mánudagur, nóvember 27, 2006

Matthildur Agla Olafsdottir



Ég tók mig til um daginn og las í gegnum allt bloggið mitt. Ég hef aldrei hugsað um þetta blogg sem e-a dagbók en að sjálfsögðu er þetta ákveðið form af dagbók. Það er alveg magnað að lesa hvað allt hefur breyst mikið á stuttum tíma. Ég held að það hafi verið fyrir u.þ.b. tveimur árum sem líf mitt fór að taka miklum breytingum. Ég hafði búið einn í kringum tvö ár á njálsgötunni, vann á leikskólanum Hagaborg og lífið var frekar einfalt. Djamm um helgar, lítill peningur og almennt þunglyndi. Ég byrjaði í nýrri vinnu um haustið og lék í auglýsingu um sumarið og fékk þar af leiðandi svolítinn pening í lok árs. Þá átti ég í fyrsta sinn á ævinni einhverja peninga á milli handanna og þurfti ekki að hafa áhyggjur að ná endum saman í lok mánaðar. Ég á erfitt með að skilja í dag hvernig ég fór stundum að því að lifa suma mánuðina þarna á njálsgötunni. Kjúklingaréttirinir frá Iceland björguðu mér oft. 199 í Bónus. En allavega stuttu eftir áramót kynntist ég Völu og þá fóru nú veröldin aldeilis að breytast.

Ég varð ástfanginn um leið og ég sá hana. Ég get ekki útskýrt þetta, en það gerðist allavega e-ð. Við vorum super hamingjusöm fyrstu vikurnar og allt var frábært. Við fórum að sjálfsögðu allt of hratt í hlutina og vorum farin að búa eftir 10 mínútur og viti menn, hún varð ólétt eftir 20 mínútur. Álagið varð bara of mikið og við hættum saman. Þetta sumar (2005) mun seint hverfa úr minni mínu. Það var ákveðin léttir að við hættum saman þar sem að ég náði aðeins að draga andann og átta mig á hvað var að gerast. Ég og Vala vorum í miklu sambandi og töluðum mikið saman. Að sjálfsögðu gekk það oft upp og niður eins og gengur og gerist. Þetta sumar var allavega mikill rússíbani. Svo í lok sumar kom litla prinsessan okkar í heiminn, heldur snemma á ferðinni. Enn þann dag í dag þegar ég les bloggið um þennan tíma þá tárast ég.

Það var skrýtið þegar þetta gerðist hvað allt breyttist. Um leið og hún kom í heiminn þá var eins og maður fengi vatnsgusu í andlitið. Allt sem ég vissi um lífið var núna búið og maður þurfti bara að gjöra svo vel að bretta upp ermarnar. Ég og Vala höfðum byrjað að hittast meir og meir áður en þetta gerðist. Við vorum bæði búin að fá tækifæri til að ná áttum þetta sumar og öll samskipti okkar á milli voru mjög góð. Við þurftum eiginlega ekkert að ræða það þegar Matthildur Agla Ólafsdóttir fæddist að við ætluðum að ala hana upp saman. Það var bara þannig. Ég vill alltaf trúa því að hugunin hjá okkur báðum hafi verið "hættum þessu kjaftæði, við erum fjölskylda og við eigum að vera saman. Matta var á sjúkrahúsinu í 10 vikur að mig minnir. Þar kynntumst við mörgu frábæru fólki og margt af þessu fólki eru vinir okkar í dag. Ég held að við þessa reynslu hafi ég nú bara elst um 5 ár. Ég opnaði augun fyrir alls konar hlutum. T.d. öll þessi börn sem hafa eytt meiri tíma á spítala en heima hjá sér og allt þetta fólk sem nánast býr á spítalanum í lengri tíma.
Eftir að við komum heim með hana þá tók við vetur sem fór bara í að stúdera allar hreyfingar og hljóð sem Matta gaf frá sér.

