sunnudagur, nóvember 19, 2006

Að eilifu til eftirbreytni


Hvað getur maður sagt eftir sýninguna sem ég varð vitni að í gær. Ég held ég segi bara alla söguna:

Formáli: Við byrjuðum á því að fara til Jóa og Ingu í dýrindis matarboð þar sem boðið var upp á kjúklingabringur í góðgætislegi og dýrindis meðlæti. Góð byrjun á góðu kvöldi. Við brunuðum svo öll saman í leigubíl niður í Fríkirkju um sjö leytið þar sem allt var að fyllast og fleiri komust að en vildu.

Tónleikarnir: Við strunsuðum inn í Fríkirkjuna þar sem að Tinna hafði látið Grím bæjarstjóra á Bolungarvík hafa miðana okkar. Hann var að fara úr límingunum af stressi en tókst að finna miðana okkar fyrir rest. Ég var rétt byrjaður að hrylla við þeirri tilhugsun að missa af tónleikunum út af miðabraski. Sem betur fer blessaðist allt og við gátum haldið inn í krikjuna. Þær stöllur Tinna og Lilja höfðu fundið fyrir okkur sæti á öðrum bekk og haldið því fyrir okkur. Því miður þurftu Inga og Jói að sitja 5 röðum aftar og vaknaði óneitanlega mikið samviskubit út af því. En staðurinn var allur að fyllast þar sem að tónleikarnir áttu að byrja klukkan 8. Grímur gekk um gólfin og reyndi að róa mannskapinn. En hópur af útlendingum birtist sem voru á gestalista og bjuggust þar af leiðandi við að fá sæti framarlega. En ég held að allir þeir sem sátu framarlega hafi verið það miklir aðdáendur að þeir hefðu frekar drepið mann en að færa á sér rassinn. Sviðið hafði verið sett skemmtilega upp fyrir Sufjan og stórsveit hans sem töldu 10 samanlagt. Kósý vetrarstemmning og jólaþema voru í gangi þar sem að uppblásnir jólasveinar lágu á víð og dreif um sviðið og kertaljós fullkomnuðu stemmninguna.

Upphitun: Á slaginu 8 gekk á sviðið lítil og nett kona sem kallar sig St. Vincent (hægt að hlusta á hér http://www.myspace.com/stvincent ). Ljósin voru dempuð og allra augu beindust að henni. Hún ólaði á sig gítar sem var fjórum sinnum stærri en hún og tók sig til við að fínstilla hann. Allir sátu starandi á þessa veru og ég vissi ekki alveg við hverju var að búast. Þegar hún hóf að spila fyrsta lagið á gítarinn var nokkuð ljóst að þarna var mikill gítarsnillingur á ferð. Hún lék á gítarinn eins og að drekka vatn og söng eins og engill með. Það skemmdi ekki fyrir að hún sló taktinn í lögunum með því að stappa niður fætinum. Alveg ótrúlegur kraftur í jafn smágerðri manneskju. Hún var algjört sjarmatröll þegar hún fór að útskýra hvað lá á bakvið lögin. Sérstaklega fannst mér flott að heyra um og heyra lagið Marry me John sem hægt er að hlusta á áðurnefndri myspace síðu. Endilega tjékkið á því.

