miðvikudagur, október 15, 2008

Stolið lag?

Það er gott að geta hugsað um e-ð annað en kreppu, lán, verðbólgu eða ógeðslega english bastards. Í staðinn er gaman að hugsa og skrifa um lagastuld, en það er málefni sem ég hef ætlað að skrifa um síðan í sumar.
Ég velti því fyrir mér hversu langt má ganga í að taka lag frá öðrum og setja í auglýsingar? Þegar ég hlusta á auglýsingar frá ýmsum íslenskum verslunum þá heyri ég gjarnan kunnuleg stef. Ég velti því nú fyrir mér hvort að íslenskur auglýsingagerðarmenn séu svo grófir að þeir hreinlega stela hluta úr lögum EÐA hvort að það sé leyfilegt að taka svona hluta úr lagi?

En þessar helstu auglýsingar sem ég man eftir í augnablikinu eru:

Auglýsing - Lag
Smáralind - Silent sigh með Badly Drawn Boy
Smáralind - Young folks með Björn, Benny og John.
Nova - I´ve got you babe
Hagkaup - Back in black með AC/DC
Hagkaup - Jaggidí jagg(eða hvað sem það heitir) með Magnúsi og Jóhanni
Debenhams - Everybody´s changing með Keane.

Check it out næste gang þið hlustið á reklamer.

laugardagur, október 11, 2008

Súr lesning

Ég vil hvetja alla til að lesa þessa grein og þá sérstaklega öll kommentin sem henni fylgja. Ég er hættur að horfa á enska boltann.

http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2008/oct/10/iceland-gordonbrown?commentpage=1

miðvikudagur, október 08, 2008

Þið eigið ekkert annað skilið

Ég er orðinn svo gegnumsýrður af neikvæðum fréttum af efnahaginum að ég get varla skrifað stakt orð, en mér langar rosalega til þess. Það spilar líka inn í að svo margt er að gerast á stuttum tíma að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Mér finnst samt tilvalið að hugsa í þessu tilviki til hans Benna handrukkara, sem gerir hlutina eftir sinni...sko sterku réttlætiskennd. Setningin sem lýsir þessu best er:

"Mig langar svo til að berja þig Ragnar, vegna þess að þú átt ekkert annað skilið".

Hann reyndi líka eins og hann gat að halda aftur af sér en allt kom fyrir ekki. Það sama á við hér. Þessi atburðarrás á ekkert annað skilið en að skrifað sé um hana.

Að mínu mati á ég erfiðast með að kyngja því hvernig þessi atburðarrás hefur farið með þjóðarstoltið. Ég held og vona að þetta eigi eftir að hafa lítil áhrif á hinn venjulega launamann eins mig og flesta sem ég þekki. En ég er mjög stoltur af því að vera íslendingur og ég hef alltaf verið stoltur af því. Ég held að flestir séu mjög stoltir af því að vera íslendingar og hafi verið það löngu áður en Reykjavík varð svona trendy á alþjóðavísu sem hot spot ferðamannastaður.
Ég á sérstaklega erfitt með að sætta mig við hversu margir þarna úti er að hugsa "Hate to say i told you so". Það hafa nefnilega svo margir sagt í gegnum tíðina að svona lítil þjóð eins og Ísland eigi ekki að geta tekið þátt í svona viðskiptaútrás. Þegar ég heyrði þetta þá kom alltaf upp þjóðargrobbið og maður hugsaði "Ísland best í heimi".

Ekki minnkaði svo þjóðarstoltið í sumar þegar að handboltalandsliðið náðu ótrúlegum hæðum á ólympíuleikum. Þá var eins og íslendingar gætu ALLT.

í dag þarf maður að lesa fyrirsagnir í blöðum sem láta okkur íslendinga líta út fyrir að vera flón og fífl. Það lítur út fyrir að græðgi og ofurbjartsýni hafi ráðið ríkjum hér og að peningastjórn ríkisins sé engin. Í 24 stundum í dag er t.a.m. fjallað um ríkisábyrgðir Íslands á erlendri grund. Hverjum datt í hug að leyfa það?

Í öllum þessum skít er gaman að sjá það sem er mikilvægt í lífinu og stendur manni næst. Ég var heima í dag með börnin mín veik og það er búið að vera mikið stuð. Matthildur á sem sagt systur sem heitir Stína. Hún er mjög oft óþekk og Matthildur þarf að reka hana inn í herbergi. Hmmm. Svo vorum við í hlutverkaleik áðan og þá sagði hún mér að hún væri ólétt af stelpu sem heitir Sýra.
Það er engin kreppa.

sunnudagur, október 05, 2008

Af hverju er KR svona sjúklega óþolandi fyrirbæri?

