fimmtudagur, júní 26, 2008

Framkvæmdir

Það blasti við mér fögur sjón í gær, allavega í nokkrar sekúndur. Eftir mikið púl síðustu daga lögðum við síðustu flísina á baðherbergið, eftir einungis tveggja ára vinnu. Valgerður lagði fúu á glæsilegan máta og allt var farið að líta nokkuð vel út. Ég leit yfir herbergið og hugsaði "Þetta er alveg að verða búið". Þar sem ég var með hamar við hendina tók ég eftir hvernig litli naglinn, sem hafði eyðilagt ófáa sokka, gægðist upp úr þröskuldinum á baðherberginu. Ég ákvað auðvitað að fullkomna verkið og loksins slá fjandans naglann niður...sem ég og gerði. En viti menn, þá byrjaði að fossa vatn út um allt. Vei. Ég hafði neglt í pípulögn sem tengdist baðherbergisofninum. Vei ó Vei. Þetta fór nú allt vel en nú erum við búin að rífa þröskuldinn af og við það losnaði ein flísinn. ve...i. Þannig að einhver seinkun verður á því að baðherbergið klárist. V................
Á morgun ætlum við svo að fara í sumarbústað í heila viku. Ég veit ekki hvort að ég sé eitthvað skrýtinn, ég veit að Völu finnst það allavega, en mér finnst (eða fannst) svo mikilvægt að ná að klára mest af þessum framkvæmdum áður en við förum í bústaðinn (ég sé það núna að það mun ekki nást). Svona til þess að geta komið tilbaka og verið í FRÍI í júlí. Ekki vera tvo daga í sólbaði og þurfa svo að skafa glugga næstu tvo. Ég allavega á mjög erfitt með að slappa af í fríi ef ég er með fullt af svona verkefnum hangandi yfir. Nú er samt bara málið að sóna út í heita pottinum og borða góðan grillmat. Ekki nema auðvitað ef ég ákveð að dytta að bústaðnum og hamra aðeins í hann. Og sprengi klóakið eða gasgrillið eða allt sumarbústaðahverfið. Hver veit?



Hmmm...hvað? Er ég með eitthvað framan í mér?

sunnudagur, júní 22, 2008

Smá boltablogg



Í öllum þessu EM fótboltaæði er tímabært að tjá sig eilítið um framgang mála þarna syðeystra. Í kvöld kláruðust 8 liða úrslit og um leið kenningin mín um 8 liða úrslit of the underdogs. En eins og þeir vita sem hafa fylgst með keppninni þá hefur hún í raun verið tvær keppnir. Í fyrsta lagi var það riðlakeppnin þar sem flest fór eftir bókinni (nema að Frakkar duttu út) og tvö eða þrjú lið virtust eiga greiða lið í úrslitin. Hollendingar og Portúgalir voru þá að spila flottasta boltann og flestir spáðu þeim í úrslit.
En svo byrjuðu þessi blessuðu 8 liða úrslit. Ástæðan fyrir því að ég skrifa ...of the underdogs er vegna þess að þangað til í kvöld voru öll vinningsliðin hálfgerðir underdogs. Ég allavega spáði Króötum sigri gegn Tyrkjum, Portúgölum sigri gegn Gestapo og Hollendingum sigri gegn Rússum. Eini leikurinn sem ég var í vafa með var Spánn og Ítalía en þar held ég að flestir hafi hugsað Spánverja áfram og því hefði Ítalía átt að vinna samkvæmt minni kenningu um the underdogs.
Kannski er þetta gölluð kenning. Það er sennilega sjaldan að þjóðverjar séu stimplaðir underdogs (og btw hvað er íslenska orðið yfir underdog?)



Nú er erfitt að spá í næstu leiki. Tyrkland - Þýskaland og Rússland - Spánn. Rökrétt væri að segja Þýskaland - Spánn in Finale en hver ætlar að fara að afskrifa Tyrki og svo eru Rússarnir alveg þvílíkt flottir. Ég er bara í mestum vafa hvort ég eigi að halda meira með Tyrkjum eða Rússum...æji bara Rússum held ég.

föstudagur, júní 20, 2008

Má þetta brotna?

