Gimme Shelter
Úfff úfff og púfff var að fá Anthology og Gimme shelter á DVD í hús. Horfði aðeins á fyrsta diskinn með Les Beatles heima hjá Garðari og maður getur nú ekki annað en komist í góðan fíling. En síðan og já en síðan setti ég Gimme shelter í hérna heima og sssshhhiiiiiiittt. Horfði á valda kafla úr myndinni og ég verð að segja að ég er í sjokki. Þarna er á ferðinni tónleikamynd sem gerð var í kringum 1970. Stónararnir héldu tónleikahátíð í nafni friðar og kærleika fyrir utan San Fransisco í miðri hippahreyfingunni. Þeir fengu þá snilldarhugmynd, eða þannig, að fá Hells angels til að sjá um gæslu. Þegar maður horfir á þessa mynd gæti maður haldið að lok hippatímabilsins hafi átt sér stað nákvæmlega á þessum tónleikum. Það fór ekki beint vel á með Englunum og áhorfendum á þessari hátíð. Maður upplifir í gegnum myndina spennuna sem ríkti þarna, þetta er eins og tveir ólíkir heimar að rekast á, annars vegar fantarnir í Hells angels sem ekkert vildu vita af friðarmerkjum og frelsi og hins vegar uppdópuðum og áhyggjulausum hippunum. Á meðan maður situr og horfir á þetta þá byrjar sálin að ókyrrast og maður skynjar að e-ð rangt er á seyði. Hells angels berja áhorfendur hvað eftir annað, sem eingöngu eru komnir til að skemmta sér. Hápunktur ringulreiðinnar kemur svo þegar að blökkumaður er stunginn til bana beint fyrir framan myndavélarnar. Það fer hrollur um mann að sjá þvílíkt virðingaleysi þessir Hells angels hálfvitar bera fyrir öðrum mannlífum. Mick Jagger og Keith Richards standa þarna og reyna að stilla til friðar, en það er auðvelt að sjá að þeir eru sjálfir skíthræddir. Í lokin er síðan sýnt þegar Jagger situr í klippiherberginu og sér myndbrotið af morðinu í fyrsta sinn. Vá ég veit bara ekki hvað ég á að segja. Ég held ég setji bara Fab Four frekar á, svona svo að ég sofi rótt.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home