Í gær varð KR bikarmeistari í knattspyrnukarla í 11. skipti, en þetta var í 87. árið í röð sem KR vinnur allavega einn titil á tímabili. Þetta er að sjálfsögðu met sem verður seint slegið. Sum metin eru skráð hjá KSÍ en önnur ekki. T.d. flestir áhorfendur að meðaltali á leik er titill sem stuðningsmenn KR eru hvað stoltastir af. Mesta stórveldi íslenskrar knattspyrnu er titill sem aðeins KR getur unnið, því þeir einir gera tilkall. Flestir starfsmenn Landsbankans í einu liði er enn einn titill sem þeir hafa unnið ár eftir ár og að lokum eiga þeir áskrift að titilinum Metnaðurumframgeta hjá einu liði.
Það sem fer mest í taugarnar á mér við KR er þetta mont í öllum sem viðkoma félaginu. Mér fannst myndin Strákarnir okkar lýsa þessu mjög vel þegar aðalpersónan kom út úr skápnum og framkvæmdarstjórinn sagði "Þú verður að hætta, það eru engir hommar í stórveldinu!" Þess vegna held ég með Fram og þess vegna vonaði ég að Fjölnir myndi vinna í gær. Vegna þess að ég er viss um að hommar eru velkomnir í bæði þessi lið.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Framkvæmdir

Það blasti við mér fögur sjón í gær, allavega í nokkrar sekúndur. Eftir mikið púl síðustu daga lögðum við síðustu flísina á baðherbergið, eftir einungis tveggja ára vinnu. Valgerður lagði fúu á glæsilegan máta og allt var farið að líta nokkuð vel út. Ég leit yfir herbergið og hugsaði "Þetta er alveg að verða búið". Þar sem ég var með hamar við hendina tók ég eftir hvernig litli naglinn, sem hafði eyðilagt ófáa sokka, gægðist upp úr þröskuldinum á baðherberginu. Ég ákvað auðvitað að fullkomna verkið og loksins slá fjandans naglann niður...sem ég og gerði. En viti menn, þá byrjaði að fossa vatn út um allt. Vei. Ég hafði neglt í pípulögn sem tengdist baðherbergisofninum. Vei ó Vei. Þetta fór nú allt vel en nú erum við búin að rífa þröskuldinn af og við það losnaði ein flísinn. ve...i. Þannig að einhver seinkun verður á því að baðherbergið klárist. V................
Á morgun ætlum við svo að fara í sumarbústað í heila viku. Ég veit ekki hvort að ég sé eitthvað skrýtinn, ég veit að Völu finnst það allavega, en mér finnst (eða fannst) svo mikilvægt að ná að klára mest af þessum framkvæmdum áður en við förum í bústaðinn (ég sé það núna að það mun ekki nást). Svona til þess að geta komið tilbaka og verið í FRÍI í júlí. Ekki vera tvo daga í sólbaði og þurfa svo að skafa glugga næstu tvo. Ég allavega á mjög erfitt með að slappa af í fríi ef ég er með fullt af svona verkefnum hangandi yfir. Nú er samt bara málið að sóna út í heita pottinum og borða góðan grillmat. Ekki nema auðvitað ef ég ákveð að dytta að bústaðnum og hamra aðeins í hann. Og sprengi klóakið eða gasgrillið eða allt sumarbústaðahverfið. Hver veit?Hmmm...hvað? Er ég með eitthvað framan í mér?

sunnudagur, júní 22, 2008

Smá boltabloggÍ öllum þessu EM fótboltaæði er tímabært að tjá sig eilítið um framgang mála þarna syðeystra. Í kvöld kláruðust 8 liða úrslit og um leið kenningin mín um 8 liða úrslit of the underdogs. En eins og þeir vita sem hafa fylgst með keppninni þá hefur hún í raun verið tvær keppnir. Í fyrsta lagi var það riðlakeppnin þar sem flest fór eftir bókinni (nema að Frakkar duttu út) og tvö eða þrjú lið virtust eiga greiða lið í úrslitin. Hollendingar og Portúgalir voru þá að spila flottasta boltann og flestir spáðu þeim í úrslit.
En svo byrjuðu þessi blessuðu 8 liða úrslit. Ástæðan fyrir því að ég skrifa ...of the underdogs er vegna þess að þangað til í kvöld voru öll vinningsliðin hálfgerðir underdogs. Ég allavega spáði Króötum sigri gegn Tyrkjum, Portúgölum sigri gegn Gestapo og Hollendingum sigri gegn Rússum. Eini leikurinn sem ég var í vafa með var Spánn og Ítalía en þar held ég að flestir hafi hugsað Spánverja áfram og því hefði Ítalía átt að vinna samkvæmt minni kenningu um the underdogs.
Kannski er þetta gölluð kenning. Það er sennilega sjaldan að þjóðverjar séu stimplaðir underdogs (og btw hvað er íslenska orðið yfir underdog?)Nú er erfitt að spá í næstu leiki. Tyrkland - Þýskaland og Rússland - Spánn. Rökrétt væri að segja Þýskaland - Spánn in Finale en hver ætlar að fara að afskrifa Tyrki og svo eru Rússarnir alveg þvílíkt flottir. Ég er bara í mestum vafa hvort ég eigi að halda meira með Tyrkjum eða Rússum...æji bara Rússum held ég.

föstudagur, júní 20, 2008

Má þetta brotna?