Um þetta leyti var komið í ljós að Jóhanna systir Völu var veikari en við héldum og útlitið hreint ekki gott. Það var svo margt að gerast á þessum tíma að þegar ég lít til baka þá vildi ég stundum að ég hefði sagt e-ð, tekið utan um hana eða bara áttað mig á hvað ástandið var alvarlegt. Ég trúði innst inni ekki að þetta væri orðið svona slæmt. Þegar Jóhanna dó þann 1. maí árið 2006 þá átti ég ennþá erfitt með að meðtaka hvað var að gerast. Ég man ennþá svo greinilega eftir símtalinu frá Völu þegar hún hringdi til að segja mér fréttirnar. Jóhanna hefði átt afmæli í síðustu viku. Blessuð sé minning hennar.

Þegar þetta var að gerast þá vorum við Vala að festa kaup á okkar fyrstu íbúð. Vorið var komið og ég hafði selt njálsgötuna stuttu áður, Við vorum ekkert búin að leita mjög lengi þegar við duttum niður á íbúðina okkar á Hagamel. Við vissum það bæði strax að þetta væri sú rétta. Við keyptum hana í mars og fluttum inn í maí. Við tókum íbúðina þokkalega í gegn og erum enn að.

Á öllum þessum tíma hef ég breyst alveg heilmikið að ég held. Mér líður allavega miklu eldri. Ég held bara að það breytist svo margt þegar maður eignast fjölskyldu. Það segja það örugglega allir sem eiga fjölskyldu. Ég lít allavega á það þannig "Ég er ekki að missa af neinu með því að eyða tíma heima með fjölskyldunni en ég er að missa af barninu mínu ef ég eyði tíma annarsstaðar" Make-ar þetta e-ð sense?

Og svo er það Matthildur. Matthildur.Matthildur. Hvað getur maður sagt. Hvernig er hægt að líða svona út af einni manneskju. Það er ekkert hægt að setja þetta í orð. Að horfa á hana og vilja helst kreista hana eða sleikja hana í framan. Þetta er alveg fáránlegt. Ég get bara ekki hugsað mér hvernig nokkur getur komist yfir það missa barnið sitt. Guð á aldrei að leyfa því að gerast. Þegar ég hugsa til baka hvað hún var lítil. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennilega á því hvað hún var lítil. Þeir sem komu í heimsókn á vökudeildina sáu það en þeir sem sáu þetta á myndum geta ekki alveg ímyndað sér þetta. Hún var svo brothætt. Að sitja við kassann, horfa á hana þjást og geta ekkert gert. Mér hef aldrei fundist ég vera jafn smár og þá. Hún er kraftaverkabarn. Það er bara svoleiðis. Eins og ég sagði áðan þá tárast ég ennþá þegar ég hugsa um fæðinguna hennar. Við héldum að við myndum missa hana. Og að hún skuli vera orðin það sem hún er í dag er ótrúlegt. Hún á eftir að taka fyrsta skrefið eftir nokkra daga. Hún er stöðugt að spjalla og er bara orðin algjör týpa. Ég elska þetta barn eins mikið og ég gæti nokkur tíma elskað eina manneskju og hún hefur bara lýst upp mitt líf.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Nokkrar goðar myndir.

Var að tjékka á nokkrum góðum ræmum í þessari viku. Horfði á Perfume, the story of a murderer sem er eftir hinni frábæru skáldsögu Ilmurinn. Mjög flott gerð mynd þar sem mikið er lagt upp úr listrænu útliti...eða allavega sagði Vala mín það ; ) Einnig horfði ég á rosa feel-good mynd í gær sem heitir Little miss sunshine. Gaurinn úr The office US og Greg Kinnear fara alveg á kostum í hlutverkum sínum. Mæli með þessum tveim. Nú er auðvitað fáránlega mikið af myndum í bíó sem maður ætti að vera búinn að sjá. Mýrin, Börn, Borat og Bond svo að dæmi séu nefnd. En það ekki auðvelt að komast í bíó nema að taka barnið með. En við gerum það ekki nema að myndin sé leyfð öllum aldurshópum og sýnd fyrir kvöldmat. Þá geymum við hana í nammisölunni á meðan við förum inn.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Að eilifu til eftirbreytni


