laugardagur, desember 15, 2007

Í regnbogalandi



Fyrir nokkrum árum var ég alltaf að hlusta á nýja tónlist. Eða gamla tónlist eða bara góða tónlist. Ég var allavega mikið að hlusta á tónlist. Ég lagði mig fram við að kynnast nýrri tónlist og skoðaði reglulega tónlistarblöð og vefi um tónlist. Það mætti segja að maður hafi verið með fingurinn á púlsinum á þeim tíma. Í seinni tíð hafa áherslur orðið aðrar og betri með tilheyrandi bleyjuskiptum og litlum tásum. Minni tími til þess háttar áhugamála þýðir að maður stendur á gati þegar umræðan um nýja tónlist er annars vegar.
Mér finnst þetta allt saman svo leiðinlegt vegna þess að þegar tónlist hreyfir við mér þá finnst mér það engu líkt. Ég vildi því óska þess að ég þekkti til fjölbreyttari tónlistarmanna en ég geri.

Um daginn ákvað ég að gera breytingu á þessu. Hvað gerir maður sem ekkert veit? Hann googlar. Og hvað á maður að googla til að fá það besta? T.d. best albums of 2007. Þá fékk ég upp t.a.m. síðuna www.metacritic.com. Á þeirri síðu er hægt að nálgast best of lista frá síðustu 7 árum. Ég ákvað að skella mér á e-ð af þessari tónlist og gera heiðarlega tilraun til að víkka sjóndeildarhring minn. Ég komst fljótt að því að félagarnir sem halda uppi þessari síðu hafa mun fjölbreyttari tónlistasmekk en ég. Raftónlist er í hávegum höfð á þeim bænum en ég á einmitt langt í land í þeirri deild. Ég er samt búinn að hlusta á e-ð af þessu og þetta hljómar bara vel.

Meðal efnis sem ég er að hlusta á(eða tileinka mér öllu heldur) eru hljómsveitir og plötur eins og LCD Soundsystem - sounds of silver, The Field - From here we go sublime, Burial - untrue, Robert Plant & Alison Krauss - Raising Sand. Flest af þessu er mjög rafrænt og skrýtið. En maður reynir að hafa opin huga.

Og talandi um opin huga og kosti þess að eiga einn slíkan. Ég var eiginlega alveg búinn að gefast upp á Radiohead. Ég verð bara að viðurkenna það. Mér fannst eins og þeir væru að gera grín að heiminum. Ég, eins og svo margir aðrir, algjörlega elskaði OK computer. Þessi tímamótaplata sem setti alla mína yngriáraangist í rétt samhengi. Ég var nokkuð viss um að Thom York hafi samið Exit Music for a film, með mig í huga.

En svo hef ég beðið og beðið eftir framhaldinu. Hvar er það? Ég hef einfaldlega ekki verið að fíla þessar síðustu plötur. Kid a, Amnisiac og Hail to the thief.
Sú síðastnefnda fannst mér alveg ágæt en miðað við Ok computer eða Bends þá bara gleymdu því. Kannski er ég svona þröngsýnn?
Vegna þess að þessar plötur voru margar hverjar á toppum árslista hér og þar. Mér fannst ástandið vera þannig að Radiohead gáfu út plötu og allt artí liðið og plötugagnrýnendur bara gleyptu við þessu sem meistaraverk ofan á meistaraverk.

Það var út af þessum ástæðum sem að ég gerði ráð fyrir því nýja platan þeirra In rainbows væri við sama heiðgarðshornið (frá mínum bæjardyrum séð). Allir voru e-ð að hrópa um mikil tengsl við Ok computer og við fyrstu áheyrn var ég nú ekkert að kaupa það. En svo gerðist bara e-ð. Ég er búinn að vera að hlusta á þessa plötu upp á síðkastið og ég hef nú séð ljósið. Mér finnst þetta bara alveg frábær plata.

Langbestu lög plötunnar finnst mér vera Nude, Reckoner og síðast en ekki síst lagið Weird Fishes/Arpeggi, sem ber af þeim langbestu. Lögin House of cards, Bodysnatchers og All i need finnst mér líka mjög góð.
Ég vill ekki vera of dómharður og segja að mér finnist hin lögin vera e-ð léleg, en þau kveikja allavega ekki jafn mikið í mér og þessi áðurnefndu.

Ég er allavega sáttur við þetta og ef einhver þarna úti veit um nýja eða gamla góða tónlist sem vert er að kíkja á þá endilega láta mig vita.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gef þér hér með minn playlista þessa dagana....Albert Hammond jr. elska hann fæ svona kreifíng þegar ég vakna verð að heyra....Iron & wine....Mr. Ward rosa huggulegur...róklegt og rómantískt...Band of horses....kann að vísu betur við fyrri plötuna...og svo The National....bara svona aðeins til að leyfa þér að upplifa mína spilun...hef ekkert heyrt nýja útvarpshöfuðið...tékka á því en kysstu konu og börn frá mér...kem eftir fimm daga og er að deyja úr spennu

5:00 e.h.  
Blogger Óli said...

Takk fyrir þetta Bibba mín. Ég kannaðist svo við þetta nafn Albert Hammond Jr. Svo las ég að pabbi þessa Strokes gaurs er gaurin sem samdi "it never rains in southern california" la la. Hlakka rosa til að hlusta á þetta allt og hlakka líka rosa til að sjá ykkur bæði.

7:33 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home