Dagurinn í dag hefur verið SVO góður og loksins er sólin komin á loft. Við fórum í grasagarðinn með Nóa og flatmöguðum í steikjandi hita á meðan við leystum krossgátur og rákum ógeðslegar endur í burtusem vildu ekki láta okkur í friði (aðallega ég samt). Þegar Nói var að leggja sig þá skrapp ég yfir á hið ofurdýra kaffihús Café Flóra. Á meðan ég gekk fékk ég vægt hláturskast yfir atviki sem gerðist fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég veit ekki hvort að ég sé skrýtin að þessu leyti en ég er alltaf með nokkur svona atvik í hausnum á mér sem geta fengið mig til að springa úr hlátri á ólíklegustu stöðum. Þetta tiltekna atvik gerðist þegar að við Vala gáfum Kötu og Krissa vinafólki okkar, gamla barnarúmið hennar Möttu, en þau voru þá um það bil að fara að eignast hann Erling. Mig minnir að þetta hafi verið á laugardagskvöldi og það var e-ð rosa erfitt að fá bíl til að ferja rúmið, en þó þurfti aðeins að flytja rúmið mjög stutta vegalengd. Það er bara svo stórt að ekki var gerlegt að setja það í venjulegan fólksbíl og vegalengdin er ekki það stutt að hægt væri að ganga með það. En málið var að Kata hringdi á bíl og náði loksins á e-n gaur sem sagðist koma von bráðar. Hann þurfti bara að keyra frá Keflavík! Ég var ekkert að spá í það þá en hversu fáránlegt er að keyra frá Keflavík til að flytja eitt rúm tvær götulengdir. Á meðan við biðum, sátum við og spjölluðum um daginn og veginn, en gaurinn var alltaf að hringja og spyrja til vegar. Kata reyndi að útskýra fyrir honum hvar þetta væri en gaurinn virtist vera algjörlega lost. Hann var alltaf að hringja aftur og aftur og nefna göturnar sem hann var í, "nú er ég í blöndubakka, er það nálægt?", "nei...Hagamelur í vesturbænum", "já vesturbænum...nálægt IKEA er það ekki?". "No man, not really".
Svona héldu símtölin að koma eitt af öðru og ég held að við höfum beðið eftir gaurnum í svona einn og hálfan klukkutíma. Þegar hann loksins kom þá biðum við Krissi úti með rúmið á meðan hann opnaði bílinn og kom svo og heilsaði upp á okkur. Og þá kom hann með þessa æðislegu setningu sem fær mig alltaf til að hlæja. Hann kom upp að Krissa og leit fagmannlega yfir rúmið og spurði svo
"þetta má ekki brotna, er það?"

Kæruleysi

Í gær gerði ég mig sekan um svakalegt kæruleysi sem foreldri. Málið er að við Matthildur fórum í sund í Seltjarnarneslauginni eftir leikskólann en sú laug er að mínu mati einstaklega vel hönnuð til að vera með lítil börn og er almennt betri í alla staði en þessi kúka vesturbæjarlaug. Málið er að Matthildur er mjög kræf í öllum aðgerðum og það er ekki margt sem hræðir hana. Við vorum að skemmta okkur vel í barnalauginni þar sem Matthildur fór nokkur hundruð ferðir í litlu rennibrautinni en flest börn á hennar aldri létu foreldra sína halda í hendina á sér á leiðinni niður. Ekki Matta, hún bara steypti sér af stað og hló eins og lítið djöflabarn þegar hún kom niður. Fyrir þá sem hafa ekki komið í þessa sundlaug þá er rennibraut við hliðina á barnalauginni sem er svona þokkalega stór. Matthildur vildi ólm fara í hana þar sem að ég hafði farið einu sinni áður með henni í þá rennibraut og þá er ekki aftur snúið. Ég ákvað því að fara með henni eina ferð og við fórum því saman upp stigann og skelltum okkur niður. Auðvitað var það ekki nóg en ég var ekki alveg að nenna að fara aftur.
Og skömmustulegur skrifa ég áfram. Ég sem sagt ákvað að leyfa Matthildi (tveggja ára og 10 mánaða) að fara sjálfri í rennibrautina á meðan ég beið í setlauginni þar sem fólk kemur út úr rennibrautinni og fylgdist með. Eftir að ég sá hversu vel hún réð við að fara upp stigann þá fannst mér þetta allt í lagi. Ég mat það sem svo að það voru fáir aðrir að renna sér og Matthildur skreið frekar upp stigann en að labba hann. Og svo var ég auðvitað í nokkra skrefa fjarlægð allan tímann með augun á henni. Þegar hún var búin að renna sér frekar oft þá ákvað ég að þetta væri komið gott og við fórum upp úr. Þegar við komum svo heim, hittum við Völu og Kötu á gangi með börnin á Hagamelnum. Ég var svo stoltur af Matthildi að ég sagði þeim strax hvað hún hefði verið dugleg að renna sér sjálf...Og svipirnir á þeim sagði allt sem segja þarf. Mér leið eins og litlum strák sem kom heim með dauða rottu til að gefa kettinum sínum að borða og hélt að hann væri að gera geðveikt góðverk. Ég áttaði mig þá fyrst hversu fáránlegt þetta var hjá mér.

Ég vil samt segja, mér til varnar að ástæðan fyrir því að ég gerði þetta var mest megnis út af stolti í garð Möttu. Það voru allavega tvö börn á svipuðum aldri sem fóru í rennibrautina MEÐ foreldrum sínum og þau fóru að hágráta þegar þau komu niður í algjöru paniki. En ég sat og horfði á Möttu fara hverja ferðina á fætur annarri og ég hugsaði "djöfulsins töffari er þetta barn...og hún er stelpan mín".


