föstudagur, desember 28, 2007

28. desember 1977

Þá er hann kominn. Þessi 28. desember 2007. Dagurinn sem ég varð að manni...30 ára gamalmanni. Ég varð ekki var við neinar sérstakar breytingar þegar ég vaknaði, ég vaknaði ekki hvíthærður eins og gaurinn í Twin peaks lenti í. Hann átti reyndar ekkert stórafmæli, hann var bara þjakaður af samviskubiti.
En það er ég nú ekki. Ég hef ekki gert neitt svo slæmt af mér í gegnum tíðina að ég þurfi að vakna með samviskubit. Nema kannski þegar ég fór að heiman þegar ég var 5 ára og ætlaði að flytja til ömmu. Og þegar ég og strákarnir fundum ólæstan bíl og migum í framsætin á honum. Ég held að það sé versti hrekkur sem ég hef tekið þátt í. En þá var ég nú ungur og sætur. og vitlaus.
Í janúar ætla ég svo að halda upp á þetta allt saman með heljarinnar partý. Valgerður mín var nú búinn að undirbúa svaka surprise partý en það datt upp fyrir á síðustu stundu. Ég vil nú þakka þér Vala mín fyrir að standa í þessu og öllum sem hjálpuðu við að undirbúa það. Í staðinn ætlum við að fara út að borða í kvöld og hafa það huggulegt.
En hvað hefur maður svo lært á öllum þessum árum?

Til dæmis:

* Fjölskyldan skiptir mestu máli. Það er ómetanlegt að hafa fólk í kringum sig sem þykir vænt um mann og hugsar með hlýhug til manns.

* Það er betra að fara hægt yfir og gera það vel en að fara hratt yfir og gera það illa.

* Menntun er ekki allt, þó að hún sé alltaf góð. Það sem skiptir mestu máli er karakter og að toppstykkið sé í lagi. Ég held að menntun opni hurðir en svo er það undir manni sjálfum komið hvert framhaldið verður.

* Aldur er afstæður.

* Það er ömurlegt að gera lítið úr fólki eða láta því líða illa. Að berjast við lítið sjálfsálit eða sjálfstraust er fólki mjög hamlandi í lífinu.

* Og það mikilvægasta af öllu...maður skapar sína eigin lukku. Það skiptir ekki máli hvort að maður sé andlega veikur eða alinn upp við fátækt, það er alltaf hægt að velja sér hvaða stefna er tekinn. Vissulega hafa allir sínar takmarkanir en það um að gera að gera sem mest úr því sem maður á.

Ég vona að allir eigi góðan dag og ég bið að heilsa öllum.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

mánudagur, desember 17, 2007

Hjúkkitt

Fyrsti vinnudagur eftir frí var í dag. Hann byrjaði mjög vel þar sem að mér var boðið á jólahlaðborð á Vox. Ég hafði aldrei farið þangað að borða áður og ég get sagt að maturinn var hreint út sagt frábær. Hvet alla sem ætla á annað borð að fara á jólahlaðborð að prófa þetta.

En ég held áfram að gera gloríur hægri vinstri. Málið var að um daginn var ákveðið að börnin í vinnunni myndu gefa foreldrum sínum skrifaðan disk í jólagjöf með öllum ljósmyndum frá haustinu. Ég var í fríi þegar þetta kom upp en allar myndirnar voru í tölvunni minni. Ég setti þær því allar á disk og kom þeim upp í vinnu. Þetta gerðist fyrir nokkrum dögum síðan.

Í dag þegar ég mætti í vinnunna þá sá ég hvernig börnin voru búin að pakka fallega inn öllum pökkunum. Ég fór þá að hugsa. hmmmmmmmm. Vinnumyndavélin er oft heima hjá okkur þar sem að ég sá um að setja myndir á heimasíðuna á meðan ég var í fríi. Oft hefur maður gripið í hana til að taka myndir úr heimilislífinu og annað slíkt. Ég hendi þessu svo öllu saman inn í tölvuna í möppu sem heitir "vinnumyndir haust 2007".

Nú fór ég að hugsa. Ég var ekkert að fara í gegnum þessar myndir áður en ég skellti þeim á diskinn. Maður var á fullu í prófum og hugsaði auðvitað ekki heila hugsun. Gæti mögulega verið að á fallega myndadisknum sem opnaður verður á jólunum, leynist myndir af mér berum að ofan á sunnudagsmorgni eða berrössuðum í baði með börnunum????

