mánudagur, nóvember 27, 2006

Matthildur Agla Olafsdottir



Ég tók mig til um daginn og las í gegnum allt bloggið mitt. Ég hef aldrei hugsað um þetta blogg sem e-a dagbók en að sjálfsögðu er þetta ákveðið form af dagbók. Það er alveg magnað að lesa hvað allt hefur breyst mikið á stuttum tíma. Ég held að það hafi verið fyrir u.þ.b. tveimur árum sem líf mitt fór að taka miklum breytingum. Ég hafði búið einn í kringum tvö ár á njálsgötunni, vann á leikskólanum Hagaborg og lífið var frekar einfalt. Djamm um helgar, lítill peningur og almennt þunglyndi. Ég byrjaði í nýrri vinnu um haustið og lék í auglýsingu um sumarið og fékk þar af leiðandi svolítinn pening í lok árs. Þá átti ég í fyrsta sinn á ævinni einhverja peninga á milli handanna og þurfti ekki að hafa áhyggjur að ná endum saman í lok mánaðar. Ég á erfitt með að skilja í dag hvernig ég fór stundum að því að lifa suma mánuðina þarna á njálsgötunni. Kjúklingaréttirinir frá Iceland björguðu mér oft. 199 í Bónus. En allavega stuttu eftir áramót kynntist ég Völu og þá fóru nú veröldin aldeilis að breytast.

Ég varð ástfanginn um leið og ég sá hana. Ég get ekki útskýrt þetta, en það gerðist allavega e-ð. Við vorum super hamingjusöm fyrstu vikurnar og allt var frábært. Við fórum að sjálfsögðu allt of hratt í hlutina og vorum farin að búa eftir 10 mínútur og viti menn, hún varð ólétt eftir 20 mínútur. Álagið varð bara of mikið og við hættum saman. Þetta sumar (2005) mun seint hverfa úr minni mínu. Það var ákveðin léttir að við hættum saman þar sem að ég náði aðeins að draga andann og átta mig á hvað var að gerast. Ég og Vala vorum í miklu sambandi og töluðum mikið saman. Að sjálfsögðu gekk það oft upp og niður eins og gengur og gerist. Þetta sumar var allavega mikill rússíbani. Svo í lok sumar kom litla prinsessan okkar í heiminn, heldur snemma á ferðinni. Enn þann dag í dag þegar ég les bloggið um þennan tíma þá tárast ég.

Það var skrýtið þegar þetta gerðist hvað allt breyttist. Um leið og hún kom í heiminn þá var eins og maður fengi vatnsgusu í andlitið. Allt sem ég vissi um lífið var núna búið og maður þurfti bara að gjöra svo vel að bretta upp ermarnar. Ég og Vala höfðum byrjað að hittast meir og meir áður en þetta gerðist. Við vorum bæði búin að fá tækifæri til að ná áttum þetta sumar og öll samskipti okkar á milli voru mjög góð. Við þurftum eiginlega ekkert að ræða það þegar Matthildur Agla Ólafsdóttir fæddist að við ætluðum að ala hana upp saman. Það var bara þannig. Ég vill alltaf trúa því að hugunin hjá okkur báðum hafi verið "hættum þessu kjaftæði, við erum fjölskylda og við eigum að vera saman. Matta var á sjúkrahúsinu í 10 vikur að mig minnir. Þar kynntumst við mörgu frábæru fólki og margt af þessu fólki eru vinir okkar í dag. Ég held að við þessa reynslu hafi ég nú bara elst um 5 ár. Ég opnaði augun fyrir alls konar hlutum. T.d. öll þessi börn sem hafa eytt meiri tíma á spítala en heima hjá sér og allt þetta fólk sem nánast býr á spítalanum í lengri tíma.
Eftir að við komum heim með hana þá tók við vetur sem fór bara í að stúdera allar hreyfingar og hljóð sem Matta gaf frá sér.

Um þetta leyti var komið í ljós að Jóhanna systir Völu var veikari en við héldum og útlitið hreint ekki gott. Það var svo margt að gerast á þessum tíma að þegar ég lít til baka þá vildi ég stundum að ég hefði sagt e-ð, tekið utan um hana eða bara áttað mig á hvað ástandið var alvarlegt. Ég trúði innst inni ekki að þetta væri orðið svona slæmt. Þegar Jóhanna dó þann 1. maí árið 2006 þá átti ég ennþá erfitt með að meðtaka hvað var að gerast. Ég man ennþá svo greinilega eftir símtalinu frá Völu þegar hún hringdi til að segja mér fréttirnar. Jóhanna hefði átt afmæli í síðustu viku. Blessuð sé minning hennar.

