sunnudagur, október 07, 2007

Hænur og ég

Eins og kom fram í síðasta bloggi þá er ég með mikla fóbíu hvað varðar hænur. Ég hef oft reynt að skilja hvað liggi þar að baki. Ég held að ég hafi alltaf verið svona og mér finnst t.d. þessar óreglulegu höfuðhreyfingar vafasamar, sífellt fram og tilbaka. Reyndar er það svo að mér er ekki vel við flest dýr. Ég býst við að ástæðan sé að hluta sú að þegar maður kemur nálægt dýrum, t.d. hestum, beljum eða einhverju ógeði eins og geitum, þá finnur maður hvernig þau verða stjörf að hræðslu og augun virðast poppa úr augntóftunum. Í slíku ástandi veit maður aldrei hvað þau gætu tekið upp á.

Nú átta ég mig á því að að flestir telja mig líkega vera nett klikkaðan, en málið er bara að ég og dýrin skiljum hvort annað. Ég myndi aldrei gera flugu mein eða dýri, en við höldum bara okkar fjarlægð hvert frá öðru, ég og öll dýrin. Þetta er samkomulag sem virkar ágætlega og allir eru sáttir.

Verst af öllum dýrum finnst mér þó vera fuglar. Stórir fuglar þá sérstaklega, eins og fálkar, strútar eða hrægammar. Ég myndi frekar skera af mér tærnar með brauðhníf en að vera í lokuðu rými með strúti. þetta dýr er ógeðslegt, sjúklega langar lappir og eins og meðalmaður á hæð.

En ég ætla að láta eina sögu flakka sem ég sór við sjálfan mig að færi með mér í gröfina. Þessi saga er mér engan veginn til framdráttar en það er langt síðan og mikið vatn runnið til sjávar síðan.
Þannig var það nú að ég var í sveit tvö sumur þegar ég var 9 og 10 ára gamall. Þetta var ágætis reynsla fyrir svona borgarbarn eins og mig. Sveitabærinn er staðsettur rétt fyrir utan Borgarnes og við vorum oftast nokkrir krakkar í einu yfir sumarið. Húsfreyjan á bænum kallaði nú ekki allt ömmu sína og vildi kenna okkur krökkunum sitthvað um lífið í sveitinni. Við vorum öll með okkar skyldur, t.d. hjálpa til í fjárhúsunum eða við þrif á bænum.
Því miður fyrir mig og hænurnar á bænum, var mitt hlutverk að fara með matarafganga eftir máltíðir og gefa hænunum að borða. Ég safnaði saman á disk öllum afgöngum og gekk þessi þungu skref í átt að hlöðunni. Hænurnar voru margar eins og þær voru viðbjóðslegar, en þær voru geymdar inn í svona hænsnakofa í fjósinu. Það var lágt til lofts í kofanum og mig minnir að sumar hænurnar hafi verið á svona priki í höfuðhæð. Þannig að þegar ég gekk inn þá var ég bara face to face við kvikindin.

En til að gera stutta sögu ennþá lengri, þá gat ég bara ÓMÖGULEGA farið inn í kofann. Í staðinn fyrir að koma hreint fram þá fór ég bakvið hlöðuna og henti matnum þar. (Vá þetta hljómar verr þegar ég skrifa þetta en í minningunni). Svona gekk þetta í nokkrar vikur (kannski 2 í mesta lagi 3). Þangað til að dóttir húsfreyjunar kom með mér einn daginn upp í hlöðu. Hún óð inn í kofann með fullan disk af mat og hænurnar urðu auðvitað snælduvitlausar. Þær réðust á matinn eins og þær hefðu ekki fengið mat í nokkrar vikur. Dóttirin var nú frekar hissa á þessu öllu saman og spurði mig hvernig stæði á þessu. Ég vildi nú síst vera að viðurkenna svona aumingjaskap og hristi bara hausinn engu nær. Ég veit ekki hvort að fólkið á bænum hafi áttað sig á þessu en ég fékk allavega annað verkefni eftir þetta.

5 Comments:

Blogger Ásta said...

Æ æ æ Óli hænsnagrey:)
Mér finnst alltaf svo skrítið að heyra hvaða fóbíur fólk er með, oft þekkir fólk ekki einu sinni ástæðuna fyrir þeim. Samanber þú. Ekki hefði ég getað ímyndað mér að stór og sterkur karlmaður geti verið hræddur við hænur!;-) Gott að dóttir þín er kjarkaðari hehehe.

Skemmtilega skrifað!

3:28 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

þú ert svo mikið krútt Óli minn.

-Vala

3:45 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ 'Oli. Innilegar haminguóskir með litla fallega strákinn ykkar Völu. Frábært blogg, ég er búin að sitja hér og hlæja mikið yfir hænusögunni.

Kveðja, Kristjana.

12:25 e.h.  
Blogger Óli said...

Ásta: Dóttir mín er svo sannarlega kjarkaðari en ég. Til hamingju með íbúðina ; )

Vala: Sömuleiðis elskan.

Kristjana: Takk fyrir það og sömuleiðis. Vonandi gengur allt vel hjá ykkur. Hittumst vonandi sem fyrst.

7:36 e.h.  
Blogger yanmaneee said...

kd shoes
longchamp handbags
canada goose
kyrie irving shoes
pandora jewelry
kyrie shoes
yeezys
yeezy 350 v2
yeezy shoes
kobe shoes

9:32 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home