Ég vildi ekki hugsa þessa hugsun til enda og keyrði eins og brjálæðingur heim til að fara yfir myndirnar í tölvunni. Sem betur fer verða engar svæsnar myndir í jólapakkanum í ár. Og ég fæ sennilega að halda vinnunni. Allavega þangað til kemur að næstu gloríu.

laugardagur, desember 15, 2007

Í regnbogalandi



Fyrir nokkrum árum var ég alltaf að hlusta á nýja tónlist. Eða gamla tónlist eða bara góða tónlist. Ég var allavega mikið að hlusta á tónlist. Ég lagði mig fram við að kynnast nýrri tónlist og skoðaði reglulega tónlistarblöð og vefi um tónlist. Það mætti segja að maður hafi verið með fingurinn á púlsinum á þeim tíma. Í seinni tíð hafa áherslur orðið aðrar og betri með tilheyrandi bleyjuskiptum og litlum tásum. Minni tími til þess háttar áhugamála þýðir að maður stendur á gati þegar umræðan um nýja tónlist er annars vegar.
Mér finnst þetta allt saman svo leiðinlegt vegna þess að þegar tónlist hreyfir við mér þá finnst mér það engu líkt. Ég vildi því óska þess að ég þekkti til fjölbreyttari tónlistarmanna en ég geri.

Um daginn ákvað ég að gera breytingu á þessu. Hvað gerir maður sem ekkert veit? Hann googlar. Og hvað á maður að googla til að fá það besta? T.d. best albums of 2007. Þá fékk ég upp t.a.m. síðuna www.metacritic.com. Á þeirri síðu er hægt að nálgast best of lista frá síðustu 7 árum. Ég ákvað að skella mér á e-ð af þessari tónlist og gera heiðarlega tilraun til að víkka sjóndeildarhring minn. Ég komst fljótt að því að félagarnir sem halda uppi þessari síðu hafa mun fjölbreyttari tónlistasmekk en ég. Raftónlist er í hávegum höfð á þeim bænum en ég á einmitt langt í land í þeirri deild. Ég er samt búinn að hlusta á e-ð af þessu og þetta hljómar bara vel.

Meðal efnis sem ég er að hlusta á(eða tileinka mér öllu heldur) eru hljómsveitir og plötur eins og LCD Soundsystem - sounds of silver, The Field - From here we go sublime, Burial - untrue, Robert Plant & Alison Krauss - Raising Sand. Flest af þessu er mjög rafrænt og skrýtið. En maður reynir að hafa opin huga.

Og talandi um opin huga og kosti þess að eiga einn slíkan. Ég var eiginlega alveg búinn að gefast upp á Radiohead. Ég verð bara að viðurkenna það. Mér fannst eins og þeir væru að gera grín að heiminum. Ég, eins og svo margir aðrir, algjörlega elskaði OK computer. Þessi tímamótaplata sem setti alla mína yngriáraangist í rétt samhengi. Ég var nokkuð viss um að Thom York hafi samið Exit Music for a film, með mig í huga.

En svo hef ég beðið og beðið eftir framhaldinu. Hvar er það? Ég hef einfaldlega ekki verið að fíla þessar síðustu plötur. Kid a, Amnisiac og Hail to the thief.
Sú síðastnefnda fannst mér alveg ágæt en miðað við Ok computer eða Bends þá bara gleymdu því. Kannski er ég svona þröngsýnn?
Vegna þess að þessar plötur voru margar hverjar á toppum árslista hér og þar. Mér fannst ástandið vera þannig að Radiohead gáfu út plötu og allt artí liðið og plötugagnrýnendur bara gleyptu við þessu sem meistaraverk ofan á meistaraverk.

Það var út af þessum ástæðum sem að ég gerði ráð fyrir því nýja platan þeirra In rainbows væri við sama heiðgarðshornið (frá mínum bæjardyrum séð). Allir voru e-ð að hrópa um mikil tengsl við Ok computer og við fyrstu áheyrn var ég nú ekkert að kaupa það. En svo gerðist bara e-ð. Ég er búinn að vera að hlusta á þessa plötu upp á síðkastið og ég hef nú séð ljósið. Mér finnst þetta bara alveg frábær plata.

