þriðjudagur, maí 29, 2007

Vonbrigði

Þegar ég var svona 6 eða 7 ára gamall þá átti ég heima í Teigaseli í breiðholti. Lífið var í blóma og ég var að ganga fyrstu skrefin á menntaveginum í Ölduselskóla. Teigaselið er hluti af blokkareiningum sem mynda eina kommúnistalega heild, ýmist í bláum eða rauðum lit. Æskuminningar mínar þaðan eru góðar og alltaf var nóg af krökkum til að leika sér við í svona kommahverfi.

Einn góðan veðurdag þegar ég var búinn í skólanum, bauð vinur minn mér að koma heim til sín þar sem að hann átti Star Wars 2 á spólu. Þetta var að sjálfsögðu fyrir tíma internetsins, videoleiga og stöðvar 2. Nýjustu myndirnar voru ekki á hverju strái og svo var ekkert sjónvarp á fimmtudögum! Þar af leiðandi greip ég tækifærið spenntur og hljóp heim til að spyrja mömmu hvort að ég mætti ekki fara. Hún játti það og ég gekk af stað. Vinur minn, sem ég man reyndar ekki hvað heitir í dag, átti heima í blokkum hinum megin í kommahverfinu. Ætli það sé ekki svona 500 metra labb en í þá daga þótti það ansi langur gangur. Sérstaklega í ljósi þess að í kommahverfinu ólust upp strákar sem í mínum huga voru synir Satans. Maður vissi sko aldrei hvenær eða hvar maður gæti rekist á þá.

En fyrir Star Wars þá lagði ég mikið á mig. Ég gekk því hröðum skrefum fram hjá Teigakjöri og að blokkinni sem vinur minn átti heima í. Ég dinglaði á bjölluna og hljóp eins og fætur toguðu upp tröppurnar. Hurðin opnaðist inn í íbúðina og ég tók eitt stökk, fór úr skónum í loftinu og renndi mér á hnjánum inn í íbúðina. Vinur minn tók á móti mér og sagði "Hæ, hún er að spólast tilbaka".

Ég leitaði að videotækinu inn í stofu en sá ekkert í fljótu bragði. Vinur minn kallaði á mig úr stofunni og sagði mér að koma inn í herbergi. Mér til mikillar mæðu sat hann fyrir framan lítið kassettutæki og beið eftir að SPÓLAN spólaðist tilbaka. Hann var sem sagt að meina að hann ætti Star Wars 2 á kassettu. Bara hljóðið!

Eins og ég sagði áðan þá voru þetta mikil vonbrigði og ég hugsa um þetta enn í dag. Skrýtið hvað maður man og skrýtið líka hvað tímarnir hafa breyst.

4 Comments:

Blogger grojbalav said...

LMAO! Þetta er snilld.
Útvarpsleikritið StarWars í kassetutæki hamingjusamasta drengs í gettóinu.
LUKE....I AM YOUR.... (snúa kassettu við) ....(suð í 3 mín)......YOUR FATHER....

Ég vona svo innilega að vinurinn lesi þetta og kætist með:D

12:31 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Snilldar færsla!

Ég var ca. 9 ára og átti heima á Ísafirði. Nágranni minn í blokkinni átti Star Wars á spólu. Einfalt en spennandi líf!

KT!

11:07 e.h.  
Blogger Ásta said...

Haha, frábært! Þvílík vonbrigði, hihihihi:-) LOL
Af hverju var maður annars alltaf svona hræddur við eldri strákana??

9:03 e.h.  
Blogger Óli said...

Takk fyrir þetta gott fólk.

11:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home