þriðjudagur, febrúar 26, 2008

lestrarhestur

Í kvöld var ég að keyra í Nóatún að kaupa í matinn og sá mann á gangi. Kannski ætti ég að segja ungan mann eða dreng. Allavega þá var hann sennilega rúmlega tvítugur og leit út eins og þessi týpíski indý hugsuður kaupi fötin í hjálpræðishernum vinn helst með börnum eða fötluðum hlusta eingöngu á tónlist sem enginn hefur heyrt um borða grænmetisfæði hangi á kaffihúsum sem eru svo inn að aðeins nokkrir útvaldir hafa uppgvötað semur ljóð finnst peningahyggjan ógeðsleg stundar nám í heimspeki var í MH hatar sjónvarp les rússneskar bókmenntir dreymir um París á sumrin týpa. Og nú vill ég ekki vera fordómafullur.
En það sem vakti athygli mína á þessum manni, fyrir utan það augljósa hér að ofan, var að hann var að lesa. Gangandi. Ég meina hvað er málið?
Hversu djúpt sokkinn þarftu að vera í nýjustu bókina hans Gyrðis Elíassonar til að lesa hana gangandi út á götu? Ég bara spyr. Eða kannski er ég bara að missa þolinmæðina á mannkyninu. Kannski þarf ég bara að halda niður í mér andanum þangað til í vor þegar skólinn er búinn og ég fer í sumarfrí. Gasp...

mánudagur, febrúar 25, 2008

Plís. Ekki hrista kynfærin þín á röngum stað

Um daginn las ég í 24 stundum að prófessor frá Ísrael var mjög reiður út í samfélag homma og lesbía þar í landi. Ástandið var orðið frekar slæmt þar sem að óvenju margir jarðskjálftar höfðu skollið á landið og nágrenni. Honum var nóg boðið og sá enga aðra leið en að koma fram í fjölmiðlum og minna fólk á gamla máltækið. "Ef þú hristir kynfærin þín á röngum stað þá mun Guð hrista jörðina". Spennandi að sjá hvað gerist kvöldið sem Eurovision verður haldið.
"Stærsti jarðskjálfti sögunnar reið yfir Serbíu, Frómas sigurvegari. Allir hinir dauðir. "Þeir fiska sem fróa" segir Frómas í búnkukremsgeðshræringu".

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Long and hard is the road out of hell..

...en stígurinn í Hljómaskálagarðinum er mjög þægilegur til göngu á svölum vetrarkvöldum. Og þegar ég gekk áleiðis á Hagamelinn til að hitta ungfrúna góðu og börnin varð mér hugsað um almenningsgarða. Sérstaklega þá sem eru grænir allt árið um kring í konungsins Kaupmannahöfn. Það sem greinir lystigarðana þar í landi frá þeim sem við eigum í Reykjavík eru girðingar. Að mig minnir stórar múrgirðingar með hliði. Í Reykjavík eru ekki margir almenningsgarðar ef svo mætti kalla þá. Mér dettur helst í hug áðurnefndur Hljómaskálagarður, Klambratún, Laugardalurinn og sennilega fleiri sem ég man ekki eftir.
Bæði Hljómskála- og Klambratún henta að mínu mati best sem þessir dæmigerðu fjölskyldu og vina almenningsgarðar. Einmitt líkt og þeir í Danmörku. En það sem gerir þessa tvo garða svo sérstaka er að þeir eru báðir umkringdir miklum umferðarþunga. Sem aftur gerir það að verkum að erfitt er að komast í góðan fíling með teppi, FHM og bjór á þeim þremur dögum ársins sem hitastigið er hærra en 18 gráður á celsíus í Reykjavík. Maður getur heldur ekki slappað af með börnin þegar 500 bílar þjóta hjá á 100 km hraða í nokkra metra fjarlægð.
Þá kemur pælingin. Af hverju eru þessir garðar (hann átti afmæli í gær - til hamingju gamli minn) ekki girtir af? Væri ekki skemmtilegri stemmning ef fólk gæti farið með börnin sín í stóran afgirtan garð þar sem allir væru öryggir? Bara pæling.