Langbestu lög plötunnar finnst mér vera Nude, Reckoner og síðast en ekki síst lagið Weird Fishes/Arpeggi, sem ber af þeim langbestu. Lögin House of cards, Bodysnatchers og All i need finnst mér líka mjög góð.
Ég vill ekki vera of dómharður og segja að mér finnist hin lögin vera e-ð léleg, en þau kveikja allavega ekki jafn mikið í mér og þessi áðurnefndu.

Ég er allavega sáttur við þetta og ef einhver þarna úti veit um nýja eða gamla góða tónlist sem vert er að kíkja á þá endilega láta mig vita.

föstudagur, desember 14, 2007

Prófum lokið, samt syngjandi sveittur og tapandi börnum hægri vinstri.

Þá er prófum lokið. Gekk út úr síðasta prófinu í dag kl. 10:30 með stúrin augu. Þó að úti væri stormandi rok og væta þá var ekkert annað að gera en að opna ískaldan bjór og renna honum niður undir berum himni. nei...borgarpiltsins draumur. En síðasta prófið var í dag og því er þeim hluta lokið. Ég á reyndar ennþá eftir tvö verkefni, eitt sem ég á að skila fyrir miðnætti (sniðugt að vera að blogga, 1 klst og 45 mín í verkefnaskil) og annað risastórt sem ég á að skila á miðvikudag. Samt sem áður er alltaf léttir þegar að prófin eru búin, það er allt annað að vinna verkefni heima en að læra undir próf og fara í próf. Minna stress og meiri hamingja.

Í dag varð ég formlega fullorðinn þegar við fórum öll fjölskyldan á jólaball í leikskólanum hjá Matthildi. Mér fannst ég rosalega fullorðinn að vera með tvö börn á jólaskemmtun í kjallaranum á Neskirkju. Matthildur skemmti sér nú þokkalega en var samt ekkert að taka þennan jólasvein í sátt. Fannst hann eiginlega frekar leiðinlegur bara. Reyndar gæti ástæðan verið sú að gaurinn sem lék jólasveininn talaði alveg sjúklega hátt í annars hátt stilltan míkrafón. Þetta kom út eins og Björgvin Halldórsson í voicebox tæki. Allt svona frekar dimmt og drungalegt.

Svo klikkaði ég illa í foreldrahlutverkinu þegar líða tók á ballið. Málið var að allir voru að klæða sig í útiföt til að fara yfir í leikskólann og mikil örtröð myndaðist í kjölfarið. Ég var að klæða Möttu og Vala klæddi Nóa. Lítil stelpa var þarna grátandi og hafði týnt mömmu sinni. Ég var að fylgjast með því sem gerðist í kringum hana og án þess að ég tæki eftir þá hvarf Matthildur. Ég leit í kringum mig og var nokkuð viss um að hún væri nokkra metra frá mér. Við Valgerður byrjuðum að panika svona létt þegar við sáum hana ekki inn í kirkjunni. Ég þaut þá út og í átt að leikskólanum þangað sem að straumurinn af fólki stefndi. Þegar ég kom að bílastæðinu sem að skilur að kirkjuna og leikskólann var starfsmaður leikskólans nýbýinn að finna hana, leikandi sér í polli á miðju bílastæðinu.
Ég held svona án gríns að ég hafi litið af henni í fimm sekúndur. Ég áttaði mig bara ekki á því að hún væri svona snögg. Ég fékk svo fregnir af því frá starfsfólki leikskólans að hún ætti þetta til, að skjótast svona í burtu þegar tækifæri gefst. Svo finnst hún í hinum endanum á húsinu í rólegheitum. Nú eru breyttir tímar. Hert öryggi og meiri gæsla.

fimmtudagur, desember 13, 2007

Rufus Wainwright



Spilar á Íslandi í apríl. Spurning um að skella sér?

föstudagur, desember 07, 2007

Ahh frændi.

