miðvikudagur, mars 26, 2008

Börn

Í fyrrakvöld lágum við hjónin upp í rúmi og flatmöguðum eftir páskafríið. Frí sem einkenndist af veikindum barnanna og stöðugu áti. Áti sem á sér enga líka í mannkynssögunni. Fyrir utan gluggann hafði tunglið tekið öll völd og við hugleiddum að hætta þessari vitleysu og fara með börnin í kvöldgöngu um Ægissíðuna.
Já glætan.
Við köstuðum frekar upp á hvort okkar þyrfti að standa upp og ná í tölvuna og meira nammi. Videogláp og nammi, er til betri íþrótt en það?
Fyrir valinu varð mynd sem við áttum að hafa séð fyrir langa löngu en sumir bíógullmolar virðast stundum gleymast í framboðinu. Þessi gullmoli heitir Börn og er eftir Ragnar Bragason. Ég man bara ekki eftir íslenskri mynd sem nær að fanga íslenskan samtíma á jafn raunverulegan hátt. Ekki að ég viti hvernig er að vera handrukkari, einhverfur eða einstæð fjögurra barna móðir í fellunum. En ef aðstæður hefðu verið á þann veg í mínu lífi þá er ég viss um að þessi mynd sýni það í réttu ljósi.

Sérstaklega fannst mér karakterinn sem að Gísli Örn Garðarson lék frábær, en hann lék handrukkarann. Þá fannst mér tvö atriði með honum standa upp úr. Ég veit ekki hvort að ég sé e-ð sjúkur eða hvort að ég hafi bara unnið of lengi með börnum, eða hvort að þetta hafi bara raunverulega verið svona fyndið. En atriðin voru þessi:

1. Þegar að Gísli er að fylgjast með syni sínum á leið heim úr skóla og tveir fantar elta son hans uppi til að stríða honum. Geðsýkin í augunum á honum þegar hann kemur að þeim og grípur þá báða, er engri lík. Þetta var svo SJÚKT atriði að ég gat ekki annað en flissað vandræðalegum hlátri þegar að hann kýldi og nefbraut annan strákinn. "Sérðu vin þinn hérna. Heyrðiru hljóðið, heyrðiru hljóðið? Þetta var nefið á honum að brotna. Helduru að þetta hafi verið gott? Nei. Var þetta vont? Það blæðir svolítið mikið úr nefinu á þér"

2. Þegar að Gísli er að ná betra sambandi við son sinn og segir honum að mæta á æfingu hjá ÍR á morgun. Hann sé búinn að tala við þjálfarann og allt sé frágengið. Það bíði eftir honum skór og æfingagalli. Hann eigi bara að mæta klukkan 3 og það séu allir spenntir að fá hann. Svo þegar að strákurinn mætir daginn eftir og fer að tala við þjálfarann, þá er þjálfarinn nefbrotinn og með glóðurauga. Bara búið að redda málunum.

Í gær sá ég svo nýju þættina á RÚV, mannaveiðar. Mér finnst þeir bara lofa nokkuð góðu. Ég hef reyndar ekki lesið þessa bók sem þættirnir eru gerðir eftir en það skiptir varla máli. Skemmtilegir leikarar og bara helvíti vel skrifaðir þættir.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Magnað!

Við Guðrún vorum einmitt að letihrúgast heima í gær og ég sendur að sækja nammi. Við enduðum svo, fyrir hálfgerða tilviljun, á því að horfa á....Börn!

Hefðir getað verið að lýsa okkur eins og þú hefðir legið á glugganum.

En já, frábær mynd í alla staði!

KT

1:19 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Vá hvað ég er ekki sammála þér um þessa mynd - ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með hana og eins "Foreldra" var ekki að fíla hana heldur ;)
En svona er smekkur manna misjafn sem betur fer hehehe.

Góða helgi þið öll.
kv.M

10:22 e.h.  
Blogger Óli said...

Kiddi: He he já þetta ER alveg magnað. Þvílík tilviljun.

María: Ég er svo sem sammála þér með Foreldra eða kannski þarf ég bara að sjá hana aftur. En þú verður greinilega að horfa á Börn aftur ; )

10:51 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home