Ekkert kæruleysi í gangi hér!

miðvikudagur, júní 18, 2008

Skammbíribamm Mr. Martin

Við áttum alveg frábæran dag fjölskyldan. Gott veður, góð tónlist og nóg af grasi. Hljómar eins og Hróarskelda ´99 en nei, ég er að tala um 17. júní 2008. Ég get ekki sagt eins vel frá því og mín yndislega kona gerði í máli og myndum. Endilega tjékkið á gullkonunni.
En sú ágætiskona benti mér líka á þetta video inn á www.perezhilton.com sem er svo að finna hér fyrir neðan, mér til mikillar mæði. Ég hef var nefnilega að hlusta stíft á Viva la vida áðan og ætlaði að gera honum betri skil í skrifum hér á síðunni. Mér finnst þessi plata nefnilega bara helvíti góð. Mjög sniðugt að platan endi á sama lagi og hún byrjar. Gaman gaman en samt algjört prump í samanburði við þetta myndband sem er hér að neðan. Það er allt í góðu að fá hugmyndir frá öðrum en þetta er auðvitað fyrir neðan allar...Ég enda þetta bara á setningu frá perez síðunni:
If Obama is President...will we still call it The White House?

laugardagur, júní 14, 2008

Krambúleraður Krimmi

Það hefur svo margt skemmtilegt gerst um þessa helgi að ég hef ákveðið að snúa aftur úr sjálfskipaðri útlegð minni úr bloggheimum. Auðvitað er alveg heill hellingur búinn að ske upp á síðkastið og ég held að það sé best að setja upplýsingarnar í númeraröð.

1. Börnin mín eru búin að vera veik til skiptis í mánuð. Nú er ég kominn í sumarfrí og get því tekið aðeins álagið af Völu en ég vona nú að þessu fari að linna. OG ég fæ tveggja mánaða sumarfrí í fyrsta sinn í langan tíma. Matta er orðin alveg geðveik týpa sem maður getur spjallað við um allt og sérstaklega um lagið Allt fyrir ástina með Páli Óskari, sem hún virðist elska. Það og Tinnu. Nói er nú sennilega kominn á erfiðasta barnaaldurinn, sé miðað við foreldrahlutverkið. Hann er 8 mánaða gamall og nennir ekkert að sitja kyrr lengur. Maður getur sem sagt varla tekið augun af honum í eina sekúndu þar sem að hann getur nú skriðið út um allt og staðið upp við alla hluti, sama hversu valtir þeir eru. Svo stendur hann upp og labbar aðeins meðfram þangað til að hann verður þreyttur og dettur eins og tré beint á gólfið. Sem betur fer eru foreldrarnir ávallt tilbúnir að grípa hann.

2.
Framkvæmdir. Eins og ávallt þegar við erum í fríi saman erum við að taka íbúðina í gegn. Það sem er á dagskránni núna er að (ég skammast mín svo mikið að ég get varla skrifað þetta tveimur árum síðar...) klára baðið, nú erum við nánast búinn að taka barnaherbergið í gegn og lítur það bara nokkuð vel út. Ef allt fer vel þá ættum við að vera búinn með allt í næstu viku og þá er það stóra spurningin??? Eldhúsið!!!
Mig langar að rífa allt út úr eldhúsinu og setja inn ný gólfefni og nýja innréttingu. Það kostar auðvitað sitt eins og Vala mín segir en hennar hugmyndir eru að hressa upp á innréttinguna með betri borðplötu og öðrum flísum. Ég veit að það er synd að henda út svona upprunalegri innréttingu og setja IKEA í staðinn en ég bara get ekki lengur þessa innréttingu. Sem dæmi þá þori ég varla að rífa innréttinguna niður og sjá hvaða viðbjóður leynist undir og á bakvið. Þetta eldhús er bara viðbjóður, eins og Geiri Kol segir.

3.
Um helgina tókum við drengirnir þátt í Mix boltanum annað árið í röð (Önnur af tveimur ástæðum fyrir titlinum á þessari færslu). Alveg eins og í fyrra þá var mótið alveg frábært í alla staði en ólíkt því í fyrra þá unnum við núna tvo heila leiki. Í fyrra unnum við engann. En núna var Kiddi ekki með þannig að...

4.
Einnig um helgina komst ég yfir nýju plöturnar með Sigurrós og Coldplay (hin ástæðan fyrir titlinum). Í stuttu máli sagt þá er Sigurrósarplatan alveg frábær. Ég vissi bara ekki hvað ég átti að halda þegar ég hlustaði á hana. Þeir eru svo poppaðir. Ég hvet alla til að hlusta á lagið Inn í mér syngur vitleysingur sem er bara rosalegt.
Coldplay aftur á móti tekur aðeins lengri tíma að melta. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda með þessa plötu, hún rennur alveg í gegn mjúklega en það vantar alveg þessa megahittara. Kannski koma þeir við aðra eða þriðju hlustun. Mér finnst eins og þeir séu aðeins að prufa sig áfram með misjöfnum árangri. Það má þó ekki misskilja mig að mér finnst þetta léleg plata, hún er mjög góð, bara öðruvísi.

