Ameríka, Matthildur og ofmetin tónlist
Skemmtilegt ég var að skrifa lengstu færslu sem ég hef nokkurtímann skrifað en síðan slökknaði á tölvunni og allt datt út. Þá varð ég svo leiður að ég missti allar hömlur og hleypti Völu nálægt mér með hárskera. Lets just say things got a little bit crazy. Núna er ég sem sagt krúnurakaður og er það enn einn hluturinn sem minnir mig á aldurinn. Ég hefði kannski ekki gert þetta ef ég hefði vitað að hárið á mér er farið að þynnast svona allsvakalega að ofan. Af hverju sagði enginn neitt? Nú lít ég út eins og gamall karl. En hvað um það ég ætla að reyna að klára þessa færslu frá því í gær.
Ég var að horfa á magnaða mynd sem heitir Paradise lost. Þetta er heimildarmynd sem fjallar um morðið á þremur ungum drengjum í Arkansas. Það sem var svo merkilegt við þessa mynd var ekki allt umstangið í kringum morðin heldur hvernig hún sýnir manni inn í amerískt samfélag. Allt fólkið í myndinni er pjúra redneks, sannkristið og með ríka þjóðerniskennd. Sem sagt hálftannlausir og stiga ekki beint í vitið. Miðað við hvernig þetta fólk er, þá skilur maður alveg hversu auðvelt hefur verið að heilaþvo þjóðina með þessu axes of evil kjaftæði og stríðin í Írak og Afganistan. Allir í myndinni voru svo hræddir við allt sem var öðruvísi. Hinir meintu morðingjar í myndinni voru nokkrir unglingspiltar sem að hlustuðu á Metallica og gengu í svörtu. Þar af leiðandi voru þeir djöfladýrkendur! Alltaf verið að reyna að finna vonda gaurinn. Ætli meðalmennskan sé það sterk í Bandaríkjunum að allir sem er öðruvísi séu álitnir hornauga? Kannski þess vegna sem að fáir þorðu að standa á móti stríðunum í byrjun. Hvaðan ætli þessi barnalega einföldun á góðu og illu komi í Bandaríkjunum? Ætli Bush og félagar hafi horft of oft á Star Wars og hafi bara notað rules of the galaxy sem áróðursvél? Þetta er svo furðulegt samfélag að ég verð pirraður á því að skrifa um þetta. Þeim er svo eðlislægt að benda fingrinum í allar áttir en taka enga ábyrgð á einu né neinu sjálfir. Eitt sinn heyrði ég einhvern segja " Það eru ekki allir múslimar hryðjuverkamenn, en allir hryðjuverkamenn eru múslimar". Mér fannst svo skondið að heyra þetta frá bandaríkjamanni, að mig minnir. Því að þetta fer nú bara allt eftir því hvernig maður skilgreinir hryðjuverkamann.
Hryðjuverkamaður - t.d. sá sem herjar á saklausa borgara, svo sem konur og börn.
Er það ekki nákvæmlega það sem er að gerast í Írak og Afganistan. Hversu margir saklausir borgarar ætli hafi dáið í þessum tveimur stríðum. Alveg örugglega margfalt fleiri en dóu 9/11. En við megum ekki gleyma því að þeir gera þetta allt í nafni lýðræðis og frelsis. Já auðvitað, þá er allt í lagi að murka lífið úr konum og börnum, fangelsa fólk án dóms og laga, ráðskast með stjórnvöld út um allan heim og flytja fanga milli landa til þess að geta pyntað þá. Og hver veit hvað í andskotanum er að gerast þarna í Guantanamo. Ef það er ekki brot á mannréttindum þá veit ég ekki hvað mannréttindi eru lengur. En eins og sagan hefur sýnt þá þurfa öll heimsveldi að borga fyrir sig á endanum, við skulum bara vona að það verði fyrr en síðar.