Þegar þetta var að gerast þá vorum við Vala að festa kaup á okkar fyrstu íbúð. Vorið var komið og ég hafði selt njálsgötuna stuttu áður, Við vorum ekkert búin að leita mjög lengi þegar við duttum niður á íbúðina okkar á Hagamel. Við vissum það bæði strax að þetta væri sú rétta. Við keyptum hana í mars og fluttum inn í maí. Við tókum íbúðina þokkalega í gegn og erum enn að.

Á öllum þessum tíma hef ég breyst alveg heilmikið að ég held. Mér líður allavega miklu eldri. Ég held bara að það breytist svo margt þegar maður eignast fjölskyldu. Það segja það örugglega allir sem eiga fjölskyldu. Ég lít allavega á það þannig "Ég er ekki að missa af neinu með því að eyða tíma heima með fjölskyldunni en ég er að missa af barninu mínu ef ég eyði tíma annarsstaðar" Make-ar þetta e-ð sense?

Og svo er það Matthildur. Matthildur.Matthildur. Hvað getur maður sagt. Hvernig er hægt að líða svona út af einni manneskju. Það er ekkert hægt að setja þetta í orð. Að horfa á hana og vilja helst kreista hana eða sleikja hana í framan. Þetta er alveg fáránlegt. Ég get bara ekki hugsað mér hvernig nokkur getur komist yfir það missa barnið sitt. Guð á aldrei að leyfa því að gerast. Þegar ég hugsa til baka hvað hún var lítil. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennilega á því hvað hún var lítil. Þeir sem komu í heimsókn á vökudeildina sáu það en þeir sem sáu þetta á myndum geta ekki alveg ímyndað sér þetta. Hún var svo brothætt. Að sitja við kassann, horfa á hana þjást og geta ekkert gert. Mér hef aldrei fundist ég vera jafn smár og þá. Hún er kraftaverkabarn. Það er bara svoleiðis. Eins og ég sagði áðan þá tárast ég ennþá þegar ég hugsa um fæðinguna hennar. Við héldum að við myndum missa hana. Og að hún skuli vera orðin það sem hún er í dag er ótrúlegt. Hún á eftir að taka fyrsta skrefið eftir nokkra daga. Hún er stöðugt að spjalla og er bara orðin algjör týpa. Ég elska þetta barn eins mikið og ég gæti nokkur tíma elskað eina manneskju og hún hefur bara lýst upp mitt líf.

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Skemmtileg og falleg samantekt Óli.

En nú verð ég að hætta að vera í væmniskasti á netinu og fara að vinna.

bestu kveðjur
KT

9:34 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég skil þig innilega vel og held bara að ég geti ímyndað mér hvernig þetta var með Matthildi.

Haukurinn

11:28 f.h.  
Blogger Óli said...

Það er alveg nauðsynlegt að hreinsa aðeins til og gráta duglega. Takk fyrir þetta strákar og ég vona að allt gangi vel hjá ykkur Haukur. Þið komið væntanlega ekkert heim um jólin eða hvað?

3:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

flottur pistill.
það er alveg ótrúlegt hvað svona hlutir breyta manni og sýn manns á lífið. ég reyni einmitt að vera dugleg að minna vini mína á að vera þakklát fyrir það sem þau hafa og þá sem þau elska. maður veit aldrei hvenær lífið tekur u-beygju og ekkert er samt á ný.
gott að allt gengur vel og hún er nú meiri rófan hún matthildur.. algjör dúlla :)

6:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

talandi um að tárast....tissjú takk..og knús á ykkur...hlakka til að sjá ykkur eftir 22 daga....bibban i dk

1:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var ágætis vatnsgusa fyrir komandi daga hjá okkur:) Falleg lesning, ég fékk gæsahúð. Ég er búin að þakka fyrir hverja viku sem leið á meðgöngunni, að barnið væri orðið viku eldra í hverri viku, og því sterkara. Nú er ég hins vegar að tryllast.
Það er kraftaverk hvað það hefur gengið vel hjá ykkur.

10:45 f.h.  
Blogger Óli said...

Takk fyrir þetta Arna, ég vona að þér gangi vel í prófunum.
Hérna er tissjú Bibba. Hlökkum öll til að sjá þig líka. Bið að heilsa öllum í baunalandi.
Ásta, þú ert að verða móðir. Er það ekki FRÁBÆRT!! Ég vona að allt gangi vel hjá ykkur. Ekki tryllast það er stutt eftir. Bið líka heilsa öllum í þínu baunalandi.

4:31 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ég reyni að halda geðheilsu á meðan allir eiga nokkrum dögum eða vikum fyrir tímann í kringum mig! Mín ætlar greinilega að verða svona stór og sterk! Móðir....stórt orð:)

8:44 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home