Hvað getur maður sagt eftir sýninguna sem ég varð vitni að í gær. Ég held ég segi bara alla söguna:

Formáli: Við byrjuðum á því að fara til Jóa og Ingu í dýrindis matarboð þar sem boðið var upp á kjúklingabringur í góðgætislegi og dýrindis meðlæti. Góð byrjun á góðu kvöldi. Við brunuðum svo öll saman í leigubíl niður í Fríkirkju um sjö leytið þar sem allt var að fyllast og fleiri komust að en vildu.

Tónleikarnir: Við strunsuðum inn í Fríkirkjuna þar sem að Tinna hafði látið Grím bæjarstjóra á Bolungarvík hafa miðana okkar. Hann var að fara úr límingunum af stressi en tókst að finna miðana okkar fyrir rest. Ég var rétt byrjaður að hrylla við þeirri tilhugsun að missa af tónleikunum út af miðabraski. Sem betur fer blessaðist allt og við gátum haldið inn í krikjuna. Þær stöllur Tinna og Lilja höfðu fundið fyrir okkur sæti á öðrum bekk og haldið því fyrir okkur. Því miður þurftu Inga og Jói að sitja 5 röðum aftar og vaknaði óneitanlega mikið samviskubit út af því. En staðurinn var allur að fyllast þar sem að tónleikarnir áttu að byrja klukkan 8. Grímur gekk um gólfin og reyndi að róa mannskapinn. En hópur af útlendingum birtist sem voru á gestalista og bjuggust þar af leiðandi við að fá sæti framarlega. En ég held að allir þeir sem sátu framarlega hafi verið það miklir aðdáendur að þeir hefðu frekar drepið mann en að færa á sér rassinn. Sviðið hafði verið sett skemmtilega upp fyrir Sufjan og stórsveit hans sem töldu 10 samanlagt. Kósý vetrarstemmning og jólaþema voru í gangi þar sem að uppblásnir jólasveinar lágu á víð og dreif um sviðið og kertaljós fullkomnuðu stemmninguna.

Upphitun: Á slaginu 8 gekk á sviðið lítil og nett kona sem kallar sig St. Vincent (hægt að hlusta á hér http://www.myspace.com/stvincent ). Ljósin voru dempuð og allra augu beindust að henni. Hún ólaði á sig gítar sem var fjórum sinnum stærri en hún og tók sig til við að fínstilla hann. Allir sátu starandi á þessa veru og ég vissi ekki alveg við hverju var að búast. Þegar hún hóf að spila fyrsta lagið á gítarinn var nokkuð ljóst að þarna var mikill gítarsnillingur á ferð. Hún lék á gítarinn eins og að drekka vatn og söng eins og engill með. Það skemmdi ekki fyrir að hún sló taktinn í lögunum með því að stappa niður fætinum. Alveg ótrúlegur kraftur í jafn smágerðri manneskju. Hún var algjört sjarmatröll þegar hún fór að útskýra hvað lá á bakvið lögin. Sérstaklega fannst mér flott að heyra um og heyra lagið Marry me John sem hægt er að hlusta á áðurnefndri myspace síðu. Endilega tjékkið á því.