Vettvangsnámi lokið

Það var með vissum tregablönduðum létti sem ég gekk út af leikskólanum Múlaborg í dag og lauk þar með sjö vikna vettvangsnámi mínu. Það var ekki léttir vegna þess að það var leiðinlegt heldur vegna anna upp á síðkastið. Það var ekki auðvelt að samtvinna nám, vettvangsnám, heimili og vinnu. Núna verður það bara nám, vinna og heimili eða bara svona eins og venjulega.
Múlaborg er án efa með flottari og betur reknum leikskólum sem ég hef kynnst. Það er sjaldan sem maður sér vinnustað þar sem að skipulagið er svona gott og allir starfsmenn vita sitt hlutverk. Ég var allavega mjög hrifinn.
En prófin hafa gengið nokkuð vel. Ég á núna eftir tvö verkefni og tvö próf, þetta klárast allt 19. desember. Þannig að ég fer ekkert að hugsa um jólaundirbúninginn fyrr en þá.

Á þriðjudaginn var ég á fullu að lesa og allt var á réttri leið en svo fékk ég flensu!! Ég verð mjög sjaldan veikur, eiginlega bara aldrei(þó að maður taki nú alveg sína veikindadaga hér og þar). En á þessum versta tímapunkti sögunnar þurfti ég að leggjast fyrir með gubbupest. Hún varði reyndar bara í sólarhring, en ég átti að fara í próf á fimmtudeginum. Þegar ég var búinn að vinna á miðvikudaginn þá varð ég að ákveða hvort að ég færi í veikindapróf í ágúst eða tæki hinn klassíska "allnighter". Hið síðara varð fyrir valinu og þökk sé Nichole, mínum frábæra fyrrum bekkjarfélaga sem gaf mér sjúklega góðar glósur, þá skellti ég mér á þetta helvíti. Áður en ég gekk inn í prófið þá hafði ég þá einu væntingu að ná, en prófið var það létt að núna yrði ég eiginlega fúll með 8. Skrýtið hvað viðmið geta breyst.

Og talandi um viðmið. Hvers konar ömurlegu stælar eru það að forstjóri FL group skuli vera 29 ára. Gátu þeir ekki fundið einhvern aðeins eldri. Maður er nógu og skelkaður hvað aldurinn færist hratt yfir. Svona skellur átti ekki að koma fyrr en í fyrsta lagi eftir 10 ár. Þegar ég verð fertugur þá myndi ég alveg sætta mig við að hugsa "já, forstjóri FL group er yngri en ég". En ekki núna, þetta er bara mórall. Þetta er engum til hagsbóta. Ég get reyndar huggað mig við það að ég á ennþá 21 dag þangað til að ég verð þrítugur.

AHA! fyrir það sem ætluðu að þykjast gleyma afmælinu mínu þá tilkynnist það hér með að það er ekki í boði. Ekkert eins og þegar ég var lítill "sameiginleg afmælis- og jólagjöf vinur, aðeins stærri en hinar gjafirnar undir trénu", "En hún er ekki stærri en.." "Það var ekkert vinur"

sunnudagur, desember 02, 2007

Þitt fyrsta bros

Í dag gerðist margt í fyrsta sinn í lífi fjölskyldunnar á Hagamel. Í fyrsta lagi átti hún Matthildur mín gott móment á klósettinu. Það var kannski ekkert fyrsta bros en það vekur nú oft bros. En í dag %$#“%& hún í klósett í fyrsta sinn. Því var mikil hátíð í bæ og gleðin tók öll völd. Fyndið hvað fjölskyldulífið setur mann í skrýtna stöðu stundum, að halda veislu með hægðarþema. En í öðru lagi er baðvaskurinn góði nú loks kominn upp. Hann var tengdur í kvöld eftir mikið erfiði og endalausan leka. Hann er svona nokkuð traustur og var viðamikil athöfn þegar að fyrsta rennslið var sett í gang. Loksins verður hægt að tannbursta sig inn á baði.
Í þriðja lagi fékk Matthildur sitt fyrsta jóladagatal og var hún mjög spennt eins og má sjá hér.



Við útskýrðum fyrir henni að hún mætti opna eitt hólf á dag fram að jólum og leyfðum henni svo að opna hólfið fyrir daginn í dag.



Hún var mjög sátt við það. Hún hatar ekki sælgætið. Hvaðan ætli þau gen komi?



Þegar hún hafði lokið við bitann settum við dagatalið upp á kommóðu. Matthildur var nú ekki alveg að ná þessu öllu saman.



Og var ekki sátt við þessa meðferð á nýja dótinu sínu.