laugardagur, janúar 05, 2008

Versti dagur ævi minnar

Ég hef verið að í vafa hvort að ég ætti að blogga um versta dag ævi minnar en eftir íhugun ætla ég að skella þessu hér inn.
Málið er að hr. Örn Gunnarsson og ég sátum að bjórsumbli í gær og vorum að ræða ýmis andans mál. Við fórum að ræða um hvað margt hefði breyst í gegnum árin í okkar lífi. Sérstaklega hvað varðar eigin yfirvegun og innri ró. Okkur fannst þurfa meira til í dag til að koma manni úr jafnvægi, en þurfti áður. Í kringum tvítugsaldurinn þá gat allt hrunið á einum degi ef atburðarrásin gaf tilefni til þess. Á meðan við ræddum þetta þá sagði ég honum frá einum degi sem var mjög slæmur að þessu leyti og ég áttaði mig á því að þessi dagur er sennilega versti dagur ævi minnar. Ég vona að fólk missi ekki allt álit á mér eftir þennan lestur og ég vill að það komi fram að á þessum tíma var ég óharnaður ungur maður sem vissi ekki betur.

En dagurinn var eitthvað á þessa leið:

Það var árið 1999 og sumarið í kaupmannahöfn var í fullum skrúða. Ég hafði flutt út um vorið til að vinna á dominos og reyna að víkka sjóndeildarhringinn. Það leið ekki á löngu þar til að ég fékk inn hjá Dennis Butler en við leigðum saman fjórir í íbúð sem hann leigði í Amagerhverfi. Íbúðin var ekki stór og mætti segja að þetta hafi verið svona dæmigerð gauraíbúð. Það var t.d. ekkert baðherbergi en klósettið var í stigaganginum og var sameiginlegt með annarri íbúð. Við bjuggum þarna saman ég og Dennis í einu herbergi, Andrés í stofunni og Kiddi í öðru herbergi. Það var oft góð stemmning og rennerí af fólki í djammhugleiðingum.
En á þessum miður skemmtilega degi þá voru þeir allir félagarnir komnir með vinkonur/kærustur og ekkert á djammbuxunum. Dagurinn hafði verið ágætur framan af, bara sama rútínan á Dominos. Þegar líða tók á kvöldið hittumst við strákarnir á bar í köben til að taka í bjór og ræða málin. Ég var sá eini sem hafði áhuga á að taka djammið á næsta level en þeir ætluðu allir að láta þetta gott heita eftir einn öl. Þá voru góð ráð dýr. Ég spurðist fyrir um hvort einhver af vinnufélögunum væri ekki á leiðinni út. Úr varð að ég fór og hitti strák sem heitir Christian á einum af betri skemmtistöðum borgarinnar. Christian þessi var myndarlegur og hávaxinn drengur sem var jafn lunkinn við að flaga dömur eins og hann var vitlaus greyið. Hann hafði unnið sér það til frægðar að hafa átt í ástarsambandi við söngkonu DJ Sakin & friends en þeir slógu rækilega í gegn með laginu The braveheart theme og fóru í tónleikaferðalag í kjölfarið. Eðal þýskt soft teknó þar á ferð. Söngkonan var svört díva sem vóg í kringum 150 kg og Christian varð aldrei þreyttur á að lýsa fyrir mér bólförum þeirra í minnstu smáatriðum. Sérstaklega var eftirminnilegt þegar hann sagðist hafa farið með henni á hótelherbergi eftir þriggja tíma tónleika og farið niður á hana án þess þó að hún færi í sturtu á milli. Jammí.
En ég hitti gaurinn á skemmtistaðnum og það fór vel á með okkur til að byrja með. Eins og áður sagði var hann mikill flagari en það er list sem ég hef aldrei náð að tileinka mér. Eftir stuttu stund við barinn var Christian búinn að bjóða tveimur dömum að sitjast með okkur við borð. Hann og önnur stelpan sátu hlið við hlið og ástareldurinn var ekki lengi að kvikna. Hin stelpan var ekki alveg jafn sátt og vildi ekkert við mig tala. Christian pantaði vodka flösku á borðið til að fagna nýjum vinaböndum. Hann stakk svo upp á því, þegar flaskan var kominn, að við færum á dansgólfið. Mér leist vel á það og datt í hug að danshæfileikar mínir myndu mýkja stelpuna aðeins. En þegar við stóðum upp til að skunda á gólfið, þá sneri Christian sér við og sagði "Nei Óli, þú verður að vera eftir og passa flöskuna". Svo hlupu þau niður stigann. Ég sat eftir og reyndi að láta þetta ekki skemma kvöldið. Ég kom auga á dömu á næsta borði sem ég ákvað að fara og ræða við. Nú var komið að svona crucial punkti á kvöldinu þar sem að hlutirnir þurftu að fara að ganga upp eða það yrði major brotlending á egóinu. Ég ákvað því að reyna að ganga í augun á henni með því að segjast vera í læknisnámi (don´t ask me why). Hún hafði ekki mikinn áhuga á að tala við mig heldur og ég hélt aftur einn að borðina til að gæta flöskunnar. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að fara aftur til hennar og viðurkenna lygina. (again don´t ask me why). Slíkt augnaráð hef ég aldrei síðan séð og þegar hún horfði á mig og spurði "What is wrong with you?"
Nú var ég alveg búinn að fá nóg. Þegar ég kom aftur að borðinu voru þau komin aftur af dansgólfinu. Christian og vinkona hans voru í djúpum sleik en vinkona mín horfði út í loftið og lét sig dreyma um aðra og betri menn en mig. Hún var því ekki mikið að kippa sér upp við það þegar ég afsakaði mig til að fara á klósettið. Ég nennti ekki að vera útskýra eða kveðja þau, svo að ég fór ekki á klósettið heldur beinustu leið út. Mig langaði bara að fara heim að sofa og gleyma þessum degi.
Ég hjólaði í áttina heim og reyndi bara að hlæja að öllu saman. Þegar ég kom heim þá tók annað og betra við. Ég gekk inn í íbúðina en eldhúsið var fyrsta herbergið sem gengið var inn í, eftir að Dennis hafði brotið niður vegg í algjöru leyfisleysi til að stækka íbúðina og gera hana opnari. Taka skal fram að þetta var leiguíbúð. En þar sem ég stóð í eldhúsinu varð ég var við að allar hurðir voru lokaðar, sem var heldur óvenjulegt þar á bæ. Einnig barst greinilegur og sívaxandi ómur úr öllum herbergjum sem aðeins er hægt að tengja við kynmök. Það var sem sagt verið að stunda kynmök í öllum herbergjum. Ég stóð því í eldhúsinu með andlitið í höndum mér og vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég ákvað að fara út og hjóla um hverfið. Ég held að ég hafi náð sögulegum botni þar sem að ég hjólaði grenjandi um götur Amager hugsandi af hverju í fjandanum ég væri í þessari aðstöðu. Það eina sem mér datt í hug að gera var að hjóla til Anju sem var fyrrverandi kærasta Dennisar og vinkona okkar strákana. Ég dinglaði á bjöllunni hjá henni og hún hleypti mér upp. Ég stóð þarna með rauðeygður og niðurbrotin og bað um gistingu. En hana grunaði nú að e-ð dúbíus lægi að baki og neitaði mér um gistingu. Hún sagðist vera of þreytt til að standa í þessu.
Ég sneri því aftur heim og til allrar hamingju var ástarloturnar að baki og svefnin tekin yfir. Ég gat því læðst inn í rúmið mitt og lagst til hvílu. Þetta hræðilega kvöld var því á enda og það er gott að geta setið hér áratugi síðar og hlegið að þessu.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var skemmtileg lesning og gott tímaferðalag.