Sufjan: Þegar St. Vincent hafði lokið sér af tóku gestir upp á því að standa upp og teygja aðeins úr sér. Þar sem að sætin í þessari 100+ ára kirkju eru ekki built for comfort. En eftir mikið kaós á sviðinu þar sem að allir voru að stilla upp og undirbúa var smá bið á meðan að hljómsveitin fór baksviðs. Þegar þau stigu svo á svið undir miklu lófaklappi gesta voru þau öll klædd í eins búninga með vængi og grímur. Mjög tilkomumikið verð ég að segja. Nú skal það tekið fram að þó að ég sé mikill aðdáandi Sufans þá hef ég hef alls ekki hlustað gaumgæfilega á allt sem hann hefur gefið út, en þar er af miklu að taka. Ég þekkti því kannski ekki öll lögin sem hann spilaði en það dró ekki úr ánægjunni af þessum tónleikum. Einnig er vert að minnast á að þessir tónleikar voru þeir síðustu sem þau spiluðu á löngum túr um Evrópu. En hljómsveitin hjá honum var skipuð fimm blástursleikurum, einum trommara, einum bassaleikara, tveimur gítarleikurum (þar á meðal áðurnefnd St. Vincent) og Sufjan sjálfum.
Prógramið byrjaði á algjöru tónaflóði sem ég veit ekki hvað heitir en keyrslan í sumum lögunum var ótrúleg. Eitt aðalsmerki hans er að byggja lög upp í algjöra ringulreið og stoppa svo skyndilega og syngja einn undurfagra tóna. Sufjan er mjög sjarmerandi sögumaður og á greinilega auðvelt með að fanga athygli áhorfenda. Ég vill ekki hljóma eins og ég sé e-ð geðveikur en mér fannst ótrúleg tilfinning að sitja aðeins þremur metrum frá honum. Mér fannst hápunktar kvöldsin vera þegar þau tóku Jacksonville, Chicago, Concerning the UFO´s..., John Wayne Gracy Jr. og síðast en ekki síst hið frábæra lag To be alone with you af Seven Swans. Mjög skemmtilegar sögur hans á bakvið lögin gáfu þeim dýpri merkingu og jók aðdáun mína á þeim. T.d. sagði hann mjög skemmtilega sögu af fjölskyldu sinni og jólahaldi þeirra fyrir lagið That was the worst christmas ever. Einnig hvatti hann fólk til að henda á milli uppblásnu jólasveinunum sem þau hentu út til áhorfenda. Við Valgerður gerðumst svo kræf eftir tónleikana að stela einum jólasvein og einum væng af búningi eins hljómsveitarmeðlims. Smá minjagripir handa Matthildi.
En það var mjög fyndið að fylgjast með viðbrögðum fólks í kringum mig við Sufjan Stevens. Þetta var mjög svipað og að fara með leikskólakrakka á jólasveinasýningu. Þau sitja með tóm augu og gapa. Tónleikagestir sýndu sömu viðbrögð, Allir voru í einhverskonar transi. Þegar hljómsveitin hafði lokið sér af og fóru af sviðinu voru þau klöppuð upp með brjálæðislegu lófaklappi. Sufjan birtist þá einn á sviðinu og tók Concerning the UFO´s... í frábærri útgáfu. Hljómsveitin steig svo aftur á sviðið í nýjum búningi og tóku tvö lög. Síðasta lag kvöldsins var Casmir Pulanski Day, en það var frekar skondið þegar hann var að kynna lagið þá sat fyrir framan hann maður sem var greinilega mikill superfan. Sufan sagði að þetta næsta lag væri þeirra síðasta í kvöld og þakkaði hljómsveitinni fyrir tónleikaferðalagið og St. Vincent fyrir að hita upp (sem er mjög líklega ástfangin af honum). Svo sagði hann að lagið fjallaði um pólsk-ameríska frelsishetju....."Yeeeesss" öskraði þá superfaninn sem áttaði sig á undan öllum um hvaða lag væri að ræða, þannig að það ómaði um alla kirkju. Sufjan stoppaði í eitt augnablik og leit á manninn, taldi svo inn í lagið og kláraði tónleikana með stæl.