Dagurinn í dag hefur verið SVO góður og loksins er sólin komin á loft. Við fórum í grasagarðinn með Nóa og flatmöguðum í steikjandi hita á meðan við leystum krossgátur og rákum ógeðslegar endur í burtusem vildu ekki láta okkur í friði (aðallega ég samt). Þegar Nói var að leggja sig þá skrapp ég yfir á hið ofurdýra kaffihús Café Flóra. Á meðan ég gekk fékk ég vægt hláturskast yfir atviki sem gerðist fyrir mörgum mánuðum síðan. Ég veit ekki hvort að ég sé skrýtin að þessu leyti en ég er alltaf með nokkur svona atvik í hausnum á mér sem geta fengið mig til að springa úr hlátri á ólíklegustu stöðum. Þetta tiltekna atvik gerðist þegar að við Vala gáfum Kötu og Krissa vinafólki okkar, gamla barnarúmið hennar Möttu, en þau voru þá um það bil að fara að eignast hann Erling. Mig minnir að þetta hafi verið á laugardagskvöldi og það var e-ð rosa erfitt að fá bíl til að ferja rúmið, en þó þurfti aðeins að flytja rúmið mjög stutta vegalengd. Það er bara svo stórt að ekki var gerlegt að setja það í venjulegan fólksbíl og vegalengdin er ekki það stutt að hægt væri að ganga með það. En málið var að Kata hringdi á bíl og náði loksins á e-n gaur sem sagðist koma von bráðar. Hann þurfti bara að keyra frá Keflavík! Ég var ekkert að spá í það þá en hversu fáránlegt er að keyra frá Keflavík til að flytja eitt rúm tvær götulengdir. Á meðan við biðum, sátum við og spjölluðum um daginn og veginn, en gaurinn var alltaf að hringja og spyrja til vegar. Kata reyndi að útskýra fyrir honum hvar þetta væri en gaurinn virtist vera algjörlega lost. Hann var alltaf að hringja aftur og aftur og nefna göturnar sem hann var í, "nú er ég í blöndubakka, er það nálægt?", "nei...Hagamelur í vesturbænum", "já vesturbænum...nálægt IKEA er það ekki?". "No man, not really".
Svona héldu símtölin að koma eitt af öðru og ég held að við höfum beðið eftir gaurnum í svona einn og hálfan klukkutíma. Þegar hann loksins kom þá biðum við Krissi úti með rúmið á meðan hann opnaði bílinn og kom svo og heilsaði upp á okkur. Og þá kom hann með þessa æðislegu setningu sem fær mig alltaf til að hlæja. Hann kom upp að Krissa og leit fagmannlega yfir rúmið og spurði svo
"þetta má ekki brotna, er það?"

