miðvikudagur, október 03, 2007

Blóðþrýstingur

Eftir að hafa lesið stórskemmtilega bloggfærslu hjá hinum maníska raðbloggara Kristni The, þá mundi ég eftir eftirfarandi atviki.
Fyrir nokkrum mánuðum var ég beðinn um að taka þátt í rannsókn á vegum Háskóla Íslands og Íslenskrar Erfðagreiningar. Rannsaka átti e-ð um samband erfða og hjartagalla. Þeir vildu taka blóðsýni og mæla blóðþrýsting, ásamt því að spyrja mig nokkurra spurninga.
Ég mætti kl 7 um morguninn upp á Krókháls og lét mæla mig. Ég var hin rólegasti þar sem ég taldi fullvíst að ég væri gallalaus og allir í minni fjölskyldu væru langlífir og heilbrigðir.
Konan sem mældi mig sagði, mér til mikillar hræðslu, að ég væri með blóðþrýsting upp á 140/80 og ég væri á svona gulu ljósi. "Er hár blóðþrýstingur algengt vandamál í þinni fjölskyldu?" spurði hún meðal annars og og sagði mér svo að ég þyrfti að skoða mín mál og panta tíma hjá lækni.
Ég keyrði í vinnuna í svitakófi og reyndi að skilja hvað væri að gerast. Ungur maður fallinn í blóma lífsins. Ég ímyndaði mér hvernig ég gæti sagt greyið Valgerði fréttirnar. Hvernig gat ég undirbúið hana undir að ala upp börnin okkar tvö sem ekkja.
Ég pantaði svo tíma hjá heimilislækninum mínum við fyrsta tækifæri en fékk ekki tíma fyrr en rúmum mánuði síðar. Í millitíðinni reyndi ég að búa alla í kringum mig
undir ótímabært fráfall mitt.
Þegar ég mætti svo til læknisins þá útskýrði ég fyrir honum alla sólarsöguna. Svipbrigðin á honum breyttust ekki mikið við að heyra hana. Hann tók upp tækin, hlustaði mig og dæsti. "Hmm já já þetta er fínt". Svo mældi hann blóþrýstingin og dæsti meira. Svo settist hann við borðið og ég bað hann að segja mér hvað væri næstu skref í málinu.
Hann leit varla á mig og sagði "Ekki fitna meira,annars ertu góður. Vertu blessaður"



En við Matthildur erum ekkert að batna eins og þessar myndir sýna. Ég þori varla að fara út úr húsi. Valgerður segir að ég líti út eins og fótboltabulla. Það er á svona stundum sem ég hugsa um það sem mamma sagði alltaf við okkur systkynin. "Það er sama hvað bjátar á, þið getið alltaf þakkað fyrir það að hafa ekki fæðst ljót." Ég sé það núna að það er satt.



Ég setti inn myndir frá fæðingunni á myndasíðuna mína og hennar Möttu. Við afskræmdu feðginin biðjum fyrir kveðju.

6 Comments:

Blogger Ásta said...

Hihi, góð saga!
Gleymdi að segja góðan bata!

7:01 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hehehe....þú ert svo mikil dramadrottning :-)
Farið vel með ykkur í veikindunum og látið ykkur batna. Kveðja úr Mosó

10:13 e.h.  
Blogger a.tinstar said...

vúúú! þið feðgin eruð alveg svimandi lík! og svo spegliði hvort annað í erfiðum veikindum. hahahaha..."...ekki fitna meira.." þessi orð myndu brjóta mig niður í pölp! gaman að hitta ykkur skemmtarana í gær

1:28 e.h.  
Blogger Óli said...

Takk fyrir það allar saman.

10:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

"maníska raðbloggara Kristni The"

Manískur, ég!??!?!???!????!!!!!?!?

Annars góð saga og undarleg komment sem móðir þín lét falla, og þó á eg ekki við að þú sért ekki fjallmyndarlegur.

Ég vona að litli stúfur hressist um helgina og öll fjölskyldan verði eftir það við hestaheilsu um aldur og ævi.

KT

11:42 e.h.  
Blogger Óli said...

Ok ekki manískur, hmmm ofvirki raðbloggarinn...er það skárra? Undarlegt komment segiru. Hún móðir mín kann sko að hjúfra að manni og láta okkur systkinum líða vel. Hún er snillingur.
Takk fyrir og sömuleiðis.

7:28 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home