5.
Ég náði ágætum árangri í skólanum en þessi törn var nokkuð þétt. Ég fékk 8,5 í öllum fjórum fögum og er ég bara nokkuð sáttur við það. Og talandi um skólann þá gifti hún María sig um daginn, en við erum gamlir félagar úr skólanum. Við Vala gátum ekki mætt en innilega til hamingju elsku María og Ágúst.

6.
Við Valgerður horfðum á tvær svaðalegar chick flicks um helgina. Önnur heitir Sex and the city og hin heitir Defenitely maybe. Ég var í algjöru kellingarstuði og var að fíla þessar myndir í tætlur. Ég hef alltaf haft gaman að S&C þáttunum og því var myndin bara fyndin. En D.M. kom aftur á móti algjörlega á óvart. Ryan Reynolds leikur aðalhlutverkið en sá gaur hefur alltaf farið nett í mig. En ekki núna...núna hélt ég með honum í leitinni að þeirri réttu. I turning into a woman, slap me around and call me Suzie.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Kominn tími á blogg?

Já ég held það!
Það eru ár og dagar síðan ég bloggaði síðast, lesist sem eitt stykki mánuður. Það hefur margt gerst á þessum tíma. Ég kláraði prófin og nokkuð erfiða verkefnatörn. Það gekk allt vel og nú er í raun aðeins eftir ritgerðin í haust. Í kjölfarið hélt ég upp á afmælið mitt, sem mér fannst vera mjög gaman. Það var nóg af góðu fólki og nóg af góðum áfengum drykkjum. Takk allir fyrir komuna, gjafirnar og stuðið. Svo eignuðust Kiddi og Guðrún litla telpu sem fékk nafnið Katla Kristín, fallegt nafn.

Helstu fréttirnar héðan af Hagamelnum eru samt sem áður þær að við erum hætt við flutninga til Keflavíkur. Jebb that´s right. Það er kannski of löng saga að fara út í hér en það stóð ekki steinn yfir steini varðandi öllu því sem okkur var lofað. Þannig að við sáum okkur ekki annað fært en að hætta við á síðustu stundu, sérstaklega þar sem að allt var svikið á SÍÐUSTU STUNDU. Við erum í frekar erfiðari stöðu þessa stundina. Ég er eiginlega atvinnulaus og það er ekki hlaupið að því að fá sæmilega borgaða atvinnu þegar maður er ekki kominn með gráðuna. Leigjandinn okkar er þegar búinn að segja upp sinni íbúð og er nú staddur lengst í útlöndum, fjarri öllu netsambandi. Við sögðum upp plássinu hennar Möttu á leikskólanum en vorum svo heppin að við missum það ekki. En það munaði aðeins nokkrum dögum að það hefði gerst.
Þetta er bara allt hið leiðinlegasta mál en við lítum bara á málið þannig að þetta hafi verið signal um að við ættum ekki að fara. Svo vill maður auðvitað ekkert vinna hjá fólki sem stundar svona vinnubrögð. Þannig að you are stuck with us, boys and girls.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Sonur minn the mini celeb

Skólafélagi Völu tók nokkrar myndir af Nóa um daginn, sem komu svona helvíti vel út. Ljósmyndarinn heitir Rebekka og hefur getið sér gott orð á ljósmyndasíðunni Flickr Það er reyndar svolítið sérstakt að lesa kommentin við myndina af honum þar sem ókunnugt fólk er að skrifa athugasemdir um barnið okkar. Hann er nú heppinn að eiga svona myndarlega foreldra þessi drengur, kannski á hann framtíðina fyrir sér í auglýsingabransanum eins og jökulrakarinn faðir hans. En kommentin er hægt að lesa hér:
Sérstaklega er gott kommentið frá honum Passetti "When he grows up, he will probably become the next Daila Lama. ;) "
Takk fyrir Passetti, nýjasti Sómi Hagamels 27 kjallara.
Og hér er svo myndirnar:laugardagur, apríl 05, 2008

