þriðjudagur, maí 29, 2007

Vonbrigði

Þegar ég var svona 6 eða 7 ára gamall þá átti ég heima í Teigaseli í breiðholti. Lífið var í blóma og ég var að ganga fyrstu skrefin á menntaveginum í Ölduselskóla. Teigaselið er hluti af blokkareiningum sem mynda eina kommúnistalega heild, ýmist í bláum eða rauðum lit. Æskuminningar mínar þaðan eru góðar og alltaf var nóg af krökkum til að leika sér við í svona kommahverfi.

Einn góðan veðurdag þegar ég var búinn í skólanum, bauð vinur minn mér að koma heim til sín þar sem að hann átti Star Wars 2 á spólu. Þetta var að sjálfsögðu fyrir tíma internetsins, videoleiga og stöðvar 2. Nýjustu myndirnar voru ekki á hverju strái og svo var ekkert sjónvarp á fimmtudögum! Þar af leiðandi greip ég tækifærið spenntur og hljóp heim til að spyrja mömmu hvort að ég mætti ekki fara. Hún játti það og ég gekk af stað. Vinur minn, sem ég man reyndar ekki hvað heitir í dag, átti heima í blokkum hinum megin í kommahverfinu. Ætli það sé ekki svona 500 metra labb en í þá daga þótti það ansi langur gangur. Sérstaklega í ljósi þess að í kommahverfinu ólust upp strákar sem í mínum huga voru synir Satans. Maður vissi sko aldrei hvenær eða hvar maður gæti rekist á þá.

En fyrir Star Wars þá lagði ég mikið á mig. Ég gekk því hröðum skrefum fram hjá Teigakjöri og að blokkinni sem vinur minn átti heima í. Ég dinglaði á bjölluna og hljóp eins og fætur toguðu upp tröppurnar. Hurðin opnaðist inn í íbúðina og ég tók eitt stökk, fór úr skónum í loftinu og renndi mér á hnjánum inn í íbúðina. Vinur minn tók á móti mér og sagði "Hæ, hún er að spólast tilbaka".

Ég leitaði að videotækinu inn í stofu en sá ekkert í fljótu bragði. Vinur minn kallaði á mig úr stofunni og sagði mér að koma inn í herbergi. Mér til mikillar mæðu sat hann fyrir framan lítið kassettutæki og beið eftir að SPÓLAN spólaðist tilbaka. Hann var sem sagt að meina að hann ætti Star Wars 2 á kassettu. Bara hljóðið!

Eins og ég sagði áðan þá voru þetta mikil vonbrigði og ég hugsa um þetta enn í dag. Skrýtið hvað maður man og skrýtið líka hvað tímarnir hafa breyst.

mánudagur, maí 28, 2007

Tilfinningaklám

Ég ákvað að bæta við tenglalistann hjá mér kvennó97 síðunni og svo að sjálfsögðu hana Ösp United aðdáenda og bakarrosagóðasúkklaðikökustúlku með meiru.

En í kvöld skelltum við Gerður okkur í nýja sófann með pizzu, kók og frábærar DVD við höndina. Ég er bara ekki frá því að þetta nýja sófasett sé besta fjárfesting sem við höfum farið í. Þetta er svona sófi sem maður stendur ekkert upp úr aftur. Fullkomið fyrir mann eins og mig sem er með sigg á rassinum og kassalaga augu af 30 ára ofglápi á sjónvarp. Myndirnar sem við leigðum okkur í kvöld voru sko ekki af verri endanum.

Í fyrsta lagi Babel. Persónulega fannst mér fyrri myndir þessa leikstjóra mjög góðar og þá sérstaklega 21 grams. Ég held að ég þurfi bara að horfa á Amores perros aftur. Babel er byggð upp á svipaðan hátt og hinar tvær, nokkrar sögur samfléttaðar og eitthvað eitt sem tengir þær saman.
Maður þarf klárlega að vera í ákveðnu stuði fyrir svona myndir þar sem að leikstjórinn er ekkert að sykra umfjöllunarefnið, þessu er bara skellt á diskinn eins og þetta er.

