laugardagur, apríl 21, 2007

Að fljúga frá Hólmsheiði.



Ég man síðasta sumar þegar ég var staddur upp í Öskjuhlíð. Ég stóð þar hjá gömlu stríðsrústunum og horfði yfir Reykjavík. Ég man að ég ímyndaði mér að ég væri landnemi sem væri að koma á land í fyrsta sinn og væri að leita mér að hentugum íverustað. Þá fannst mér alveg augljóst að landsvæðið sem Reykjavíkurflugvöllur byggir á væri mjög eftirsóknarvert sem byggingarsvæði og í raun fyrsti kostur fyrir Ólaf Rauða fyrsta landnema íslendinga og föður Reykjavíkur.

Þar af leiðandi fagnaði ég mjög þeim niðurstöðum að það komi þjóðhagslega betur út að flytja flugvöllinn á Hólmsheiði en að halda honum í Vatnsmýrinni og breyta bara skipulagi hans þar. Sem sagt að þeir fækki um eina flugbraut en haldi honum annars í óbreyttri mynd.

Ég sé bara fyrir mér hversu góður heildarsvipur kæmi á borgina ef það væri byggð frá fjöru til fjöru, þ.e.a.s. frá nauthólsvíkinni að Gömlu höfninni. Við erum í lykilstöðu að geta ákveðið hvernig þetta nýja hverfi eigi eftir að líta út. Þar sem að þetta hverfi, meira svo en önnur ný hverfi, myndi setja mjög sterkan svip á kjarna borgarinnar. Mér finnst alltaf jafn fáránlegt að hugsa til þess að það sé flugvöllur í miðri borginni. Ætli það sé svoleiðis í mörgum borgum erlendis?

Þeir sem vilja halda flugvellinum í núverandi mynd benda á kosti þess að hafa sjúkraflugið svona nálægt. En væri ekki betra að kaupa góða sjúkraþyrlu, skella þyrlupalli ofan á þetta nýja hátæknisjúkrahús og sækja sjúklinginn á nýja flugvöllinn þegar hann kemur úr sjúkraflugi. Þarf sjúkraflugið virkilega að lenda á tröppunum á nýja sjúkrahúsinu?

Aðrir benda á óþægindi sem þetta kann að skapa fyrir utanbæjarfólk.

Vei vei vei vei ó vei.

Að auki hef ég tekið upp nýja iðju. Skokk eða Jogging eins og Will Ferrell kallaði það í Anchor Man. Ég hef alltaf skammast mín að hafa aldrei farið gönguleiðina frá Ægissíðu út í Nauthólsvík. Ég tók mig því til og skokkaði fram og til baka um daginn. Þá tók ég líka eftir því hversu glæslieg byggð gæti risið þarna þegar ég horfði í gegnum girðinguna sem heldur manni frá flugbrautunum. Með tímanum væri hægt að hreinsa strandlengjuna og gera hana meira í líkingu við þá sem er í nauthólsvík. Þannig gæti skapast fjölskylduparadís á sumrin þar sem að fjör væri í hverfinu alveg frá Valsheimilinu, að BSÍ og niður á strönd. Þannig væri hægt að tengja betur saman byggð og náttúruperluna sem að Öskjuhlíð er. Ég sé fyrir mér þarna eitt stórt fjölskyldu- og útivistarsvæði, sem væri vel skipulegt með íbúðarbyggð í bland við verslanir og fyrirtæki.

Að lokum vil ég senda þessu fólki mínar bestu kveðjur.
Rómantískt, sorglegt, spennandi og skotheldur söguþráður. Esteban og Heiveig. Til hamingju með ástina og lífið.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Flott grein.

Ég styð þetta hér með, það hlýtur að ráða úrslitum.

KT

9:41 f.h.  
Blogger Óli said...

Það getur ekki annað verið en að þinn stuðningur ráði úrslitum.

6:23 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home