HlaupabólaÞað eru búnar að vera sérstakar vikur þessar síðustu, þar sem að hver veikin á fætur annarri hefur herjað á heimasætur hér á Hagamel. Matthildur fékk hlaupabóluna fyrir tveimur vikum, en slapp nú frekar vel verður að segjast. Bólurnar urðu aðeins örfáar og hurfu jafn snögglega og þær birtust. Þegar hlaupabólan var farin fengum við foreldrarnir bæði e-a ógeðis sólarhringspest. Þetta var á laugardaginn í síðustu viku og ég vil bara taka það fram að þetta er eitt það versta sem ég hef lent í. Að vera með 39'C með tvö lítil börn er hörmung.Maður lá í sófanum eða á gólfinu og reyndi að hafa ofan fyrir börnunum í algjöru móki. En sem betur fer tók pestin ekki lengri tíma en raun bar vitni að ganga yfir.Í byrjun þessarar viku gerðist það sem við óttuðumst, Nói greyið fékk hlaupabólu. Við vorum nokkuð viss um að þetta myndi gerast og hugsuðum bara að kannski væri gott fyrir hann að ljúka þessu af svona ungur. Reyndar hefur hann átt mjög erfitt greyið eins og lesa má um hér:
http://www.matthildurognoi.barnaland.is/vefbok/
Samt sem áður er hann sáttur ef hann fær að borða beinið sitt í friðiMatthildur er mjög jákvæð týpa og er vön að setja upp bjartsýnisgleraugun á svona krísutímum. Hún er líka svo ánægð að hafa loksins getað farið aftur í leikskólann og hitt vini sína, eftir að hafa setið hér heima og horft á Dóru landkönnuð út í óendanleikann. Svo fékk hún líka að fara að sjá Norton í bíó, en hún hefur verið að segja öllum sem hún hittir upp á síðkastið "Þegar ég búin hlaupabólu...AÐ sjá fílinn". Sem útleggst á fullorðinsmáli "Þegar ég er búin með hlaupabólu þá ætla ég að fara í bíó að sjá fílinn (norton). Skemmst er að segja frá því að auglýsingarnar í bíó voru svo hátt stilltar og alls ekki við hæfi svona ungra barna, að Matta varð sjúklega hrædd og þurfti bara að yfirgefa salinn. Frekar glatað. En hún var nú samt frekar sátt.En aftur að Nóa. Þessi hlaupabóla reyndist svo vera svaðalegt tilfelli. Ég hef nú bara aldrei vitað annað eins.Eins og má sjá á þessari mynd þarf að maka á hann Kalmínáburði til að minnka kláðan. Það eru bólur ÚT UM ALLT. Fullt á hausnum á honum, á maganum, bakinu, bleyjusvæðinu og í andlitinu.Það er svo erfitt að horfa á hann þar sem hann getur ekki klórað sér en langar greinilega svo til þess. Hann á erfitt með að sofa, (sem þýðir þá að við sofum heldur ekki - sérstaklega Vala - núna eru komnar fjórar nætur) og er mjög pirraður.En við vonum bara að þetta versta sé yfirstaðið, en mér finnst allavega dagurinn í dag vera sá besti hingað til. Við skulum bara segja að þetta hafi náð hámarki í gær og nú taki batinn við. Og vonandi ljúfur svefn fyrir alla í fjölskyldunni svona eins
og þessi ljúfi drengur fyrr í kvöld.

laugardagur, mars 29, 2008

Ég heiti Óli og ég ætla að segja ykkur frá...

Í gær fór ég á Dale Carnegie námskeið í vinnunni sem kallaðist Tjáðu þig. Námskeiðið var þriggja klst langt og miðaði að því að leiðbeina fólki þegar kemur að því að halda ræður eða kynningar. Fyrir mann eins og mig sem þjáist af lamandi ótta við að halda ræður, var þetta vægast sagt gagnlegt. Ekki skemmdi fyrir að sú sem hélt námskeiðið var rosalega drífandi í að leiðbeina og náði hún athygli minni frá fyrstu mínútu. Það var svo margt áhugavert sem kom fram, eins og t.d. niðurstöður könnunar sem gerð var á meðal framkvæmdarstjóra í USA sem voru beðnir að flokka 200 fyrirlestra eftir því hvort að þeir voru leiðinlegir, svæfandi, bara svona la la eða áhrifaríkir. Það er skemmst frá því að segja að þeir töldu 84% fyrirlestra vera leiðinlega eða svæfandi, og aðeins 3% áhrifaríka!!
Á námskeiðinu var einnig farið í ýmsa punkta sem gott er að hafa í huga þegar talað er fyrir framan fólk. T.d. að byrja aldrei á að afsaka sig og að bestu fyrirlesara æfi sig 12x með því að flytja fyrirlesturinn 12x áður en hann er fluttur fyrir framan fólk. Segir manni kannski að fólk fæðist ekki endilega góðir ræðumenn, heldur að þetta komi með æfingunni.
Síðasti klukkutíminn fór svo í æfingar. Það er alveg merkilegt hvað tilhugsunin um að tala fyrir framan fólk, þó að það sé ekki nema nokkrar hræður, getur stressað mann upp. Dæmigerð einkenni hjá mér er ör hjartsláttur, þurrkur í munni og að höfuðið tæmist algjörlega þegar byrja á að tala.
Æfingarnar voru þannig að okkur var skipt í 6 manna hópa og hver átti að tala í 90 sek. Það hljómar stutt en trúið mér það er ekki auðvelt. Sérstaklega þegar við fengum 4 mínútur til að hugsa um fyrirmyndir okkar í lífinu og áttum að tala um þá fyrirmynd í 90 sekúndur. Ég fór nú bara þessa klassísku leið og valdi mömmu sem mína fyrirmynd.
Nú er ég alvarlega að hugsa um að fara á fullt námskeið hjá þeim í Dale Carnegie. Námskeið sem tekur alveg tvo daga og farið er mun dýpra í þessa þætti. Ég held að það geti allavega ekki gert mig að verri manni.