Kæruleysi

Í gær gerði ég mig sekan um svakalegt kæruleysi sem foreldri. Málið er að við Matthildur fórum í sund í Seltjarnarneslauginni eftir leikskólann en sú laug er að mínu mati einstaklega vel hönnuð til að vera með lítil börn og er almennt betri í alla staði en þessi kúka vesturbæjarlaug. Málið er að Matthildur er mjög kræf í öllum aðgerðum og það er ekki margt sem hræðir hana. Við vorum að skemmta okkur vel í barnalauginni þar sem Matthildur fór nokkur hundruð ferðir í litlu rennibrautinni en flest börn á hennar aldri létu foreldra sína halda í hendina á sér á leiðinni niður. Ekki Matta, hún bara steypti sér af stað og hló eins og lítið djöflabarn þegar hún kom niður. Fyrir þá sem hafa ekki komið í þessa sundlaug þá er rennibraut við hliðina á barnalauginni sem er svona þokkalega stór. Matthildur vildi ólm fara í hana þar sem að ég hafði farið einu sinni áður með henni í þá rennibraut og þá er ekki aftur snúið. Ég ákvað því að fara með henni eina ferð og við fórum því saman upp stigann og skelltum okkur niður. Auðvitað var það ekki nóg en ég var ekki alveg að nenna að fara aftur.
Og skömmustulegur skrifa ég áfram. Ég sem sagt ákvað að leyfa Matthildi (tveggja ára og 10 mánaða) að fara sjálfri í rennibrautina á meðan ég beið í setlauginni þar sem fólk kemur út úr rennibrautinni og fylgdist með. Eftir að ég sá hversu vel hún réð við að fara upp stigann þá fannst mér þetta allt í lagi. Ég mat það sem svo að það voru fáir aðrir að renna sér og Matthildur skreið frekar upp stigann en að labba hann. Og svo var ég auðvitað í nokkra skrefa fjarlægð allan tímann með augun á henni. Þegar hún var búin að renna sér frekar oft þá ákvað ég að þetta væri komið gott og við fórum upp úr. Þegar við komum svo heim, hittum við Völu og Kötu á gangi með börnin á Hagamelnum. Ég var svo stoltur af Matthildi að ég sagði þeim strax hvað hún hefði verið dugleg að renna sér sjálf...Og svipirnir á þeim sagði allt sem segja þarf. Mér leið eins og litlum strák sem kom heim með dauða rottu til að gefa kettinum sínum að borða og hélt að hann væri að gera geðveikt góðverk. Ég áttaði mig þá fyrst hversu fáránlegt þetta var hjá mér.

Ég vil samt segja, mér til varnar að ástæðan fyrir því að ég gerði þetta var mest megnis út af stolti í garð Möttu. Það voru allavega tvö börn á svipuðum aldri sem fóru í rennibrautina MEÐ foreldrum sínum og þau fóru að hágráta þegar þau komu niður í algjöru paniki. En ég sat og horfði á Möttu fara hverja ferðina á fætur annarri og ég hugsaði "djöfulsins töffari er þetta barn...og hún er stelpan mín".


Ekkert kæruleysi í gangi hér!

miðvikudagur, júní 18, 2008

Skammbíribamm Mr. Martin

Við áttum alveg frábæran dag fjölskyldan. Gott veður, góð tónlist og nóg af grasi. Hljómar eins og Hróarskelda ´99 en nei, ég er að tala um 17. júní 2008. Ég get ekki sagt eins vel frá því og mín yndislega kona gerði í máli og myndum. Endilega tjékkið á gullkonunni.
En sú ágætiskona benti mér líka á þetta video inn á www.perezhilton.com sem er svo að finna hér fyrir neðan, mér til mikillar mæði. Ég hef var nefnilega að hlusta stíft á Viva la vida áðan og ætlaði að gera honum betri skil í skrifum hér á síðunni. Mér finnst þessi plata nefnilega bara helvíti góð. Mjög sniðugt að platan endi á sama lagi og hún byrjar. Gaman gaman en samt algjört prump í samanburði við þetta myndband sem er hér að neðan. Það er allt í góðu að fá hugmyndir frá öðrum en þetta er auðvitað fyrir neðan allar...



Ég enda þetta bara á setningu frá perez síðunni:
If Obama is President...will we still call it The White House?

laugardagur, júní 14, 2008

Krambúleraður Krimmi

Það hefur svo margt skemmtilegt gerst um þessa helgi að ég hef ákveðið að snúa aftur úr sjálfskipaðri útlegð minni úr bloggheimum. Auðvitað er alveg heill hellingur búinn að ske upp á síðkastið og ég held að það sé best að setja upplýsingarnar í númeraröð.

