvo daga og farið er mun dýpra í þessa þætti. Ég held að það geti allavega ekki gert mig að verri manni.

Að lokum vil ég benda þeim sem vilja leggja góðu málefni lið, málefni sem að mínu mati snertir okkur meira en mæðrastyrksnefnd eða Rauði krossinn. Nú er ég að sjálfsögðu að tala um peningasöfnun til handa Hannesi Hólmsteini Gissurasyni. Bankanúmerið er 0101-05-271201 Kt: 131083-4089. Gefðu góðum manni og studdu baki við hinn venjulega launamann gegn auðvaldinu. Lifi litli maðurinn.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Börn

Í fyrrakvöld lágum við hjónin upp í rúmi og flatmöguðum eftir páskafríið. Frí sem einkenndist af veikindum barnanna og stöðugu áti. Áti sem á sér enga líka í mannkynssögunni. Fyrir utan gluggann hafði tunglið tekið öll völd og við hugleiddum að hætta þessari vitleysu og fara með börnin í kvöldgöngu um Ægissíðuna.
Já glætan.
Við köstuðum frekar upp á hvort okkar þyrfti að standa upp og ná í tölvuna og meira nammi. Videogláp og nammi, er til betri íþrótt en það?
Fyrir valinu varð mynd sem við áttum að hafa séð fyrir langa löngu en sumir bíógullmolar virðast stundum gleymast í framboðinu. Þessi gullmoli heitir Börn og er eftir Ragnar Bragason. Ég man bara ekki eftir íslenskri mynd sem nær að fanga íslenskan samtíma á jafn raunverulegan hátt. Ekki að ég viti hvernig er að vera handrukkari, einhverfur eða einstæð fjögurra barna móðir í fellunum. En ef aðstæður hefðu verið á þann veg í mínu lífi þá er ég viss um að þessi mynd sýni það í réttu ljósi.

Sérstaklega fannst mér karakterinn sem að Gísli Örn Garðarson lék frábær, en hann lék handrukkarann. Þá fannst mér tvö atriði með honum standa upp úr. Ég veit ekki hvort að ég sé e-ð sjúkur eða hvort að ég hafi bara unnið of lengi með börnum, eða hvort að þetta hafi bara raunverulega verið svona fyndið. En atriðin voru þessi:

1. Þegar að Gísli er að fylgjast með syni sínum á leið heim úr skóla og tveir fantar elta son hans uppi til að stríða honum. Geðsýkin í augunum á honum þegar hann kemur að þeim og grípur þá báða, er engri lík. Þetta var svo SJÚKT atriði að ég gat ekki annað en flissað vandræðalegum hlátri þegar að hann kýldi og nefbraut annan strákinn. "Sérðu vin þinn hérna. Heyrðiru hljóðið, heyrðiru hljóðið? Þetta var nefið á honum að brotna. Helduru að þetta hafi verið gott? Nei. Var þetta vont? Það blæðir svolítið mikið úr nefinu á þér"

2. Þegar að Gísli er að ná betra sambandi við son sinn og segir honum að mæta á æfingu hjá ÍR á morgun. Hann sé búinn að tala við þjálfarann og allt sé frágengið. Það bíði eftir honum skór og æfingagalli. Hann eigi bara að mæta klukkan 3 og það séu allir spenntir að fá hann. Svo þegar að strákurinn mætir daginn eftir og fer að tala við þjálfarann, þá er þjálfarinn nefbrotinn og með glóðurauga. Bara búið að redda málunum.

Í gær sá ég svo nýju þættina á RÚV, mannaveiðar. Mér finnst þeir bara lofa nokkuð góðu. Ég hef reyndar ekki lesið þessa bók sem þættirnir eru gerðir eftir en það skiptir varla máli. Skemmtilegir leikarar og bara helvíti vel skrifaðir þættir.

mánudagur, mars 24, 2008

Is it me eða er þetta alveg fáránlega orðað?

