þriðjudagur, október 16, 2007

Mínir lestir 2/2 - Nammi (og kók)



Já það er ansi slæmt þegar maður berar sálu sína á borð og opinberar ekki einn heldur tvo lesti (ég elska þetta orð - LESTIR) en átta sig svo á því að þeir eru í raun 3. Því ekki er hægt að segja bara nammi. Kók fellur ekki undir nammi, kók er bara sér. Kók er ekki undirflokkur neins, kók...kók eru guðaveigar.

Þannig er það nú að sumir eru fíklar og aðrir kunna sér hóf. Þeir sem falla undir fyrri hattinn geta verið sjúkir í mismunandi hluti. Sumir eiga erfitt með að standast sopann, aðrir vilja dæla peningum í gullnámuna og enn aðrir spila golf. Ég ætla nú ekki að fara að líkja mínu "vandamáli" við alkahólisma og klárlega eru afleiðingar nammiáts engar miðað við afleiðingar drykkjutúra. En við getum sagt að undirliggjandi hvati sé svipaður í báðum tilvikum.

Ég hugsa stöðugt um nammi og kók. Alltaf! alltaf. alltaf. Mig langar í kók á morgnanna, hádeginu og sérstaklega í kvöldhúminu. Mér líður eins og heimsmeistaranum í pílukasti á pubbnum eftir að ég stúta heilum möndlupoka í einu rennsli og skola því niður með ískaldri kókdós. Það er satt sem jólasveinninn sagði alltaf: "Alveg einstök tilfinning"
En það sem eitt sinn stóð upp, lekur nú niður og eitt sinn verða allir menn að deyja og allt það. Það sem ég gat einu sinni komist upp með geri ég ekki lengur. Með sífelldri sykurneyslu aukast líkur á alls konar vitleysu. Eins og t.d. hár blóðþrýstingur, offita, sykursýki 2 og gular tennur. Svo ekki sé nú talað um síþreytu, andfýlu, slæma líkamslykt og skapsveiflur.

Þegar 30 árin færast yfir kemur uppskeran. Það er tiltölulega stutt síðan að ég fór virkilega að finna fyrir afleiðingunum, eins og t.d. offitu. Ég brenn kalóríum töluvert hratt og hef verið fljótur að grenna mig í gegnum tíðina, ef svo ber við. En þar sem að fíknin er farinn að sjást á unglegu og frískandi útliti mínu hef ég reynt sitthvað til að sporna við þessari óstjórnlegu sælgætis- og gosfíkn. Ég t.d. át diet fuel töflur í gríð og erg um árið, þær áttu víst að innihalda króm sem átti að slökkva nammiþorstann. Gekk ekki.
Ég byrjaði að skokka sem óður maður fyrir nokkrum mánuðum. Auðvitað hafði það mikla kosti í för með sér en það sló ekkert á nammiþörfina. Einnig held ég að það sé alveg á hreinu að í grenningarferlinu sé neysla matar mun stærri faktor en hreyfing. Ég mun samt sem áður halda áfram að skokka en betur má ef duga skal.

Og betur dugði. Fyrir nokkrum vikum þá var ég kominn á endastöð með þetta nammirusl. Ég vildi breyta ærlega til. Ég fór því að ráðum kellu minnar og tók hveiti, sykur og mjólkurvörur úr fæðuinntöku. Það var mun auðveldara en ég hélt, kannski vegna þess að ég var svo ákveðinn í að láta þetta ganga upp. Því miður þá gekk þetta ekki lengur en í 3 vikur en ég var algjörlega breyttur maður meðan á stóð. Ég hef frá unga aldri talið mig B-manneskju, farið mjög seint að sofa og annað tilheyrandi. En á þessum þrem vikum þá varð ég svo syfjaður rétt um 11 að ég steinsofnaði. Ég svaf eins og ungabarn þangað til að ég vaknaði eiturhress (eða eiturlausahress) kl 7 á hverjum morgni og líka á sunnudögum.

Þessar 3 vikur komst ég næst því að finnast ég hreinn (lesist: pure). Öll þessi vatnsdrykkja og allt þetta grænmeti. Það hafði sitt að segja. Ég var líka svo vakandi á daginn, þ.e.a.s. á réttum tíma. Ekki glaðvakandi á miðnætti með kók í annarri og prins í hinni. Það voru breyttir tímar og nýr maður birtist með bros á vör.

En eins og rónarnir á hlemmi þá féll ég kylliflatur aftur til jarðar. Og núna sukka ég sem aldrei fyrr. Af hverju? Væri þá hægt að spyrja. Hver veit, lítill viljastyrkur? Leti? Allavega hef ég áhuga til að hætta óhófinu og snúa til betri vegar.