Sufjan: Þegar St. Vincent hafði lokið sér af tóku gestir upp á því að standa upp og teygja aðeins úr sér. Þar sem að sætin í þessari 100+ ára kirkju eru ekki built for comfort. En eftir mikið kaós á sviðinu þar sem að allir voru að stilla upp og undirbúa var smá bið á meðan að hljómsveitin fór baksviðs. Þegar þau stigu svo á svið undir miklu lófaklappi gesta voru þau öll klædd í eins búninga með vængi og grímur. Mjög tilkomumikið verð ég að segja. Nú skal það tekið fram að þó að ég sé mikill aðdáandi Sufans þá hef ég hef alls ekki hlustað gaumgæfilega á allt sem hann hefur gefið út, en þar er af miklu að taka. Ég þekkti því kannski ekki öll lögin sem hann spilaði en það dró ekki úr ánægjunni af þessum tónleikum. Einnig er vert að minnast á að þessir tónleikar voru þeir síðustu sem þau spiluðu á löngum túr um Evrópu. En hljómsveitin hjá honum var skipuð fimm blástursleikurum, einum trommara, einum bassaleikara, tveimur gítarleikurum (þar á meðal áðurnefnd St. Vincent) og Sufjan sjálfum.
Prógramið byrjaði á algjöru tónaflóði sem ég veit ekki hvað heitir en keyrslan í sumum lögunum var ótrúleg. Eitt aðalsmerki hans er að byggja lög upp í algjöra ringulreið og stoppa svo skyndilega og syngja einn undurfagra tóna. Sufjan er mjög sjarmerandi sögumaður og á greinilega auðvelt með að fanga athygli áhorfenda. Ég vill ekki hljóma eins og ég sé e-ð geðveikur en mér fannst ótrúleg tilfinning að sitja aðeins þremur metrum frá honum. Mér fannst hápunktar kvöldsin vera þegar þau tóku Jacksonville, Chicago, Concerning the UFO´s..., John Wayne Gracy Jr. og síðast en ekki síst hið frábæra lag To be alone with you af Seven Swans. Mjög skemmtilegar sögur hans á bakvið lögin gáfu þeim dýpri merkingu og jók aðdáun mína á þeim. T.d. sagði hann mjög skemmtilega sögu af fjölskyldu sinni og jólahaldi þeirra fyrir lagið That was the worst christmas ever. Einnig hvatti hann fólk til að henda á milli uppblásnu jólasveinunum sem þau hentu út til áhorfenda. Við Valgerður gerðumst svo kræf eftir tónleikana að stela einum jólasvein og einum væng af búningi eins hljómsveitarmeðlims. Smá minjagripir handa Matthildi.
En það var mjög fyndið að fylgjast með viðbrögðum fólks í kringum mig við Sufjan Stevens. Þetta var mjög svipað og að fara með leikskólakrakka á jólasveinasýningu. Þau sitja með tóm augu og gapa. Tónleikagestir sýndu sömu viðbrögð, Allir voru í einhverskonar transi. Þegar hljómsveitin hafði lokið sér af og fóru af sviðinu voru þau klöppuð upp með brjálæðislegu lófaklappi. Sufjan birtist þá einn á sviðinu og tók Concerning the UFO´s... í frábærri útgáfu. Hljómsveitin steig svo aftur á sviðið í nýjum búningi og tóku tvö lög. Síðasta lag kvöldsins var Casmir Pulanski Day, en það var frekar skondið þegar hann var að kynna lagið þá sat fyrir framan hann maður sem var greinilega mikill superfan. Sufan sagði að þetta næsta lag væri þeirra síðasta í kvöld og þakkaði hljómsveitinni fyrir tónleikaferðalagið og St. Vincent fyrir að hita upp (sem er mjög líklega ástfangin af honum). Svo sagði hann að lagið fjallaði um pólsk-ameríska frelsishetju....."Yeeeesss" öskraði þá superfaninn sem áttaði sig á undan öllum um hvaða lag væri að ræða, þannig að það ómaði um alla kirkju. Sufjan stoppaði í eitt augnablik og leit á manninn, taldi svo inn í lagið og kláraði tónleikana með stæl.

Eftir tónleika: Við Valgerður, Inga og Jói tókum hænuskref út úr kirkjunni og gripum næsta leigubíl með væng og uppblásinn jólasvein undir örmum. Við fórum upp í voga til Jóa og héldu partýinu gangandi. Fleira og fleira fólk fór að bætast við og um leið fóru merki þess að ég kann ekki lengur að skemmta mér að koma í ljós. Ég var sígeyspandi eftir klukkan 01:00 og þó að ég hafi reynt að drekka í mig stemmningu þá þýddi það bara meiri ölvun. Við Valgerður óðum þá gegnum snjóinn inn í leigubíl og héldum heim á leið. Lögðumst á koddann og ég sofnaði hugsandi um þessa frelsun sem átti sér stað og verður mér að eilífu til eftirbreytni.

3 Comments:

Blogger Ásta said...

Hahaha fleiri komust að en vildu!:-) Greinilega góðir tónleikar!

9:28 f.h.  
Blogger Óli said...

Ég rak augun í þetta þegar ég var búinn að skrifa en þetta var svo langur pistill að ég gat ekki meir. Takk fyrir að benda mér á þetta samt ; )

10:51 e.h.  
Blogger Óli said...

Hann er það...aaahhhh.

11:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home