Tekið af visir.is í kvöld.

"Vísir ræddi við konu í kvöld sem segist vera eigandi hauskúpunar sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðan í gærkvöld. Konan, sem ekki vildi láta nafns síns getið, þvertók fyrir að eitthvað gruggugt væri við hauskúpuna eða við það hvernig hún komst í hennar hendur."

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég ged ekki orþa buntist

Afsakið stafsetninguna en Vala var að sýna mér umræðu á Barnalandi og ég varð fyrir svo gífurlegum áhrifum. Ég verð aldrei samur.
En ástæðan fyrir því að ég get ekki orþa buntist er hins vegar önnur. Á þessum tímum niðursveiflu í hagkerfinu er samt sem áður nóg framboð af skemmtiefni í samfélaginu. Það er ekki eins og við þessir "dæmigerðu" borgarar finnum mikið fyrir kreppu. Kreppa er ansi sterkt orð sem blöðin eru gjörn að sletta fram en þegar ég stend í kílómetralangri biðröð eftir síðustu mjókinni í borginni sem ég ætla að nota í grjónagrautinn sem á að endast út alla vikuna, þá er kreppa. En sú tíð er ekki gengin í garð. Annað sem segir mér að kreppa sé ekki gengin í garð er hversu gríðarlega mikið framboð er af góðum tónleikum um þessar mundir. Listinn er langur, Bob Dylan, John Fogerty, Rufus Wainwright og ég veit ekki hvað og hvað.
Tvennir tónleikar á þessum lista eru að mínu mati alveg stórfurðulegir. Ekki endilega vegna þeirra sem ætla að spila á tónleikunum heldur frekar fyrir rídigggíulös aðgangsverð. Hér er ég að ræða um tvenna tribjút tónleika, annars vegar Sgt. peppers og hins vegar Eagles.
Á þá fyrrnefndu kostar 8 - 9.000 krónur. Ég er mikill aðdáandi Bítlanna og var Sgt. Peppers í raun fyrsta platan sem virkilega kveikti í mér hvað þá varðar. Eins og flestir vita þá eru tveir af The fab four ekki lengur á meðal vor sem gerir það að verkum að ég mun aldrei fá að sjá þá taka þessi lög á tónleikum. Samt sem áður myndi ég aldrei nokkur tímann borga á milli 8 og 9 þús krónur til að sjá Sigurjón Brink eða Björgvin Halldórsson nauðga þessum lögum.
Á Eagles tónleikana kostar 5900 krónur. Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi The Eagles en á sama hátt og hér fyrir ofan. Ég myndi ekki borga þessa upphæð, einmitt til að sjá Sigurjón Brink eða Björgvin Halldórsson nauðga þessum lögum. Þeir eru einmitt báðir þátttakendur á báðum þessum tónleikum.
Hvernig dettur (með super ofur áherslu á orðið dettur) þessum skipuleggjendum að rukka þessar upphæðir? Frekar myndi ég nú borga mig inn á James Blunt. Sérstaklega ef BMV hitar upp og tekur ábreiðu af You´re beautiful á íslensku. Splendid.

Hvað er betra á skírdegi en vinkona okkar að syngja um Ken Lee

miðvikudagur, mars 19, 2008

Á bakvið nóturnar

Ég gerði mitt í tónlistarlegu uppeldi barnanna minna í dag, þegar ég sat með Nóa og horfði á Ac/Dc Behind the music. Nói var vel hrifinn af Hells bells og Highway to hell, allavega átti ég mjög erfitt með að slíta hann frá skjánum. Eftir svona tvö ár þá verður fastur fjölskylduliður á sunnudögum að horfa á Anthology seríuna með Bítlunum. Ef það er e-ð sem þarf að vera á hreinu í uppeldinu þá er það þetta. Mér er sama þó að hvorugt þeirra nenni að horfa með mér á fótbolta í framtíðinni en ef annaðhvort þeirra ákveður að rokktónlist sé djöfullegt fyrirbæri sem ber að útrýma og deleta allri tónlistinni minni úr tölvunni, þá hef ég brugðist.