Ég vill nú ekkert fara að gefa of mikið upp varðandi söguþráðinn en fyrir þá sem ekki vita þá eru Brad Pitt og Edward Norton sami maðurinn. Þeir eru báðir Tyler Durden. Það kemur reyndar fram í endann, rétt áður en byggingarnar byrja að springa. En það er önnur saga.

Hin myndin sem við tókum heitir Everything is illuminatied og skartar hobbitanum honum Elijha Wood í aðalhlutverki (Þið verðið að afsaka ég nenni ekki að kanna hvernig þetta er stafað allt saman.) Ég horfði reyndar ekkert á hana en Gerður byrjaði að horfa á hana í tölvunni. Hún gafst upp á Babel, eins og sést þá er þetta ekki fyrir alla! Hún sagði að ég væri háður tilfinningaklámi eins og í þessari mynd og Million dollar baby.
Stundum held ég að ég sé konan í þessu sambandi?

sunnudagur, maí 27, 2007

Endurfagnaður

Jesus. Djöfull er Million dollar baby ROSALEGA góð, en niðurdrepandi mynd. Ég sat hérna niðursokkinn í myndina með tárin í augunum á meðan Valgerður svæfði barnið.

Nú er ég hættur að blogga um fótbolta. Ég held að það sé of mikið hitamál fyrir mig til að tjá mig um á opinberum vettvangi. Svo held ég að flestum finnist leiðinlegt að lesa um fótbolta.

En um daginn benti stórvinur minn hann Garðar mér á að búið væri að gera bloggsíðu vegna 10 ára útskriftarafmælis okkar frá Kvennó. Fyrst þegar ég heyrði þetta þá þurfti ég nokkrar mínútur, svona rétt til að átta mig. Mér leið eins og ég hefði fengið kalda vatnsgusu í andlitið. 10 ár? Getur það verið? Er áratugur síðan ég útskrifaðist? How old am i again?
Þegar ég var búinn að ná áttum og telja nokkrum sinnum í huganum þá áttaði ég mig á því að þetta var rétt. Bloggsíðan er sem sagt www.kvenno97.blogspot.com. Það verður örugglega gaman að hitta alla aftur eftir öll þessi ár. Þó svo að ég hafi nú ekki verið sá mest áberandi á þessum árum. Og eiginlega bara gengið með veggjum.

Um daginn var ég að velta því fyrir mér hvað það er margt í þessum heimi sem ég kann ekki að meta en aðrir virðast elska. Ég ákvað að taka saman lista.

* Af tónlist er það helst Lay Low, Tool, Incubus og Muse. Ég hef nú fílað einstaka lag með Muse, en restin finnst mér rusl.

* Af bókum og sjónvarpsefni er það helst Harry Potter (segi þetta þó svo að konan mín sé Fan#1), Star Trek, Pirates of the Caribean og Spaugstofan.

* Af mat er það helst Kaffi, Viskí, Lambalæri og að drekka léttvín með mat.

Svona er þetta nú, smekkur manna er misjafn og þetta er minn. Af öðru er það að frétta að við Valgerður höfum ákveðið að drífa nú loksins í því að klára þessa blessuðu íbúð okkar. Það er nú liðið rúmt ár síðan við fluttum inn og út af einhverri ástæðu eru öll herbergin hálfkláruð.
Hluti af þessum framkvæmdum er að endurskipuleggja. Við ákváðum að skella okkur á sófasett sem við sáum á góðum prís á barnalandi (!hvar annars staðar!). Þar af leiðandi ætlum við að selja leðursófann út Tekk. Ef einhver hefur áhuga þá selst hann á um 50.000 þús. Hann lítur svona út.



Áhugasamir hringja bara í mig. Kommentið ef ykkur vantar númerið.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Eilítið um leikinn.

Ég verð nú aðeins að tjá mig um þennan leik. Í fyrsta lagi vil ég óska Völu minni til hamingju með að spá rétt fyrir um úrslitin. Í öðru lagi vil ég óska vinum mínum þeim Valtý Birni og Garðari Guðjónssyni til hamingju með sigur Milan í meistaradeildinni í ár. Ég veit að þeir hafa verið stoltir að sjá sína menn í kvöld, sérstaklega Pippo litla sem lá eins og sært lamb eftir að hafa fengið boltann í mallann sinn. Ég beið bara eftir að hann myndi dansa um á pungbindinu eins og vinur hans Angelo De Livio hjá Juventus gerði hér um árið sælla minninga.