1. Börnin mín eru búin að vera veik til skiptis í mánuð. Nú er ég kominn í sumarfrí og get því tekið aðeins álagið af Völu en ég vona nú að þessu fari að linna. OG ég fæ tveggja mánaða sumarfrí í fyrsta sinn í langan tíma. Matta er orðin alveg geðveik týpa sem maður getur spjallað við um allt og sérstaklega um lagið Allt fyrir ástina með Páli Óskari, sem hún virðist elska. Það og Tinnu. Nói er nú sennilega kominn á erfiðasta barnaaldurinn, sé miðað við foreldrahlutverkið. Hann er 8 mánaða gamall og nennir ekkert að sitja kyrr lengur. Maður getur sem sagt varla tekið augun af honum í eina sekúndu þar sem að hann getur nú skriðið út um allt og staðið upp við alla hluti, sama hversu valtir þeir eru. Svo stendur hann upp og labbar aðeins meðfram þangað til að hann verður þreyttur og dettur eins og tré beint á gólfið. Sem betur fer eru foreldrarnir ávallt tilbúnir að grípa hann.

2.
Framkvæmdir. Eins og ávallt þegar við erum í fríi saman erum við að taka íbúðina í gegn. Það sem er á dagskránni núna er að (ég skammast mín svo mikið að ég get varla skrifað þetta tveimur árum síðar...) klára baðið, nú erum við nánast búinn að taka barnaherbergið í gegn og lítur það bara nokkuð vel út. Ef allt fer vel þá ættum við að vera búinn með allt í næstu viku og þá er það stóra spurningin??? Eldhúsið!!!
Mig langar að rífa allt út úr eldhúsinu og setja inn ný gólfefni og nýja innréttingu. Það kostar auðvitað sitt eins og Vala mín segir en hennar hugmyndir eru að hressa upp á innréttinguna með betri borðplötu og öðrum flísum. Ég veit að það er synd að henda út svona upprunalegri innréttingu og setja IKEA í staðinn en ég bara get ekki lengur þessa innréttingu. Sem dæmi þá þori ég varla að rífa innréttinguna niður og sjá hvaða viðbjóður leynist undir og á bakvið. Þetta eldhús er bara viðbjóður, eins og Geiri Kol segir.

3.
Um helgina tókum við drengirnir þátt í Mix boltanum annað árið í röð (Önnur af tveimur ástæðum fyrir titlinum á þessari færslu). Alveg eins og í fyrra þá var mótið alveg frábært í alla staði en ólíkt því í fyrra þá unnum við núna tvo heila leiki. Í fyrra unnum við engann. En núna var Kiddi ekki með þannig að...

4.
Einnig um helgina komst ég yfir nýju plöturnar með Sigurrós og Coldplay (hin ástæðan fyrir titlinum). Í stuttu máli sagt þá er Sigurrósarplatan alveg frábær. Ég vissi bara ekki hvað ég átti að halda þegar ég hlustaði á hana. Þeir eru svo poppaðir. Ég hvet alla til að hlusta á lagið Inn í mér syngur vitleysingur sem er bara rosalegt.
Coldplay aftur á móti tekur aðeins lengri tíma að melta. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda með þessa plötu, hún rennur alveg í gegn mjúklega en það vantar alveg þessa megahittara. Kannski koma þeir við aðra eða þriðju hlustun. Mér finnst eins og þeir séu aðeins að prufa sig áfram með misjöfnum árangri. Það má þó ekki misskilja mig að mér finnst þetta léleg plata, hún er mjög góð, bara öðruvísi.

5.
Ég náði ágætum árangri í skólanum en þessi törn var nokkuð þétt. Ég fékk 8,5 í öllum fjórum fögum og er ég bara nokkuð sáttur við það. Og talandi um skólann þá gifti hún María sig um daginn, en við erum gamlir félagar úr skólanum. Við Vala gátum ekki mætt en innilega til hamingju elsku María og Ágúst.

6.
Við Valgerður horfðum á tvær svaðalegar chick flicks um helgina. Önnur heitir Sex and the city og hin heitir Defenitely maybe. Ég var í algjöru kellingarstuði og var að fíla þessar myndir í tætlur. Ég hef alltaf haft gaman að S&C þáttunum og því var myndin bara fyndin. En D.M. kom aftur á móti algjörlega á óvart. Ryan Reynolds leikur aðalhlutverkið en sá gaur hefur alltaf farið nett í mig. En ekki núna...núna hélt ég með honum í leitinni að þeirri réttu. I turning into a woman, slap me around and call me Suzie.