Lost og glæpur

Þegar ég og Valgerður fórum að stinga saman nefjum áttum við það til að vaka heilu og hálfu næturnar og ræða um lífið og tilveruna. Ef við vorum ekki að ræða um það þá vorum við iðulega að glápa á Lost. Þættirnir um strandaglópana vöktu upp ýmsar spurningar þá sem þó aldrei fengust svör við, en alltaf hélt maður áfram að glápa. Nú erum við búin að vera saman í þrjú ár (og eigum tvö börn, annað tveggja og hálfs árs - how is this possible) og við erum ennþá að brjóta heilann um hvað sé nú í fjandanum að gerast í Lost. Sería 4 er nú byrjuð og þó að fyrstu þrír þættirnir hafi sannarlega svarað nokkrum spurningum þá er því ekki að neita að þeir hafa vakið upp ýmsar aðrar spurningar. Og sú sem kemur oftast upp í hugann á mér er þessi:
Hvernig í andskotanum geta framleiðendur Lost sofið á nóttinni og haldið áfram að kvelja fólk með þessum endalausu lopateygjum og leynimakki?
Þeir mega nú eiga það að þetta er alltaf jafn helvíti spennandi. En það sem er líka mjög spennandi eru þættirnir góðu Forebrrrelza eller pá islansk glæpurinn. Nú er ég búinn að vera að deyja úr spennu á hverjum sunnudegi og á næsta sunnudag er lokaþátturinn. Og nú er ég alveg hættur að geta um hver er morðinginn. Ég held að ég sé búinn að benda á alla í þættinum á einum eða öðrum tíðspunkti. Er það lögreglustjórinn eða er það Hartman eftir allt saman eða kemur Kim Larsen fram í lokaþættinum og viðurkennir allt? Það er ómögulegt að segja til um, en það er eins með þessa þætti og Lost að framleiðendur verða að enda þetta á svaðalegan hátt ef maður á ekki að hata þá fyrir spennufallið.

Ok ok nú verð ég að bæta við svona eftir á. Ég sver ég sver ég sver að ég var ekki búinn að lesa færsluna hjá Völu frá því í gær. Please tjékk it out and don´t freak out.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Nýjar myndir og gamlir kennarar


Fallegu börnin og fótógeníski föðurinn


Nói strax byrjaður að lesa


Prinsessan á heimilinu


Flott skegg? Vala sagði nei!

Á stuttu millibili hef ég hitt tvo af umsjónarkennurum mínum frá sokkabandsárunum í æfingaskólanum (a.k.a. Háteigsskóla). Í fyrsta lagi rakst ég á Sigrúnu sem kenndi okkur í b bekknum í mörg ár. Hún er að vinna á frístundaheimilinu í Melaskóla og var gaman að rekast á hana. Hún sat og horfði á þegar ég þurfti að halda klukkutíma ræðu fyrir fullum sal af fólki. En hún kom eftir á og hrósaði mér. Mér þótti mjög vænt um það og mér leið alveg eins og ég hefði munað allan textann minn í skólaleikriti í átta ára bekk. Og kennarinn hrósaði mér.
Svo í dag hitti ég Ingibjörgu sem kenndi okkur í b bekknum í gegnum gagnfræðibekkina. Hún starfar núna fyrir leikskóla Garðabæjar þar sem hún rannsakar málþroska barna og á meðal annars heiðurinn af málþroskaprófinu Hljóm-2 sem er nokkuð magnað. En alveg eins og Sigrún þá hefur Ingibjörg eitthvað tak í mér. Hún kom að mér í dag þegar ég var að tala við nokkur börn og lagði hendina á öxlina á mér og sagði "HARD ROCK CAFÉ!" (Nei þetta var prívat skot fyrir gamla skólafélaga). Hún lagði reyndar hendina fast á öxlina á mér og sagði "Ólafur Brynjar, talaðu hægar!" Þetta hitti mig beint í eistun, þar sem ég er alveg einstaklega meðvitaður um óskýran talsmáta minn. Ég fór strax að biðja hana um ráð til að læra að tala skýrt og skiljanlega. Hún sagði mér að tala hægt og ég ætti að gefa mér tíma til að láta öll hljóð í orðinu heyrast. "Alveg eins og söngvarar gera" sagði hún. Og nú reyni ég að gefa mér tíma til að hugsa um setningar áður en ég segi þær og passa að láta allt orðið koma skýrt fram. Ég er alveg kominn með nóg af því að sjá svipinn á fólki þegar ég er að tala við það. Fólk verður alltaf svo spyrjandi á svipinn þar sem það skilur oftast ekki hvað mín hálflamaða tunga er að segja. T.d. þegar sumir héldu að ég væri að læra vistafræði þegar orðið átti að vera viÐSKIPTAfræði. Prufið bara að segja þetta hratt.

Snorricam



Um daginn var ég að skoða stórskemmtilega síðu þeirra snorrabræðra www.snorribros.com. En það er heimasíða þeirra Einars og Eiðs Snorra, sem eru semi celeb hér á landi fyrir ýmislegt tengt ljós- og kvikmyndun. Til að mynda leikstýrðu þeir myndbandinu við REM lagið Daysleeper sem er reyndar alveg hundleiðinlegt lag. Svo gerðu þeir líka Kaffibarsmyndaseríuna skemmtilegu sem á nú að gefa út í bókarformi. Magnað hvað þær myndir virðast ná tíðarandanum þarna á gruggtímabilinu. En anywhooooos. Á síðunni þeirra rakst ég á þá staðreynd að myndataka eins og myndbandið hér að ofan sýnir heitir í höfuðið á þeim. Snorricam. Is that not amazing. Samt sem áður er torskiljanlegt að þeir voru nú ekki þeir fyrstu sem notuðu þessa tækni, en þeir hafa verið svo sniðugir að skíra þetta í höfuðið á sjálfum sér. Ísland best í heimi.

laugardagur, febrúar 16, 2008

Fréttir

Það var svo margt áhugavert í blaðinu um helgina.