En yfir í mun skemmtilegri hluti. Nú eru komnar inn nýjar myndir af Matthildi á heimasíðunni hennar www.magla.barnaland.is . Hún er núna búin að vera heima í 5 daga og gengur bara mjög vel. Ég heyrði svo magnað viðtal um daginn í útvarpinu. Þar var maður sem hafði nýverið eignast barn að tala um reynsluna sem fylgir því. Hann talaði sérstaklega um það hvernig honum fannst sitt barn vera fallegasta barn í heimi. Hann hafði oft heyrt aðra foreldra segja það sama en horfði þá sjálfur á þeirra börn og hugsaði "ehhh". En núna veit hann, og ég líka, hvernig þessi tilfinning er. Mér finnst Matthildur vera langfallegasta barn í heimi. Stundum þegar ég er að horfa á hana þá langar mig óstjórnlega að bíta í nefið á henni! Er það furðulegt? En án efa versta tilfinning sem ég hef upplifað var þegar að hún fékk ónæmissprautu gegn algengum lungnasjúkdómi. Hún fékk sprautu beint í lærvöðvann og ég þurfti að halda henni. Það kom svona 5 sekunda silent óp, áður en hún öskraði af sársauka. En þetta þarf víst að gera einu sinni í mánuði í nokkra mánuði. Mamman fær að halda næst.
Að lokum hef ég verið að hugsa svo mikið um þessa umræðu varðandi ofmetna tónlist. Um daginn var gerður einhver topp 10 listi yfir ofmetnustu plötur allra tíma. Þar var, að mig minnir, Nevermind í efsta sæti, sem kemur kannski ekki á óvart. Ég held að maður geti alveg eins sagt að öll vinsæl tónlist sé ofmetin, þá sér í lagi ef að Nevermind á að vera ofmetin. Ég hef heyrt marga segja að Foo Fighters sé í raun betri hljómsveit en Nirvana. Ok, allir hafa rétt á sínum skoðunum, sama hversu fáránlegar þær eru. En aðalpointið mitt er þetta og það sem geymdist alveg í þessari umræðu. Allar þessar plötur á þessum lista voru brautryðjendur á sínum tíma. Þess vegna eru þær í svona miklum metum. Það er ekki hægt að bera saman tónlist frá mismunandi tíma án þess að vita hvernig tíðarandinn var hverju sinni. Pet sounds með Beach boys, Sgt. Peppers með Bítlunum og Stone Roses - Stone Roses voru allar á þessum lista og voru líka allar tímamótaplötur. Þetta eru plötur sem breyttu því sem átti eftir að koma. Ef við snúum okkur aftur að Nevermind, þá voru White snake og Poison á toppnum áður en hún kom út. Þannig að er ekki við hæfi að þakka fyrir þessar frábæru plötur.
Takk fyrir mig.
2 Comments:
hehe ég kannast held að allir foreldrar þekki þetta "barnið mitt er fallegasta barn í heimi" syndrome. Náttúran virðist haga því þannig að maður elskar þessi kríli meira en allt!
Og reyndar verð ég að segja að ég kannast líka við sprautusöguna þína, enda hefur Kristinn ekki látið sjá sig í ungbarnaeftirlitinu (mjög sniðugur). Bíddu bara, eftir nokkra mánuði verður litla dúllan þín búin að átta sig á að pabbi er þessi skemmtilegi og mamma er þessi sem huggar þegar maður á bágt... þau eru sko fljót að leggja saman 2 og 2.
Pálína
Já Pálína það er mikið til í þessu hjá þér. Hún er strax farin að átta sig á þessu held ég bara. Endilega kíkið í heimsókn við tækifæri.
Sigga, ég er alveg til í að gefa Ameríku séns og myndi sko ekki slá hendinni á móti flugmiða þangað. Hlakka til að sjá ykkur um jólin, bið að heilsa genginu.
Skrifa ummæli
<< Home