Ég man eftir þessu kvöldi. Þú sagðir mér daginn eftir, eða þar um bil, að þetta hefði ekki verið þín besta nótt. En hefur þó sjálfsagt ekki málað það alveg svona dökkum litum stoltsins vegna, -sem ég skil vel.

Christian (Skov) ofurhnakki og kvennabósi er tvímælalaust eftiminnilegur karakter. Hann gerði mér einmitt þann óskunda að heilla stúlku á vinnustað mínum/okkar hana Dorthe sem ég var þá afar hrifin af , eins og þú líklega vel manst. Hann tók vorkunar-gírinn á hana og lét vorkenna sér svo mikið af því að vinur hans var þunglyndur, sem greinilega virkaði á stúlkuna góðu. Helvíti vel af sér vikið það.

En já ég er allavega sammála ykkur félögum, það voru miklar tilfinningar í gangi á þessum tímum. Oft yfir hlutum sem manni þykja lítilvægir í dag. -En okkur þykja þeir einungis lítilvægir í dag af því að við erum búnir að upplifa þá og melta. Alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.

Það kemur ekkert í stað reynslu, ekki bókalestur né kvikmyndagláp. Maður verður bara að brenna sig sjálfur.

Þetta var samt geggjaður tími og skemmtilegur þarna í Danmörku. Við lærðum alveg helling í skóla lífsins. Maður veit líka hvaða mann hinn hefur að geyma eftir svona tíma. Þess vegna verðu þú líka alltaf í uppáhaldi hjá mér Óli minn.

Kær kveðja
KT (Kiddi)

2:10 f.h.  
Blogger Óli said...

Christian Skov...einmitt ég var að reyna að muna þetta. Já hann var alveg magnaður karakter. En þetta var góður og lærdómsríkur tími í dk og mér þykir vænt um þig sömuleiðis kallinn minn.
p.s. ég er að reyna að ákveða hvort að ég eigi að adda dennis á facebook!!! ; ) Spurning hvort að ég fengi the butler virus í tölvuna mína og hún springi.

12:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hahahahahahahahaha....shitt hvað þetta er fyndið...ég er himinlifandi að þú hafir komið með þessa sögu hér...og ennþá meira yfir því að vita að þú getir grátið...það er gott að gráta;) bibban sendir krókódílatár á fameliuna myndarlegu og gnúsi sendir ekka

5:45 e.h.  
Blogger Óli said...

Ég hélt örugglega að Vala hefði sagt þér hvað ég er mikil grenjuskjóða. Ég er alltaf að grenja. Bið að heilsa öllum í dk og við sjáumst svo þegar við komum út í vor.

10:56 e.h.  
Blogger a.tinstar said...

en óli....manstu eftir kafla í friends um svona selfless deed? well buddy....you did it! fæstum tekst það, en þetta kætti mig mjög og fekk mig til að skríkja af..ööö...húmor frekar en gleði. þú græddir ekkert á þessu kvöldi en þessi frásögn fær aðra til að skella upp úr....how about them apples?

3:00 e.h.  
Blogger Óli said...

Them apples are nice. Takk fyrir það, þá get ég sagt frá því að ég hafi framkvæmt selfless deed.

12:03 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home