laugardagur, október 13, 2007

Sprengjuhöllin



Ég fór í gærkvöldi á frábæra útgáfutónleika Sprengjuhallarinnar. Það var þétt setið í Austurbæ og greinilegt að eftirvæntingin var mikil í fólki. Þeir félagar Unnar og Tumi komu með mér að sjá herlegheitin. Ég læt þessa mynd fylgja með þó hún sé ekki upp á marga fiska. Upphitunaratriðið var vægast sagt artí og einkennilegt, en félagi þeirra úr MH artífartgang sá um það. Ég man nú ekki hvað hann heitir en hann birtist á sviðinu eins og auglýsingaskilti fyrir Nakta apann. Kauði ku vera að gefa út plötu á næstu misserum.
Hann byrjaði á því að biðja alla að kveikja á kveikjurum og halda á lofti. Svo hóf hann upp rausn sína á lagi sem fjallaði um samband drykkfellds föður og sonar hans. Ég var ekki viss hvort að þetta væri grín, en lagið var mjög flott. Textinn var bara svo rosalega kjánalegur að ég skellti næstum upp úr nokkrum sinnum. Í næsta lagi fékk hann félaga sína úr artígang til að aðstoða sig. Þá tók hann lag um bakaradreng um leið og félagi hans stökk um sviðið íklæddur bakarbúning. Þetta var nokkuð fyndið en mér leið samt eins og ég væri staddur á skemmtikvöldi í MH.

Þegar hljómsveitin kom svo á sviðið ætlaði allt að keyra um koll af fögnuði. Það var góð stemmning í salnum og ekki spillti fyrir þegar þeir félagar hófu að ausa hrósum og faguryrðum yfir gesti. Það var frábært hvernig þeir stóðu að tónleikunum en þeir ákváðu að spila lögin í þeirri tímaröð sem að hljómsveitin hafði þróast í. Inn á milli röktu þeir svo sögu sveitarinnar og stundum sögu lagsins.

Mjög eftirminnilegar sögur voru um lögin Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins og Frá gleymdu vori. Sú síðari var á þá leið að Bergur söngvari átti að syngja þetta lag en hinir í hljómsveitinni voru smeykir að röddin hans myndi ekki ná að hljóma nógu mjúk fyrir svona fallegt lag. Þeir gripu þá á það ráð að láta bassaleikarann standa fyrir aftan Berg í stúdíóinu og halda þétt utan um hann og strjúka honum á meðan hann söng lagið. Virkaði nokkuð vel!

Hvað varðar tónleikana þá fannst mér eina sem skemmdi fyrir var hvað þeir Georg bassaleikari og Bergur söngvari voru sífellt að grípa fram í fyrir hvor öðrum. Þeir sáu nær eingöngu um að tala og virðast á vissan hátt vera talsmenn sveitarinnar. En á tímum var þetta nánast neyðarlegt. Að mínu mati var Bergur mjög skemmtilegur í frásögum og virkar með mikið "frontman vibe". Georg aftur á móti var oft fyndin en hann virkaði eiginlega dauðadrukkin eða e-ð ennþá verra. Steiktasta atriði kvöldsins var æft atriði með bassavökva sem var örugglega fyndið í æfingarhúsnæðinu en not so much á sviði.

Það er e-ð við þessa hljómsveit sem grípur mig. Miðað við hvað þeir hafa spilað stutt saman þá eru þeir ótrúlega öruggir á sviði. Ég hvet alla til að tjékka á þessari plötu en ég er búinn að renna nokkrum sinnum í gegnum hana og ég er ekki frá því að það séu nýjir tímar í íslenskri popptónlist.

Ég skemmti mér alveg konunglega og ekki skemmdi fyrir að þarna drakk ég bjór í fyrsta sinn síðan í febrúar. Reyndar drakk ég kannski einum of marga í eftirpartýinu á Barnum. Frír bjór sko!

Ég læt svo fylgja tvær myndir af börnunum í faðmlögum og með fríðu snoppurnar sínar (ef það er hægt að segja það svoleiðis - snoppufríður - þú veist).




Spurning dagsins er svo: Í kjölfar þess hvað nýja plata Radiohead hefur selst vel, gætu útgáfufyrirtæki eins og við þekkjum þau í dag orðið óþörf?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home