laugardagur, mars 15, 2008

Ch...ch..ch..ch..changes

Það er orðið dágóð stund síðan að síðasta færsla leit dagsins ljós. Ég hef ekki haft hugmyndaflug í að skrifa eða segja frá einu né neinu þar sem að endalausar áhyggjur yfir lokaritgerðinni héngu yfir mér. En ég hef nýverið tekið ákvörðun um að fresta ritgerðinni fram á næsta haust. Ég hvort eð er útskrifast ekki fyrr en um næstu áramót og það er satt sem þeir segja, það er of mikið að vera í fullri vinnu og fullu námi...og með fjölskyldu. Þar af leiðandi get ég andað örlítið léttar þessa dagana og reynt að gera þau verkefni vel sem bíða mín.

En nú er tími stórra ákvarðana hjá fjölskyldunni að Hagamel 27 kjallari. Við höfum ákveðið, eftir langan tíma undir feldinum, að flytjast búferlum á suðurnesin. Nánar tiltekið á vallarheiði á gamla armí beisið. Helsta ástæðan fyrir því að við gerum þetta er að komast í stærra húsnæði fyrir minni pening. Það er óneitanlega skrýtin tilfinning að taka svona stórt skref og maður er með fiðring í maganum sem eykst bara því sem nær dregur.
Ég er búinn að segja upp í vinnunni en það var virkilega erfitt. Sérstaklega þar sem að ég er aðeins þriðja manneskjan til að gegna þessari stöðu og hef unnið lang lengst af þeim hópi. Þannig að það er erfitt að ganga frá borði eftir að hafa tekið þátt í að móta og byggja upp þetta starf í öll þessi ár. En ég hef ákveðið að snúa í leikskólageirann og leggst það bara nokkuð vel í mig. Svo verð ég líka að vinna á sama leikskóla og Matta og Nói verða á.

En talandi um börnin mín, þá átti nú að skíra drenginn um helgina. Loksins átti að ganga í málið og klára það sem hefur hangið yfir okkur í alla þessa mánuði. En þá kom í ljós að Matthildur er komin með hlaupabólu. Við neyðumst því til að fresta skírn í nokkrar vikur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home