Sem sagt ég vafra um bæinn feitur og sæll, með skemmdar tennur og kortið í lommen. Tek ekki ábyrgð á einustu færslu eða undirskrift en hugsa stöðugt um kók, snickers og drömmen(ísl. þýð: Freyju Draumur - mér finnst það reyndar ekkert gott). Nú er bara að sjá hvort að skrifleg hreinsun illra nammi-(og kók) og visavætta virkar?

p.s. ég verð að bæta því við að ég sá tvö massív tónlistaratriði í sjónvarpinu í kvöld. Fyrst var það stelpnaband sem kom fram í kastljósi (man ekki hvað banið hét) en það skipa 3 systur sem eru 11, 13 og 15 ára! Þær voru ótrúlega góðar.
Svo var Pétur Ben í söngvaskáld og tók Billy Jean með M.J. á kassagítar, EINN! Hann er dáldið góður á gítar.

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hey ég get bent þér á eitt sem virkaði fyrir mig, en ég er líka algjör nammigrís. núna um daginn f+ekk ég mér ab-mjólk með múslí í morgunmat í þrjá daga í röð og nammilöngunin bara fór. ég fattaði það ekki einu sinni sjálf fyrr en seint á öðrum degi að ég hafði ekki borðað nammi í tvo daga. ástæðan er múslíið (granóla sem ég keypti í krónunni) en í því eru flókin kolvetni sem hafa hægari upptöku í líkamanum og þar af leiðandi verða minni sveiflur í blóðsykri, en það er einmitt oft ástæðan fyrir þessari löngun seint á kvöldin. mæli með þessu.

12:23 f.h.  
Blogger Ásta said...

Æ æ æ það er ekkert verra en svona dagar!:( Og að vera með verkefni sem þarf að skila ofanílag, það er ekki til að bæta ástandið! Þú átt alla mína samúð:(

7:34 f.h.  
Blogger Ásta said...

Oj þessi tölva er að leika mig grátt, hún heldur að bara af því að ég vilji hjálp til að muna og skrifa aðgangsorð, að þá vilji allir lesa sömu komment! Þetta var sem sagt gamalt komment, svarað við allt aðrar aðstæður!:)
En þú átt samt sem áður alla mína samúð, því við erum í mjög svipuðum pakka á þessu heimili! Það líður ekki sá dagur sem við drekkum ekki kók (en sykurlaust þó), ég drekk varla aldrei vatn, og það liggja hvorki meira né minna en 3 nammipokar við hliðina á mér as we speak, og ég er að narta nammi í morgunmat!:( Hrikalegt.

7:38 f.h.  
Blogger a.tinstar said...

ég sé slefandi, rymjandi kókskrímsli sem skóflar sér um og andar á þá sem í vegi verða og rennir kortinu í gegnum hverja þá rauf sem það sér...óli þú drepur mig!

11:15 f.h.  
Blogger Óli said...

Arna: Hljómar vel, ég prófa það.

Ásta: LoL ég hélt að þú værir búinn að missa vitið. Gott samt að vita að þetta er ekki einsdæmi á þessu heimili.

Tinna: Þú ert með nokkuð rétta mynd af þessu.

12:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ég viðurkenni vanmátt minn fyrir nammiskrímslinu! Get ekki hætt!! Urrr. EN...

ég er hætt að drekka kók! liggaliggalá

Öspnammifíkill

11:24 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Rúsínur.. þær slá á sykurþörfina og halda því þannig í dágóðan tíma. Ég keypti mér svona "barnapakkningar" um daginn. Litla rúsínupakka sem er svo sniðugt að gefa litlu börnunum. Þetta hef ég á ótrúlegustu stöðum til að slá á þessa ótrúlega þrálátu sykurþörf sem getur gert hvern mann óðann. Svo þegar þörfin dúkkar upp þá skelli ég í mig rúsínupakka - vola sykurþörfin hverfur eins og dögg fyrir sólu!

Fyrir mig er líka best að verða ekki mjög svöng. Borða hollan mat - mat as in máltíð; kjöt, fisk, grænmeti, helst 2x á dag og ávexti þess á milli. Ekkert brauð því það gerir það að verkum fyrir mig að líkaminn ORGAR á meiri sykur..

Helga Dröfn

9:53 f.h.  
Blogger Óli said...

Ösp: Ég MUN hætta að drekka kók. Bara ekki strax, you lucky bastard.

Helga Dröfn: Takk fyrir þessa ábendingu. Ég prufa þetta án efa.

12:44 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home