En nóg af hamingjuóskum til Milan aðdáenda.

Mér fannst margt skrýtið í þessum leik, þó svo að mér sé alveg sama hver vann. Ég er alls enginn Liverpool maður en það er þó gaman að segja frá því að ég hélt með báðum þessum liðum þegar ég var ungur og vitlaus og Wham var á toppnum. En varðandi þennan leik þá fannst mér dómgæslan vera frekar ítölsk. Það voru nokkur vafaatriði sem féllu með Milan sérstaklega hvað varðar sóknarbrot Liverpool og mörg svona 50/50 atriði. T.d. var Pennant keyrður niður án þess að nokkur maður hafi komið við boltann og ekkert dæmt. En furðulegast af öllu fannst mér að dómarinn hafi einungis bætt við 3 mínútum og svo flautað leikinn af þegar a.m.k. hálf mínúta var eftir.
Í svona leikjum skiptir hver sekúnda máli og ég tala nú ekki um þegar markamunurinn er aðeins eitt mark.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að Liverpool hafi einfaldlega ekki nýtt færin sín nógu og vel. Ég held líka að Benitez hefði fyrir löngu átt að bæta við í sóknina og svo að lokum þá fannst mér þeir bara ekki vera nógu og hungraðir í þetta.

Ætli Milan séu ekki verðugir sigurvegarar í þessum annars frekar daufa leik. Til hamingju Milan og félagar og ég vona Garðars vegna að Sýn kaupi réttinn af ítölsku deildinni á næsta ári. Maður verður nú að fylgjast með sínu liði.

AC Milan - Liverpool



Úrslitaleikurinn er að byrja eftir nokkrar mínútur. Þó að margir af mínum félagsbræðrum úr United kjósi að halda með Milan þá hef ég ákveðið að halda með Liverpool í þessum leik. Ég hef alltaf og mun alltaf halda með enskum liðum í evrópu. Kannski fyrir utan Chealsea, Arsenal og Tottenham. Að auki á ég mjög erfitt með að halda með ítölskum liðum þó að Milan sé auðvitað mjög vel spilandi lið.

En allavega spáin mín í kvöld er

AC Milan 2 - 3 Liverpool

Ég held að þetta endi 2 - 2 og fari í framlengingu þar sem að Liverpool taki þetta.

Hey!!



Næst síðasta djammið mitt fram að fæðingu fór fram daginn fyrir afmælið hennar mömmu. Þá hittumst við úr vinnunni og borðuðum saman dýrindis mat, sem ég reyndar missti af. Ásamt því að borða var slegið saman í púkk og keypt rommflaska. Henni var svo blandað í einhvern ógeðisdrykk sem heitir móhító. Hann var reyndar ekkert ógeðslegur, reyndar var hann mjög góður, sennilega of góður. Því að nokkrum klukkustundum síðar var ég staddur í bænum dansandi af mér rassgatið á bar 11.
Og nú kemur að því merkilega.

Út af einhverri ástæðu þurfti ég að hlaupa yfir á Prikið og svo aftur tilbaka á bar 11. Á leiðinni tilbaka hljóp ég inn í par sem gekk niður laugaveginn. Þegar mér varð litið á gaurinn sá ég að þetta var stórvinur minn hann Christopher Moltisanti úr Sopranos. Mér brá svo svakalega þar sem að í mínum huga var þarna staddur vinur minn til margra ára sem ég hafði ekki talað við lengi. Þó svo að hann þekkti mig ekkert. En það eina sem mér datt í hug að gera var að rífa í öxlina á honum og öskra "Hey!!".
Ekki spyrja um Tony eða biðja um eiginhandaráritun. Hey.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Með sumrinu kemur letin (bloggletin þ.e.a.s.)

Það er engin afsökun önnur en sumarleti fyrir því hvað það er langt síðan ég bloggaði síðast. Þegar sólin er hátt á lofti þá sofnar heilinn á mér alveg. Þ.a.l. hef ég ekkert að blogga um. En núna er svo svakalega margt búið að gerast að ég verð að láta aðeins í mér heyra.

