mánudagur, október 29, 2007

The truth about food og strætóbílstjórar bæjarins.

Í sjónvarpinu í kvöld var að ljúka seríunni The thruth about food. Þetta eru 6 þættir frá BBC um áhrif mataræðis á líkamann. Þættirnir eru vægast sagt skemmtilegir og lærdómsríkir, sérstaklega fyrir menn eins og mig sem aldrei nenna að lesa sér til um neitt. Ég sá því miður ekki nema tvo þætti sem báðir voru frábærir. Í kvöld var síðasti þátturinn og þar komu fram svör við ýmsum spurningum sem ég hef oft velt fyrir mér. Það kom meðal annars fram að:

* Kolvetnisinntaka(brauð,kartöflur,pasta) eykur úthald og styrk.
Þetta á líka við um þá sem aðeins smakka á kolvetnum!

* Neysla á omega 3 fitusýrum ( í feitum fiski) minnkar stress.

* Borða minni matarskammta, oftar á dag eykur orku og úthald.

* Grænmetisætur vs. kjötætur, hvað varðar styrk. Óljósar niðurstöður.

* Það mikilvægasta af öllu er. Koffín gerir fólk ekki einbeittarar.
Þú ert alveg jafn árvakur og einbeittur án þess.


Síðustu vikur höfum við fjölskyldan gert meira af því að taka strætó. Ástæðan er tvíþætt, annars vegar bilaði bíllinn og hins vegar fengum við fríkort í strætó (námsfólk...jéi). Við erum auðvitað orðin stór fjölskylda og mikið fyrirtæki fyrir okkur að klöngrast inn í strætóinn með kerru, vagn og börn á bakinu. Mér finnst mjög notalegt að ferðast í strætó. En það sem skemmdi yfirleitt fyrir í þessum ferðum okkar var glannaleg keyrsla strætóbílstjóranna. Ég myndi sennilega ekkert vera að kippa mér upp við þetta ef ég væri einn á ferð. En þegar maður situr með lítið barn í fanginu og þarf að ríghalda sér í til að rúlla ekki fram ganginn, þá minnka notalegheitin töluvert. Þetta setti ég svo allt saman í samhengi þegar ég las frétt um bílstjóra sem keyrði eins og bavíani og hótaði að henda eldri konu út þegar hún bað hann að keyra hægar! Hvað er í gangi?

Í gærkvöldi var komið að klippistund. Valgerður dró fram gömlu góðu rakvélina úr Elko sem hefur séð um að raka á mér skallann síðustu misseri. Vala hófst handa af sinni alkunnu snilld og rakaði vel af hliðinni og upp á koll. Um leið og hún keyrði vélina í gegn, heyrðist hljóð sem átti ekki að heyrast. Svona eins og þegar að batterí klárast í leikfangi og hljóðið sem eitt sinn var taktfast og stöðugt verður óreglulegt og hægfara(sumir hugsa um barnaleikföng en aðrir önnur leikföng).
Það kom í ljós að vélin var búin að vera. Klukkan var eitt um nótt og ég stóð eins og hálfviti með hálfrakaðan haus. Án nokkurs vafa, hef ég ALDREI séð Valgerði springa jafn ógeðslega úr hlátri. Ég hef allavega aldrei sagt neitt sem hefur komið henni til að hlæja svona. Sem betur fer hætti hún samt að hlæja á endanum og við náðum að láta vélina virka þannig að hún rakaði eitt hár á sekúndu.
Ætli það sé í eðli kvenna að finnast fyndnast af öllu þegar mennirnir þeirra eru að klúðra?

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

það er það eina sem fær mig til að hlæja....Bibban

12:15 e.h.  
Blogger a.tinstar said...

hihihihhhh, án þess að ég viti nokkuð um það....JÁ! HAHAHAHHAHAHAHAHA...

5:38 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

HAHAHAHA ég hló sko upphátt hér ein við tölvuna þegar ég sá þig fyrir mér með hálfrakaðann haus um miðja nótt heheeh

Kv.María

6:39 e.h.  
Blogger Óli said...

Þá er það komið á hreint stúlkur. Takk fyrir að svara spurningunni.

; )

1:50 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home