Að lokum vil ég benda þeim sem vilja leggja góðu málefni lið, málefni sem að mínu mati snertir okkur meira en mæðrastyrksnefnd eða Rauði krossinn. Nú er ég að sjálfsögðu að tala um peningasöfnun til handa Hannesi Hólmsteini Gissurasyni. Bankanúmerið er 0101-05-271201 Kt: 131083-4089. Gefðu góðum manni og studdu baki við hinn venjulega launamann gegn auðvaldinu. Lifi litli maðurinn.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Börn

Í fyrrakvöld lágum við hjónin upp í rúmi og flatmöguðum eftir páskafríið. Frí sem einkenndist af veikindum barnanna og stöðugu áti. Áti sem á sér enga líka í mannkynssögunni. Fyrir utan gluggann hafði tunglið tekið öll völd og við hugleiddum að hætta þessari vitleysu og fara með börnin í kvöldgöngu um Ægissíðuna.
Já glætan.
Við köstuðum frekar upp á hvort okkar þyrfti að standa upp og ná í tölvuna og meira nammi. Videogláp og nammi, er til betri íþrótt en það?
Fyrir valinu varð mynd sem við áttum að hafa séð fyrir langa löngu en sumir bíógullmolar virðast stundum gleymast í framboðinu. Þessi gullmoli heitir Börn og er eftir Ragnar Bragason. Ég man bara ekki eftir íslenskri mynd sem nær að fanga íslenskan samtíma á jafn raunverulegan hátt. Ekki að ég viti hvernig er að vera handrukkari, einhverfur eða einstæð fjögurra barna móðir í fellunum. En ef aðstæður hefðu verið á þann veg í mínu lífi þá er ég viss um að þessi mynd sýni það í réttu ljósi.

Sérstaklega fannst mér karakterinn sem að Gísli Örn Garðarson lék frábær, en hann lék handrukkarann. Þá fannst mér tvö atriði með honum standa upp úr. Ég veit ekki hvort að ég sé e-ð sjúkur eða hvort að ég hafi bara unnið of lengi með börnum, eða hvort að þetta hafi bara raunverulega verið svona fyndið. En atriðin voru þessi:

1. Þegar að Gísli er að fylgjast með syni sínum á leið heim úr skóla og tveir fantar elta son hans uppi til að stríða honum. Geðsýkin í augunum á honum þegar hann kemur að þeim og grípur þá báða, er engri lík. Þetta var svo SJÚKT atriði að ég gat ekki annað en flissað vandræðalegum hlátri þegar að hann kýldi og nefbraut annan strákinn. "Sérðu vin þinn hérna. Heyrðiru hljóðið, heyrðiru hljóðið? Þetta var nefið á honum að brotna. Helduru að þetta hafi verið gott? Nei. Var þetta vont? Það blæðir svolítið mikið úr nefinu á þér"

2. Þegar að Gísli er að ná betra sambandi við son sinn og segir honum að mæta á æfingu hjá ÍR á morgun. Hann sé búinn að tala við þjálfarann og allt sé frágengið. Það bíði eftir honum skór og æfingagalli. Hann eigi bara að mæta klukkan 3 og það séu allir spenntir að fá hann. Svo þegar að strákurinn mætir daginn eftir og fer að tala við þjálfarann, þá er þjálfarinn nefbrotinn og með glóðurauga. Bara búið að redda málunum.

Í gær sá ég svo nýju þættina á RÚV, mannaveiðar. Mér finnst þeir bara lofa nokkuð góðu. Ég hef reyndar ekki lesið þessa bók sem þættirnir eru gerðir eftir en það skiptir varla máli. Skemmtilegir leikarar og bara helvíti vel skrifaðir þættir.

mánudagur, mars 24, 2008

Is it me eða er þetta alveg fáránlega orðað?

Tekið af visir.is í kvöld.

"Vísir ræddi við konu í kvöld sem segist vera eigandi hauskúpunar sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðan í gærkvöld. Konan, sem ekki vildi láta nafns síns getið, þvertók fyrir að eitthvað gruggugt væri við hauskúpuna eða við það hvernig hún komst í hennar hendur."

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég ged ekki orþa buntist

Afsakið stafsetninguna en Vala var að sýna mér umræðu á Barnalandi og ég varð fyrir svo gífurlegum áhrifum. Ég verð aldrei samur.
En ástæðan fyrir því að ég get ekki orþa buntist er hins vegar önnur. Á þessum tímum niðursveiflu í hagkerfinu er samt sem áður nóg framboð af skemmtiefni í samfélaginu. Það er ekki eins og við þessir "dæmigerðu" borgarar finnum mikið fyrir kreppu. Kreppa er ansi sterkt orð sem blöðin eru gjörn að sletta fram en þegar ég stend í kílómetralangri biðröð eftir síðustu mjókinni í borginni sem ég ætla að nota í grjónagrautinn sem á að endast út alla vikuna, þá er kreppa. En sú tíð er ekki gengin í garð. Annað sem segir mér að kreppa sé ekki gengin í garð er hversu gríðarlega mikið framboð er af góðum tónleikum um þessar mundir. Listinn er langur, Bob Dylan, John Fogerty, Rufus Wainwright og ég veit ekki hvað og hvað.
Tvennir tónleikar á þessum lista eru að mínu mati alveg stórfurðulegir. Ekki endilega vegna þeirra sem ætla að spila á tónleikunum heldur frekar fyrir rídigggíulös aðgangsverð. Hér er ég að ræða um tvenna tribjút tónleika, annars vegar Sgt. peppers og hins vegar Eagles.
Á þá fyrrnefndu kostar 8 - 9.000 krónur. Ég er mikill aðdáandi Bítlanna og var Sgt. Peppers í raun fyrsta platan sem virkilega kveikti í mér hvað þá varðar. Eins og flestir vita þá eru tveir af The fab four ekki lengur á meðal vor sem gerir það að verkum að ég mun aldrei fá að sjá þá taka þessi lög á tónleikum. Samt sem áður myndi ég aldrei nokkur tímann borga á milli 8 og 9 þús krónur til að sjá Sigurjón Brink eða Björgvin Halldórsson nauðga þessum lögum.
Á Eagles tónleikana kostar 5900 krónur. Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi The Eagles en á sama hátt og hér fyrir ofan. Ég myndi ekki borga þessa upphæð, einmitt til að sjá Sigurjón Brink eða Björgvin Halldórsson nauðga þessum lögum. Þeir eru einmitt báðir þátttakendur á báðum þessum tónleikum.
Hvernig dettur (með super ofur áherslu á orðið dettur) þessum skipuleggjendum að rukka þessar upphæðir? Frekar myndi ég nú borga mig inn á James Blunt. Sérstaklega ef BMV hitar upp og tekur ábreiðu af You´re beautiful á íslensku. Splendid.