Jón Ásgeir varpaði sprengju í viðtali við markaðinn þar sem hann segir stöðu bankanna vera mun verri en talað sé um. Hann vill meina að bankarnir muni hefja uppsagnir á næstu 12 mánuðum og miðað við skuldastöðu þeirra séu þeir nánast gjaldþrota. Einn vinnufélagi minn sagði mér um daginn að skuldir bankanna væru svo yfirgengilegar að það er engu lagi líkt. T.d. eru skuldir Glitnis í kringum þrjú þúsund milljarðar og hinir bankarnir skulda saman í kringum tvö þúsund milljarða. Ef maður spáir aðeins í þessar tölur þá hlýtur það að liggja í augum uppi að e-ð gæti farið að bresta.

Í söguhorninu kom fram að Maó faðir Kína hafi eitt sinn boðið Henry Kissinger frv. utanríkisráðherra USA 10 milljón kínverskar konur. Ekki kom almennilega fram í hvers konar samningaviðræðum þeir voru en þetta hlýtur að hafa verið óvænt útspil. Maður ímyndar sér þegar tvö risaveldi sitja við samningaborðið að helst sé verið að semja um milliríkjaviðskipti eða einhverskonar skiptidíla. Kannski er verið að semja um vopn frá einu landi til annars í skiptum fyrir aðgang að náttúruauðlindum.

Kissinger: "Við erum tilbúnir að flytja eingöngu inn hrísgrjón frá Ben frænda ykkar."

Maó: "Ah það er gott, Ben frændi verður glaður. Á móti viljum við leyfa stórum bandarískum fyrirtækjum að opna verksmiðjur í Kína og nota ungviðið okkar sem vinnuafl. Helst viljum við sjá um alla framleiðslu á litlu plasdóti með óeðlilega stuttan endingartíma"

Kissinger: Mjög gott, mjög gott. Þar sem að þið eruð svona rausnarleg þjóð þá munum við hvetja kvikmyndaframleiðendur í Hollywoood til að gera Bruce Lee að ofurstjörnu. Eftir að hann deyr og verður frægasti kínverji allra tíma í kjölfarið, fyrir utan þig pabbi Kína, þá munu þeir uppgvöta nýja kínverska hasarhetju á nokkra ára fresti."

Maó: Ohhh gott gott gott. Ég vissi að USA væri stórveldi, en svona rausnarlegu boði bjóst ég ekki við. Ég bjóst ekki við að þurfa að nota helsta trompið mitt en hr. Kissinger þú neyðir mig til þess. Ég vil bjóða þér það besta sem Kína hefur upp á að bjóða. Við erum svo heppnir að við eigum ofgnótt af þessu og getum deilt því með vinaþjóð okkar nr. 1.

Kissinger: hmm spennandi.

Maó: Hvað viljið þið magrar? 100 þúsund, milljón, 10 milljónir. ok 10 milljónir kínverskra kvenna. Við sendum þær til ykkar með skipum á næstu 40 árum.

En úr einni steypu í aðra. Ég skil nú ekki mikið í þessum tillögum að byggð í vatnsmýrinni. Ég er ekki búinn að fara og skoða líkanið með eigin augum en yfirlitsmyndirnar í Fréttablaðinu voru frekar torskilnar. Hljómaskálagarðurinn virtist vera stækkaður yfir Hringbraut og hún lögð í stokk undir garðinn. Mér finnst allavega mjög jákvætt að standa fyrir svona keppni svo að fólk sjái möguleikana sem eru fyrir hendi. Ég vona bara að þetta verði að veruleika og flugvöllurinn víki fyrir blómlegri byggð.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Janúar,febrúar..tra la la

Ætti ekki bara að breiða yfir Ísland í janúar og febrúar og senda þjóðina til á sólarströnd í Kenýa. Það er örugglega nóg landsvæði þar til að rúma 300 þúsund kaupglaða íslendinga sem þrá afríska sólskynið eins og Britney Spears þráir tímavél. Mín upplifun er sú að janúar og febrúar eru þynnkumánuðir jólanna. Flestir ganga í móki til að hugsa ekki um kortareikninginn og aukakílóin sem hlóðust upp bæði. Ég er sjálfur fyrst núna að vakna til lífsins og var einmitt að hugsa um það í dag hvað varð af síðusta mánuði. Ég hefði alveg eins getað verið á strönd í Kenýa.