Stjórnin fallin? Á maður ekki að segja það, svona hálfpartinn allavega. Vei vei vei ó vei!!! Samt e-ð kjánalegt að horfa á Ingibjörgu Sólrúnu í sjónvarpinu með þetta fasta bros á sér. Manneskja sem hefur verið eins og steinn í framan í 15 ár. Það er líka naumast hvað allir verða vinir fljótt í pólitíkinni. Geir og hún bara í kossaflensi á Þingvöllum í dag. Ég bjóst nú ekki við að þetta yrði svona jolly cola allt saman, en það er nú nóg eftir að tala um. Sjáum hvað setur.

Mamma var 50 ára um daginn. Meira að segja á kosningadaginn sjálfan. Til hamingju með þetta allt saman mamma mín. Frábær veisla, fullt af fólki, mat og áfengi. Sem ég drakk að mestu sjálfur. Gerði varla annað en að rífast við fjölskylduna um pólitík. Sem ég geri ALDREI. Þarna voru bara samankomnir of margir sjálftæðismenn á einum stað. Ég varð bara að segja e-ð. Fjölskyldan mín = sjálfstæðismenn og KR-ingar. What the fuck. Ljósmæðurnar e-ð að ruglast í desember ´77?

Á þessum merka degi sem var evróvisíón, kosningar og afmæli móður, var líka minn síðasti drykkjudagur fram að fæðingu. Við Valgerður gerðum með okkur þetta samkomulag, þó að ég hafi ekkert komið nálægt því. Djók.
En staðan á meðgöngunni er nú bara þannig að allt gæti gerst. Þá held ég að það sé nú betra að vera allsgáður og keyrandi, heldur en að vera pissublautur í miðbænum að borða pulsu. Vala verður líka að passa upp á sig, hún má ekkert gera eiginlega. Og því verð ég nú að vera henni innan handar með barnið og fleira. Sem sagt ábyrgi heimilisfaðirinn í sumar. EN ÞÓ alveg til í að koma í partý.

Að lokum vil ég þakka fyrir öll góðu ráðin við beinhimnubólgu í kommentunum. Þau virkuðu öll mjög vel. Sérstaklega það sem Bibban sagði. Ég legg ekki alveg í þetta nudd sem Helga var að tala um. Jíbes.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Sárþjáður en ekki holdsveikur

Um daginn var ég kominn með ógeð af eigin leti og fitu. Ég ákvað að byrja í skokkátaki. Ég hef aldrei skokkað áður og hélt að það væri svo leiðinlegt. En þökk sé ipod þá er bara nokkuð gaman að skokka um Ægisíðuna.

En eins og svo oft áður með mig þá byrjaði ég allt of geist. Ég skokkaði út í Nauthólsvík og tilbaka fjóra daga í röð. Fimmta daginn fann ég fyrir miklum sársauka framan á sköflungnum í hvert sinn sem steig í lappirnar. Hún Vala mín var fljót að greina meinið og sagði þar væri beinhimnubólga á ferð. Það er einhver viðbjóður sem hægt er að lesa sér til um á doktor.is.

Allavega samkvæmt því ætti ég að hvíla mig í 2 - 4 vikur og passa vel upp á mig. Það er vægast sagt erfitt þegar maður er kominn í þennan gír. Ég ákvað því að prufa í gær að skokka stuttan hring og það gekk ágætlega (viku eftir fyrstu einkenni). Í kvöld hljóp ég svo annan og lengri hring sem gekk ekki jafn vel. Nú eru verkirnir komnir aftur og ég alveg sárþjáður.

Í huganum gæti ég hlupið maraþon og barist 10 lotur við heimsmeistarann í þungavigt, en líkaminn segir "Sestu á sófann og hvíldu þig. Face it man, your old and fat."

En þó ég sé sárþjáður þá er ég sannarlega ekki holdsveikur. Það mætti samt halda að verðandi faðir sé sama og holdsveikur. Því um helgina gerðist það í annað sinn á stuttum tíma að vinir mínir fóru að djamma og hringdu EKKI í mig. Þeir ákváðu bara að ég hefði ekki áhuga á slíkri iðju, þar sem að ég á von á barni.

Einu gleðitíðindin þessa dagana er að MAN UTD. eru MEISTARAR og svo eigum við auðvitað von á barni.

Feitur í fýlu kveður.