En eitt sem vakti svakalega athygli áðan. Ég var að horfa á Vh1 Legends um hina frábæru, ástsælu hljómsveit Led Zeppelin sem alltaf vekur góðar minningar og fær mig til að vilja læra á trommur a la Bonzo. En allavega. Alla tíð hef ég og flestir sem ég þekki borið fram nafnið á laginu Dyer maker, bara svona eins og það er sagt. Dæer meiker. Þeir sem þekkja lagið þá er þetta eitt poppaðasta zeppelin lagið og alls ekki í uppáhaldi hjá svona hörðum aðdáendum, þetta er svona hálf reggí skotið lag. Í textanum er fjöldinn allur af ó-um. Ó Ó Ó Ó Ó you don´t have to go Ó Ó Ó Ó you don´t have to go Ó Ó ÓÓ Ó baby please please og svo framvegis. Í þættinum kom fram að þetta lag hafi verið óður til reggí tónlistar og í raun eigi að bera fram nafnið á laginu eins og Jamaica, bara hratt. Prufið endilega að segja þetta hratt. Sniðugt ekki satt?

mánudagur, mars 17, 2008

Músíktilraunamajones

Æ æ æ...ég ætlaði að vera svo sniðugur og skrifa svakalegan pistil sem ég er búinn að vera að kokka í hausnum á mér í allann dag. Ég fékk þessa pælingu í hausinn í dag hvað varðar músíktilraunir. Mér fannst í dag eins og keppnin væri varla skugginn af sjálfum sér, allavega miðað við þegar ég var ungur og sætur. Í þá daga voru sigurvegarar músíktilrauna hljómsveitir sem náðu að gera margar plötur og vöktu mikla hrifingu margar hverjar, fóru sumar hverjar í ferðalög til útlanda til að spila. Ég er hér að tala um tímabilið ´90 og þar í kring. Hljómsveitir eins og Infusoria, Yukatan, Maus, Kolrassa og Botnleðja og svo finnst mér bara botninn hafa dottið úr þessu (eða það var allavega pælingin áður en rannsóknarvinnan hófst). En svo hóf ég rannsóknarvinnuna fyrir skrifin (jebb google) og þá poppuðu upp þessar mjög svo þekktu hljómsveitir. Mínus(já þeir unnu), Jakóbínarína(hmmm gleymdi þeim), Stjörnukisi(einmitt), XXX rottweiler(ok stop), og Greifarnir (ehh glatað). Kannski er bara málið að þegar maður er ungur, með nægan tíma og sækir alla tónleika og er inní þessari jaðarmúsíksenu í Reykjavík, þá sannarlega heyrir maður og fréttir meira af þessum hljómsveitum. En í dag þá finnst mér eins og það verði ekkert úr mörgum af þessum sigurvegurum. Æji hvað er ég að bulla? Ég er nú bara að tala í hringi. Bottom line is i´m old and i´m fucked.