Hvað er betra á skírdegi en vinkona okkar að syngja um Ken Lee

miðvikudagur, mars 19, 2008

Á bakvið nóturnar

Ég gerði mitt í tónlistarlegu uppeldi barnanna minna í dag, þegar ég sat með Nóa og horfði á Ac/Dc Behind the music. Nói var vel hrifinn af Hells bells og Highway to hell, allavega átti ég mjög erfitt með að slíta hann frá skjánum. Eftir svona tvö ár þá verður fastur fjölskylduliður á sunnudögum að horfa á Anthology seríuna með Bítlunum. Ef það er e-ð sem þarf að vera á hreinu í uppeldinu þá er það þetta. Mér er sama þó að hvorugt þeirra nenni að horfa með mér á fótbolta í framtíðinni en ef annaðhvort þeirra ákveður að rokktónlist sé djöfullegt fyrirbæri sem ber að útrýma og deleta allri tónlistinni minni úr tölvunni, þá hef ég brugðist.

En eitt sem vakti svakalega athygli áðan. Ég var að horfa á Vh1 Legends um hina frábæru, ástsælu hljómsveit Led Zeppelin sem alltaf vekur góðar minningar og fær mig til að vilja læra á trommur a la Bonzo. En allavega. Alla tíð hef ég og flestir sem ég þekki borið fram nafnið á laginu Dyer maker, bara svona eins og það er sagt. Dæer meiker. Þeir sem þekkja lagið þá er þetta eitt poppaðasta zeppelin lagið og alls ekki í uppáhaldi hjá svona hörðum aðdáendum, þetta er svona hálf reggí skotið lag. Í textanum er fjöldinn allur af ó-um. Ó Ó Ó Ó Ó you don´t have to go Ó Ó Ó Ó you don´t have to go Ó Ó ÓÓ Ó baby please please og svo framvegis. Í þættinum kom fram að þetta lag hafi verið óður til reggí tónlistar og í raun eigi að bera fram nafnið á laginu eins og Jamaica, bara hratt. Prufið endilega að segja þetta hratt. Sniðugt ekki satt?

mánudagur, mars 17, 2008

Músíktilraunamajones

Æ æ æ...ég ætlaði að vera svo sniðugur og skrifa svakalegan pistil sem ég er búinn að vera að kokka í hausnum á mér í allann dag. Ég fékk þessa pælingu í hausinn í dag hvað varðar músíktilraunir. Mér fannst í dag eins og keppnin væri varla skugginn af sjálfum sér, allavega miðað við þegar ég var ungur og sætur. Í þá daga voru sigurvegarar músíktilrauna hljómsveitir sem náðu að gera margar plötur og vöktu mikla hrifingu margar hverjar, fóru sumar hverjar í ferðalög til útlanda til að spila. Ég er hér að tala um tímabilið ´90 og þar í kring. Hljómsveitir eins og Infusoria, Yukatan, Maus, Kolrassa og Botnleðja og svo finnst mér bara botninn hafa dottið úr þessu (eða það var allavega pælingin áður en rannsóknarvinnan hófst). En svo hóf ég rannsóknarvinnuna fyrir skrifin (jebb google) og þá poppuðu upp þessar mjög svo þekktu hljómsveitir. Mínus(já þeir unnu), Jakóbínarína(hmmm gleymdi þeim), Stjörnukisi(einmitt), XXX rottweiler(ok stop), og Greifarnir (ehh glatað). Kannski er bara málið að þegar maður er ungur, með nægan tíma og sækir alla tónleika og er inní þessari jaðarmúsíksenu í Reykjavík, þá sannarlega heyrir maður og fréttir meira af þessum hljómsveitum. En í dag þá finnst mér eins og það verði ekkert úr mörgum af þessum sigurvegurum. Æji hvað er ég að bulla? Ég er nú bara að tala í hringi. Bottom line is i´m old and i´m fucked.