föstudagur, júní 15, 2007

Áfram um vandamál

Þegar við Vala eignuðumst Matthildi þá opnuðust fyrir manni dyr inn í annann heim sem ég hafði ekki hugsað mikið um hér áður fyrr. Hér er ég að tala um fólk sem þjáist af ólæknandi sjúkdómum og fólk sem á langveik börn. Það voru þónokkur dæmi þess um það leyti sem við vorum á vökudeildinni. Og svo hefur Gerður verið meira inn í umræðunni á barnalandi, sem eru alltaf fyrst með fréttirnar í svona málum.
Eins og gefur að skilja hlýtur fólk sem er í þessum aðstæðum að eiga í miklum erfiðleikum með að halda öllu batteríinu (heimili, vinna, önnur börn o.s.frv.) gangandi.

Eftir að hafa skrifað síðastu bloggfærslu þá horfði ég á Ísland í dag á stöð 2 í gær. Mér fannst ekki annað hægt en að halda aðeins áfram með þessar pælingar um vandamál. Ég skil ekki alveg tilganginn hjá fréttastofu stöðvar 2 þegar verið er að fjalla um Evu Rut, verðandi móðir sem er fíkill og á leið á götuna. Sérstaklega fannst mér skrýtið hvernig Steingrímur Ólafsson stóð glottandi í kvöld og sagði hress í bragði "Við fáum fleiri fréttir af Evu Rut sem er ólétt og missti heimili sitt í dag".

Ég vil ekki hljóma of dómharður en ég þoli ekki þegar svona umræða snýst um að dópneysla sé sjúkdómur og að vera fíkill sé einhverskonar sjúkdómseinkenni. Er það ekki alltaf val að taka inn dóp. Um hvað er verið að tala?

Ef við gefum okkur það að einstaklingar sem eru “fíklar” hafi lent í einhverju af eftirfarandi – átt foreldra sem eru í dópneyslu, lifa við fátækt, eiga við athyglisbrest og ofvirkni að stríða eða eru fórnarlömb kynferðisofbeldis o.s.frv. Þó að þetta séu vissulega hræðilegir hlutir að lenda í, er það samt engin afsökun. Þetta minnir svolítið á þegar að hárgreiðslumaðurinn Böddi kom framan á Séð og heyrt og fyrirsögnin las "Lenti í framhjáhaldi". Við nánari lesningu kom svo í ljós að það var hann sem hélt fram hjá en "lenti" samt í því.

Mér hefur oft fundist að fólk í þessum aðstæðum bendi ítrekað út frá sér. Það þjáist að endalausum kvillum sem hindrar það í því að fara á vinnumarkaðinn og aðstæðurnar skapa vandamálin en ekki þeirra eigin ákvarðanir. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að hjálpa fólki sem hefur orðið undir í lífinu, eins og sagt er. Ég er einfaldlega að segja að það er til fólk þarna úti sem er í miklum vandræðum og ekki út af eigin ákvörðunum. Samanber það fólk sem ég minntist á hér í byrjun.

Auðvitað hefur verið fjallað um fólk sem er langveikt eða með langveik börn í fréttum, sbr. Ástu Lovísu en mér finnst að það mætti gera meira af því. Og á sama máta og er verið að fjalla um Evu Rut. Þ.e.a.s. að biðla til fólks í gegnum fréttina að hjálpa þessu fólki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home