sunnudagur, mars 16, 2008

Gruggið

Um þessar mundir heldur Sálin hans Jóns míns upp á 20 ára starfsafmæli. Ég hef nú ekki verið mikill aðdáandi sveitarinnar í gegnum tíðina þó svo að ég geti alveg dillað mér við einstaka lagstúf. En forvitni leiddi mig til að skoða sögu hljómsveitarinnar á tónlist.is. Það er nokkuð merkilegt hvað hljómsveitin hefur gengið í gegnum miklar breytingar og mismunandi tímabil. T.d. byrjuðu þeir sem svona pjúra soulband í glansjökkum og alles. En þeir segjast nú sjálfir hafa fundið soundið sitt á sinni annarri plötu, Hvar er draumurinn? Án þess að ég ætli að rekja hér sögu Sálarinnar þá fannst mér bara svo fyndið hvað áhrif gruggsins(a.k.a. La Grunge) er að finna víða. Málið er nefnilega það að þegar að Sálin var á hátindi frægðarinnar árið 1992 gáfu þeir út plötu sem kom aðdáendum í opna skjöldu. En það var fjórða plata sveitarinnar og bar heitið Þessi þungu högg. Það sem vakti athygli var að meðlimir voru allt í einu komnir með sítt skítugt hár, gengu í köflóttum vinnubúðarskyrtum og voru almennt harðari í horn að taka en menn áttu að venjast. Mér finnst reyndar erfitt að ímynda mér Stefán Hilmarsson sem einhverskonar Bad ass. Ég sé hann aldrei fyrir mér sem Kurt Cobain Íslands, en maður skrifar víst ekki söguna eftir á.
Það er frekar fyndið að hlusta á tóndæmi frá þessari plötu en þetta er allt frekar gruggugt og þungt, sérstaklega miðað við Sálina hans Jóns míns. Og þrátt fyrir allt skítuga hárið þá syngur Stefán áfram eins og fermingardrengur. Þeir eru ágætir.

Í gær fór ég í algjört pylsupartí á gamla mátann. Sem var helvíti gaman þó svo að heilsan hafi ekki verið upp á sitt besta í dag. Comes around goes around. En drengirnir bentu mér á þessi tvö klipp sem mér finnst alveg frábær. Forsagan er sú að þessi Jimmy Kimmel er þáttastjórnandi í USA og annar helmingur The Man show. Hann hafði þann háttinn á að bjóða Matt Damon í viðtal til sín og tala svo ekkert við hann vegna "tímaskorts". Í þessu klippi heldur grínið áfram en Sarah Silverman, kærasta Jimmy´s, þarf að játa ákveðna hluti fyrir honum. Enjoy...ekki klikka á að horfa á bæði myndböndin. Snilld.

Fyrra...


Seinna...

laugardagur, mars 15, 2008

Ritdeilur og 5 ára bekkir

Það er tvennt sem stakk mig þegar ég renndi í gegnum fréttablaðið í morgun. Í fyrsta lagi er það þessi deila sem hefur komið upp á milli Bigga í maus og Bubba. Samkvæmt pistli í fréttablaðinu sem heitir "Góð og slæm vika" var Bigga haldið á lofti sem fórnarlambi og Bubbi sagður vera tuddi og ruddi sem væri að níðast á minnimáttar. Sko bara svona til að byrja með þá HATA ég svona Inni/úti, Heitt/kalt eða alla svona lista sem eiga að leiðbeina manni hvað sé í lagi og hvað sé ekki í lagi. Dæmi úr fréttablaðinu áðan: Á toppnum á heitt/inni listanum - stuttar strákaklippingar - nú verða allar aðalgellurnar að vera með klippingu eins og whatsherface bresk fyrirsæta.
En varðandi þessa deilu þá skil ég ekkert hvað Johnny King (who!) og Geir frændi eru að væla út í Bubba. Af hverju má hann ekki hafa þessa skoðun um Bigga. Ég meina Biggi í maus er sjúklega falskur söngvari, það er bara sannleikur. Það sem Biggi sagði aftur á móti um að Bubbi væri ekki mótandi afl í tónlistarsögunni heldur frekar svona svampur sem dregur allt í sig og hermir eftir öðrum, það finnst mér vera miklu verra. Og ég verð bara að segja við Bubba: Og djöfull er ég sammála þér með þennan Bigga í maus.
Hitt sem ég stakk mig var þessi hugmynd sem komin er upp að færa fimm ára bekki yfir í grunnskólana. Ég skil bara ekki hvað er verið að spá með þetta. Flestir, eða margir, skólar eru nú þegar að springa vegna aðstöðuleysis og á þá að fara að bæta við heilum árgangi í viðbót. Svo er auðvitað ekkert hugsað um frístundaheimilin og hvernig þau eiga að bregðast við þessari skyndilegu aukningu. Þetta má allavega skoða betur.