Eftir tónleika: Við Valgerður, Inga og Jói tókum hænuskref út úr kirkjunni og gripum næsta leigubíl með væng og uppblásinn jólasvein undir örmum. Við fórum upp í voga til Jóa og héldu partýinu gangandi. Fleira og fleira fólk fór að bætast við og um leið fóru merki þess að ég kann ekki lengur að skemmta mér að koma í ljós. Ég var sígeyspandi eftir klukkan 01:00 og þó að ég hafi reynt að drekka í mig stemmningu þá þýddi það bara meiri ölvun. Við Valgerður óðum þá gegnum snjóinn inn í leigubíl og héldum heim á leið. Lögðumst á koddann og ég sofnaði hugsandi um þessa frelsun sem átti sér stað og verður mér að eilífu til eftirbreytni.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Loksins loksins Sufjan a morgun

Nú er rúmlega eitt ár síðan ég kynntist þessum tónlistarmanni. Og á morgun fæ ég að hlýða á hann á tónleikum í Fríkirkjunni. Jabba dabba dú, Ég las um hann í mogganum að tónleikar hans væru oftast mjög skrautlegir og allir í búningum búandi til mennska pýramída. Ekki hann einn standandi með gítar ekki þorandi að horfa upp sökum óframfærni og feimni. Reyndar voru það eilítil vonbrigði að hann sé að taka fyrir nýju plötuna Avalanche en ekki Come on feel... þar sem ég þekki hana nú aðeins betur. En annars er lítið að frétta, þessi vika búin að vera hálf geðveik. Erfið vinnuvika sökum kulda og hegðunarvandamála. Einhvernveginn finnst mér allir í vinnunni svo óhressir e-ð. En kannski er þetta bara veðrið. Með snjónum og jólunum koma brosin.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Allir komnir i kotið



jæja þá eru allir komnir í kotið eftir utanlandsferðir um helgina. Við Matthildur vorum tvö ein í tölvulausum heimi alla helgina og tókum því bara rólega. Meira að segja á fimmtudaginn þegar ég ætlaði að setjast niður eftir erfiðan dag og horfa á sjónvarpið þá kom það í ljós, mér til mikillar hrylli, að sjónvarpsloftnetið var bilað. Ég tók þá til þess ráðs að gera eins og á myndinni hér að ofan. Skrapp aðeins út á föstudaginn en annars var helgin bara hin rólegasta. Þegar frúin kom heim þá færði hún mér fullt af fínum gjöfum eins og t.d. nýrru úlpu og tveimur nýjum peysum. Thanx baby.
En um daginn þá rakst ég á síðuna http://nord.is/pix þar sem er að finna myndir eins og þessar hér að neðan. Þetta er frá síðari hluta síðustu aldar og er frá hinum þessum vísindaferðum í tölvunarfræðinni í HÍ. Helvíti gaman að sjá þessar myndir og líka fyndið að sjá hvað allir hafa breyst mikið.


miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Just the two of us..

Nú erum við Matthildur ein í kotinu í fyrsta sinn síðan hún fæddist. Móðirin farin út fyrir landsteinana eða nánar tiltekið til Namibíu að ná í nýjasta fjölskyldumeðliminn. Það er rétt. Við ætlum að ættleiða lítinn apa og skíra hann Tító.
Ég og Matta verðum tvö eftir í heila 5 daga. Á föstudaginn fer hún svo til ömmu sinnar í vogunum og þá er planað ÍTR djamm. Það verður án efa mjög strange að vakna einn í húsinu á laugardagsmorguninn. Enginn að hoppa ofan á hausnum á mér eða vekja mann með morgunkossi, sem þýðir oftast fullt af slefi yfir sofandi og óvarið andlitið mitt. Sem er náttúrulega bara frábært því þetta er barnið mitt og maður sættir sig við flest sem úr henni kemur og lendir á mér..förum ekki nánar út í það. En ég býst allavega við að smella mér í byen á föstudaginn og sletta aðeins úr klaufunum.