fimmtudagur, janúar 03, 2008

Að byrja að vinna litblindur

Í gær byrjaði ég að vinna aftur. Það var alveg ótrúlega spes andrúmsloft í borginni þegar ég keyrði í vinnuna kl. 7:45 um morguninn. Það var kolniðamyrkur og bókstaflega enginn á ferli. Þegar ég kom upp í vinnu var ég einn í þessu stóra húsi og ekkert barn mætti fyrr en nokkru seinna. Mér var farið að líða eins og ég væri staddur í I am legend sögunni. Ég væri eini maðurinn sem eftir er á jörðinni og til þess að missa ekki vitið þá mætti ég á hverjum degi í vinnuna. Ég væri búinn að setja gínur með starfsfólki og börnum um allan skólann. Svo færum við öll saman út í leiki. "Svona Jói minn, ekki bara standa þarna hentu nú boltanum til mín". Ef maður væri í slíkri aðstæðu þá held ég að hljóðleysið myndi fyrst og fremst gera mann klikkaðan. Ég las einu sinni að gæslumennirnir sem gæta borgarinna Prypiat í Úkraínu við Chernobyl kjarnorkuverið, hefðu nánast orðið sturlaðir ef að ekki væri fyrir stöðuga tónlist sem hljómar í hátalarakerfi borgarinnar.

Í gær tók ég e-ð litblindupróf á facebook. Ég vissi nú að ég væri e-ð smá litblindur en komm onn. Í prófinu voru sjö spurningar og í flestum þeirra átti að sjá tölur út úr svona litaskífum. Í stuttu máli sagt þá sá ég aðeins einu sinni tölu í þessum skífum, en það var aldrei möguleiki að svara "ég sé ekkert". Það var greinilega gert ráð fyrir því að fólk sæi allavega e-ð úr þessu. Hversu illa litblindur er hægt að vera?

Svo var ég að spá í hvað það er fyndið hvað margar borgir heita New e-ð. Skrýtið að landnemar skuli bara skíra staðina í höfðuðið á sínum heimaborgum og bæta svo bara New fyrir framan. Eins og íslendingar myndu nema lönd í geimnum og skíra þau svo bara Nýju Vestmannaeyjar eða Nýji Sauðárkrókur. Skrýtið.

Og að lokum verð ég nú að skammast út í Bill Gates og Microsoft. Ég hef nú aldrei talist til þeirra sem hugsa þeim þegjandi þörfina eins og svo margir gera. Sérstaklega þeir sem hafa e-ð vit á tölvum. En ég hef verið að bera út boðskapinn upp á síðkastið um hvað Windows Vista og nýjustu word og excell eru flott. Svo kemur það bara í ljós að þetta síðastnefnda er bara algjört krapp. Og ég skal útskýra af hverju. Það er ekki vegna þess að forritin sem slík eru e-ð slæm, þvert í móti. En þar sem að flestar tölvur eru ennþá með word og excell 2003 þá er bara ekkert öruggt að hægt sé að nota skrá úr minni tölvu í öðrum tölvum. Þ.e.a.s. ef ég er að læra eða vinna heima og bý til skjal í fyrrnefndum forritum og sendi það svo á meili til einhvers, þá hefur það komið fyrir oftar en einu sinni að viðkomandi getur alls ekki opnað skjalið. Ég átta mig á því að tölvan býður þér að ná í skjal inn á vef microsoft sem á að aðstoða við að nota þessi tvö forrit saman. En það bara virkar ekki í öllum tilvikum. Sérstaklega þá þegar um er að ræða skjal sem búið er til í 2007 og svo vistað í 2003 og svo sent áfram. Þá virðast tölvurnar bara ekki einu sinni þekkja skjalið.
Hversu fáránlegt er það að gefa út nýja útgáfu af forriti sem virkar ekki með eldri útgáfunni? Mér finnst þetta svo ömurlegt að ég væri alveg til í að henda rjómaköku framan í Gates, svona við tækifæri, eins og einn gerði hér um árið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home