Ch...ch..ch..ch..changes

Það er orðið dágóð stund síðan að síðasta færsla leit dagsins ljós. Ég hef ekki haft hugmyndaflug í að skrifa eða segja frá einu né neinu þar sem að endalausar áhyggjur yfir lokaritgerðinni héngu yfir mér. En ég hef nýverið tekið ákvörðun um að fresta ritgerðinni fram á næsta haust. Ég hvort eð er útskrifast ekki fyrr en um næstu áramót og það er satt sem þeir segja, það er of mikið að vera í fullri vinnu og fullu námi...og með fjölskyldu. Þar af leiðandi get ég andað örlítið léttar þessa dagana og reynt að gera þau verkefni vel sem bíða mín.

En nú er tími stórra ákvarðana hjá fjölskyldunni að Hagamel 27 kjallari. Við höfum ákveðið, eftir langan tíma undir feldinum, að flytjast búferlum á suðurnesin. Nánar tiltekið á vallarheiði á gamla armí beisið. Helsta ástæðan fyrir því að við gerum þetta er að komast í stærra húsnæði fyrir minni pening. Það er óneitanlega skrýtin tilfinning að taka svona stórt skref og maður er með fiðring í maganum sem eykst bara því sem nær dregur.
Ég er búinn að segja upp í vinnunni en það var virkilega erfitt. Sérstaklega þar sem að ég er aðeins þriðja manneskjan til að gegna þessari stöðu og hef unnið lang lengst af þeim hópi. Þannig að það er erfitt að ganga frá borði eftir að hafa tekið þátt í að móta og byggja upp þetta starf í öll þessi ár. En ég hef ákveðið að snúa í leikskólageirann og leggst það bara nokkuð vel í mig. Svo verð ég líka að vinna á sama leikskóla og Matta og Nói verða á.

En talandi um börnin mín, þá átti nú að skíra drenginn um helgina. Loksins átti að ganga í málið og klára það sem hefur hangið yfir okkur í alla þessa mánuði. En þá kom í ljós að Matthildur er komin með hlaupabólu. Við neyðumst því til að fresta skírn í nokkrar vikur.

mánudagur, mars 03, 2008

Kúkurinn í lauginni

Um daginn fór ég í bað með bæði börnin í fyrsta sinn. Það var ákveðin upplifun út af fyrir sig og mínar baðvenjur fóru verulega úr skorðum í þetta skiptið (lesist: ég gat ekki lesið fréttablaðið). Þetta var stórskemmtileg baðferð og allir skemmtu sér vel. Nói staldraði stutt við en hann var nú ekkert að hata baðið. En þegar ég og Matta sátum eftir í makindum þá sneri ég mér að blaðinu og las um fréttir dagsins á meðan þreytan rann af mér. Matthildur sat og lék sér með baðdótið sitt og skemmti sér konunglega við að tæma úr dýra sjampóinu hennar mömmu. Þegar nokkuð var liðið á baðið þá segir Matta við mig. "Þarf að kúka". Ég lagði þá frá mér baðið og sagði "já þarftu að kúka" en þá sagði hún "nei búin að kúka". Þá hafði mín bara sleppt einum brúnum kafbát lausum í baðið. Það var skemmtilegt. Sérstaklega þar sem að það eina sem mér datt í hug að gera var að grípa barnið, standa upp og kalla á Völu. "Vala...hjálp".
Eitthvað virtist þessi sena öll hafa tekið sér bólfestu í huga Matthildar. Því að nokkrum dögum síðar vorum við að gæða okkur á grjónagraut í hádeginu með heitri lifrapylsu. Matthildur horfði vel og lengi á pylsuna og spurði svo mömmu sína "mamma, er þetta kúkur".


"Ó nei pabbi, Matta kúkaði í baðið" (mynd byggð á sannsögulegum atburðum)


Gamli kallinn


Matthildur öll létt á sér eftir baðið